Beint í efni
Mægður í jóga

Skimun fyr­ir brjósta­krabba­meini

Nýttu boð í skimun fyrir brjóstakrabbameini – það skiptir raunverulegu máli.

Konur sem fara reglulega í skimun fyrir brjóstakrabbameini eru í minni hættu á að deyja úr slíku meini.

Konur á aldrinum 40-74 ára fá boð í brjóstaskimun með reglubundnum hætti. Ekki bíða eftir boði í skimun, skimunin er fyrir einkennalausar konur.

Ávinningur af brjóstaskimun

Með röntgenmyndatöku af brjóstum er mögulegt að greina brjóstakrabbamein áður en viðkomandi hefur fundið fyrir einkennum.

Ef mein greinist snemma eru meiri líkur á að koma megi í veg fyrir að það nái að dreifa sér og líkur á lækningu eru betri. Líklegt er að krabbamein sem greinist snemma þurfi minni meðferð heldur en ef það fyndist síðar í sjúkdómsferlinu.

Framkvæmd skimunar

Skimunin felst í því að röntgenmyndir eru teknar af brjóstum. Myndatakan getur verið óþægileg og sumar konur finna til sársauka. Í langflestum tilvikum eru þetta þó skammvinn óþægindi eða sársauki.

Skimun fyrir brjóstakrabbameini fer nú fram í Brjóstamiðstöð Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sjá upplýsingar um tímabókun í skimun.

Vertu vakandi fyrir einkennum

Þó að þú mætir reglulega i skimun ættir þú líka að fylgjast með brjóstum þínum og skoða þau reglulega. Ef þú verður vör við óvenjulegar breytingar eins og hnút í brjósti eða handarkrika, breytingar á stærð eða lögun brjósts, breytingar á geirvörtu eða önnur einkenni ættir þú að leita til læknis eða Brjóstamiðstöðvar Landspítala.

Sjá leiðbeiningar og myndband um sjálfsskoðun brjósta.

Mögulegir ókostir skimunar

Það að fara í skimun við krabbameini getur valdið kvíða og vanlíðan af ótta við að frumubreytingar eða krabbamein gætu fundist. Það er alveg eðlilegt að upplifa slíkt, en mikilvægt að láta það ekki stöðva sig í að fara í skimunina. Ef í ljós koma vísbendingar um mögulegt mein hefur það skiljanlega áhrif á andlega líðan, sérstaklega meðan beðið er eftir niðurstöðum frekari rannsókna.

Flestar konur sem boðaðar eru í nánari rannsóknir eftir myndatöku reynast án krabbameins að þeim rannsóknum loknum.

Nútímatækni og þekking býður ekki upp á að greina hvort brjóstakrabbamein á snemmstigi sé það hægvaxandi að það myndi aldrei hafa áhrif á heilsu viðkomandi. Því er öllum sem greinast boðin krabbameinsmeðferð. Þetta þýðir líka að einhverjar konur eru meðhöndlaðar vegna brjóstakrabbameins sem í raun myndi ekki hafa skaðleg áhrif, slíkt kallast ofgreining og er einn helsti ókostur við skimanir almennt.

Einnig getur verið að myndataka greini af einhverjum ástæðum ekki breytingar sem eru til staðar í brjóstinu. Það gæti gerst vegna tæknilegra þátta, mannlegra mistaka, eða að meinin séu of lítil til að vera greinanleg.

Myndatakan getur verið óþægileg og sumar konur finna til sársauka. Í langflestum tilvikum eru þetta þó skammvinn óþægindi eða sársauki.