© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2015-2016

Stærstu verkefni ársins 2015 fólust í fræðslu í samvinnu við bæði Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands og Kraft, stuðningsfélags við ungt fólk með krabbamein og aðstandendur. Starfsemi og hlutverk Ráðgjafarþjónustunnar var kynnt á Ísafirði í maí en þá komu vestur í þeim tilgangi þær Gunnjóna Una Guðmundsdóttir félagsráðgjafi og Sigrún Lillie Magnúsdóttir forstöðumaður þjónustunnar og hjúkrunar-fræðingur. Ágætlega var mætt á kynninguna og látið mjög vel af henni en jafnframt var boðið upp á fræðslu um réttindi sjúklinga. Í leiðinni kynnti starfsmaður og stjórn Sigurvonar starfsemi félagsins fyrir fulltrúum Ráðgjafarþjónustunnar.

Fyrsta stuðningsfulltrúanámskeið Krafts á landsbyggðinni var haldið á Ísafirði í október í samstarfi við Sigurvon. Fjórir stuðningsfulltrúar útskrifuðust af námskeiðinu og í kjölfarið býður Kraftur nú upp á jafningjastuðning í fjórðunginum. Með námskeiðinu var riðið á vaðið í átaki við að breiða stuðningsnet Krafts út til landsbyggðarinnar.

Að öðru leyti var ársstarfið nokkuð hefðbundið. Sem fyrr var stuðningshópurinn Vinir í von með reglulegar samverustundir yfir vetrartímann. Hópurinn hefur notið góðvildar geðræktarmiðstöðvarinnar Vesturafls, sem lætur honum í té aðstöðu að Mánagötu. Þar fyrir utan hefur hópurinn einnig hist á veitingahúsum Ísafjarðar af og til, til þess að lyfta sér aðeins upp. 

Sigurvon tók þátt í að vekja athygli á árvekni- og fjáröflunarátakinu Mottumars en þar stóð einna hæst svokölluð Mottukeppni sem veitingastaðurinn Húsið stóð fyrir í annað sinn, í samstarfi við Sigurvon. Átta karlmenn tóku þátt og kepptu um það hver skartaði flottustu mottunni. Markmiðið með framtakinu var, auk þess að styrkja félagið fjárhagslega, að vekja athygli ekki aðeins á átakinu heldur einnig starfi Sigurvonar. Hátt í tuttugu manns gengu í félagið þetta kvöld sem er svo sannarlega ánægjulegt.

Í Bleikum október var víða lýst með bleikri lýsingu til að vekja athygli á að mánuðurinn er tileinkaður baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Að vanda var Safnahúsið lýst upp sem og fleiri fyrirtæki og stofnanir hér vestra. Þá flögguðu margir af styrktaraðilum og velunnurum Sigurvonar fána Bleiku slaufunnar til að sýna stuðning sinn í verki. Þá voru fest kaup í ljóskösturum til þess að lýsa upp tré á Silfurtorgi, í miðbæ Ísafjarðar, í tengslum við árvekni- og fjáröflunarátakið. Var afar vel látið af því framtaki enda setti það óneitanlega blæ á torgið í hjarta bæjarins en fyrir var kastari á vegum Ísafjarðarbæjar sem lýsti upp eitt tré.

Auk árvissrar jólakortasölu í fjáröflunarskyni var til sölu ýmiss konar smávarningur á vegum Sigurvonar. Tekið var þátt í jólamarkaði Kiwanisklúbbsins. Engin breyting var á þeirri velvild sem félaginu var sýnd á árinu og styrktu þó nokkrir aðilar og fyrirtæki félagið. Er sá stuðningur ómetanlegur enda gerir hann félaginu kleift að styðja fjárhagslega við félagsmenn sína að standa straum af gistikostnaði, sem annars myndi gera róðurinn enn þyngri er hann bætist ofan á læknis- og rannsóknakostnað, auk þess að veita einstaklingum ótilgreinda fjárstyrki sé óskað eftir því.

Á aðalfundi í apríl 2016 lét Sigurður Ólafsson af störfum formanns eftir 15 ára starf í þágu félagsins en hefur þó boðist til að vera okkur innan handar sé þess þörf.

Thelma Hjaltadóttir.

Starfsemi 2014

Fjölbreytt starf var hjá Krabbameinsfélaginu Sigurvon árið 2014. Sem fyrr var stuðningshópurinn Vinir í von með öflugt starf. Hópurinn er með samverustundir annan hvern laugardag yfir vetrartímann þar sem einstaklingar með krabbamein og aðstandendur þeirra koma saman og eiga góða stund. Hópurinn hefur notið velvildar Vesturafls, geðræktarmiðstöðvar, sem lætur honum í té aðstöðu að Mánagötu 6.

Sigurvon lagði sitt af mörkum til að vekja athygli á Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélags Íslands. Veitinga- og skemmtistaðurinn Húsið á Ísafirði stóð fyrir svokallaðri mottukeppni þar sem sex einstaklingar kepptu um það hver skartaði flottustu mottunni. Auk þess að vekja athygli á átakinu var keppnin haldin til styrktar átakinu. Standa vonir til að um verði að ræða árvissan viðburð.

Félagið stóð einnig í marsmánuði fyrir svokölluðum blettadegi í samstarfi við heilsugæslu sjúkrahússins á Ísafirði og Þorstein Guðmundsson lækni. Aðstandendur Sigurvonar eru afar þakklátir, bæði heilsugæslunni og framlagi Þorsteins. Alls nýttu 39 konur 28 karlar sér fría blettaskoðun og aldursbilið spannaði fæðingardaga frá 1930 til 2010. Var almenn ánægja með þetta framtak. Af þeim 67 sem nýttu sér skoðunina var rúmlega 20 einstaklingum vísað áfram í að láta fjarlægja bletti.

Víða var lýst upp með bleiku ljósi á Ísafirði í október og vakin athygli á að mánuðurinn er tileinkaður baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Að vanda var Safnahúsið baðað bleikum ljóma sem og fleiri fyrirtæki og stofnanir hér í bæ sem eins flögguðu fána með bleiku slaufunni.

Aðalfundur félagsins var haldinn í mars og varð þar engin breyting milli ára á stjórn félagsins. 

Að vanda var haldin jólakortasala í fjáröflunarskyni en að þessu sinni var einnig efnt til útgáfu dagatals. Eins og undanfarin ár fékk félagið að gjöf myndir frá áhugaljósmyndaranum Ágústi G. Atlasyni til að skreyta kortin. Kann félagið honum bestu þakkir fyrir. Grunnskólabörn á norðanverðum Vestfjörðum gengu í hús og buðu hvort tveggja til sölu auk þess sem varningurinn var til sölu í ýmsum verslunum og í gegnum félagið.

Engin breyting var á þeirri velvild sem Sigurvon var sýnd á árinu og styrktu þó nokkrir aðilar starfsemi félagsins. Er sá stuðningur ómetanlegur þar sem hann gerir félaginu kleift að styðja við þá sem veikjast af krabbameini. 

Thelma Hjaltadóttir.


Var efnið hjálplegt?