Sól og útfjólubláir geislar

Forðast skal of mikla sól, sérstaklega skal gæta barna. Sinnið  sólarvörnum. Notið ekki ljósabekki. 

Sólargeislun samanstendur af ljósi sem við sjáum, innrauðum geislum, sem við finnum fyrir sem hita og þar að auki ósýnilegum útfjólubláum (UV) geislum. Þessi geislun frá sólinni er jörðinni og okkur mönnunum lífsnauðsynleg (til dæmis svo ljóstillífun sé möguleg).  Útfjólublá geislun með mjög stutta bylgjulengd (UVC) stöðvast  af ósonlaginu í efri hluta gufuhvolfsins en hluti útfjólublárrar geislunar með stutta bylgjulengd (UVB) og langa bylgjulengd (UVA) nær til yfirborðs jarðar. UVB-geislun er nauðsynleg fyrir myndun D-vítamíns í húð manna en hinsvegar veldur hún, ásamt UVA-geislun, húðskemmdum sem geta leitt til húðkrabbameins þegar til lengdar lætur.   

Hvers vegna er mikilvægt að forðast of mikla sól?

Sólargeislun inniheldur ósýnilega útfjólubláa geisla sem skaða húðina og geta með tímanum leitt til húðkrabbameins. Húðkrabbamein er algengasta krabbameinið um heim allan í löndum þar sem flestir íbúarnir hafa ljósa húð og tíðnin hefur aukist verulega undanfarna áratugi. Aukningin er helst talin orsakast af fatatísku sem hylur líkamann lítið, lífsstílsbreytingum sem fela í sér meiri útiveru og sókn í meiri sól og að vera í sólskini til öðlast sólbrúnan húðlit, þar með talið gervisólskini í ljósabekkjum.  

Til eru mismunandi gerðir af húðkrabbameini. Sortuæxli er upprunnið í litfrumum húðarinnar og þó að það sé sjaldgæfasta tegundin er það sú illkynjaðasta og batahorfur eru slæmar ef meinið uppgötvast seint. Tvær helstu gerðir húðkrabbameins aðrar en sortuæxli eru grunnfrumukrabbamein og flöguþekjukrabbamein. Grunnfrumukrabbamein er algengasta krabbameinið um heim allan í fólki með ljósa húð. Sjaldgæft er að það dreifi sér og myndi meinvörp en það getur birst á óvörðu húðsvæði eins og í andlitinu. Flöguþekjukrabbamein er sjaldgæfara en getur reynst banvænt hafi meinið náð að dreifa sér áður en það uppgötvast. Útfjólublá geislun hefur margs konar neikvæð áhrif á húðina og þau sem koma fyrst fram eru sólbrúnka og sólbruni. 

Hversu mikil sólargeislun telst of mikil?

Öll sólargeislun skaðar húð sem er óvarin fyrir henni. Líkaminn er oftast fær um að gera við skaðann en eftir því sem skaðinn er meiri er þó erfiðara að bæta hann.
Vandasamt er að skilgreina nákvæmlega hve mikil sólargeislun er of mikil, þar sem það fer eftir persónulegum eiginleikum eins og húðgerð, styrk sólar og staðsetningu (útfjólubláum stuðli = UV-stuðli). Skaðinn eykst eftir því sem dvalið er lengur í sólinni og er alvarlegri ef dvalið er í sólinni þegar hún er sterkust, eins og í kringum hádegi, á heitasta tíma dagsins, til dæmis milli kl. 11:00 og 15:00, og á sumrin. Til dæmis brennur einstaklingur með húðgerð 1 eða 2 eftir 10–15 mínútna dvöl í sólskini þar sem UV- stuðullinn er 6 en sá sólarstyrkur næst auðveldlega um hádegisbil að vori og á sumrin í mörgum löndum en er þó ekki svo mikill á Íslandi.  

Ef dvalið er úti í sól ætti að verja þá hluta líkamans sem oftast eru óvarðir fyrir geislun, eins og andlit, háls og hendur. Sólbruni er augljóst merki um að viðkomandi hafi dvalið of lengi óvarin(n) í sólinni og hann telst skaðlegur. Aftur á móti er einnig möguleiki á of mikilli geislun áður en húð hefur brunnið. Tíðir sólbrunar, einkum á barns- og unglingsaldri, tengjast verulegri aukningu á húðkrabbameini síðar á ævinni. Öll útfjólublá geislun, óháð aldri, eykur einnig hættu á húðkrabbameini.  

