Lungna­krabbamein

Lungnakrabbamein hafa sterk tengsl við tóbaksreykingar en um 90% sjúklinga sem greinast með sjúdkóminn reykja eða hafa reykt. Með hertum aðgerðum gegn tóbaksreykingum og lækkun á tíðni reykinga er hægt að lækka tíðni lungnakrabbameins umtalsvert. Mikið er í húfi því lungnakrabbamein veldur flestum dauðsföllum vegna krabbameins.

Hvað er lungnakrabbamein?

Öndunarfærin eru mynduð úr lungum með berkjum (lungnapípum), ásamt barka og nefholi. Lungun eru gerð úr lungnapípum og um það bil 300 milljónum lungnablaðra. Úr innöndunarlofti fáum við súrefni sem tekið er upp í örsmáar æðar sem liggja í kringum lungnablöðrurnar um leið og koltvísýringur losnar frá smáæðunum inn í blöðrurnar og fer úr líkamanum við útöndun. Slímhúð öndunarvegarins er þakin litlum bifhárum, sem eru alltaf á hreyfingu og færa óhreinindi upp úr lungunum og virka sem hreinsunarkerfi.

Lungnakrabbamein skiptist í tvær megingerðir eftir vefjafræðilegri flokkun: Smáfrumukrabbamein og flokkur meina innan ekki-smáfrumukrabbameins en það eru flöguþekjukrabbamein, kirtilþekjukrabbamein og stórfrumukrabbamein. Allar þessar vefjagerðir eru taldar tengjast reykingum, en þó síst kirtilkrabbamein. Smáfrumukrabbamein er illvígasta gerðin og hafa sjúklingar með þessa gerð æxla almennt verstar horfur þar sem sjúkdómurinn er oftar útbreiddur við greiningu.

Einkenni

Á byrjunarstigum eru sjaldan einkenni, líkt og með flestar tegundir krabbameina. Lungnakrabbamein byrjar að myndast mörgum árum áður en það fer að gefa nokkur einkenni, jafnvel 15-20 árum áður. 

 • Þrálátur hósti. Hósti er algengur hjá reykingamönnum vegna ertingar af völdum tóbaksreyks. Stöðugan hósta ber að taka alvarlega og rannsaka. Algengara er þó að hósti sé tilkominn vegna annars sjúkdóms en krabbameins, eins og lungnaþembu eða langvinnrar berkjubólgu.
 • Að hósta upp blóði er alvarlegt einkenni sem þarf að rannsaka.
 • Hæsi eða brjóstverkur.
 • Lystarleysi, slappleiki, þyngdartap eða langvarandi hiti.

Áhættuþættir

 • Beinar og óbeinar reykingar. Öndunarvegurinn er þakinn örfínum bifhárum sem vernda lungun fyrir eiturefnum, bakteríum og veirum. Tóbaksreykur lamar bifhárin sem hefur áhrif á hreinsun úrgangsefna úr öndunarveginum og leiðir það til þess að allt að 70 krabbameinsvaldandi efni í tóbaksreyknum geta safnast fyrir í lungunum og valdið skemmdum á erfðaefni fruma.
 • Áhættan á lungnakrabbameini minnkar strax fimm árum eftir að reykingum er hætt. Áhættan verður allt að 30-50% minni 15 árum eftir að reykingum er hætt en nær þó aldrei þeim sem hafa aldrei reykt. 
 • Fólk sem andar að sér óbeinum tóbaksreyk er einnig í aukinni áhættu. Að búa með reykingamanni getur aukið hættuna á að fá lungnakrabbamein allt að 20-30% miðað við að eiga reyklausan maka en áhættan er þó tengd magni reykútsetningarinnar. 
 • Fjölskyldusaga. Þeir sem hafa fjölskyldusögu um lungnakrabbamein geta verið í aukinni áhættu að fá lungnakrabbamein, sérstaklega ef þeir eru reykingamenn.
 • Asbest og önnur efni. Asbest og ýmis önnur efni svo sem arsenik, vínylklóríð, nikkel, úraníum, sinnepsgas ásamt sumum loftmengandi efnum í stórborgum geta stuðlað að lungnakrabbameini. Asbest hefur nú verið bannað hér á landi og reglugerðir settar til að vernda þá sem vinna við asbest, eins og við niðurrif á gömlum húsum. 
 • Radon er náttúrulegt geislavirkt gas sem í háum styrkleika getur aukið hættu á lungnakrabbameini. Lítið sem ekkert af radoni finnst í húsum á Íslandi, í samanburði við nágrannalönd, eða langt undir viðmiðunarmörkum Evrópusambandsins.

