© Mats Wibe Lund

Árnessýsla

Krabbameinsfélag Árnesssýslu var stofnað 29. maí 1971 og eru félagsmenn 279 talsins. Félagið heldur úti stuðningshópnum Brosinu sem kemur saman aðra hvora viku. Einnig býður félagið upp á uppákomur og fræðslu fyrir félagsmenn sína sem hefur verið mikil ánægja með. Formaður félagsins er Svanhildur Ólafsdóttir. 

Krabbameinsfélag Árnessýslu býður upp á fjölbreytt starf og stuðning fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein á svæðinu. 

Dagskrá félagsins er eftirfarandi en getur tekið breytingum og hvetur því félagið fólk til þess að fylgjast með á facebooksíðu félagsins.

 • Opið hús mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá 11:00-15:00
 • Jafningjastuðningshópur annan hvern fimmtudag kl.17:00
 • Jafningjastuðningshópur karla annan hvern þriðjudag kl.17:00
 • Jafningjastuðningshópur fyrir 18-45 ára, 1x í viku. 
 • Jóga á mánudögum kl.15:00 hjá Yoga Sálir, Eyravegi 35 

Auk þessa býður félagið upp á:

 • Endurhæfingarhóp 4x í viku í 4 vikur í senn.
 • Sálrænn stuðningur og viðtöl í samvinnu við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, sem og niðurgreiðsla á þjónustu sálrænna fagaðila. 
 • Fræðsla, fyrirlestrar og ýmsir viðburðir í hverjum mánuði. 

Starfsemi 2021

Árið 2021 var stórafmælisár hjá félaginu, sem fagnaði 50 ára afmæli sínu þann 29.maí. Í tilefni þess var ýmsum viðburðum bætt við hefðbundna dagskrá félagsins og áhersla lögð á að gera félagið enn sýnilegra í samfélaginu og sýna þakklæti fyrir veittan stuðning við starfsemi þess. Aðlafundur Krabbameinsfélags Íslands var haldinn á Selfossi þann 29.maí og var öllum fundarmönnum boðið í kaffi og köku í félagsaðstöðu okkar á Eyravegi 31. Í tilefni afmælisins var gefið út afmælisrit þar sem sögu og starfsemi félagsins var gerð góð skil. Ritinu var dreift í hús á nær öllu Árnessýslu svæðinu og sáu sjálfboðaliðar um dreifinguna.

Helsta starfsemi og viðburðir ársins 2021.

· Námskeið fyrir sjálfboðaliða haldið í mars 2021. Tveir starfsmenn Krabbameinsfélags Íslands, Lóa Björk Ólafsdóttir og Eva Íris Eyjólfsdóttir héldu námskeiðið. Félagið hafði kallað eftir námskeiðinu með það að markmiði að sjálfboðaliðar fengju leiðbeiningar og upplýsingar um hutverk sjálfboðaliða svo tryggja mætti samræmt verklag sjálfboðaliða innan félagsins. Fjórtán sjálfboðaliðar tóku þátt á námskeiðinu og var almenn ánægja með efni þess.

· Opið hús var áfram þrjá daga í viku og sáu sjálboðaliðar um að manna vaktirnar. Jafnt og þétt hefur gestum fjölgað á opnunartímum auk þess sem nokkrir félagar hafa það sem fastan lið í sinni daglegu rútínu að koma í opið hús. Að jafnaði hafa verið 5-10 manns verið að mæta í opið hús en mest fór fjöldinn upp í 17 manns. Viðvera Lóu Bjarkar frá Ráðgjafaþjónustunni, fyrst á föstudögum en nú á miðvikudögum, hefur aukið komu nýrra félaga í opið hús þar sem margir gefa sér tíma til að staldara við bæði fyrir og eftir viðtöl hjá Lóu.

