Uppskrift

Með hollu og fjölbreyttu mataræði í hæfilegu magni má minnka líkur á krabbameinum og öðrum sjúkdómum auk þess að stuðla að góðri heilsu og vellíðan. 

Mataræðið í heild sinni virðist skipta þar meira máli en einstaka fæðutegundir eða næringarefni. Þá er að auki ráðlagt að borða grænmeti, ávexti og heilkornavörur daglega, borða baunir og linsubaunir reglulega, takmarka neyslu á rauðu kjöti og forðast unnar kjötvörur, takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda mikinn sykur, salt eða mettaða fitu og forðast sykraða drykki og áfengi. 


Kjúklingur í karrý með heil­korna­pasta

Víðast hvar má finna úrval af heilkornavörum sem ýmist eru tilbúnar eða til að nota í bakstur, grauta, meðlæti og matreiðslu. Auðvelt er því að skipta út fínunnum kornvörum fyrir heilkornavörur, t.d. heilkornapasta í staðinn fyrir hvítt pasta. Þessi uppskrift er tilvalin til þess. Kjúklingur í gómsætri karrýsósu með heilkornapasta, fullt af grænmeti og ávöxtum. Ein hreinlega með öllu! 

Uppskrift fengin með góðfúslegu leyfi af síðu Fuldkornspartnerskabet

Undirbúningur og matreiðsla: 40 mínútur | Fyrir 4

Innihaldsefni:

 • 1 laukur
 • 1 toppkál eða hvítkál, ca 1 kg
 • 100 g vínber án steina
 • 2 epli
 • 1 msk rapsolía
 • 1 msk karrý
 • 320 g kjúklingabringur, skornar í bita
 • 7 dl léttmjólk
 • 1,5 msk heilkornahveiti
 • 1 tsk flögusalt
 • pipar

Meðlæti:

 • 200 g heilkornapasta
 • Hrásalat úr 3 niðurrifnum gulrótum (ca 150 g) og 50 g rúsínur

Matreiðsla:

Skera laukinn smátt. Skera kál til helminga, fjarlægja kjarnann og skera svo fínt niður. Taka handfylli af káli til hliðar og geyma fyrir hrásalat.

Skera vínber til helminga. Kjarnhreinsa epli og skera í þunnar skífur. Setja vatn í pott og hita að suðu, láta kálið í pottinn í nokkrar mínútur og sía svo vatnið frá.

Hita olíu í potti/pönnu. Blanda saman við karrý og hræra vel saman. Steikja þá lauk og kjúkling í um 3 mínútur við góðan hita. Bæta við 5 dl af mjólk. Hræra rest af mjólk saman við heilkornahveitið svo úr verði jafningur. Blanda jafningi í pottinn og láta malla í nokkrar mínútur, hræra reglulega. Bæta út í káli, vínberjum og eplum og láta malla þar til heitt. Smakka til með salti og pipar.

Elda heilkornapasta í samræmi við leiðbeiningar á pakka og hella af vatni.

Afhýða gulrætur og rífa niður með grófu rifjárni. Blanda gulrótum saman við kál sem tekið hafði verið til hliðar og rúsínur.

Blanda heilkornapasta saman við karrýréttinn og bera fram ásamt hrásalati.

Verði ykkur að góðu

Korn

Af hverju er mælt með að velja heilkornavörur?

Í heilkornavörum eru allir hlutar kornsins nýttir. Þær geta verið úr heilum kornum (t.d. byggi) eða möluðum kornum (t.d. heilhveiti). Algengt er að neyta ýmissa korntegunda eftir að hýðið hefur verið fjarlægt og fræin þannig fínunnin. Dæmi um slíkar vörur eru hvítt hveiti, hvít hrísgrjón og hvít brauð. Við þessa vinnslu breytist áferð, bragð og aðrir eiginleikar kornsins en á sama tíma tapast mikilvæg næringarefni s.s. vítamín, steinefni og trefjar.

Heilkornavörur (ásamt baunum, linsum, grænmeti og ávöxtum) eru góðar uppsprettur trefja. Einn af kostum trefjaríks fæðis er að það meltist illa í smáþörmunum og þarf ristillinn því að hafa fyrir því að brjóta þá niður en við það myndast m.a. nytsamleg næringarefni sem stuðla að heilbrigði ristilsins. Þá hafa rannsóknir sýnt að með því að borða heilkorna og trefjaríka fæðu getur dregið úr líkum á krabbameini í ristli.  


Var efnið hjálplegt?