• Bleikar og bláar heyrúllur

Bleika slaufan

Bleika slaufan er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Októbermánuður, bleiki mánuðurinn, er tileinkaður vitundarvakningu þar sem sjónum er beint að krabbameinum hjá konum.

Bleiki dagurinn

Bleiki dagurinn er hápunktur Bleiku slaufunnar og hefur hann notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár. Þann dag eru allir landsmenn hvattir til að sýna samstöðu, klæðast bleiku og hafa bleikt í fyrirrúmi. Dagurinn er tilvalinn til hópeflis fyrir fyrirtæki eða hjá hópum og félagið hvetur til þess að fólk sendi skemmtilegar og bleikar myndir á bleikaslaufan@krabb.is sem birtar eru á Facebooksíðu Bleiku slaufunnar. Einnig er hægt að merkja myndir #bleikaslaufan á samfélagsmiðlum.

Fjáröflun Bleiku slaufunnar

Frá árinu 2007 hafa sérhannaðar slaufur verið seldar til styrktar átakinu. Í samvinnu við Félag íslenskra gullsmiða hefur verið haldin samkeppni þar sem valið er úr þeim tillögum sem berast. Bleika slaufan er seld hjá 300 söluaðilum um land allt sem selja slaufuna án endurgjalds svo að allur ágóði rennur til átaksins. Sölutímabilið er 3 vikur í upphafi október hvers árs en á því tímabili er sala slaufunnar einnig án virðisaukaskatts.

Þeir fjármunir sem safnast í átakinu renna renna ár hvert til þess þáttar sem átakið snýst um, en einnig til vísindastarfs, rannsókna, fræðslu, forvarna og til ráðgjafar og stuðnings. Einnig hefur verið safnað fyrir tækjum til krabbameinsleitar á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. 

Í netverslun Krabbameinsfélagsins er hægt að kaupa Bleiku slaufuna og þar er einnig fjölbreytt og skemmtilegt úrval gjafavara. Allur ágóði af sölu vara rennur til Krabbameinsfélagsins.

Samstarf við fyrirtæki

Samstarf við fyrirtæki er mikilvægur þáttur í fjáröflun Bleiku slaufunnar og eru fjölmörg fyrirtæki sem hafa lagt átakinu lið árum saman og mörg fyrirtæki sem hafa jafnvel framleitt sérstakar vörur í takmörkuðu upplagi þar sem allur ágóðinn rennur til átaksins.  Kynntu þér hugmyndir að útfærslum fyrir fyrirtæki

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Krabbameinsfélagið vorið 2016 voru 85% þátttakenda líklegri til að kaupa sambærilega vöru væri hún til styrktar Bleiku slaufunni. Þau fyrirtæki sem vilja merkja vörur sínar með Bleiku slaufunni geta gert einfaldan samning um notkun vörumerkisins með því að hafa samband við kynningar- og fjáröflunardeild á bleikaslaufan@krabb.is.

Saga Bleiku slaufunnar

Fyrsta árveknisátak félagsins undir nafni Bleiku slaufunnar hér á landi var í október 2000. Það var unnið í samvinnu við Samhjálp kvenna en að frumkvæði heildverslunarinnar Artica, umboðsaðila Estée Lauder. Tæpum áratug áður hafði þetta bandaríska snyrtivörufyrirtæki farið að notað bleika slaufu sem tákn í baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Fyrstu árin var bleikri tauslaufu dreift og tekið við framlögum til stuðnings baráttunni. 

Bleika slaufan er alþjóðlegt tákn brjóstakrabbameins en frá árinu 2010 hefur athyglin beinst að öllum krabbameinum hjá konum hér á landi. Farið var að lýsa mannvirki í bleikum lit hér á landi í október 2001. Hreyfill hefur stutt átakið frá 2007 og skartað bleikum taxaljósum á leigubílum sínum. Fjöldi annarra fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga hafa tekið þátt í árveknisátaki Bleiku slaufunnar og sýnt þannig stuðning við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum.

Krabbameinsfélagið hefur frá upphafi notið velvildar almennings og fyrirtækja í formi beinna styrkja og annars fjárhagslegs stuðnings. Sá stuðningur er grundvöllur þess að félagið geti starfað.

Ekki er hægt að meta til fjár allan þann stuðning fjölda fólks og fyrirtækja sem gefið hafa vinnu sína eða veitt mikinn afslátt í gegnum tíðina við gerð og birtingu kynningar- og fræðslusefnis. Einnig má þar telja ókeypis vörur og vinninga og endurgjaldslaus afnot af tækjum og aðstöðu. Stuðningur ykkar er ómetanlegur.