Lög félagsins

Lög Krabbameinsfélags Íslands 8. september 2017

1. gr. Nafn og skilgreining.

Félagið heitir Krabbameinsfélag Íslands. Aðild að því eiga krabbameinsfélög í landinu og önnur áhugamannasamtök sem starfa í samræmi við tilgang félagsins og hlotið hafa samþykki stjórnar þess og staðfestingu aðalfundar.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur.

Tilgangur félagsins er að styðja og efla í hvívetna baráttuna gegn krabbameini, svo sem með því að:

  1. Beita sér fyrir virkri opinberri stefnu (krabbameinsáætlun) í forvörnum, greiningu, meðferð og endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein.
  2. Stuðla að þekkingu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir.
  3. Efla krabbameinsrannsóknir, m.a. með söfnun og vísindalegri úrvinnslu upplýsinga og með rekstri vísindasjóðs.
  4. Beita sér fyrir leit að krabbameini á byrjunarstigi.
  5. Styðja framfarir í meðferð krabbameins og umönnun krabbameinssjúklinga.
  6. Beita sér fyrir stuðningi við krabbameinssjúklinga og aðstandendur.
  7. Vera málsvari krabbameinssjúklinga og beita sér fyrir réttindum þeirra.

3. gr. Stjórnun.

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar, sem haldinn skal fyrir maílok ár hvert. Boða skal til hans bréflega með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
 
Á árlegum aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið starfsár.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
3. Skýrslur aðildarfélaga.
4. Lagabreytingar.
5. Stjórnarkjör.
6. Tveir endurskoðendur kosnir og einn til vara.
7. Fimm menn kosnir í uppstillingarnefnd.
8. Önnur mál.
 
Hverju starfandi aðildarfélagi er heimilt að senda einn fulltrúa á aðalfund fyrir hverja 200 félagsmenn, eða brot úr þeim fjölda, þó aldrei fleiri en sex fulltrúa. Jafnframt hafa stjórnarmenn Krabbameinsfélags Íslands fulltrúarétt á aðalfundi.
 
Aukaaðalfundur er boðaður ef stjórn telur það nauðsynlegt eða ef aðildarfélög sem eiga rétt til a.m.k. eins fjórða hluta fulltrúa á árlegum aðalfundi senda stjórn rökstudda beiðni um slíkt. Aukaaðalfundur er boðaður með dagskrá á sama hátt og árlegur aðalfundur og sömu reglur gilda um fulltrúa. Aukaaðalfund skal halda ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að skrifleg beiðni um hann hefur borist.
 
Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin er skipuð sjö aðalmönnum og tveimur til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Árlega skal kjósa þrjá meðstjórnendur til tveggja ára og tvo til vara til eins árs í senn. Við skipan stjórnar skal þess gætt að fulltrúar séu bæði frá svæðafélögum og stuðningshópum. Miðað er við að stjórnarmenn sitji að jafnaði eigi lengur en fjögur kjörtímabil í senn. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund kýs stjórnin úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera.
 
Formaður boðar til stjórnarfunda að jafnaði mánaðarlega. Stjórnarfund skal kalla saman ef þrír stjórnar­menn eða fleiri óska þess.
 
Formannafundur skal að jafnaði haldinn í október. Þar skulu kynnt þau málefni sem unnið er að á vegum félagsins á hverjum tíma. Stjórn skal taka ályktanir formannafundar til umræðu á næsta stjórnarfundi eftir formannafund.

4. gr. Rekstur.

 

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á rekstri félagsins gagnvart stjórninni, samkvæmt starfslýsingu.

Stjórnin setur reglur um starfsemi félagsins.

Stjórn er heimilt að stofna til sjálfstæðra starfseininga innan félagsins um afmarkaða þætti starfseminnar. Stjórn er heimilt er að skipa sérstakar stjórnir fyrir slíkar starfseiningar. Ákveði stjórn að stofna slíka starfseiningu ber henni að setja einingunni sérstakar reglur.

5. gr. Fjármál.

 

Aðildarfélög skulu hafa samráð við stjórn áður en stofnað er til meiri háttar fjáröflunar.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.
 

Krabbameinsfélag Íslands skal eiga varasjóð. Varasjóði Krabbameinsfélags Íslands er ætlað:

a) Að mæta hugsanlegum samdrætti í tekjum.

b) Að vera tryggingarsjóður vegna áfalla sem félagið kann að verða fyrir.

c) Að fjármagna viðamikil verkefni sem aðalfundur ákveður.

Fé er lagt í varasjóð í samræmi við samþykktir aðalfundar. Varasjóð skal byggja upp að því marki að upphæð hans nemi um það bil kostnaði við starfsemi félagsins, sem ekki er samkvæmt samningum við opinbera aðila, í 12 mánuði. Þar til því marki er náð skal ávöxtun varasjóðs bætt við höfuðstól hans. Ráðstöfun fjár úr varasjóði er aðeins heimil með samþykki aðalfundar. Veðsetning varasjóðs, eða lántaka úr honum til skemmri eða lengri tíma, er óheimil nema með samþykki aðalfundar. Varasjóður skal varðveittur í banka og/eða hjá löggiltu verðbréfafyrirtæki. Meginstefna við vörslu hans skal vera öryggi frekar en há ávöxtun.

6. gr. Lagabreytingar.

 

Tillögur um lagabreytingar skulu sendar formanni minnst tveimur mánuðum fyrir aðalfund. Skulu þær kynntar í fundarboði.

Til breytinga á lögum félagsins þarf 3/5 greiddra atkvæða á aðalfundi.

Aldrei má breyta lögunum þannig að raskað sé megintilgangi félagsins skv. 2. grein.

7. gr. Félagsslit.

 

Til að leggja félagið niður þarf samþykki tveggja aðalfunda í röð og séu félagsslitin samþykkt með a.m.k. 4/5 greiddra atkvæða á hvorum fundi. Geta skal sérstaklega áforms um félagsslit í fundarboði.
 
Verði félagið lagt niður skal eignum þess ráðstafað til líknarstarfa í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Því ákvæði má aldrei breyta.
 
Lögin í heild voru samþykkt á aðalfundi 6. maí 2000, breyting á 3. grein (uppstillingarnefnd) á aðalfundi 3. maí 2003 breyting á 2. grein (vísindasjóður) og 3. grein (formannafundur) á aðalfundi 7. maí 2005 og breyting á 2. gr. (1., 6. og 7. töluliður) á aðalfundi 7. maí 2011. Á aðalfundi 6. maí 2017 voru samþykktar breytingar á 3. grein (aukaaðalfundur o.fl.), 4. gr. (framkvæmdastjóri og sjálfstæðar starfeiningar) og 5. gr. (varasjóður). Var efnið hjálplegt?