· Félagið tók þátt í Mottumars að eins miklu leyti og mögulegt var vegna covid. Ekki var unnt að halda stóra og mannmarga viðburði en félagið nýtti samfélagsmiðla til að koma upplýsingum og hvatningu um þátttöku til samfélagsins. Skemmtilegt samtarf myndaðist við GK Bakarí á Selfossi og voru seldir „Ástarpungar“ til styrktar félaginu. Salan gekk vonum framar og sáu sjálfboðaliðar félagsins um að keyra pantanir út til viðskiptavina auk þess sem mikið rennerí var í bakaríinu. Boðið var í MottuMars kaffi í húsnæði félagsins.

· Bleikur október var fjölbreyttur og skemmtilegur. Bleika boðið var haldið 29.október 2021 á Hótel Selfossi. Töluverður undirbúningur var fyrir viðburðinn sem fólst í öflun vinninga, auglýsingum og skreytingum fyrir kvöldið sjálft. Covid hafði sannanlega áhrif á viðburðinn en engu að síður varð hann glæsilegur í alla staði og mættu um 150 manns. Bleik messa var haldin bæði í Selfoss kirkju og Þorlákskirkju í Þorlákshöfn. Krabbameinsfélagið tók virkan þátt í messunum og var bæði kynning á starfseminni og sagði félagi frá reynslu sinni af krabbameinsferlinu

· Boðið var uppá fyrirlestra að jafnaði einu sinni í mánuði. Sem dæmi má nefna fyrirlestur um kvíða, fyrirlestur frá næringarfræðingi og íþrótta-og heilsufræðingi.

· Iðja var sett inn í fasta dagskrá 2x í mánuði á haustmánuðum 2021. Þátttaka var því miður ekki mikil og var tekin ákvörðun í lok árs að bíða með að halda Iðjunni inni þar til drægi úr covid áhrifum.

· Jóga var áfram í boði 1x í viku líkt og árinu áður. Félagið bauð uppá jóga í samstarfi við Jóga Sálir, félögum að kostnaðarlausu. Þátttaka var því miður ekki mikil og tímarnir illa nýttir. Var tekin ákvörðun á stjórnarfundi í janúar 2022 að bjóða ekki lengur uppá fasta jógatíma og huga frekar að öðrum leiðum til að efla og styðja félaga til að sinna hreyfingu.

· Sálgæsla í desember var í boði á vegum félagsins á aðventunni og sá Margrét Steinunn djáknakandidat um að leiða sálgæsluna. Þátttaka var ágæt og nýttist vel.

· Jólakvöldverður var haldinn í desember á Hótel Selfoss. Var félögum og mökum boðið í þriggja rétta kvöldverð gegn mjög vægu gjaldi. Var þátttaka góð og myndaðist kærleiksrík samverustund.

Hópastarf

Hópurinn Brosið er jafningjastuðningur opinn öllum félögum, bæði krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra. Hópurinn hittist annan hvern fimmtudag kl.17:00 og að jafnaði eru um 5-8 manns að mæta.

Hópurinn Smárarnir er eingöngu fyrir karlmenn og hittist hópurinn annan hvern þriðjudag kl.17:00. Hópurinn er jafningjastuðningur og lögð er áhersla á að bjóða uppá viðburði sem miða að áhugasviði karla. Einn af stjórnarmönnum félagsins heldur utan um starfsemi hópsins. Að jafnaði eru um 3-5 karlmenn að mæta.

Náum Jafnvægi er nýtt úrræði sem félagið fór af stað með í september 2021. Um er að ræða endurhæfingarúrræði sem sótt var um styrk í Velunnarasjóðinn fyrir og gerði styrkurinn félaginu kleift að bjóða uppá tvö, átta vikna námskeið þar sem lögð var áhersla á andlega,-líkamlega, -og félagslega þætti. Metnaður var lagður í að fá fagfólk til liðs við félagið til að bjóða uppá faglegt starf byggt á gagnreyndum aðferðum. Umsjónarmaður var ráðinn inn í verkefnið og fylgir hann hópnum eftir í gegnum allt úrræðið. Úrræðið var auglýst bæði á samskiptamiðlum, heimasíðu félagsins, í fréttamiðlum og auglýsingum var dreift til heilbrigðisstarfsmanna sem vinna með einstaklingum í krabbameinsferlinu. Lítill hópur tók þátt á haustmánuðum en trú stjórnar Krabbameinsfélags Árnessýslu á þörf og gildi slíks úrræðis á Suðurlandi hvetur okkur áfram til að halda úti úrræðinu og hafa trú á að það sanni gildi sitt og þátttakendum muni fjölga.

