Beint í efni
Reykingar

Reyk­ingar og önn­ur tób­aks­notk­un

Á heimsvísu er tóbaksnotkun helsta orsök krabbameina sem hægt væri að koma í veg fyrir.

Reykingar eru hættulegasta form tóbaksnotkunar en öll notkun tóbaks eykur líkur á krabbameinum.

Eitt það besta sem reykingafólk getur gert fyrir heilsu sína er að hætta að reykja.

Engin notkun tóbaks er skaðlaus og í hvert sinn sem það er notað eykst áhættan á krabbameinum. Áhættan eykst eftir því sem tóbaks er neytt í fleiri ár, magni notkunar og því yngri sem einstaklingur er þegar hann byrjar að neyta tóbaks. 

Tóbaksreykur eykur einnig líkur á krabbameinum hjá þeim sem reykja ekki sjálfir en anda að sér tóbaksreyk reykingamanna, kallast það óbeinar reykingar.

Reykingar og önnur tóbaksnotkun eykur líkur á mörgum tegundum krabbameina

Tóbaksnotkun er orsakavaldur meira en 15 tegunda krabbameina og tengist mesta áhættan reykingum. Tóbaksreykingar eru helsti orsakaþáttur krabbameinstilfella sem tengjast lífsvenjum og valda einnig flestum dauðsföllum af þeirra völdum.

Algengasta krabbameinið sem tengist tóbaksnotkun og þá helst reykingum, er lungnakrabbamein. Um 80% allra tilfella þess eru rakin til tóbaksneyslu. Lungnakrabbamein er sú tegund krabbameins sem veldur flestum dauðsföllum hérlendis.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þær tegundir af krabbameinum sem tóbaksnotkun veldur. Þar vega reykingar þyngst og tölurnar innan sviga sýna hlutföll krabbameinstegundanna sem orsakast af tóbaksreykingum, reiknað út frá algengi reykinga í evrópskum löndum:

Reykingar hlutföll

Krabbamein sem orsakast af tóbaksreykingum og annarri tóbaksnotkun eða óbeinum reykingum. Tölunar innan sviga sýna hlutföll krabbameinstegundanna sem orsakast af tóbaksreykingum, reiknað út frá algengi reykinga í evrópskum löndum.

Til viðbótar hefur Alþjóðakrabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) ályktað að hugsanlega valdi tóbaksreykingar einnig brjóstakrabbameini og að óbeinar reykingar valdi hugsanlega krabbameini í barkakýli og koki.

Tóbaksneysla getur ekki bara valdið krabbameini heldur einnig haft fjölmörg önnur neikvæð áhrif á heilsufar, m.a. aukið hættuna á ýmsum hjarta- og æðasjúkdómum, lungna- og öndunarfærasjúkdómum, sykursýki 2 og skaðað tannheilsu.  

  • Tóbaksreykingar ásamt áfengisdrykkju er sérlega varhugaverð blanda og margfaldar krabbameinsáhættu, þ.e. áhættan verður meiri en samanlögð áhættan af reykingum og áfengi. Áfengisdrykkja gerir vefjunum í munni og koki auðveldara að taka upp krabbameinsvaldandi efni úr tóbaksreyknum.

    Þetta er ein af ástæðum þess að fólk sem bæði drekkur og reykir margfaldar vefjaskaðann og er í sérstaklega mikilli hættu á að fá krabbamein í munni og koki (efri hluta öndunarvegar) og í vélinda (efri hluta meltingarvegar).

Aldrei of seint að hætta, alltaf er ávinningur

Vísindalegar niðurstöður sýna afgerandi að það dregur úr hættu á krabbameini þegar einstaklingur hættir að neyta tóbaks, einkum þegar einstaklingur hættir að reykja. Að meðaltali lifa reykingamenn 10 árum skemur en þeir sem ekki reykja, en það er aldrei of seint að hætta. Lífslíkur og lífsgæði aukast við að hætta óháð aldri og það að hætta að reykja er eitt það besta sem hægt er að gera til að bæta heilsuna.

Það getur dregið úr hættu á krabbameini að draga úr tóbaksneyslu en hafa ber í huga að krabbameinsáhætta ákvarðast ekki eingöngu af magni heldur einnig tímalengd (hversu lengi tóbaks hefur verið neytt). Talið er að tímalengd reykinga hafi meiri áhrif á krabbameinsáhættu en magnið sem reykt er daglega. Besta ráðið til að draga úr áhættu er því að hætta alveg.

Viltu hætta að reykja?

Ef þú vilt aðstoð við að hætta að reykja eða nota tóbak getur þú leitað stuðnings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síma 513 1700, eða í netspjalli á Heilsuveru.

Einnig er stuðningur og ráðgjöf til reykleysis í boði á þremur tungumálum (íslensku, ensku og pólsku), á vegum Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins í síma 800 4040 eða með því að senda póst á netfangið radgjof@krabb.is.

Tólf leið­ir sem draga úr lík­um á krabba­meini

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópsku krabbameinssamtökin hafa tekið saman Evrópustaðal sem inniheldur tólf leiðir sem taldar eru geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.