Guðmundur Pálsson 3. mar. 2020

COVID-19

Gagnlegar upplýsingar er varða COVID-19 og starfsemi Krabbameinsfélagsins.

Nauðsynlegt að skrá sig á viðburði Ráðgjafarþjónustunnar

13. ágúst 2020

Við höldum áfram að gera okkar ýtrasta til að fara eftir fyrirmælum sóttvarnalæknis, passa upp á fjarlægð á milli einstaklinga og fjölda í hverju rými. Til að tryggja það er nauðsynlegt að fólk skrái sig fyrirfram á viðburði og námskeið hjá Ráðgjafarþjónustunni á radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040.

Ef fólk finnur fyrir flensueinkennum er mikilvægt að fresta heimsókn til okkar.

Notum andlits­grímur í heimsókn á Leitar­stöðina

30. júlí 2020

Þeim sem heimsækja Leitarstöðina ber að nota andlitsgrímur við skimunina.

Í samræmi við hertar aðgerðir vegna Covid-19, er athygli þeirra sem heimsækja Leitarstöðina vakin á að samkvæmt sóttvarnaryfirvöldum ber þeim að nota andlitsgrímur við skimunina.

Konur eru sömuleiðis beðnar að afpanta tíma finni þær fyrir Covid-líkum einkennum og kynna sér leiðbeiningar sóttvarnaryfirvalda.

Upplifun og líðan á tímum Covid-19

7. apríl 2020

Við greiningu krabbameins upplifa flestir töluverða streitu og vanlíðan. Í dag hefur bæst við enn einn streituvaldurinn: Covid-19. Öll heimsbyggðin hefur áhyggjur af þessum nýja vágesti sem herjar á okkur og þar eru krabbameinsgreindir ekki utanskildir. Heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út að fólk í krabbameinsmeðferð séu í aukinni áhættu fái þeir veiruna og þurfa því að fara með öllu að gát. Einnig hefur mikilvæg þjónusta við krabbameinsgreinda orðið fyrir áhrifum veirunnar og viðbrögðum við henni. 

Næring og matvæli

25. mars 2020

Birna Þórisdóttir, sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu, fjallar um næringu og matvæli í ljósi aðstæðna af völdum Covid-19.

Tímabundið hlé á skimunum Leitarstöðin opnar á ný 4. maí

23. mars 2020

Tímabundið hlé verður gert á brjósta- og leghálsskimunum Leitarstöðvarinnar frá og með þriðjudeginum 24. mars í samræmi við fyrirmæli Landlæknis.

Haft verður samband við þær konur sem eiga bókaða tíma og þær afboðaðar. Ekki verður tekið við nýjum tímabókunum fyrr en ljóst er hvenær hefja má starfsemina að nýju

Þær konur sem finna fyrir einkennum frá brjóstum eða kvenlíffærum skulu bóka tíma í skoðun hjá lækni á heilsugæslu eða hjá kvensjúkdómalækni.

Áfram verða framkvæmdar leghálsspeglanir upp að ákveðnu marki og sérskoðanir á brjóstum á vegum Landspítala halda áfram þar til annað kemur í ljós.

COVID-19: Spurningar og svör

16. mars 2020

Við þær aðstæður sem Covid-19 skapar í samfélaginu vakna ýmsar spurningar. Hér fyrir neðan eru svör við algengum spurningum sem brenna á fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra.

Eru allir þeir sem eru með krabbamein í áhættuhópi?

Já, þeir sem eru með krabbamein eru í áhættuhópi.

Eru þeir sem lokið hafa krabbameinsmeðferð í áhættuhópi?

Þeir einstaklingar sem lokið hafa krabbameinsmeðferð á síðustu 6 mánuðum teljast einnig til áhættuhóps.

Þeir sem hafa gengist undir beinmergsskipti á síðastliðnum 2 árum eru einnig í áhættuhópi.

Tilheyri ég sérstökum áhættuhópi, ef ég hef eingöngu gengist undir skurðaðgerð vegna krabbameins?

Nei, svo er ekki. Ef búið er að fjarlægja krabbameinið, þú hefur náð þér að fullu eftir skurðaðgerðina, ert ekki í frekari meðferð og ert ekki með aðra undirliggjandi sjúkdóma, telst þú ekki í sérstökum áhættuhópi.

Ég hef lokið minni krabbameinsmeðferð. Þarf ég að fylgja leiðbeiningum landlæknis sem ætlaðar eru fyrir sérstaka áhættuhópa?

