Skimun fyrir krabbameinum

Tilgangur hópleitar/skimunar fyrir krabbameini er að bjarga mannslífum með því að finna forstigsbreytingar sem geta þróast í krabbamein með tímanum eða að greina krabbamein á byrjunarstigi. 

Einungis þrjú krabbamein uppfylla enn sem komið er skilyrði um skimun: Leghálskrabbamein, brjóstakrabbamein og ristilkrabbamein. 

Hvers vegna er ekki skimað fyrir fleiri tegundum krabbameina?

Skimun eða skipulögð hópleit kallast það þegar leitað er að krabbameini eða forstigsbreytingum í einkennalausum einstaklingum sem leitt gætu til krabbameins. Mikill ávinningur getur falist í því að finna krabbamein eða forstig þess sem fyrst þar sem meiri líkur eru á að meðhöndlun sé árangursrík því styttra á veg sem meinið hefur náð að þróast þegar gripið er til meðhöndlunar. 

Stóru markmið skimunar fyrir krabbameinum er að draga úr nýgengi (tíðni) og dánartíðni af völdum ákveðinna tegunda krabbameins.

Skipulögð, lýðgrunduð skimun byggir á því að leitað er skipulega hjá földa fólks innan einhvers ákveðins hóps sem er skilgreindur sérstaklega og er ekki með einkenni sem gætu bent til sjúkdómsins. Dæmi um slíkt skimunarprógram hjá skilgreindum hópi fólks er að allar íslenskar konur á ákveðnu aldursbili fá boð um að koma í skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti. 

Hérlendis er skimað fyrir tveimur tegundum krabbameina; brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini. Þriðja skimunarverkefnið er í undirbúningi þar sem stefnt er að leit að krabbameini í ristli og endaþarmi.

En hvers vegna er ekki leitað skipulega að fleiri tegundum krabbameina?

Til þess að hægt sé að fara af stað með skimun fyrir tilteknu krabbameini þurfa ýmsar forsendur að vera fyrir hendi:

  • Það verður að vera til rannsókn eða greiningarpróf fyrir þetta tiltekna krabbamein og það verður að vera nógu áreiðanlegt próf. Það felur meðal annars í sér að rannsóknin verður að vera næm á óeðlilegar frumubreytingar sem geta orðið að hættulegu krabbameini án þess samt að greina hættulitlar breytingar sem illvígt krabbamein.                                                                                                                                                                                                    Engin rannsókn er þó svo góð að hún greini allt réttilega. Þannig eru í öllum skimunum annars vegar alltaf einhverjir einstaklingar sem hafa sjúkdóminn en greinast þó ekki (vangreining) og hinsvegar greinast líka alltaf einhverjir ranglega sem í raun eru heilbrigðir (ofgreining). Til að ákveðin rannsókn eða próf teljist heppilegt til hópleitar mega slíkar of- og vangreiningar ekki vera of miklar.
  • Rannsóknaraðferðin þarf að vera þannig að hún feli í sér sem minnst inngrip og má ekki vera hættuleg heilsu fólks.
  • Það verður að vera hægt að meðhöndla þann sjúkdóm sem leitað er að.

  • Rannsóknin verður að vera þjóðhagslega hagkvæm. Hún má þvi ekki vera of dýr í framkvæmd og einnig þarf sjúkdómurinn að vera frekar algengur því ef tiltekið  krabbamein er sjaldgæft er ólíklegt að það sé hagkvæmt að leita að því hjá heilli þjóð eða stórum þjóðfélagshópum. Í slíkum tilfellum er leitinni frekar beint að sérstökum áhættuhópum.

Einu rannsóknirnar sem taldar eru falla að ofantöldum viðmiðum eru þær sem skima fyrir brjósta-, legháls- og ristilkrabbameini. Viðmiðin eru alþjóðleg og takmarkast því víðtæk krabbameinsskimun í öðrum löndum einnig við þessar þrjár tegundir krabbameina. Vísindamenn leita þó sífellt nýrra leiða. Sem dæmi má nefna að vissar rannsóknir benda til þess að hugsanlega verði síðar hægt að leita skipulega að krabbameini í blöðruhálskirtli, lungum og eggjastokkum.                                      

Skimun fyrir brjóstakrabbameini

Med röntgenmyndatöku af brjóstum, brjóstamyndun, er oft unnt að greina brjóstakrabbamein á byrjunarstigi, áður en einkenni koma fram.  

Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist því ólíklegra er að meinið hafi náð að dreifa sér og því meiri eru líkur á lækningu.

Skimun fyrir leghálskrabbameini

Tilgangur leghálskrabbameinsleitar er að finna leghálskrabbamein á forstigi (alvarlegar frumubreytingar) eða frumstigi sjúkdómsins þannig að hægt sé að meðhöndla hann með keiluskurði. Ef sjúkdómurinn er lengra genginn þarf oftast að fjarlægja legið og hann getur hafa dreift sér til nálægra líffæra og eitla. Þá eru líkur á lækningu minni en ef hann greinist á frumstigi eða forstigi.

Markmið leghálskrabbameinsleitar er að lækka nýgengi (fjöldi nýrra tilfella á ári) og dánartíðni (fjöldi þeirra sem deyja á ári) af völdum leghálskrabbameins.

Skimun fyrir ristilkrabbameini

Hópleit þýðir að leitað er að ummerkjum um krabbamein í ristli eða endaþarmi (ristilkrabbameini) hjá einkennalausum einstaklingum. Leit að ristilkrabbameini hefur þann tilgang að finna forstig (kirtilæxli) eða krabbamein á byrjunarstigi svo hægt sé að lækna meinið með því að veita viðeigandi meðferð. Ekki er komin á lýðgrunduð skimun fyrir ristilkrabbameini á Íslandi. 


Var efnið hjálplegt?