Beint í efni
Tásur

Sól­ar­varn­ir

Sólin og ljósabekkir stafa frá sér útfjólubláum geislum sem auka hættuna á húðkrabbameini. Því oftar sem húð brennur og því meiri útfjólublárri geislun sem einstaklingur verður fyrir á lífsleiðinni, því meira aukast líkurnar á húðkrabbameini.

Hægt er að draga úr áhættunni með því að forðast mikla sól, verja sig eins og kostur er fyrir sólskini og nota ekki ljósabekki.

Hvernig er best að verja sig gegn sólinni?

Á Íslandi er sólin sterkust í júní og júlí og stór hluti varasamrar geislunar dagsins á sér stað milli kl. 10 og rúmlega kl. 16. Á þeim tíma er einkar mikilvægt að verja sig fyrir geislum sólar, en huga þarf að sólarvörnum frá miðjum apríl og fram í seinni part september. 

Í mörgum öðrum löndum getur sólin verið mun sterkari en hérlendis og því þarf oft að vera mjög vel á verði gagnvart sólskini þegar ferðast er erlendis.

Skuggi

Reynum að halda okkur í skugga þegar sólin er sterkust.

Höfuðfat

Barðastórir hattar og önnur höfuðföt verja andlit, eyru og hnakka en þessir staðir eru oft útsettir fyrir sólbruna. Derhúfur og buff gera líka gagn en verja þó ekki jafn vel og góður sólhattur.

Klæðnaður

Í sterkri sól er skynsamlegt að klæðast fötum sem hylja handleggi og fótleggi og ekki má gleyma öxlum og bringu.

Sólgleraugu

Góð sólgleraugu draga stórlega úr áreiti sólar á augun.

Sólarvörn

Engin sólarvörn (sólaráburður) veitir fullkomna vörn gegn geislum sólar og líta ætti á hana sem viðbót við aðrar leiðir, svo sem að sitja í skugga, nota sólhatt, sólgleraugu og hyljandi fatnað, en ekki í stað þeirra. Nota ætti sólarvörn sem verndar gegn bæði UVA- og UVB-geislum sólar með stuðulinn SPF 30 eða hærri. Sólarvörn á að bera á líkamann hálftíma áður en farið er í sól og endurtaka á tveggja til þriggja klukkustunda fresti, oftar ef maður þurrkar sér með handklæði eða er lengi í vatni. Svæði sem gleymast oft eru eyru, hnakki, bringa, axlir, hársvörður og handarbök. Einnig er gott að nota varasalva með sólarvörn.

Sólarvörn

Hvers konar krabbameinum geta útfjólubláir geislar valdið?

Útfjólublá geislun sólar og ljósabekkja getur valdið mismunandi tegundum húðkrabbameina. Húðkrabbamein eru af misjöfnu tagi; sum eru hættulítil en önnur geta verið banvæn. Alvarlegasta gerðin er kölluð sortuæxli. Á hverju ári látast nokkrir Íslendingar vegna sortuæxla.

Ef fólk myndi almennt huga vel að því að verja sig fyrir sólinni og enginn notaði ljósabekki væri hægt að koma í veg fyrir meiri hluta húðkrabbameina, þar með talið sortuæxli.

Húð barna og unglinga er viðkvæmari en fullorðinna

Fólk á öllum aldri ætti að forðast mikla sól og verja sig gegn geislum sólar en sérlega mikilvægt er að huga vel að því að vernda börn fyrir sólinni. Húð barna er viðkvæmari fyrir útfjólublárri geislun og húðfrumur þeirra líklegri til að verða fyrir sólskaða en húðfrumur fullorðinna.

Því fyrr á ævinni sem húð brennur, því meiri tími gefst fyrir skemmdir að hlaðast upp og líkurnar aukast á að krabbamein myndist seinna á ævinni. Þess vegna þarf að huga sérstaklega vel að sólarvörnum barna og unglinga.

Börn yngri en eins árs ættu aldrei að vera í beinu sólarljósi.

Er holl sólbrúnka til?

Sólbrúnka er merki um húðskemmdir af völdum sólar eða öflugra ljósabekkja og holl sólbrúnka er því ekki til. Ef dvalið er í sterku sólskini í langan tíma er sólbruni óumflýjanlegur fyrr eða síðar. Sólskin veldur einnig fæðingarblettum og freknum og með tímanum öldrun húðar. 

Ef húðin eldist vegna þess að hún hefur verið óvarin fyrir útfjólublárri geislun þykknar hún og tapar teygjanleika sínum hraðar en ella, elliblettir geta komið fram og breytingar á húðlit, svo sem upplitun, en einnig hrukkur, stækkaðar eða útvíkkaðar háræðar í húðinni og húðkrabbamein.

Geta sólarvarnir valdið D-vítamínskorti?

D-vítamín er mikilvægt heilsunni. Það myndast í húðinni þegar útfjólubláir geislar sólar skína á hana en það fæst einnig úr mat og fæðubótarefnum.

Það tekur líkamann bara nokkrar mínútur (10-20 mínútur) að ná fram ráðlögðum dagsskammti af D-vítamínum úr sólinni. Þetta fer samt auðvitað eftir árstíma hér á Íslandi. Öruggast er þó að sólarvarnir séu í forgangi og fólk passi frekar upp á að fá nóg D-vítamín úr matnum og/eða bætiefnum (t.d. D-vítamíntöflum) allt árið um kring. D-vítamínríkur matur er m.a. lýsi, feitur fiskur, egg og ákveðnar fæðutegundir sem eru með viðbættu D-vítamíni. 

Tólf leið­ir sem draga úr lík­um á krabba­meini

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópsku krabbameinssamtökin hafa tekið saman Evrópustaðal sem inniheldur 12 leiðir sem taldar eru geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.