Markaðsstarf og kynningarmál

Heimasíða félagsins

· Félagið heldur úti heimasíðu sem leggja mætti meiri vinnu í að halda virkri.

· Slóðin á heimasíðuna er www.krabbameinsfelagarnessyslu.is

Facebooksíða félagsins

· Facebooksíða félagsins er helsti auglýsinga og samskiptavettvangur félagsins

· Félagið heldur úti tveimur síðum, annarsvegar „like“ síðu þar sem tæplega sjö hundruð manns fylgjast með og hinsvegar lokaðan facebookhóp sem heitir Brosið og 266 einstaklingar eru inn á. Brosið er jafningjastuðningshópur sem hittist hálfsmánaðarlega í húsnæði félagsins og fara töluverð samskipti og upplýsingagjöf fram á síðunni.

Auglýsingar

· Keyptar eru auglýsingar í fréttamiðlum (DFS) á suðurlandi ef um er að ræða viðburði eða fyrirlestra.

· Formaður félagsins skrifar greinar í fréttamiðla og á heimasíðu af og til, til að auka athygli á starfsemi félagsins.

Samstarf

Félagið er í virku samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands um að veita ráðgjöf og stuðning til einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra. Ráðgjöfin fer fram í húsnæði félagsins að Eyravegi 31 á Selfossi. Ráðgjafi frá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélag Íslands kemur hálfsmánaðarlega á Selfoss til að veita stuðningsviðtöl. Mikil aukning hefur verið á á milli ára á nýtingu viðtala við ráðgjafann.

Fjármál

Afkoma félagsins á reikningsárinu var jákvæð (sjá ársreikning).

· Helstu kostnaðarliðir voru: Laun starfsmanns og launatengd gjöld, rekstur húsnæðis (leiga og almennur rekstur). Námskeið, veitingar, styrkir til félagsmanna vegna samtalsmeðferðar.

· Helstu innkomuliðir voru: Félagssgjöld, gjafir frá félagasamtökum, styrkveiting úr velunnarasjóði Krabbameinsfélag Íslands, styrkir frá fyrirtækjum. Styrkir frá Bakhjörlum sem renna óskipt til reksturs húsnæðis.

· Sótt var styrki til: Krabbameinsfélags Íslands

Lokaorð

Árið 2021 var áskorun út í eitt. Covid hafði mikil áhrif á skipulag starfseminnar og framkvæmd viðburða og ekki síst á þátttöku á viðburðum. Starfið var skipulagt „með fyrirvara“ um hvort hægt yrði að halda viðburði með tilliti til sóttvarnaraðgerða. Það verður að segjast að takmarkanir og hamlanir drógu að nokkru leyti úr drifkraftinum sem hefur verið ríkjandi í félaginu, óvissa og oft vonbrigði þegar hætta þurfti við viðburði sem búið var að leggja mikla vinnu í að skipuleggja. Ef árið væri teiknað upp í línurit þá væri það mjög hlykkjótt og í ójafnvægi. Línuritið hefði risið upp í maí og í október þegar hægt var að halda fjölmenna og glæsilega viðburði, sbr afmælishátíðina og Bleikan október. Línuritið lægi á botninum þegar loka þurfti á alla starfsemi félagsins vegna sóttvarnartakmarkana eða þegar eingöngu var hægt að hafa opið hús en fáir sem enginn mætti.

Það verður að teljast mikil þrautegja meðal sjálfboðaliða félagsins sem hafa tekið að sér það hlutverk að standa vaktina í opnu húsi viku eftir viku og gestafjöldinn er lítill sem enginn. Sjálfboðaliðar hafa lagt sig fram um að gera starfsemi félagsins sýnilegri, gefið af tíma sínum, gefið kærleika og hlýju til félagsmanna og er mikilvægt að sjálfboðaliðum sé gefið þakklæti fyrir sín störf. Stjórnin gaf sjálfboðaliðum jólaglaðning í desember og sýndi þeim þakklæti fyrir þeirra óeigingjarna starf í þágu félagsins.