Hvers vegna er sérlega mikilvægt að börn og unglingar séu vernduð fyrir of mikilli sól?

Það er mikilvægt fyrir fólk á öllum aldri að forðast of mikla sól. Því fyrr á ævinni sem húð brennur, því meiri tími gefst fyrir skemmdir að hlaðast upp í henni. Stofnfrumur í efra lagi barnshúðar eru einnig nær yfirborði húðarinnar en hjá fullorðnum og þar sem stofnfrumurnar eru þær frumur sem geta orðið að húðkrabbameini gerir þetta börn viðkvæmari fyrir útfjólublárri geislun en fullorðna. Enn fremur vaxa vefir og þroskast hratt í börnum og unglingum og af þeim sökum eru frumur í ungu fólki varnarlausari gegn skaða af völdum sólar. Fullorðnir, ekki síst foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir, ættu að hjálpa börnum að forðast of mikla sól. Mælt er með að börn á fyrsta ári séu alls ekki í beinu sólarljósi og þess má gæta til dæmis með því að skýla þeim þegar þau eru úti. 

Er til holl sólbrúnka?

Þegar húðin verður sólbrún er þar að verki varnarviðbragð húðarinnar gegn skemmdum af völdum útfjólublárrar geislunar sólar eða öflugra ljósabekkja. Þess vegna er sólbrúnka merki um húðskemmdir og holl sólbrúnka er ekki til. Ef dvalið er í sterku sólskini í langan tíma er sólbruni óumflýjanlegur fyrr eða síðar. 
Sólskin veldur einnig fæðingarblettum og freknum og með tímanum öldrun húðar. Ef húðin eldist vegna þess að hún hefur verið óvarin fyrir útfjólublárri geislun þykknar hún og tapar teygjanleika sínum hraðar en ella, elliblettir geta komið fram og breytingar á húðlit, svo sem upplitun, en einnig hrukkur, stækkaðar eða útvíkkaðar háræðar í húðinni og húðkrabbamein.  

Hvenær er sólin sterkust?

Hversu mikið af útfjólublárri geislun berst til jarðar frá sólinni og þar með hver UV-stuðullinn er í rauntíma, fer eftir ýmsum þáttum. Þar eru þýðingarmestir tími dags og árstíð. Útfjólublá geislun er oftast sterkust í nokkra klukkutíma í kringum hádegið en veikari snemma morguns og seinni hluta dags og á kvöldin (sjá mynd 1).

 

Mynd 1: Sólarsnið yfir sólarhringinn (heimild: Courtesy of Ameco Solar at solarexpert.com)

 

Styrkursolar

Á sumrin berast um 20–30% af heildardagsskammti útfjólublárrar geislunar til jarðar milli klukkan 11:00 og 13:00 og 75% milli kl. 9:00 og 15:00 (sólartími, ekki staðartími). (innskot: Í Reykjavík er sól í hádegisstað um kl. 13.25).

Árstíðabundnar sveiflur í útfjólublárri geislun sem nær yfirborði jarðar eru töluverðar í tempraða loftslagsbeltinu en mun minni á svæðum nær miðbaug. 
Aðrir mikilvægir þættir sem hafa áhrif á styrk útfjólublárrar geislunar sem nær yfirborði jarðar eru:

  • Breiddargráða. Árleg útfjólublá geislun er minni eftir því sem fjær dregur frá miðbaug.
  • Hæð yfir sjávarmáli. Almennt aukast sólbrunaáhrifin um 4% fyrir hverja 300 metra hæðaraukningu.
  • Endurkast af yfirborði jarðar, til dæmis frá snjó og vatni. Snjór endurkastar allt að 85% af útfjólublárri geislun og vatn um 5–10%. Útfjólublá geislun sem endurkastast getur skaðað húðina jafnmikið og bein útfjólublá geislun.
  • Ský, hversu mikið skýjahula dregur úr þeirri útfjólubláu geislun sem nær yfirborði jarðar fer eftir þykkt, þéttleika og lögun skýjanna.
  • Loftmengun. Á sama hátt og skýjahula gerir, breytir loftmengun í þéttbýli því hversu mikið af útfjólublárri geislun nær yfirborði jarðar hverju sinni. 

