Beint í efni
Legháls

Skimun fyr­ir krabba­meini í leg­hálsi

Nýttu boð í skimun fyrir leghálskrabbameini – það skiptir raunverulegu máli.

Konur sem fara reglulega í skimun fyrir leghálskrabbameini eru í minni hættu á að fá krabbamein í legháls og minni hættu á að deyja úr slíku meini.

Konur á aldrinum 23-64 ára fá boð í leghálsskimun með reglubundnum hætti.

Ávinningur af leghálsskimun

Með skimun gefst færi á að finna frumubreytingar sem eru forstigi krabbameins þannig að hægt sé að grípa inn í áður en krabbamein myndast.

Skimun gefur einnig færi á að finna leghálskrabbamein sem er skammt á veg komið og einkennalaust. Ef mein greinist snemma eru meiri líkur á að koma megi í veg fyrir að það nái að dreifa sér og líkur á lækningu eru betri.

Framkvæmd skimunar

Skimunin felst í að sýni er tekið frá leghálsi og það sent til rannsóknar. Sumum finnst sýnatakan óþægileg en hún veldur samt nær aldrei sársauka. Aðeins tekur um tvær til þrjár mínútur að taka sýni.

Skimun fyrir krabbameini í leghálsi fer nú fram á heilsugæslustöðvum um allt land og einnig er hægt að leita til kvensjúkdómalækna. Sjá upplýsingar um tímabókanir í skimun.

Orsakir og einkenni leghálskrabbameins

Nær öll tilfelli (99%) leghálskrabbameins orsakast af HPV-veirusmiti sem smitast við kynlíf. Sjá upplýsingar um HPV-veirur og bólusetningar við þeim.

Leghálskrabbamein er einkennalaust í byrjun en ef þú verður vör við einkenni eins og óþægindi við samfarir, blæðingar eftir samfarir eða óreglulegar blæðingar skaltu leita til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis. Líklegast er að einkennin stafi af einhverju öðru en krabbameini – en það er mikilvægt að fá það staðfest.

Mögulegir ókostir skimunar

Það að fara í skimun við krabbameini getur valdið kvíða og vanlíðan af ótta við að frumubreytingar eða krabbamein gætu fundist. Það er alveg eðlilegt að upplifa slíkt, en mikilvægt að láta það ekki stöðva sig í að fara í skimunina. Ef í ljós koma vísbendingar um mögulegt mein hefur það skiljanlega áhrif á andlega líðan, sérstaklega meðan beðið er eftir niðurstöðum frekari rannsókna.

Flest tilfelli frumubreytinga hverfa af sjálfu sér, en það er ekki hægt að fullyrða hjá hverjum þær verða að krabbameini og hvar ekki. Það er því mögulegt að greining við skimun leiði til meðhöndlunar og eftirfylgni sem hafi í raun ekki verið nauðsynleg.

Engar rannsóknir geta tryggt að þær gefi óyggjandi svör í öllum tilfellum. Í skimun fyrir krabbameini er möguleiki á því sem kallað er fölsk greining.

Fölsk jákvæð greining (eða ofgreining) felst í því að frumubreytingar virðast vera í teknu sýni, en við frekari rannsóknir kemur í ljós að ástandið er eðlilegt. Á hinn bóginn tekst stundum ekki að  uppgötva frumubreytingar eða krabbamein, þrátt fyrir skimun og kallast það falskt öryggi.