Ef þú laukst þinni krabbameinsmeðferð fyrir meira en sex mánuðum síðan telstu ekki til sérstaks áhættuhóps. Ef þú ert í vafa hafðu þá samband við þá deild þar sem þú fékkst krabbameinsmeðferð eða Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í síma 800 4040.

Eiga allir með krabbamein að halda sig heima við?

Já, nýjustu upplýsingar frá stjórnvöldum eru skýrar. Við þurfum að passa hvert upp á annað og þeir sem eru í áhættuhópum, eins og þeir sem eru með krabbamein, eiga að halda sig sem mest heima til að draga úr smithættu.

Ég á bókaðan tíma í krabbameinsmeðferð, á ég að fresta þeim tíma?

Nei, þú átt að fylgja þeirri meðferð sem hefur verið skipulögð, nema þú fáir önnur skilaboð frá spítalanum eða þínum lækni. Reyndu að komast hjá því að nota almenningssamgöngur á leið til og frá meðferð eða rannsókn.

Hversu hættulegt er fyrir fólk með krabbamein að veikjast af kóróna-veirunni?

Algengt er að fólk sem greinst hefur með krabbamein og er í krabbameinsmeðferð sé með skertar varnir (veiklað ónæmiskerfi) vegna meðferðar sinnar. Þegar ónæmiskerfið er skert er einstaklingurinn næmari fyrir smiti. Þess vegna eru krabbameinssjúklingar sérstaklega viðkvæmir fyrir kóróna-veirunni og falla í sérstakan áhættuhóp. Sýking af völdum kórónaveiru er í flestum tilvikum væg, en þeir sem eru í áhættuhópi eru í meiri áhættu á að veikjast alvarlegar vegna þessa smits og þróa með sér t.d. alvarlega lungnabólgu.

Ég bý á heimili með krabbameinssjúklingi, hvað er best að ég geri?

Sem náinn aðstandandi er mikilvægt að þú, rétt eins og fólk með krabbamein, fylgir leiðbeiningum til áhættuhópa. Reyndu að takmarka snertingu eins og hægt er og viðhafa gott hreinlæti. Farðu eftir leiðbeiningum um handþvott og hóstaðu og hnerraðu í olnbogabót eða í pappír. Ef þú finnur fyrir flensulíkum einkennum er mikilvægt að halda fjarlægð frá hinum krabbameinsveika. Hér má sjá leiðbeiningar um hvernig hægt er að draga úr smithættu.

Má ég heimsækja ættingja minn á spítalann og dvalarheimili?

Búið er að banna heimsóknir til sjúklinga sem eru innlagðir á sjúkrastofnanir nema í sérstökum tilfellum og á það einnig við um aldraða sem búa á dvalarheimilum. Flestir sem eru á sjúkrahúsum eru með sinn eigin síma og gott er að hafa samband við ættingja símleiðis ef heilsa þeirra leyfir. Mælt er með að ákveða innan fjölskyldu, í samráði við einstakling sem liggur inni, að ákveðinn aðili taki að sér að vera í sambandi við lækna og hjúkrunarfólk. Heilbrigðisstarfsfólk mun líka vera í sambandi og upplýsa um ástand og næstu skref. Mikilvægt er að finna leiðir að stytta þeim stundir sem eru á spítala eða dvalarheimilum. Sjá nánar tilkynningu frá starfsfólki Landspítala hér.

Má ég heimsækja ættingja á líknardeild?

Já, heimsóknir á líknardeild eru leyfðar en þær eru takmarkaðar. Mikilvægt er að hafa samband við starfsfólk deildarinnar til að fá nánari upplýsingar í síma 543 6602.

Má ég fá gesti ef ég er með krabbamein?

Skynsamlegt er að takmarka gestakomur til allra þeirra sem eru í krabbameinsmeðferð, til að draga úr smithættu. Ef þú færð gesti, óskaðu þá eftir að þeir fari eftir þeim leiðbeiningum sem sóttvarnalæknir hefur sett, til að draga úr smithættu og að þeir komi ekki í heimsókn ef þeir eru slappir eða finna fyrir flensulíkum einkennum. Hafðu samband við deildina þar sem þú ert að fá þína meðferð eða heilsugæsluna, ef þú ert í vafa.

Ég er í krabbameinsmeðferð, mega börnin mín fá vini í heimsókn núna?

Ef þú ert í krabbameinsmeðferð er skynsamlegt að takmarka gestakomur á heimilið, það á við bæði börn og fullorðna.

Hvað á ég að gera ef ég finn fyrir einkennum?

