© Mats Wibe Lund

Hafnarfjörður

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar var stofnað 10. apríl 1949 og eru félagsmenn um 475 talsins. Helstu verkefni félagsins eru fundarhöld, fjáröflun, skipulagning ýmissa viðburða; s.s. skógargöngu, bleika þingsins og forvarnarverkefna. Einnig vetir félagið fjárhagsstuðning af ýmsu tagi. Formaður félagsins er Anna Borg Harðardóttir. 

Starfsemi 2016-2017

Á síðasta starfsári voru haldnir þrír stjórnarfundir á milli aðalfunda. Fundirnir voru haldnir í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju við Strandgötu. 

Helstu verkefnin félagsins á liðnu starfsári voru: Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands, fjáröflun í byrjun september, formannafundur aðildarfélaganna, skógarganga, bleiki mánuðurinn, bleika þingið, vinna við forvarnarverkefni gegn munntóbaki í grunnskólum Hafnarfjarðar, fjárhagsstuðningur við ákveðin verkefni (Kraftur) og mottumars. 

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands var haldinn laugardaginn 14. maí 2016 í Skógarhlíð 8 og var hann með hefðbundnu sniði. 

Við tókum þátt í fjáröflun til rekstursins ásamt aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands í haustsölunni 2. og 3. september 2016. Við seldum fjölnota innkaupapoka og má segja að Hafnfirðingar hafi tekið vel á móti okkur, við náðum að selja 300 poka á stuttum tíma. Salan fór fram í Fjarðarkaupum og þökkum við eigendum þess fyrir aðstöðuna. 

Formannafundur aðildarfélaga Krabbameinsfélags Íslands var haldinn að þessu sinni á Bakkaflöt í Skagafirði, laugardaginn 24. september 2016. 

Kvöldganga í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn var farin þriðjudaginn 4. október 2016 á vegum Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Félagar úr Krabbameinsfélaginu og aðrir áhugasamir, fjölmenntu í gönguna sem hófst við Gróðrastöðina Þöll, til að njóta skógarins í skjóli myrkurs og ganga saman í ævintýraljóma lukta. Gengið var um skóginn undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar skógfræðings. Eftir gönguna var boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar. Gangan tókst einstaklega vel og fjölmenntu félagar og velunnarar félagsins í gönguna.

Í bleika mánuðinum stóðu Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Brjóstaheill-samhjálp kvenna og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins fyrir sameiginlegu málþingi með áherslu á brjóstakrabbamein kvenna. Yfirskrift þingsins var: Er þetta bara ég? Síðkomnar afleiðingar meðferðar. Þingið var haldið 24. október 2016 hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíð. Þingið var mjög vel sótt.

Að venju fór Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar í samstarf við bæjarstjóra og starfsmenn Hafnarfjarðarkirkju til að minna bæjarbúa á mikilvægi bleika mánaðarins. Fáni með bleiku slaufunni blakti út mánuðinn á fánastöng Ráðhússins og Hafnarfjarðarkirkjan var böðuð í bleiku ljósi. Einnig lýsti framkvæmdarsvið Hafnarfjarðar upp Lækinn í október. 

Forvarnarfræðslan fór fram í janúar 2017 og gekk mjög vel að sögn skólastjóra grunnskóla Hafnarfjarðar. Að venju tók Jón Ragnar Jónsson, tónlistarmaður með meiru, að sér þessa fræðslu og heillaði börnin upp úr skónum með sinni skemmtilegu framsögn um þó alvarlegt mál. Hafnarfjarðarbær styrkir verkefnið með verkefnisstjóra, Geir Bjarnasyni, íþrótta- og tómstundarfulltrúa, og 1.000 kr. fyrir hvert barn eða samtals 300.000 þúsund kr. 

Í mars hófst fjáröflunarátakið „Karlar og krabbamein – Mottumars“ á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Hafnarfjarðarfélagið hvatti stofnanir og þjónustu til að gera sér dagamun og minna á átakið gegn karlakrabbameini. Ekki var tekið þátt í sölu á mottumarsvörum að þessu sinni.

Félagsgjöld Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar fyrir árið 2016-2017 var 1.200 kr. fyrir almenna félagsmenn og 12.000 kr. fyrir styrktarfélaga og fyrirtæki. 
Minningarkort félagsins eru seld á nokkrum stöðum hér í bænum og gefur það félaginu nokkrar tekjur. Þau er einnig hægt að fá á netinu hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Stjórnarfundir og aðalfundur félagsins voru haldnir í aðstöðu Hafnarfjarðarkirkju og þakkar stjórn félagsins starfsmönnum kirkjunnar fyrir góða samvinnu og velvild í garð félagsins.

Tilgangur Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar hefur frá upphafi verið sá að styðja við baráttuna gegn krabbameini, m.a. með fræðslu um krabbamein og krabbameinsvarnir, með styrkveitingu til ákveðinna verkefna og með stuðningi við krabbameinssjúklinga. Gildi forvarna er mjög mikilvægt t.d. varðandi munntóbaks- og tóbaksvarnir, við mætingar til krabbameinsleitar, mataræði og hreyfingar svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru atriði sem við þurfum sífellt að vera að minna á. Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar vill leggja sitt af mörkum til að hvetja fólk til að ástunda heilbrigða lífshætti og gerir það með því að vera sýnilegt í bæjarfélaginu og minna á þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni í þágu samfélagsins. Það er mikilvægt að missa ekki sjónar af tilgangi félagsins og þá sérstaklega því sem snýr að forvörnum.

Anna Borg Harðardóttir. 


Var efnið hjálplegt?