Beint í efni

Áfengi

Áfengi er staðfestur krabbameinsvaldur og því meira sem er drukkið, því meiri er áhættan á krabbameini.

Best er að sleppa því alfarið að drekka áfengi en einnig er ávinningur af því að draga úr neyslu þess.

Áfengisneysla eykur líkur á krabbameinum.

Ekki skiptir máli hvaða tegundir áfengis um ræðir (t.d. bjór, vín eða sterkt áfengi) heldur aukast líkurnar á krabbameinum eftir því sem meira er drukkið og því lengri tíma sem drykkjan nær yfir.

Til að draga úr krabbameinsáhættu er æskilegast að sleppa alfarið að drekka áfengi en þó er líka til bóta að draga úr neyslunni enda tengist áhættan heildarneyslunni.

Hvers konar krabbameinum getur áfengi valdið?

Neysla áfengis getur valdið að minnsta kosti sjö mismunandi tegundum krabbameina; í munni, vélinda, koki, barkakýli, lifur, brjóstum og ristli og endaþarmi.  

Hvers vegna veldur áfengi krabbameini og öðrum sjúkdómum?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að áfengi veldur krabbameinum. Líklegt er að mismunandi tegundir krabbameins orsakist af mismunandi ástæðum, til dæmis:

  • Etanól og asetaldehýð: Áfengi (etanól) er umbreytt í líkama okkar í efnasambandið asetaldehýð. Bæði etanól og asetaldehýð eru krabbameinsvaldandi.
  • Skorpulifur: Áfengi skaðar lifrarfrumur og getur valdið skorpulifur, sem eykur líkur á að fá krabbamein.
  • Hormón: Áfengi getur aukið magn sumra hormóna, eins og estrógens. Mikið magn af estrógeni eykur hættu á brjóstakrabbameini. 
Áfengi

Hvað ef ég drekk áfengi og reyki tóbak?

Tóbaksreykingar samhliða áfengisdrykkju er sérlega varhugaverð blanda og margfaldar krabbameinsáhættu, þ.e. áhættan verður meiri en samanlögð áhættan af reykingum og áfengi. Áfengisdrykkja gerir vefjunum í munni og koki auðveldara að taka upp krabbameinsvaldandi efni úr tóbaksreyknum. Fólk sem bæði reykir og drekkur eru í sérstaklega mikilli hættu á að fá krabbamein í munni, koki og vélinda.

Tólf leið­ir sem draga úr lík­um á krabba­meini

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópsku krabbameinssamtökin hafa tekið saman Evrópustaðal sem inniheldur tólf leiðir sem taldar eru geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.