Ef horft er til áhrifa covid á starfsemi félagsins síðustu tvö ár þá má finna að dregið hefur úr áhuga til nýrra verkefna og þátttöku á viðburðum. Ákveðin þreyta er að gera vart við sig sem bregðast þarf við. Verkefnið sem stjórnin stendur nú frammi fyrir á nýju starfsári er að finna leiðir til að efla þátttöku að nýju, finna leiðir til að ná til fólks á þeirra forsendum og kveikja áhuga þeirra á að vera hluti af öflugu samfélagi sem Krabbameinsfélag Árnessýslu er orðið.

Takk fyrir samstarfið á árinu.

Stjórnin

Starfsemi 2020

Starfsemi félagsins óx og efldist töluvert á árinu, þrátt fyrir covid samkomutakmarkanir. Í ljósi aðstæðna var nokkrum viðburðum frestað en reynt var að halda úti stuðningi og félagsskap að eins miklu leyti og ástandið leyfði. Farið var af stað með nýjungar í þjónustu auk þess sem fastir þjónustu liðir voru meira nýttir en áður. Aðkoma sjálfboðaliða við starfsemi félagsins jókst og félagið varð sýnilegra í samfélaginu, meðal annars með flutningi í sitt eigið leigu-húsnæði að Eyravegi 31, með markvissri öflun bakhjarla og eflingu á samfélagsmiðlum. Árið 2020 verður félaginu eftirminnilegt á margan hátt.

· Flutningur í húsnæði félagsins að Eyravegi 31 opnaði möguleika á öflugri þjónustu og meiri sýnileika. Einstakur meðbyr og stuðningur frá fyrirtækjum og félagasamtökum gerði félaginu kleift að stækka og styrkjast

· Styrktarsamningur við SET ehf til þriggja ára var undirritaður. Markar tímamót í sögunni þar sem slíkur samningur hefur aldrei verið ritaður í sögu félagsins.

· Á árinu leit dagsins ljós rannsókn Stefaníu Jónsdóttur, um upplifun maka í krabbameinsferlinu og leiddu niðurstöður í ljós að þörf var á sérstökum makahóp. Slíkur hópur var stofnaður og fór hann af stað í október. Vegna covid samkomubanns sem stóð frá nóvember var tekin ákvörðun um að setja starfsemi hópsins á bið þar til eftir áramótin.

· Á vormánuðum þegar ekki var heimild fyrir hópamyndun, efndi félagið til vikulegra gönguferða. Göngurnar voru ýmist innanbæjar eða utanbæjar. Síðasta gangan var farin í fjörunni á Stokkseyri og henni lauk í kvöldverði á veitingastaðnum Fjöruborðinu.

· Fengum góðar heimsóknir í upphafi árs. Í tengslum við eflingu á karlastarfi félagsins fengum við Sigurð Böðvarsson krabbameinslækni í heimsókn og einnig kom Matti Ósvald markþjálfi með fyrirlestur fyrir karlahópinn

· Boðið var uppá ýmis námskeið yfir árið, sogæðabjúgsnámskeið og námskeið í jákvæðri sálfræði og markmiðasetningu.

· Sálgæsla er orðinn fastur liður í starfi félagsins. Margrét Steinunn djákni og félagi í Krabbameinsfélagi Árnessýslu leiðir sálgæsluna sem er öllum opin. Að jafnaði er sálgæsla haldin einu sinni í mánuði.

· Jóga hjá Jóga Sálir er orðinn fastur liður í starfi félagsins. sérstakur tími er fyrir félagsmenn á föstudögum kl.16:15 og er öllum að kostnaðarlausu

· Golfnámskeið er orðinn árlegur viðburður á vormánuðum. Fjögurra vikna námskeið þar sem farið er yfir grunnatriði og lýkur með litlu „móti“ innan hópsins.

