Beint í efni

Ráð til að draga skipu­lega og með­vitað úr áfeng­is­neyslu

Áfengi er staðfestur krabbameinsvaldur samkvæmt flokkun Alþjóða­krabba­meins­rannsókna­stofnun­ar­innar (IARC) og tengist áfengisneysla auknum líkum á krabbameinum í munnholi, koki, barkakýli, vélinda, lifur, brjóstum, ristli og endaþarmi. Auk þess hefur áfengisneysla ýmis önnur neikvæð áhrif, t.d. á starfsemi heila, lifrar, hjarta- og æðakerfis og á andlega heilsu ásamt því að auka líkur á slysum, ofbeldi og sjálsvígum. 

Magnið skiptir máli

Auknar líkur á krabbameinum tengjast magninu sem drukkið er. Það þýðir að þótt best sé að sleppa áfengisdrykkju alfarið er líka hagur af því að draga úr magninu.

Ráð til að draga meðvitað og skipulega úr áfengisneyslu:

  • Pössum að eiga ekki áfengi á heimilinu dagsdaglega. Það að eiga áfengi eykur líkur á að það sé drukkið.
  • Gott er að koma sér upp reglum eða venjum varðandi áfengi á heimilinu og endurskoða þær reglulega. 
  • Notum minni vínglös og veljum veika drykki.
  • Drekkum vatn samhliða áfengi því að þá er líklegra að minna verði drukkið af áfengi.
  • Gott er að frysta vín sem verður afgangs og nota seinna við eldamennsku frekar en að klára flöskuna.
  • Notum ekki áfengi til að slaka á eftir annasama daga. Aðrar leiðir til að slaka á eru að fara í rólegan göngutúr, sund eða heitt bað.
  • Útbúum sérstaklega fallega og góða óáfenga drykki í stað áfengra drykkja.
  • Ekki fá okkur áfengi heima áður en við förum af stað á mannamót.
  • Gott er að ákveða fyrirfram við þau tilefni þar sem áfengi verður í boði hvort við ætlum að fá okkur áfengi og hversu mikið að hámarki. Stöndum við það.
  • Látum ekki undan þrýstingi annarra um að drekka og þrýstum heldur ekki á aðra.

Veistu hvað þú drekkur mikið áfengi?

Þrátt fyrir fjölmörg þekkt neikvæð áhrif áfengisneyslu, þar með talda aukna áhættu á krabbameinum, er hún samofin menningunni á ýmsan hátt og margir drekka við fjölmörg tækifæri án þess að velta því fyrir sér. Líklega drekka margir meira en þeir gera sér grein fyrir.

Það gæti verið áhugavert fyrir þig að halda ,,drykkjudagbók“ til að fá yfirsýn. Þá skráir þú niður á hverjum degi í a.m.k. viku og jafnvel upp í heilan mánuð hvenær, hvar og hve mikið þú drekkur. Með því að fá slíka yfirsýn getur þú unnið skipulegar að því að draga úr áfengisneyslu.