Beint í efni

Hreyf­ing

Þú getur dregið úr líkunum á því að fá krabbamein með því að hreyfa þig reglulega og forðast langvarandi kyrrsetur.

Líkamleg áreynsla og virkni hefur að auki fjölmörg önnur jákvæð áhrif á almennt heilsufar og er eitt það allra mikilvægasta sem við getum gert til að stuðla að heilbrigði okkar.

Ákefð, tímalengd og tegund hreyfingar

Almennt gildir að öll hreyfing hefur jákvæð áhrif en áhrifin eru þó meiri eftir því sem virknin er meiri.

Stefndu að því að hreyfa þig 30 mínútur eða lengur flesta eða alla daga vikunnar.

Athugaðu að til að ná fram jákvæðum heilsufarslegum áhrifum þarf ekki að hreyfa sig samfellt. Þegar talað er um 30 mínútur eða meira á dag geta það eins verið í nokkur skipti yfir daginn þannig að tíminn safnist upp smám saman. Fáeinar mínútur hér og þar telja þannig til að hafa jákvæð áhrif. Hafðu augun opin fyrir tækifærum í daglegu lífi til að nýta mínútur og safna upp hreyfitíma yfir daginn.

Þegar þú hreyfir þig ætti ákefðin að vera a.m.k. næg til að hraðist á önduninni, hjartað slái hraðar og þér hitni nokkuð.

Öll hreyfing er gagnleg. Mjög jákvætt er að fara t.d. reglulega í sund, líkamsræktarstöð eða stunda einhverja íþrótt. Það getur einnig skilað miklum ávinningi að gera léttar æfingar þegar tækifæri gefst heima eða í vinnunni, fara í lengri eða styttri göngutúra, ganga eða hjóla eins og hægt er til að fara á milli staða, nota stiga frekar en lyftur, sinna hús- eða garðverkum af krafti og almennt, eins og áður sagði, grípa mínútur hér og þar yfir daginn til að vera almennt líkamlega virkari.

Kyrrsetu, sem er ákaflega algeng í lífi nútímafólks, ætti að reyna að brjóta upp eins og mögulega er hægt.

Hvernig dregur hreyfing úr líkum á krabbameinum?

Hreyfing getur haft verndandi áhrif gegn myndun krabbameins vegna þeirra áhrifa sem áreynsla hefur á margvísleg líffræðileg ferli í líkamanum. Meðal þeirra eru áhrif á blóðsykursgildi, insúlín og tengd hormón, kynhormón, bólgu- og ónæmisviðbrögð en öll hafa þessi ferli áhrif á krabbameinsáhættu. Hreyfing stuðlar einnig að heilsusamlegri líkamsþyngd sem aftur hefur viðbótaráhrif til að draga úr krabbameinsáhættu.

Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing hefur bein áhrif til að draga úr líkum á krabbameini í ristli og endaþarmi, brjóstum og legbol.  

Þar sem hreyfing er mikilvægur þáttur í þyngdarstjórnun gætir einnig óbeinna verndandi áhrifa á fjölda annarra krabbameina sem tengjast líkamsþyngd.

Hafa þau sem greinst hafa með krabbamein gagn af því að hreyfa sig?

Rannsóknir á nokkrum gerðum krabbameina hafa sýnt fram á að líkamleg áreynsla á meðan krabbameinsmeðferð stendur yfir og eftir að henni er lokið hefur jákvæð áhrif á líkamsstarfsemina og eykur lífsgæði. Auk þess dregur hún úr þeirri þreytu sem oft gerir vart við sig hjá þeim sem fá krabbamein. Því er þeim sem greinast með krabbamein ráðlagt að hreyfa sig og fylgja almennu leiðbeiningunum varðandi hreyfingu eins og hægt er nema sérhæft heilbrigðisstarfsfólk ráðleggi annað.

Tólf leið­ir sem draga úr lík­um á krabba­meini

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópsku krabbameinssamtökin hafa tekið saman Evrópustaðal sem inniheldur 12 leiðir sem taldar eru geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.