HÆTTU AÐ REYKJA FYRIR LÍFIÐ

Greining

 • Röntgenrannsókn. Ef sjúkrasaga gefur vísbendingar um lungnakrabbamein er venjan að senda viðkomandi í röntgenmyndatöku og/eða tölvusneiðmyndatöku af lungum. 

Tölfræði um lungnakrabbamein

 • Berkjuspeglun. Ef í ljós kemur æxli er oftast gerð berkjuspeglun til að taka vefjasýni úr æxlinu. Með berkjuspeglun er átt við að læknir þræði speglunartæki niður öndunarveginn og niður í berkjur og skoði þannig slímhúð berkja. Á þann hátt er unnt að kanna hvort afbrigðileg slímhúð sé til staðar eða æxli/fyrirferð sjáist. Í gegnum speglunartækið er svo unnt að taka vefja- og/eða frumusýni úr meininu til greiningar. Stundum er gerð ástunga á meinið með nál í gegnum brjóstkassann, oftast með aðstoð tölvusneiðmyndatækni. 
 • Vefjarannsókn. Með rannsókn meinafræðinga á frumu- eða vefjasýninu er unnt að meta hvort um illkynja mein sé að ræða og þá hvers konar æxli.

 

Taktu prófið! Hvað veist þú um sígarettureykingar?

 • Aðrar rannsóknir og stigun lungnakrabbameins. Ef illkynja frumur greinast í sýninu eru gerðar frekari rannsóknir til að kanna útbreiðslu sjúkdómsins annars vegar innan brjóstkassa og hins vegar til annarra líffæra og þannig hægt að sjá á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Eftir það er hægt að taka afstöðu til þess hvaða meðferð eigi best við. 
 • Vinnulag og verkferlar: Ef sterkur grunur er um lungnakrabbamein við skoðun og rannsóknir heimilislækna er sjúklingi vísað til frekari rannsókna hjá lungnalækni. Á Landspítala er sjúklingum vísað í ákveðið rannsóknarferli, svokallað greiningarferli lungnakrabbameina. Í því ferli fer sjúklingur í gegnum nauðsynlegar rannsóknir á tveimur dögum í umsjón lungnalæknis. Málefni allra  sjúlinga sem greinast með lungnakrabbamein eru síðan rædd innan þverfaglegs vinnuhóps fagaðila um lungnakrabbamein þar sem ráðleggingar eru gefnar um frekari rannsóknir og meðferð. 

Meðferð

 • Skurðaðgerð. Um þriðjungur æxla eru skurðtæk, aðallega kirtilkrabbamein og flöguþekjukrabbamein sem hafa ekki dreift sér og eru á stigi l-ll. Þá er æxlið fjarlægt með því að gera svonefnt blaðnám ásamt aðlægum eitlum en stundum er nauðsynlegt að fjarlægja annað lungað sem er þá kallað lungnabrottnám.

RAFRETTUR - SKAÐLAUSAR EÐA EKKI?

 • Krabbameinslyfjameðferð. Ef meinið finnst í nálægum eitlum eða ef það er óskurðtækt er oft gefin krabbameinslyfjameðferð. Miklar framfarir hafa orðið í lyfjameðferð lungnakrabbameins sem leitt hafa til betri lífsgæða og lengri lifunar.
 • Geislameðferð. Þegar ekki er unnt að fjarlægja lungnakrabbamein með skurðaðgerð er oft gefin geislameðferð, með eða án krabbameinslyfjameðferðar, stundum í þeim tilgangi að lækna meinin en oftar til þess að halda aftur af sjúkdómnum.

Tölfræði og lífshorfur

HÆTTU AÐ REYKJA FYRIR LÍFIÐ

Lífshorfur þeirra sem greinast með lungnakrabbamein eru ekki góðar en helsti forspárþáttur lifunar er stigun sjúkdómsins eða útbreiðsla meinsins.

Yfirfarið í maí 2020

Fræðsluefni


Var efnið hjálplegt?