Hópastarf

Hópurinn Brosið er jafningjastuðningur opinn öllum félögum, bæði krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra. Hópurinn hittist annan hvern fimmtudag kl.17:00 og að jafnaði eru um 15 manns að mæta.

Hópurinn Smárarnir er eingöngu fyrir karlmenn og hittist hópurinn annan hvern þriðjudag kl.17:30. Hópurinn er jafningjastuðningur og lögð er áhersla á að bjóða uppá viðburði sem miða að áhugasviði karla. Einn af stjórnarmönnum félagsins heldur utan um starfsemi hópsins. Að jafnaði eru um 3-5 karlmenn að mæta.

Makahópur er nýr stuðningshópur sem var stofnaður á haustmánuðum 2020 í kjölfar niðurstaðna úr rannsókn á upplifun maka í krabbameinsferlinu. Niðurstöður leiddu í ljós að makar voru að upplifa sig útundan í ferlinu og fannst félaginu því ástæða til að eigna þeim sinn hóp og hlúa að þörfum þeirra.

Sálgæsla er haldin 1x í mánuði, síðasta mándag hvers mánaðar. Hópurinn er opinn öllum þeim sem vilja þiggja sáluhjálp og stuðning. Hópurinn er í umsjá Margrétar Steinunnar djáknakandidat.

Viðburðir

· Félagið tók þátt í Mottumars að eins miklu leyti og mögulegt var vegna covid. Ekki var unnt að halda stóra og mannmarga viðburði en félagið nýtti samfélagsmiðla til að koma upplýsingum og hvatningu um þátttöku til samfélagsins.

· Bleikur október varð því miður ekki eins stór og félagið hafði áætlað. Engu að síður vakti félagið athygli í samfélaginu og víðar fyrir öflugar skreytingar í Selfossbæ.

Markaðsstarf og kynningarmál

Heimasíða félagsins

· Heimasíða félagsins fór í loftið á árinu

· Slóðin á heimasíðuna er www.krabbameinsfelagarnessyslu.is

Facebooksíða félagsins

· Facebooksíða félagsins er helsti auglýsinga og samskiptavettvangur félagsins

· Félagið heldur úti tveimur síðum, annarsvegar „like“ síðu þar sem tæplega sex hundruð manns fylgjast með og hinsvegar lokaðan facebookhóp sem heitir Brosið og 163 einstaklingar eru inn á. Brosið er jafningjastuðningshópur sem hittist reglulega og eru að jafnaði um fimmtán til tuttugu manns að mæta

Samstarf

Félagið er í virku samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands um að veita ráðgjöf og stuðning til einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra. Ráðgjöfin fer fram í húsnæði félagsins að Eyravegi 31 á Selfossi. Ráðgjafi frá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélag Íslands kemur hálfsmánaðarlega á Selfoss til að veita stuðningsviðtöl.

Fjármál

Afkoma félagsins á reikningsárinu var jákvæð/neikvæð.

· Helstu kostnaðarliðir voru: laun starfsmanns og launatengd gjöld. Námskeið, veitingar, styrkir til félagsmanna vegna samtalsmeðferðar, kosnaður vegna breytinga á húsnæði (Eyravegur 31)

· Helstu innkomuliðir voru: félagssgjöld, gjafir frá félagasamtökum, styrkveiting úr velunnarasjóði Krabbameinsfélag Íslands

· Sótt var styrki til: Krabbameinsfélags Íslands

Lokaorð

Árið hefur verið magnað á svo margan hátt. Stöðug óvissa vegna covid kenndi okkur að það er hægt að gera margt með stuttum fyrirvara á sama hátt og oft þarf að sætta sig við að ekki verður allt eins og á verður kosið. Verkefnið að komast í eigið leiguhúsnæði gekk vonum framar, það var einstakt að upplifa samhuginn og viljann til aðstoðar frá flest öllum fyrirtækjum sem leitað var til að gerast bakhjarlar og styðja þar með félagið til að komast í húsnæðið.

Félagið hefur náð því markmiði sínu að vera sýnilegra og aðgengilegra í samfélaginu. Fastir opnunartímar og aukið starf sjálfboðaliða, gera félaginu kleift að vera enn betur til staðar fyrir félaga sína, hvar sem í ferlinu þeir eru staddir.

