Endurhæfing

Með aukinni þekkingu á krabbameini, bættum greiningaraðferðum og meðferðarúrræðum hafa lífshorfur krabbameinssjúklinga aukist umtalvert síðustu áratugi.

Fimm ára lífshorfur eru nú 66% hjá körlum en 70% hjá konum (1998-2008) og hafa meira en tvöfaldast frá því að skráning krabbameina hófst á Íslandi 1954, skv. upplýsingum frá Krabbameinsskránni.Nokkrar staðreyndir

 • Um 1.450 Íslendingar greinast árlega með krabbamein.
 • Í árslok 2012 voru á lífi um 12.300 einstaklingar sem einhvern tímann höfðu greinst með krabbamein.
 • Lífshorfur hafa batnað mikið um.
 • Um 40-75% þeirra sem greinast með krabbamein telja sig þurfa á endurhæfingu að halda.
 • Endurhæfing og líkamleg þjálfun við hæfi getur dregið úr skertri starfsgetu af völdum krabbameina og meðferðar.

Meðferð við krabbameinum hefur margvísleg áhrif á heilsufar fólks og getur m.a. dregið úr líkamlegri og sálrænni getu. Með endurhæfingu við hæfi er hægt að draga úr mörgum aukaverkunum og bæta lífsgæði með því að huga að heilbrigðum lífsstíl og reglulegri hreyfingu.  Grunngildin fjögur, næring, hreyfing, svefn og hugur eiga þarna sannarlega við. 

Ráðleggingar

Samkvæmt fjölmörgum rannsóknum sem gerðar hafa verið erlendis, á endurhæfingarþörf krabbameinssjúklinga kemur fram að mikilvægt er að :

 • Hreyfa sig eins og geta og heilsa leyfir.
 • Forðast kyrrsetulíf.
 • Vikuleg hreyfing ætti að vera 150 mínútur af miðlungsáreynslu eða 75 mínútur af mikilli áreynslu
 • Styrktarþjálfun tvisvar eða þrisvar í viku.
 • Liðleikaæfingar á sömu tímum og aðrar æfingar.
 • Fagaðilar sem vinna að endurhæfingu tileinki sér áhrif og afleiðingar krabbameina og meðferðar á líðan, þrek og ástand við þjálfun.
 • Æfinga- og meðferðaráætlunin sé einstaklingsmiðuð.

Dæmi um endurhæfingaúrræði sem eru í boði:

Endurhæfingateymi Landspítalans

Endurhæfing krabbameinssjúklinga er staðsett á Landsspítalanum við Hringbraut , sími 543 9300 . Um er að ræða styrktar- og þolþjálfun (hópþjálfun) á mánudögum og föstudögum kl. 11.00-12.00. Tíu skipta kort kosta 4.500 kr. Hægt er að æfa í tækjasal undir eftirliti sjúkaþjálfara. Einnig er hægt að koma í einkaþjálfun til sjúkraþjálfara, t.d. eftir brottnám brjósts og fá fræðslu og þjálfun. Kynntar eru aðferðir til að takast á við streitu og kvíða. Endurhæfingin er niðurgreidd og þurfa sjúklingar að fá tilvísun frá lækni eða endurhæfingarteymi Landspítalans til að geta nýtt sér þjónustuna.

Reykjalundur

Reykjalundur sinnir endurhæfingu krabbameinssjúklinga sem eru í sjúkdómshléi, taldir læknaðir eða í stöðugu ástandi. Beiðni er send frá krabbameins-endurhæfingarteymi Landspítalans og fleiri. Í boði er sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálfræðimeðferð, talþjálfun, næringarráðgjöf, starfsendurhæfing, félagsráðgjöf, hjúkrun og læknisfræðileg meðferð. Ýmis fræðsla svo sem verkjaskóli, geðskóli, lungnaskóli og hjartafræðsla. Þar er allur kostnaður greiddur af TR. Í heilsurækt Reykjalundar er hægt að taka þátt í hópþjálfun, fá ráðgjöf og aðgang að sundlaug og tækjasal. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunn www.reykjalundur.is.

Grensás

Í sundlaug Landspítalans Grensási er boðið upp á hópþjálfun í laug tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum kl. 14.30. Upplýsingar í síma 543 9319 og hjá Sigrúnu Knútsdóttur sjúkraþjálfara í síma 543 9104. Tíu skipta sundkort  4.500 kr. fyrir lífeyrisþega en fyrir aðra kr. 6.400 kr.

HNLFÍ

Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) býður upp á endurhæfingu sem er sérhæfð fyrir krabbameinssjúklinga. Þar er í boði einstaklingsmiðuð þjálfun þar sem sett er upp áætlun um hreyfingu á meðan á dvöl stendur. Dvölin stendur yfirleitt í fjórar vikur en möguleiki er á endurkomu í tvær vikur til viðbótar innan árs frá meðferð. Í boði er vatnsleikfimi, æfingar í tækjasal, göngur, heilsuböð og slökun. Læknir metur þörfina fyrir sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálastungur, vaxmeðferð eða leirmeðferð. Í boði eru stuðningsviðtöl hjá sálfræðingi, hjúkrunarfræðingi og næringarráðgjafa eftir þörfum. Sumir sjúkra- eða styrktarsjóðir stéttarfélaga greiða styrk vegnar dvalar á NLFÍ. Nánari upplýsingar eru á vefsíðum www.hnlfi.is.

Ljósið

Ljósið er endurhæfingar‐ og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Markmið Ljósins er að þjónustuþegar fái þverfaglega endurhæfingu og stuðning hjá sérhæfðum fagaðilum. Þverfaglegt teymi sérfræðinga starfar í Ljósinu. Teymið samanstendur af iðjuþjálfum, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðingi, sálfræðingi, næringarráðgjafa, markþjálfa og íþróttafræðingi. Auk þess starfar þar fleira starfsfólk með reynslu í handverki og sköpun. Fjöldi verktaka koma að sérverkefnum.Þegar einstaklingur kemur í Ljósið fær hann fyrsta viðtal við iðju‐ og sjúkraþjálfara sem eru tengiliðir allt endurhæfingarferlið. Þar er gerð einstaklingsmiðuð endurhæfingaráætlun sem miðar að því að byggja viðkomandi upp, andlega, líkamlega og félagslega eftir veikindi og efla þar með lífsgæðin.Hægt er að fá viðtöl við alla í grunnteyminu eftir því sem við á hverju sinni. Boðið er upp á einkatíma ídjúpslökun, hugræna atferlismeðferð og einnig er boðið upp á jafningjastuðning. Fjölmörg námskeið og fræðslufundir eru í boði í Ljósinu. Má þar m.a. nefna námskeið fyrir nýgreindar konur, heilsueflingarnámskeið, aftur af stað til vinnu eða náms, aðstandendanámskeið fyrir börn, fræðslufundi fyrir karla, matreiðslunámskeið, snyrtinámskeið, hugleiðslunámskeið. Handverk er hluti af endurhæfingunni. Sem dæmi um handverk má nefna bútasaum, leirlist, listmálun, trétálgun, fluguhnýtingar, glerlist, prjónakaffi, ullarþæfingu, saumagallerí, skartgripagerð og postulínsmálun. Nánari upplýsingar og stundatöflu eru hægt að nálgast á www.ljosid.is.


Var efnið hjálplegt?