Beint í efni
Aðrar forvarnir

Aðrar for­varn­ir

Bólusetning og veirusýkingar

Ákveðnar veirur geta valdið krabbameini.

HPV-veirusýkingar (Human papilloma virus) valda nær öllum tilfellum krabbameins í leghálsi.

Til eru mismunandi gerðir HPV-veira. Sumar þeirra geta valdið krabbameinum og smitast þær á milli fólks með kynlífsathöfnum. HPV-sýkingar eru mjög algengar og í langflestum tilfellum valda þær engum skaða þar sem ónæmiskerfi líkamans ræður oftast niðurlögum þeirra. Í sumum tilfellum hverfur sýking þó ekki heldur verður viðvarandi og getur leitt til krabbameins.

Auk krabbameins í leghálsi geta HPV-veirusýkingar valdið krabbameini í leggöngum og ytri kynfærum kvenna, endaþarmi og koki (bæði karla og kvenna) og krabbameini í typpi.

HPV-bólusetning

Hér á landi var farið að bólusetja 12 ára stúlkur árið 2011 gegn tveimur, ákveðnum HPV-veirum sem valda 70% allra leghálskrabbameina. Árið 2023 var svo einnig farið að bólusetja drengi ásamt því að farið var að nota annað, breiðvirkara bóluefni sem veitir vörn gegn fleiri tegundum HPV-veira.

Brjóstagjöf og tíðahvarfahormón

Brjóstagjöf

Mælt er með brjóstagjöf ef hún er möguleg, konur sem hafa börn sín á brjósti eru í nokkuð minni hættu á að fá brjóstakrabbamein síðar á ævinni en konur sem ekki hafa börn sín á brjósti.

Tíðahvarfahormón

Tíðahvarfahormón eru sérstök gerð af hormónalyfjum sem er oftast ávísað til kvenna vegna einkenna og óþæginda sem geta komið fram við tíðahvörf á miðjum aldri.

Rannsóknir hafa bent til að notkun tíðahvarfahormóna geti aukið hættu á ákveðnum krabbameinum, sérstaklega ef þau eru notuð yfir langan tíma.

Tíðahvarfahormón eru þó misjöfn að gerð og samsetningu. Hvernig aukin hætta á krabbameini birtist fer m.a. eftir hverskonar tíðahvarfahormón eru tekin (t.d. hvort þau innihalda eingöngu estrógenhormón eða eru samsett og innihalda bæði estrógen- og prógestógenhormón) og hvort konan sem um ræðir hefur farið í legnám.

Mikilvægt er að læknar upplýsi konur vel um hugsanlega kosti og galla tíðahvarfahormónameðferðar.