Takk fyrir samstarfið á árinu.

Stjórnin

Starfsemi 2019

Samantekt: Enn á ný höfum við horft á félagið okkar stækka og eflast. Að mati félaga einkennist félagið af samhug, samkennd og gagnkvæmum skilningi og hefur myndast mikill kærleikur milli félaga í hópnum. Stöðugt er leitast við að mæta þjónustuþörf félaga, hlusta á óskir þeirra og finna vettvang þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Styrkveitingar frá Krabbameinsfélagi Íslands, ómetanlegir styrkir frá félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum, veitti félaginu færi til að bjóða uppá heilsueflandi námskeið og fræðslu félögum sínum að kostnaðarlausu. Einnig hefur félagið lagt áherslu á að bjóða uppá viðburði og fræðslu sem eru opnir öllum, óháð hvort þeir séu skráðir félagar og er litið á slíka viðburði sem mikilvæga auglýsingu og markaðsetningu fyrir félagið. Mætingar á bæði fræðslu, námskeið og aðra viðburði hafa verið mjög vel sóttir en þó enginn eins og BleikaBoðið sem haldið var í annað sinn í október og jókst fjöldi gesta um rúmlega hundrað milli ára. Samstarf við Krabbameinsfélag Íslands og HSU varðandi ráðgjöf á Selfossi, var mikil lyftistöng fyrir félagið og jók sýnileika þess til muna.

Nokkrir nýjir viðburðir voru prófaðir á árinu, má þar nefna Sálgæslustundir sem ákveðið var að bjóða uppá í desember og voru vel sóttar. Ákveðið var að bjóða reglulega uppá slíkar stundir á nýju ári og hafa það að verklagsreglu að bjóða uppá slíka stund ef félagi fellur frá.

Janúar

· Heimsókn frá Sigurði Böðvarssyni krabbameinslækni

· Jóga 2x í viku

Febrúar

· Broshittingur hálfsmánaðarlega

· Jóga 2x í viku

Mars

· Fjölguðum hittingum, hittumst nú annan hvern fimmtudag og annan hvern föstudag í vikunni á móti

· Jóga 2x í viku

Apríl

· Karlahópurinn stofnaður – hittast hálfsmánaðarlega

· Bros hittingur hálfsmánaðarlega

· Snyrtivörukynning

· Jóga 2x í viku

Maí

· Gönguhópurinn stofnaður – göngum 1x í viku

· Golfnámskeið hófst 2x í viku

· Bros hittingur og karlahópur hálfsmánaðarlega

Júní

· Fyrirlestur frá Þorra sálfræðing um kvíða

· Fyrirlestur frá Matta Ósvald markþjálfa

· Broshittingur og karlahittingur hálfsmánaðarlega

· Jóga 2x í viku

· Félögum boðið út að borða á Surf&Turf – lokun á vorönninni og haldið í sumarfrí

Ágúst

· Starfsemin hófst undir lok ágúst með Broshitting – mjög góð mæting og töluðu allir um hvað þeir höfðu saknað hópsins. Fundum fyrir miklum kærleika og samhug innan hópsins

September

· Broshittingur og Karlahittingur hálfsmánaðarlega

· Dvöl í Bergmáli í tvær nætur – mjög góð mæting, gist var í öllum herbergjum og flestir buðu maka sínum með. Aukning þátttakenda í ferðina var 50% milli ára.

· Jóga námskeið hófst á ný, lokaður hópur 1x í viku – ákveðið að prófa að breyta tíma og fjölda.

· Námskeið um svefn – Erla Björnsdóttir. Mæting mjög góð, um 30 manns

· Fulltrúar félagsins viðstaddir kaffiboð Hsu þar sem þakkir voru færðar félaginu fyrir gjöf sem veitt var fyrr á árinu.

· Samstarf við Ráðgjafaþjónustuna hófst, viðtöl á Selfossi 2x í mánuði.

