Skurðaðgerð

Þegar sjúkdómsgreining hefur verið staðfest með rannsókn á vefjasýni er skurðaðgerð fyrsta meðferð flestra krabbameina. Þá er tilgangurinn venjulega að lækna viðkomandi með því að fjarlægja allt æxlið. 

Stundum er það ekki raunhæft. Í sumum tilfellum er æxlið það stórt eða á slæmum stað að nauðsynlegt er að gefa lyfja- eða geislameðferð fyrir skurðaðgerð til að gera æxlið minna fyrir aðgerðina. Einnig getur skurðaðgerð verið leið til að koma í veg fyrir myndun krabbameins, til að bæta lífsgæði eða að byggja upp vef eftir krabbameins· skurðaðgerð.

Fyrirbyggjandi skurðaðgerð

Stundum getur verið ástæða til að fjarlægja líkamsvef sem með tímanum getur breyst í krabbamein. Dæmi um það er separ sem eru fjarlægðir í ristilspeglun eða forstigsbreytingar í leghálsi sem eru fjarlægðar með keiluskurði. Heilt líffæri er einstaka sinnum fjarlægt þegar einstaklingur hefur fengið í arf genabreytingu sem eykur líkur á að þróa með sér krabbamein. Sem dæmi þá gæti kona með mjög sterka ættarsögu um brjóstakrabbamein og stökkbreytingu í brjóstakrabbameinsgeni (BRCA1 eða BRCA2) kosið að láta fjarlægja brjóst sín og/eða eggjastokka.

Skurðaðgerð til sjúkdómsgreiningar

Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að ná í vefjasýni með skurðaðgerð áður en hægt er að segja til um hvaða meðferð eigi best við. Með vefjasýni er síðan staðfest hvort æxlið sé af illkynja eða góðkynja toga og af hvaða uppruna það er. Vefjasýnið er skoðað undir smásjá og gerð ýmiss rannsóknarpróf á því. Einnig er stundum gerð kviðarholsspeglun til að kanna útbreiðslu meins, þ.e. athuga hvort það hafi sáð sér til annarra líffæra eða vefja.

Læknandi skurðaðgerð

Þegar krabbamein er bundið við einn huta af líkamanum og hefur ekki dreift sér er hægt að fjarlægja æxlið í heilu lagi ásamt aðliggjandi heilbrigðum vef til að lækna viðkomandi. Stundum er einungis gerð skurðaðgerð en í mörgum tilfellum er lyfja- og/eða geislameðferð gefin fyrir eða eftir aðgerðina. Einstaka sinnum er gefin geislameðferð í aðgerð hjá einstaklingum sem eru með mein á byrjunarstigi. Þá er geislað svæðið þar sem æxlið hafði verið staðsett.

Líknandi skurðaðgerð

Ekki er alltaf hægt að fjarlægja æxli að fullu, t.d. þegar það er staðsett á viðkvæmum stað í heila eða ef það hefur dreift sér. Þá getur skurðaðgerð engu að síður hjálpað til við að halda æxlinu í skefjum eða lina einkenni.

Stuðningsskurðaðgerð

Krabbameinslyf eru oftast gefin um lyfjabrunn sem er lítið kringlótt hylki oftast úr málmi. Lyfjabrunninum er komið fyrir undir húð fyrir neðan viðbein og úr hylkinu liggur örmjó slanga sem þrædd er í stóra bláæði innan við brjóstvegginn. Þannig losnar fólk við endurteknar nálarstungur í bláæð.
Sjá nánar um lyfjabrunn á vef Landspítalans

Uppbyggjandi skurðaðgerð

Stundum hefur krabbameinsskurðaðgerð áhrif á útlit, eins og við brottnám brjósts. Hjá sumum konum hefur útlitið eftir brjóstnám ekki áhrif á líðan þeirra en aðrar konur kjósa að láta byggja brjóstið upp aftur, annað hvort með eigin vef konunnar eða gervibrjósti sem er komið fyrir undir húð og brjóstvöðva.

Sjá nánar hér á vef Skurðlækningar brjóstakrabbameina á Landspítalanum.

Einnig er algengt að byggja upp vefi eftir brottnám krabbameins úr höfði eða hálsi.  

Ítarefni


Var efnið hjálplegt?