Er öruggt að dvelja utandyra í skýjuðu veðri eða undir sólhlíf í sólskini?

Hætta er á að sólbrenna utandyra jafnvel þótt veðrið sé skýjað eða þoka hylji sólina, því allt að 80% af útfjólublárri geislun berast í gegnum ský eða móðu. Sólhlíf sem er notuð á ströndinni hindrar 40–50% af útfjólublárri geislun. Afgangurinn lendir á húðinni eftir að hafa farið í gegnum sólhlífina eða endurkastast af sandinum.

 

Hvað er útfjólublár stuðull (ÚF-stuðull)?

 

Alþjóðlegi UV-stuðullinn er mælikvarði á mælt eða áætlað magn eða styrk af útfjólublárri geislun frá sólinni á tilteknum stað á tilteknum degi. Í mörgum löndum er greint frá honum í daglegum veðurspám, einkum á sumrin, til að upplýsa almenning um hversu sterk sólin sé og hversu mikla sólarvörn sé nauðsynlegt að nota. Margar veðurspár á veraldarvefnum innihalda upplýsingar um UV-stuðulinn.  Á mynd 2 eru gildi UV-stuðuls útskýrð og viðeigandi ráð gefin til að vita til hvaða ráðstafana skuli grípa svo að sólarvörn verði fullnægjandi. 

 

Mynd 2: ÚF stuðull (Heimild: Afritað með leyfi frá útgefanda, Alþjóðlegur ÚF-stuðull: Hagnýtur leiðarvísir.  A joint recommendation of the World Health Organization, World Meteorologal Organization, United Nations Environment Programme, and the International Commission on Non-Ionizing Radiation Protection. Geneva, World Health Organization, 2002 (Cover and Fig. 2, Page 8; accessed 10 March 2014).

Uv-studull-skyringarmynd

Er sumt fólk í aukinni hættu í sól? Skiptir húð-, hár- og augnlitur máli?

Já. Ljós húð brennur hraðar í sólinni en dekkri húð. Eftir því sem húð er viðkvæmari fyrir sól, þeim mun mikilvægara er að vernda hana fyrir skaðlegum áhrifum sólar. Húð manna er oftast flokkuð í sex mismunandi gerðir. Húðgerð er eiginleiki sem segir til um hversu viðkvæm húðin er fyrir útfjólublárri geislun sólar.

Á mynd 3 má sjá húðgerðunum sex raðað frá þeirri viðkvæmustu til þeirrar þolnustu fyrir sól. Einnig eru tilgreindir helstu eiginleikarnir sem flokkað er eftir.

 

Mynd 3: Tafla yfir húðgerðir.

Húðgerðir   Húðlitur  UV næmi  Skýring  Hætta á húðkrabbameini
 Húðgerð 1 Mjög ljós eða hvít  húð, ljóst eða rautt hár, oft freknur
 ++++
Húðin brennur mjög auðveldlega og tekur aldrei eða afar sjaldan lit Mest hætta á húðkrabbameini
 Húðgerð 2 Ljós eða hvít húð, ljóst hár, blá eða brún augu. Sumir með dökkt hár
+++

Húðin brennur auðveldlega og tekur lit mjög hægt

Mikil hætta á húðkrabbameini
 Húðgerð 3 Ljósbrún húð, dökkt hár, brún eða græn augu  ++
Húðin brennur ekki auðveldlega og tekur lit

Mikil hætta á húðkrabbameini
 Húðgerð 4 Miðlungsbrún húð, brún augu og dökkt hár
+
Húðin brennur nánast aldrei og tekur auðveldlega lit. (Miðjarðarhafs/suðurevrópsk húðgerð)
Hætta á húðkrabbameini
 Húðgerð 5 Dökkbrún húð, brún augu og dökkt hár.  

+/–

Húðin brennur aldrei og er dekkri á lit frá náttúrunnar hendi (asískar húðgerðir)
Húðkrabbamein sjaldgæft en uppgötvast oft ekki fyrr en það er komið á hættulegt stig.
 Húðgerð 6 Mjög dökkbrún eða svört húð, dökkbrún augu og svart hár.


