Eldri starfsemi

Starfsemi 2016-2017

Félagið reiðir sig hverju sinni á íbúa í héraðinu með árlegri sölu ýmissa hluta og minningarkorta, auk félagsgjalda. Á hverju ári veitir félagið styrki til fólks til að létta undir með afleiðingum sjúkdómsins. Síðastliðið starfsár voru veittir þónokkrir styrkir, m.a. vegna rannsókna erlendis í svonefndum jáeindaskanna. Einnig var greitt fyrir dvöl í íbúðum að venju. Unnið er að gerð reglna af stjórn um hvernig skuli staðið að styrkveitingum af hálfu félagins til að auðvelda stjórninni framkvæmd þeirra.

Stuðlað var að því og útvegaðar bleikar filmur til að lýsa upp mannvirki í októbermánuði en það voru kirkjur á Skagaströnd og Bólstaðarhlíðarkirkja, auk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Blönduósi. Það átak var okkar framlag til að minna héraðsbúa á krabbamein kvenna og varnir gegn þeim. 

Formaður sat aðalfund Krabbameinsfélags Íslands í maí 2016 og einnig haustfund svæðafélaga sem að þessu sinni var haldinn að Bakkaflöt Skagafirði. Naut hann góðs af þeirri miklu fræðslu og upplýsingum sem komu þar fram til að efla sitt eigið félag.

Sveinfríður Sigurpálsdóttir.

Starfsemi 2015-2016

Stjórnin hélt nokkra fundi á árinu og hafði auk þess samskipti sín á milli gegnum tölvupósta og síma. Á aðalfundi 2016 flutti Angela Berthold sjúkraþjálfari fræðslu um veganfæði og þær breytingar sem fylgja í kjölfarið.

Fjáröflun til styrktar félaginu var með sölu á ýmsum hlutum haustið 2015 og tókst vel. Sala á minningarkortum gekk einnig vel og fer aðallega fram í apóteki Lyfju á Blönduósi en einnig hjá félagsmönnum. Kærkomin viðbót var að fá nokkra kortasölu af vefnum krabb.is. Félagið tók að venju þátt í átaki í bleika mánuðinum í október og í tilefni þess voru lýstar upp í bleiku ein stofnun á Blönduósi, Skagastrandarkirkja auk Bólstaðarhlíðarkirkju í Langadal nú í fyrsta sinn. Lýstu þessi hús með mjúka birtu út í skammdegið og á þjóðveginn.

Félagið veitti styrki til þeirra sem voru í meðferð við krabbameini með því að greiða allan kostnað þeirra fyrir notkun íbúða Krabbameinsfélagsins og kostnað af dvöl á sjúkrahótelinu. Stjórnin tók að sér að bera út veggspjöld sem Kraftur, samtök ungs fólks með krabbamein, lét útbúa. Á spjöldunum sýndu ýmsir ör sín eftir uppskurði og vöktu þau athygli. Félagið lagði jafnframt til nokkra upphæð í Vísindasjóð Krabbameinsfélags Íslands.

Formaður sendi sem áður pistil í Húnavökutímaritið sem kemur út árlega í héraðinu og á vefinn huni.is til að upplýsa þá sem lesa hvað er á döfinni hjá okkur, kynna verkefnin og minna á hlutverk félagsins.

Sveinfríður Sigurpálsdóttir.

Starfsemi 2014-2015

Stjórnin hélt hefðbundna fundi á árinu og hafði þar fyrir utan mikil samskipti sín á milli gegnum tölvupóst og síma. Í lögum félagsins er hlutverk félagsins m.a. að fræða almenning um krabbamein og varnir gegn því. Á aðalfundi 2014 flutti fyrirlesari okkur fræðslu um jóga-aðferðina og á aðalfundi 2015 fengum við fyrirlestur fluttan af Arndísi Höllu Jóhannesdóttur. Arndís er öflug ung kona, markþjálfi og þroskaþjálfi, og nefndi hún fyrirlesturinn „Mikill hlátur og smá grátur“ og velti hún því upp hvernig við bregðumst við því sem við þurfum að takast á í vinnu eða einkalífi.

Fastir þættir svo sem fjáröflun til styrktar félaginu svo sem haustsalan á ýmsum hlutum haustið 2014 tókst vel. Sala á minningarkortum félagsins gekk einnig vel og fer aðallega fram í apóteki Lyfju á Blönduósi en einnig hjá félagsmönnum.  

Félagið tók að venju þátt í árvekniátakinu í október sem fram fer til að minna á baráttu gegn brjóstakrabbameini sem og öðrum krabbameinum í konum. Í tilefni þess voru lýstar upp stofnun á Blönduósi og kirkjan á Skagaströnd. Stjórnarkonur tóku einnig þátt í sölu á ýmsum hlutum í átakinu Mottumars, karlar og krabbamein, sem fjáröflun fyrir okkar félag. Gekk sú söfnun býsna vel og þakka ber stjórnarkonum.

Félagið veitti nokkra styrki til þeirra sem voru í meðferð við krabbameini, með því að greiða leigu þeirra fyrir íbúðir Krabbameinsfélagsins og annarra sem og í leiguíbúðar hjá Barnadeild Landspítalanum.

Einnig var söfnunarfé okkar notað til kaupa verkjalyfjadælu fyrir Heilbrigðisstofnunina Blönduósi og veittur var 200.000 kr. styrkur til söfnunarátaks sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis stendur fyrir til kaupa á nýju ómskoðunartæki, staðsett á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Formaður sendi sem áður pistil um félagið í Húnavökutímaritið sem kemur út árlega og til upplýsinga um hvað er á döfinni hjá okkur og til að kynna starfsemina jafnframt.  

Formaður sat formannafundinn sem haldinn var á Akureyri og í boði Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Þar voru m.a. fluttir áhugaverðir fyrirlestrar og kynnt handbók Gunnjónu Unu Guðmundsdóttur og eru upplýsingar handbókarinnar mjög þarft verk og fræðandi.

Félaginu barst góður styrkur að upphæð 100.000 kr. frá Iðnsveinafélagi Húnvetninga sem sýnir velvilja í garð félagsins og fá Iðnsveinar bestu þakkir fyrir.  
Félagsmönnum hefur því miður farið fækkandi um árabil og ætlar stjórnin að bregðast ötullega við því á næsta starfsári.

Sveinfríður Sigurpálsdóttir. 


Var efnið hjálplegt?