Íbúðir

Húsnæði er í boði fyrir fólk utan af landi á meðan á krabbameinsmeðferð stendur

Íbúðir Krabbameinsfélagsins eru átta og allar staðsettar á Rauðarárstíg 33 í Reykjavík. Þær eru ætlaðar fyrir sjúklinga og aðstandendur meðan á meðferð stendur. Landspítalinn annast rekstur og úthlutun íbúðanna. Umsýslugjald fyrir íbúðirnar er 2.200 kr. á sólarhring.

Hægt er að sækja um endurgreiðslu hjá sumum stéttarfélögum. Einnig styðja flest krabbameinsfélög á landsbyggðinni fólk af sínu svæði þegar kemur að kostnaði við ferðir og dvöl að heiman vegna meðferða. 

045

Sótt er um afnot af íbúðunum á móttöku Geisladeildar Landspítalans sími 543 6800.

Krabbameinsfélags Ísland á þessar átta íbúðir með öðrum félagasamtökum. (Rauða kross Íslands og Hússjóðs Öryrkjabandalagsins).

Mig langar til að skrifa og þakka fyrir afnot af íbúðinni við Rauðarárstíg sem bróðir minn, Þórhallur Arason og ég fengum að búa í í lok síðasta árs og frammí janúar á þessu ári. Þetta var algerlega ómetanlegt fyrir hann sem býr úti á landi og mig sem kom frá Danmörku til að vera með honum á þessum erfiða tíma.

Íbúðin er frábærlega staðsett, vel búin húsgögnum og í henni er allt til alls. Þjónustan sem við fengum var frábær og er vel um íbúðina hugsað.

Með hjartans þökkum og kærum kveðjum, Svava Aradóttir.

Leiðbeiningar til dvalargesta í íbúðum fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra að Rauðarárstíg 33 í Reykjavík

 

 • Eign og rekstur. Íbúðirnar eru átta. Sex þeirra eru eign Krabbameinsfélags Íslands og Rauða kross Íslands, ein eign Krabbameinsfélags Íslands og Hússjóðs Öryrkjabandalagsins og ein eign Krabbameinsfélags Íslands. Landspítali annast rekstur íbúðanna.
 • Húsaleiga. Greiða skal 2.200 krónur fyrir hvern dvalardag. Reikningar eru sendir um næstu mánaðamót eftir að dvöl lýkur. Mörg krabbameinsfélög á landsbyggðinni og sumir sjúkrasjóðir stéttarfélaga taka þátt í kostnaðinum.
 • Dvalartími. Hver íbúð er ekki leigð lengur en í átta vikur.
 • Lyklar. Dvalargestur fær tvö sett af lyklum. Ef þeir týnast þarf að hafa samband við móttöku geislameðferðar krabbameina á Landspítalanum við Hringbraut.
 • Reykingar. Stranglega er bannað að reykja í íbúðunum og einnig á svölunum, á göngum og í bílskýli.
 • Dýr. Ekki er heimilt að hafa gæludýr í íbúðunum.
 • Gluggar og kranar. Á kvöldin og þegar íbúð er yfirgefin þarf að ganga tryggilega frá festingum á gluggum og svalahurðum og skrúfa fyrir vatnskrana.
 • Ræsting. Íbúð er þrifin áður en hún er afhent. Dvalargestur og aðstandendur hans eru beðnir að ganga snyrtilega um, taka af rúmum og tæma ísskáp þegar dvöl lýkur.
 • Þvottur. Áður en lyklar eru afhentir hefur verið skipt um á rúmum. Hrein rúmföt, handklæði, diskaþurrkur o.fl. er í skápum. Óhreint lín á að setja í sérstaka poka. Þeir eru teknir á þriðjudögum og komið með hreint í staðinn.
 • Rúm. Gestarúm eru í íbúðunum. Ekki er ætlast til þess að sófar í stofum séu notaðir sem svefnpláss.
 • Símanotkun. Ekki eru símar í íbúðunum og þurfa gestir því að nota eigin framsíma við símanotkun. Í íbúðunum er netsamband og sjónvarp.
 • Póstur. Í anddyri eru póstkassar, merktir hverri íbúð.
 • Rafmagn. Mikilvægt er að dvalargestir slökkvi á útvarpi, sjónvarpi og ljósum þegar farið er út úr íbúðunum.
 • Skemmdir. Óskað er eftir því að tilkynnt sé við brottför ef leirtau hefur brotnað eða aðrar skemmdir orðið á íbúð eða innanstokksmunum. Einnig þarf að láta vita um það sem laga þarf (perur, vaskar o.s.frv.) Að öllu jöfnu verður dvalargestur ekki látinn greiða fyrir óhöpp sem leiða til tjóns á munum.
 • Upplýsingar. Allar nánari upplýsingar má fá á móttöku geislameðferðar krabbameina á Landspítala við Hringbraut í síma 543 6800 og 543 6801. Utan skrifstofutíma má í neyðartilvikum hringja í síma 543 1800 (öryggisverðir á Landspítala).

Var efnið hjálplegt?