· BleikuTútturnar skipulagsnefnd fyrir BleikaBoðið, hófu undirbúning fyrir bleikan október

· Formaður félagsins tók við styrk-gjöf að upphæð 500 þúsund frá Oddfellow stúlku á Selfossi

Október

· Bleika-boðið haldið í Hótel Selfoss (mæting um 250 manns)

· Þátttaka í BleikriMessu í Selfosskirkju. Formaður og félagi fluttu ávarp sem fjallaði um mikilvægi starfsemi félags eins og Krabbameinsfélagsins

· Bærinn skreyttur bleikum slaufum og fánum

· Broshittingur með bleiku ívafi og bleikum veitingum

Nóvember

· Hefðbundinn jafningjastuðnings-hittingur aðra hverja viku. Karlahópur á þriðjudögum og opinn hópur á fimmtudögum

· Sálgæslustundir hófust

Desember

· Jólahlaðborð þar sem félögum var boðið í hlaðborð á Hótel Selfoss og þeir hvattir til að bjóða mökum með, sem greiddu fyrir sjálfa sig en félagið hafði fengið gott verðtilboð.

· JólaBros með pökkum, kaffi og smákökum

· Karlahittingur

· Sálgæslustundir haldnar vikulega

Fyrir hönd Krabbameinsfélag Árnessýslu,

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður.

 

Starfsemi 2018

 

 

Starfsárið 2018 var mjög gott og viðburðaríkt hjá félaginu. Töluverð fjölgun félaga var jafnt og þétt yfir árið og þátttaka í viðburðum almennt góð. Við árslok 2018 var fjöldi félagsmanna 279.

 

 • Félagið naut góðs samstarfs við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og fékk meðal annars til sín námskeiðið og fyrirlestra bæði á vor og haustönn.
 • Fastir hittingar hjá Brosinu, stuðningshópi félagsins og þátttakendum fjölgaði töluvert.
 • Næringarfræðingurinn Berglind Blöndal var með fyrirlestur um hollt og gott mataræði
 • Einnar nætur gisting í Bergheimum, makar voru velkomnir með.
 • Október var viðburðaríkur og skemmtilegur. Bleik messa í samstarfi við Selfosskirkju þar sem félagi sagði frá reynslu sinni af ferlinu og hve mikilvægur vinahópurinn reyndist henni auk þess sem fjórar vinkonur hennar sögðu frá sinni upplifun af því að eiga vinkonu í krabbameinsferli.
 • Slegið var upp stórveislu í Tryggvaskála í tilefni af Bleikum október. Bleika boðið fór fram úr öllum væntinum og var salurinn smekkfullur af konum og körlum. Haldið var happdrætti með ótal mörgum glæsilegum vinningum og sá Sigga Kling um að skemmta gestum. Tryggvaskáli gaf veitingar og ungt tónlistarfólk af svæðinu söng nokkur lög. Mjög vel heppnað kvöld sem er vonandi komið til að vera árlegur viðburður hjá félaginu.
 • Í okóber var ljósmyndasýningin Bleik sett upp í Krónunni. Tveir félagar tóku þátt í sýningunni og vakti hún verðskuldaða athygli bæjarbúa. Fánum bleiku slaufunnar var flaggað á aðal hringtorg bæjarins og bleikar slaufur hengdar á tré og staura á aðalgötunni.
 • Regluleg greinaskrif í Dagskrána (svæðisfréttamiðill) um krabbameinsferlið, aukin virkni á samfélagsmiðlum og umtal hefur gert félagið sýnilegra og sífellt fleirri leita eftir stuðningi og ráðgjöf.
 • Á vormánuðum bauð félagið uppá fjögurra vikna golfnámskeið sem var opið bæði félögum og mökum þeirra. Námskeiðinu lauk síðan með innanfélagsmóti og hamborgaraveislu í lokin.
 • Bæði á vor og haustönn bauð félagið uppá jóganámskeið tvisvar sinnum í viku í samstarfi við YogaSálir á Selfossi.
 • Kynning á starfsemi Krafts.
 • Jólagleði var haldin með félögum, boðið var uppá mat og haldinn var pakkaleikur.

 

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður 

 

 

 


Var efnið hjálplegt?