© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2015-2016

Aðalfundur vegna ársins 2015 var haldinn á Ólafshúsi á Sauðárkróki í apríl 2016. Stjórnin hittist einu sinni þar að auki. Stjórn félagsins var endurkjörin á fundinum.

Starfsemi hefur verið með hefðbundnum hætti. Orlofsdvalir á Löngumýri voru studdar fjárhagslega. Félagið greiðir leigu fyrir fólk héðan sem dvelur í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða á Sjúkrahótelinu í tengslum við krabbameinsmeðferð og hafa nokkrir nýtt sér það og fengu aðstoð við það af starfsmanni. María Reykdal hefur verið með viðveru á skrifstofunni þrjá daga í viku og er alltaf með auglýstan síma. Hún hefur verið með stuðningsviðtöl í síma og á stofu og einnig nokkur sálfræðiviðtöl. 

Föstudagurinn 16. október var bleikur dagur til styrktar baráttu gegn brjóstakrabbameini um allt land.

Formaður og starfsmaður sóttu formannafund í Reykjavík í októbermanuði 2015. Ráðgert hafði verið að sá fundur yrði í Skagafirði, en ekki náðist samkomulag um fundartíma. En stjórnin hefur fullan hug á því að bjóða Krabbameinsfélagi Íslands að halda formannafund í haust í Skagafirði. Tillaga er um 8. október. Lionsklúbburinn Björk hyggst færa félaginu gjöf og verður hún afhent 7. október.

Félagið er vel statt fjárhagslega. Styrkir til einstaklinga vegna ferða og krabbameinsmeðferðar voru tæplega 700.000 kr. Félagið greiðir niður fimm viðtöl sálfræðings fyrir sjúkling og/eða aðstandanda og hafa nokkrir aðilar nýtt sér það. Félagið hefur veitt nokkra einstaklingsstyrki við sérstakar aðstæður. Minningarkort eru seld í blómabúð og á krabb.is.

Sala á smáhlutum til styrktar félaginu verður í haust eins og venja er. Þetta er mikilvæg kynning á félaginu og leið til þess að opna augu þeirra sem greinast fyrir aðstoð sem félagið veitir. Þá er þetta leið til að safna nýjum félögum.

Dalla Þórðardóttir.

Starfsemi 2014-2015

Starfsemi hefur verið talsverð. María Reykdal hefur verið með viðveru á skrifstofunni þrjá daga í viku og er alltaf með auglýstan síma. Hún hefur verið með stuðningsviðtöl í síma og á stofu og einnig nokkur sál-fræðiviðtöl.

Haldinn var einn stjórnarfundur. Félagið sendi tvo fulltrúa á aðalfund og starfsmaður fór á formannafund Krabbameinsfélagsins en formaður átti ekki heimangengt. Dugur hefur verið með samverustundir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Fyrirhugaður er aðalfundur 29. apríl 2015.

Orlofsdvalir á Löngumýri voru studdar fjárhagslega. Félagið greiðir leigu fyrir fólk héðan sem dvelur í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða á Sjúkrahótelinu í tengslum við krabbameinsmeðferð og hafa nokkrir nýtt sér það og fengu aðstoð við það af starfsmanni.  
Heilbrigðisstofnunin og Sauðárkrókskirkja voru lýst bleik í október.  
Krabbameinsfélagið greiðir niður fimm viðtöl sálfræðings fyrir sjúkling og/eða aðstandanda og hafa nokkrir aðilar nýtt sér það. Félagið hefur veitt nokkra einstaklingsstyrki við sérstakar aðstæður.

Kiwanis setti í gang mikla fjársöfnun til þess að koma af stað kembileit vegna ristilkrabbameins, þannig að einum árgangi (55 ára) í senn yrði boðið í ristilspeglun. Fjársöfnunin yrði þannig að tryggt yrði að þetta stæði til boða í 5 ár og yrði eins og verið hefur á Húsavík í bráðum 4 ár, en þar með stuðningi Lions. Til þess að þetta yrði mögulegt þurfti einnig að safna fyrir nýju ristilspeglunartæki. Þetta fór af stað í samráði við Krabbameinsfélag Skagafjarðar og hefur formaður setið nokkra fundi með Kiwanismönnum. Þetta fór einnig af stað í samráði við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Þetta tókst með miklum glæsibrag og var Heilbrigðisstofnun Norðurlands Sauðárkróki afhent mjög fullkomið ristilspeglunartæki nú í mars og reyndar einnig magaspeglunartæki ásamt þvottavél fyrir tækin. Söfnuðust alls um 19 milljónir króna fyrir tækjunum fyrir utan söfnunina fyrir átakið sjálft. Afhendingin fór fram á mikilli samkomu í Miðgarði þar sem sungu margir kórar og haldin fræðsluerindi og var í leiðinni fjáröflunarsamkoma. Skimunarátakið er nú þegar farið af stað. Söfnunin stendur undir kostnaðarhluta sjúklings en Heilbrigðisstofnunin gefur vinnuna við speglanirnar. Þetta átak og söfnun hefur vakið mikla athygli og verið gert skil á N4 og einnig í fréttum RUV. Formaður var boðinn á fund með Kiwanis og kynnti þar speglunartækin og starfsemi Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Viðruð hefur verið sú hugmynd við Kiwanisfélaga að liðsmaður þeirra komi í stjórn Krabbameinsfélagsins og því verið vel tekið en ekki enn frágengið.  

Þorsteinn Þorsteinsson. 


Var efnið hjálplegt?