Það er mikilvægt að fylgjast með einkennum. Ef þú finnur fyrir kvefi og slappleika er mikilvægt að fylgjast með, þetta á jafnt við um alla. Ef þú er með krabbamein, með einkenni kvefs og slappleika er ákjósanlegt að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga svo að þú smitir ekki aðra. Ef einkenni versna, þú færð hita eða hósta skaltu vera heima og hafa samband í síma 1700, við heilsugæsluna þína eða í gegnum netspjall á heilsuveru.is. Heilbrigðisstarfsfólk er þar til svara og ráðleggur þér um næstu skref.

Einkenni Covid-19 sem er veikin sem kórónaveiran veldur er:

  • Hiti
  • Hósti (oft þurr hósti)
  • Bein-vöðvaverkir hósti

Einkenni frá meltingarvegi (kviðverkir, ógleði /uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með Covid-19 en eru þó þekkt.

Almennt

Leiðbeiningar varðandi Covid-19 faraldur taka breytingum eftir því sem fleiri greinast.

Fylgist vel með heimasíðunni www.covid.is sem gefur mjög góðar og áreiðanlegar upplýsingar.

Mikið er um upplýsingar og fullyrðingar á mörgum vefmiðlum. Eins og fram hefur komið á upplýsingafundum Almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis skal fara varlega varðandi slíkar upplýsingar og í stað þess er eindregið mælt með því að fólk fylgist sérstaklega með og fari eftir ráðleggingum sóttvarnalæknis, almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis á covid.is .

Tekið saman af Agnesi Smáradóttur, yfirlækni lyflækninga krabbameina á Landspítala og Sigrúnu Lillie Magnúsdóttur, forstöðukonu hjá Krabbameinsfélaginu. 

Krabb-landsp

Átt þú erindi til okkar í Skógarhlíð?

3. mars 2020

Átt þú erindi til okkar í Skógarhlíð en ert nýkomin/n frá útlöndum og með flensulík einkenni (hiti, hósti, mæði) eða hefur umgengist einstakling með þessi einkenni eða jafnvel staðfest kórónaveirusmit?

Í hús Krabbameinsfélags Íslands í Skógarhlíð koma hundruð einstaklinga daglega að sækja sér þjónustu. Flestir koma í skimun fyrir legháls- eða brjóstakrabbameini, Landspítali starfrækir brjóstamiðstöð í húsinu og fjölmargir leita til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins eftir ráðgjöf og stuðningi. Mikilvægt er að þessi starfsemi haldist óskert og að við gerum okkar besta til þess að smit berist ekki í starfsfólk eða skjólstæðinga KÍ og Landspítala.

Ef þú átt erindi til okkar í Skógarhlíð en ert nýkomin/n frá útlöndum og með flensulík einkenni (hiti, hósti, mæði) eða hefur umgengist einstakling með þessi einkenni eða jafnvel staðfest kórónaveirusmit (fjölskyldumeðlim, samstarfsfólk, samferðafólk) biðjum við þig að sýna aðgát og koma ekki til okkar í Skógahlíð en hafa þess í stað samband og fá tíma þínum breytt.


Fleiri nýjar fréttir

18. sep. 2020 : Hádegismálþing: Krabbameinsrannsóknir til framfara

Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi krabbameinsrannsókna og þeim miklu framförum sem hafa átt sér stað fyrir tilstilli þeirra. Allur ágóði Bleiku slaufunnar 2020 rennur til krabbameinsrannsókna.

Lesa meira

18. sep. 2020 : Bleiku slaufurnar 2020 eru lentar

Það er ávallt stór dagur þegar Bleiku slaufurnar koma í hús. Sala Bleiku slaufunnar hefst 1. október.

Lesa meira

17. sep. 2020 : Stóraukin þátttaka í skimunum

Frá árinu 2018 hefur Krabbameinsfélagið unnið markvisst að því að auka þátttöku kvenna í skimun og þær hvattar til þátttöku með ýmsum leiðum sem skilað hafa ótvíræðum árangri.

Lesa meira

17. sep. 2020 : Endurskoðun sýna gengur vel

Endurskoðun 6.000 sýna sem rannsökuð verða vegna alvarlegs atviks sem uppgötvaðist í júlí miðar ágætlega. Allt kapp er lagt á að henni ljúki eins fljótt og mögulegt er.

Lesa meira

16. sep. 2020 : Krabbameinsfélag Austfjarða og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins á ferð um Austurland

Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða og Margrét Helga Ívarsdóttir frá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands verða á ferðinni og bjóða í spjall yfir kaffibolla.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?