Húðin brennur aldrei og er dökk á lit frá náttúrunnar hendi (svartar húðgerðir)
Húðkrabbamein sjaldgæft en uppgötvast oft ekki fyrr en það er komið á hættulegt stig.

Fleiri mikilvæg einkenni sem tengjast aukinni hættu á húðkrabbameini eru:

  • Fjöldi fæðingarbletta á húðinni, þar sem mikill fjöldi gefur til kynna meiri hættu á að fá sortuæxli, og einnig fæðingarblettir sem eru óvenjulegir í útliti.
  • Fjölskyldusaga um húðkrabbamein, einkum hjá nánum ættingjum. 
  • Húð sem hefur þegar skaðast vegna þess að fólk hefur verið of mikið í útfjólubláu ljósi og húð með elliblettum sem hefur tapað teygjanleika sínum og er mjög hrukkótt.
  • Ónæmisbæling með lyfjum sem bæla starfsemi ónæmiskerfisins til að koma í veg fyrir að

Útivera er ánægjuleg og heilsusamleg, ferskt loft og líkamshreyfing gerir öllum gott. Aftur á móti gerir útivera húðina einnig viðkvæma fyrir útfjólublárri geislun. Því er mikilvægt að verja hana á meðan á allri útiveru, störfum og leik utandyra stendur, eins og við íþróttaiðkun, garðvinnu, hjólreiðar, göngur, sólböð, sund og svo framvegis. Besta leiðin til að vernda húðina er að forðast sterkt beint sólarljós, einkum yfir sumarmánuðina og milli klukkan 11:00 og 15:00 á daginn, og halda sig helst í skugga. Ef farið er út í sólarljós er besta vörnin að klæðast léttum fatnaði með síðum ermum og vera með barðastóran hatt. Föt úr þéttofnum efnum veita bestu vörnina. Sólgleraugu með útfjólubláu hlífðarlagi verja augun gegn skaðlegum áhrifum sólarljóss.

Sólarvörn er ekki hugsuð til þess að fólk geti verið lengur í sól, heldur til að vernda húðina þegar ekki er hægt að komast hjá því að verða fyrir beinu sólskini. Oft notar fólk minna af sólarvörn en nauðsynlegt er til að hún veiti góða vörn og ber of sjaldan á sig aftur en of lítil notkun sólarvarnar dregur úr sólarvarnarstuðlinum sem fullyrt er utan á umbúðunum að varan veiti. Ekki á að lengja viðveru í sól þegar sólarvörn er notuð, þar sem þá hverfur verndin gegn húðkrabbameini sem hún veitir! Almennt er ráðlagt að nota sólarvörn með að minnsta kosti sólarvarnarstuðli 30 fyrir hversdagslega útiveru en jafnvel hærri í fríum á sólarströnd. Talið er að sólarvarnir séu áhrifaríkastar ef þykkt lag af þeim er borið á húðina 15–30 mínútum áður en farið er út í sólina og síðan aftur 30–60 mínútum síðar. 

Mikilvægt er að bera þykkt lag af sólarvörn á alla húðina, til dæmis má ekki gleyma eyrunum. Æskilegt er að bera sólarvörn á húðina á tveggja tíma fresti þar sem virku efnin sem verja gegn sólbruna missa virkni sína í sólskini og virknin dvínar einnig með tímanum. Enn fremur þurrka föt, handklæði og sviti hluta af sólarvörninni af húðinni. Einnig þarf að bera vörn á aftur eftir að hafa svitnað eða synt, jafnvel þótt vatnsheldar tegundir séu notaðar. Loks ber að gæta að því hvenær sólarvörnin rennur út.

Þarf fólk sem starfar utandyra að vernda sig gegn sólinni?

Já. Fólk sem vinnur utandyra er almennt óvarið gegn sólinni tímunum saman allan ársins hring, til dæmis byggingarverkamenn og bændur. Fólk í slíkum störfum þarf því að vernda sig með því að klæðast fatnaði sem hylur húðina vel, bera vel á sig af viðeigandi sólarvörn og hafa aðgang að skugga á vinnusvæðum ef hægt er.   
Vegna þess hve óvarið fólk sem vinnur utandyra er fyrir sólinni er það í meiri hættu en aðrir á að fá húðkrabbamein önnur en sortuæxli. Sum tilfelli af húðkrabbameini mætti þannig skilgreina sem atvinnusjúkdóm.

