Beint í efni
Hollur matur

Mat­ar­æði

Rannsóknir hafa sýnt að með hollu og fjölbreyttu mataræði og hæfilegu magni megi minnka líkur á krabbameinum og öðrum sjúkdómum, auk þess að stuðla að góðri heilsu og vellíðan.

Mataræði hefur einnig áhrif á fitusöfnun í líkamanum, sem tengist krabbameinsáhættu.

Mataræði í heild sinni virðist skipta meira máli en einstaka fæðutegundir eða næringarefni.

Ráðleggingarnar um mataræði til að minnka líkur á krabbameinum

Í hnotskurn eru ráðleggingar þessar:

  • Borðum ríkulega af grænmeti og ávöxtum
  • Takmörkum neyslu á orkuríkum en næringarsnauðum matvælum, t.d. unnum matvælum sem innihalda mikinn sykur, salt og/eða mikla fitu.
  • Forðumst sykraða drykki, leggjum áherslu á að drekka vatn
  • Takmörkum neyslu á rauðu kjöti og sneiðum hjá unnum kjötvörum.
  • Veljum sem oftast heilkornavörur
  • Borðum baunir og linsubaunir reglulega

Fjölbreyttur, hollur matur í hæfilegu magni

Hollt mataræði felur í sér hæfilegt magn af fjölbreyttum fæðutegundum sem veita alla þá orku og næringarefni sem líkaminn þarf á að halda. Á Íslandi gefur Embætti landlæknis út ráðleggingar um mataræði. Þessar ráðleggingar eru í samræmi við þær sem hér eru settar fram til að draga úr líkum á krabbameini. Þær byggja á ráðleggingum virtra stofnana á sviði krabbameinsrannsókna og henta flestum okkar.

Engar sterkar vísbendingar styðja að tilteknar fæðutegundir (sem eru stundum kallaðar „ofurfæða“ eða „superfoods“) geti einar og séð komið í veg fyrir krabbamein. Þær geta þó flestar verið hluti af hollu mataræði.

Matur

Geta bætiefni/fæðubótarefni dregið úr líkum á krabbameini?

Ekki er ráðlagt að nota fæðubótarefni sem forvörn gegn krabbameinum. Að því sögðu eru nokkur næringarefni og önnur innihaldsefni í matvælum talin geta dregið úr áhættu á vissum krabbameinum, en þörf er á frekari rannsóknum. Meðal þessara efna eru selen (sem m.a. er í fiski), lýkópen (sem m.a. er í tómötum) og D-vítamín (sem m.a. er í feitum fiski og lýsi).

Mælt er með því að fá þessi efni úr matvælum, með því að borða að staðaldri hollan, fjölbreyttan og næringarríkan mat. Fólki með krabbamein er ekki ráðlagt að hefja töku bætiefna nema bera það undir lækninn sinn því að sum bætiefni geta truflað krabbameinsmeðferð.

Hefur fólk sem greinst hefur með krabbamein gagn af heilsusamlegu mataræði?

Mælt er með því að fólk sem hefur greinst með krabbamein fylgi almennum ráðleggingum um mataræði og hreyfingu, nema læknisfræðileg ástæða komi í veg fyrir það. Á það því einnig við um þær ráðleggingar sem birtast á þessari síðu.

Mikilvægt er að taka engin bætiefni fyrr en búið er að fá álit læknis þar sem komið hefur í ljós að sum þeirra geta truflað krabbameinsmeðferð.

Tólf leið­ir sem draga úr lík­um á krabba­meini

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópsku krabbameinssamtökin hafa tekið saman Evrópustaðal sem inniheldur 12 leiðir sem taldar eru geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.