Viðtal hjá lækni - Hvernig er það best nýtt?

Með undirbúningi fyrir viðtal hjá lækni aukast líkur á því að viðtalið sé gagnlegt jafnt fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein, aðstandendur þess og heilbrigðisstarfsfólk. 

„Líf fólks fer yfirleitt á hvolf þegar það greinist með krabbamein. Algengt er að fólk upplifi mikla óvissu og ótta við hvað er framundan fyrir það og þess nánustu. Plön fara úrskeiðis og við tekur tilfinningarússíbani sem ekki er auðvelt að hafa hemil á. Það næst yfirleitt ekki ró fyrr en ljóst er hvert skal haldið og hvernig,“ segir Sigrún Lillie Magnúsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Evrópsku krabbameinssamtökin (ECL- patient support working group) hafa tekið saman nokkur atriði sem geta reynst gagnleg í viðtali við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk. Krabbameinsfélagið tók þátt í verkefninu og eru punktarnir bæði út frá sjónarhorni sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Með því að styðjast við þessi atriði geta einstaklingar verið virkari í eigin krabbameinsmeðferð.

Sigrún segir að það geti oft verið erfitt fyrir fólk í þessum aðstæðum að vita hvað á að spyrja um. Allt er nýtt og viðkomandi er að gera sitt besta í að fóta sig í framandi aðstæðum.

Vidtal_1601050775590

„Setjum okkur í spor þeirra sem voru í viðtali hjá lækni en gleymdu að spyrja um mikilvæg atriði sem ætlunin var að ræða. Flestir kannast við þessar aðstæður og það getur verið erfitt að fá annan tíma fljótlega hjá lækninum.“

„Það getur líka verið erfitt að fá svör við spurningum sem fólk er að hugsa um og sumum spurningum eru hreinlega ekki til svör. Samtalið um málefnið getur samt sem áður verið afar mikilvægt og dregið verulega úr álaginu,“ segir Sigrún.

Undirbúningur fyrir viðtal

Það er alltaf betra að spyrja frekar en að velta fyrir sér ósvöruðum spurningum og hafa áhyggjur – kannski að ástæðulausu. Áður en þú ferð í viðtalið er gott að þú veltir fyrir þér hvers þú væntir af samtalinu við lækninn. Íhugaðu það og ræddu það við þína nánustu.

Fyrir viðtalið

 • Gott er að biðja maka, ættingja, vin eða einhvern sem þú treystir vel að koma með þér til læknisins. Vegna sóttvarnareglna í kjölfar Covid-19 hefur þetta ekki alltaf verið í boði en þá er hægt að hafa viðkomandi í símanum á hátalara og/eða í mynd.
 • Skrifaðu niður þær spurningar sem þú vilt fá svör við.
 • Gerðu lista yfir þau lyf og bætiefni sem þú tekur inn, þar með talið vítamín.
 • Skrifaðu niður einkenni sem þú finnur fyrir og lýstu þeim eins vel og þú getur. Taktu fram hvenær þú fórst að finna fyrir þeim og hvort eitthvað dragi úr einkennum eða auki þau. Í viðtalinu
 • Ekki hika við að biðja um að það sem rætt er sé endurtekið eða útskýrt nánar.
 • Fáðu þann sem kemur með þér, eða er í símanum, til að punkta niður það helsta sem fram kemur.
 • Hægt er að spyrja hvort taka megi viðtalið upp (til dæmis á farsíma).

Áður en viðtalinu lýkur

 • Athugaðu hvort þú hafir fengið svör við öllum spurningunum sem þú skrifaðir niður.
 • Gakktu úr skugga um að þú vitir hver næstu skref eru.
 • Spyrðu hvern þú getir haft samband við ef einhver vandamál eða spurningar koma upp.
 • Fáðu upplýsingar um áreiðanlegar vefsíður eða annað fræðsluefni varðandi sjúkdóm þinn og meðferðarmöguleika.

Eftir viðtalið

 • Geymdu það sem þú hefur skrifað niður eða gögn sem þú hefur fengið á öruggum stað ef þú skyldir þurfa að vísa í eða fara yfir þau aftur síðar.
 • Merktu tímasetningu næsta viðtals inn í dagbók eða dagatal.
 • Ræddu við þína nánustu um það sem kom fram í viðtalinu.

Þetta er viðtalið þitt, nýttu það vel!

Fleiri hafa gefið út leiðbeiningar sem geta verið hjálplegar þegar kemur að læknisheimsóknum. Landspítali gaf sem dæmi út Sjúklingaráðin 10 og Kraftur Að hverju á ég að spyrja lækninn?

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Var efnið hjálplegt?