Hvers vegna ætti ekki að nota ljósabekki?

Ljósabekkir eru tæki sem gefa frá sér útfjólubláa geislun. Þessi geislun hefur sömu skaðlegu áhrif á húð manna og náttúrulegt sólarljós og þar sem hún er óþörf ætti að forðast ljósabekki. Að fara í sólbað í ljósabekk veitir húðinni ekki betri grunn fyrir viðbótarsólböð og það er ekki til nein holl leið til að öðlast sólbrúnku. Notkun ljósabekkja til að auka magn D-vítamíns í líkamanum er óþörf og ekki er mælt með að slíkt sé gert. Sams konar geislun og dekkir húðina eykur hættu á húðkrabbameini og skaðar húðina á alla þá vegu sem áður hefur verið lýst.

Sumt fólk telur að notkun ljósabekkja styðji við meðferð við skammdegisþunglyndi en hægt er að fá slíka meðferð á mun öruggari hátt með því að nota frekar sóllampa sem gefa ekki frá sér varhugaverða útfjólubláa geisla heldur skært en skaðlaust sýnilegt ljós.
Einstaklingar sem þarfnast útfjólublárrar geislunar í lækningaskyni ættu að fá meðferð undir ströngu lækniseftirliti, til dæmis á sjúkrahúsi. Ljósabekkir eru stundum markaðssettir sem meðferðarúrræði við ýmiss konar kvillum og sjúkdómum, eins og taugaskinnþrota (neurodermatitis), gelgjubólum, háþrýstingi eða til að bæta ónæmisviðbrögð líkamans. Öll notkun ljósabekkja í lækningaskyni skyldi þó ávallt vera fyrirskipuð af og framkvæmd undir eftirliti læknis. 

Ef fólk forðast sólina um of er þá hætta á að það fái D-vítamínskort?

D-vítamín er mikilvægt en almennt dugar stutt útivera til að koma í veg fyrir skortseinkenni. Heilbrigt fólk sem fer út úr húsi reglulega myndar nægilegt D-vítamín til að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að forðast of mikla sól. 
D-vítamín er framleitt í húðinni þegar sólarljós fellur á hana og það er nauðsynlegt til að viðhalda sterkum beinum og tönnum. Hugsanlegt er að það hafi einnig önnur jákvæð áhrif á heilsuna, eins og að bæta heilsu hjarta og æða, lækka blóðþrýsting og draga úr hættu á nokkrum krabbameinstegundum.  

D-vítamín myndast mjög hratt í húðinni þegar sólarljós fellur á hana og ekki þarf að fá aukaskammt af geislun til að viðhalda nægilegu D-vítamíni. Til dæmis myndast oftast nægilegt D-vítamín við daglega útiveru í 10–15 mínútur í hádeginu á vorin og sumrin ef viðkomandi er með óvarið andlit og handleggi. Með því að fara eftir ráðleggingum um að forðast of mikla sól og nota ekki ljósabekki er tryggt að húðin sé varin gegn of miklum skemmdum án þess að D-vítamínskortur þróist. Á veturna eða í mikilli hæð yfir sjávarmáli má dvelja lengur utandyra en gæta verður að UV-stuðlinum. Á veturna er einnig skynsamlegt að velja D-vítamínríkara fæði, til dæmis lýsi, feitan fisk, eggjarauður og innmat eins og lifur. Notkun ljósabekkja til að auka D-vítamín er óþörf og eindregið ráðlagt gegn henni vegna tengsla hennar við aukna hættu á húðkrabbameini. Ef óskað er eftir fleiri ráðum varðandi hugsanlegan D-vítamínskort ber að leita til læknis. Ef D-vítamínskortur er kominn fram er ráðlagt að biðja lækni um úrræði, til dæmis D-vítamínbætiefni eða önnur meðferðarráð.    

 

 Apríl 2018

 


Var efnið hjálplegt?