Hópleit að krabbameini
Tilgangur hópleitar að krabbameini er að bjarga mannslífum með því að finna forstigsbreytingar sem geta þróast í krabbamein með tímanum eða að greina krabbamein á byrjunarstigi.
Einungis þrjú krabbamein uppfylla enn sem komið er skilyrði um hópleit: Leghálskrabbamein, brjóstakrabbamein og ristilkrabbamein.
Hópleit að brjóstakrabbameini
Med röntgenmyndatöku af brjóstum, brjóstamyndun, er oft unnt að greina brjóstakrabbamein á byrjunarstigi, áður en einkenni koma fram.
Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist því ólíklegra er að meinið hafi náð að dreifa sér og því meiri eru líkur á lækningu.
- Lestu nánar um brjóstkrabbameinsleit.
Hópleit að leghálskrabbameini
Tilgangur leghálskrabbameinsleitar er að finna leghálskrabbamein á forstigi (alvarlegar frumubreytingar) eða frumstigi sjúkdómsins þannig að hægt sé að meðhöndla hann með keiluskurði. Ef sjúkdómurinn er lengra genginn þarf oftast að fjarlægja legið og hann getur hafa dreift sér til nálægra líffæra og eitla. Þá eru líkur á lækningu minni en ef hann greinist á frumstigi eða forstigi.
Markmið leghálskrabbameinsleitar er að lækka nýgengi (fjöldi nýrra tilfella á ári) og dánartíðni (fjöldi þeirra sem deyja á ári) af völdum leghálskrabbameins.
Hópleit að ristilkrabbameini
Hópleit þýðir að leitað er að ummerkjum um krabbamein í ristli eða endaþarmi (ristilkrabbameini) hjá einkennalausum einstaklingum. Leit að ristilkrabbameini hefur þann tilgang að finna forstig (kirtilæxli) eða krabbamein á byrjunarstigi svo hægt sé að lækna meinið með því að veita viðeigandi meðferð. Ekki er komin á hópleit að ristilkrabbameini á Íslandi í september 2020.
- Ristilkrabbameinsleit - Undirbúningur fyrir skipulega leit á Íslandi.
Skýrsla unnin af Sunnu Guðlaugsdóttur MD PhD fyrir Krabbameinsfélagið - Kostnaður við lýðgrundaða skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.
Skýrsla unnin af Gylfa Ólafssyni og Örnu Hilmarsdóttur fyrir Krabbameinsfélagið.