Beint í efni
Maður labbar upp stiga

Lík­ams­þyngd

Heilsusamleg líkamsþyngd er sú líkamsþyngd sem dregur úr líkum á að þróa með sér þá sjúkdóma sem ofþyngd getur valdið. Að vera of grannur eða of feitur getur verið skaðlegt heilsunni og því æskilegt að halda líkamsþyngdinni á því bili sem talið er heilsusamlegt.

Lífshættir eins og hollt mataræði, heilsusamleg líkamsþyngd og hreyfing haldast oft í hendur og því er erfitt að segja til um áhrif hvers þáttar fyrir sig. Sterkar vísbendingar eru þó um að draga megi úr hættu á krabbameini með því að borða hollan mat, viðhalda heilsusamlegri líkamsþyngd og hreyfa sig reglulega. 

Aukin fitusöfnun leiðir til þess að fólk þyngist og því er hægt að fá vísbendingar um líkamsfitu með því að mæla líkamsþyngd. 

Áætlað hefur verið að líkur á krabbameini séu um 6% minni hjá fólki sem heldur líkamsþyngd sinni innan heilsusamlegra marka (með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 18,5-25 kg/m2) miðað við þá sem eru með offitu (með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 kg/m2).

Hvað er átt við með heilsusamlegri líkamsþyngd?

Erfitt er að skilgreina nákvæmlega kjörþyngd einstaklings þar sem nauðsynlegt væri að vita vöðvamagn viðkomandi, sem aðeins er hægt að mæla á rannsóknarstofum. Þó er hægt að styðjast við svokallaðan líkamsþyngdarstuðul (e. BMI) til að meta líkamsþyngd. Stuðullinn fæst með því að deila í þyngd með hæð í öðru veldi. Hæfileg líkamsþyngd fullorðinna er almennt talin 18,5-25 kg/m2. Þó ber að hafa í huga að líkamsþyngdarstuðull er ekki nákvæmt mælitæki og gerir t.d. ekki greinarmun á fitu- og vöðvamassa.

Mæling á ummáli mittis er önnur gagnleg aðferð til að fá hugmynd um hvort einstaklingur sé í aukinni hættu á heilsufarsvandamálum vegna of mikillar líkamsfitu. Reynist mittismál vera meira en 102 cm hjá karlmanni og meira en 88 cm hjá konu er það vísbending um mikla áhættu en mittismál undir 94 cm hjá karli og undir 80 cm hjá konu bendir til lítillar áhættu. Tölur þar á milli gefa til kynna áhættu í meðallagi.

Hvers konar krabbamein tengjast helst offitu eða ofþyngd?

Krabbameinstegundirnar sem offita og ofþyngd auka líkur á að þróist eru krabbamein í ristli og endaþarmi, nýrum, skjaldkirtli, maga, vélinda, lifur, brisi og gallblöðru, munni, koki og barkakýli, heilaæxli og mergæxli. Enn fremur aukast líkur á krabbameini í brjóstum (eftir tíðahvörf), legslímu og eggjastokkum hjá konum með offitu. Þetta eru nokkrar af algengustu krabbameinstegundunum í Evrópu.

Að fyrirbyggja þyngdaraukningu

Eftir því sem við eldumst ættum við að forðast að þyngjast, en mjög algengt er að fólk þyngist hægt og sígandi á fullorðinsárum. Til að draga úr þyngdaraukningu og/eða viðhalda líkamsþyngd er mikilvægt að hreyfa sig daglega í a.m.k. 30 mínútur, takmarka skjátíma utan vinnu og skóla, borða ríflega af heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum og baunum og takmarka neyslu á drykkjum og matvælum sem innihalda viðbættan sykur.

Tólf leið­ir sem draga úr lík­um á krabba­meini

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópsku krabbameinssamtökin hafa tekið saman Evrópustaðal sem inniheldur 12 leiðir sem taldar eru geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.