© Mats Wibe Lund

Krabbavörn Vestmannaeyjum

Félagið Krabbavörn í Vestmannaeyjum hefur það hlutverk að styðja við einstaklinga sem greinast með krabbamein í Vestmanneyjum og aðstandendur þeirra. Það stuðlar að fræðslu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir, eflir krabbameinsrannsóknir, beitir sér fyrir leit að krabbameini á byrjunarstigi, styður framfarir í meðferð krabbameina og umönnun krabbameinssjúklinga.

Starfsemi 2019

Frá síðasta aðalfundi hefur stjórn Krabbavarnar í Vestmannaeyjum verið þannig skipuð: Sigurbjörg formaður, Guðný varaformaður, Ingibjörg ritari, gjaldkeri Sigríður og meðstjórnendur eru Kristín og Olga.

Í upphafi árs 2019 voru félagsmenn um 350 en í janúar 2020 voru þeir 505 eða um 44% fjölgun sem er sögulegt met sem við teljum að kom til vegna gjafar frá Guðmundi Karli Jónassyni sem lést á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum 2. júlí síðastliðinn en hann arfleiddi Krabbavörn að öllum eigum sínum eftir sinn dag og var mikil umfjöllun í um það og ýtti það við mörgum.

Krabbavörn Vestmannaeyjar er grasrótasamtök sem vinna þarft verk og nýtur starfið velvildar og þakklæti í samfélagi Vestmannaeyja.

Við erum afar þakklát öllum þeim sem hjálpa okkur við að efla og styrkja starfsemina með einum eða öðrum hætti. Með þessum styrkjum getur félagsmaður sem greinst hefur með krabbamein leitað eftir stuðningi til félagsins. 30 einstaklingar hafa fengið styrk frá félaginu á einhvern hátt á síðasta starfsári.

Ýmsar uppákomur okkur til heilla voru á starfsárinu, vil ég þar nefna Bjóruppboð sem var á sjómannadaginn, allur ágóði rann til okkar, sem var ca. ein milljón.

Marsmánuður var mánuður skeggfánananna en þeir blöktu við mörg fyrirtæki til að minna okkur á að karlmenn fá líka krabbamein, miðbærinn var einnig fallega skreyttur, verslanir skreyttu búðargluggana hjá sér með skeggblöðrum og borðum sem gerði þetta allt svo áþreifanlegra og fallegra.

Árið 2019 var gert enn betur til að minna okkur á strákana en Sigurbjörg formaður Krabbavarnar og Viðar sóknaprestur okkar Eyjamanna voru með Pound leikfimi, það kostaði 2000 inn og rann sú fjárhæð sem safnaðist óskert til félagsins, en Poundið fór fram Agóges sem leigði okkur húsnæðið okkur að kostnaðarlausu… þess má geta að Pound er trommuleikfimi sem er hrikalega skemmtileg J

Mig langar að koma því að hér að í ár verða tónleikar 11. Mars kl. 20:30 fram koma stór hluti af af okkar perlum í tónlistinni.

Sjö tinda gangan er einn fastur liður hjá eyjaskeggjum um Jónsmessu og er alltaf mjög góð þátttaka, sú ganga veitir okkur einnig fjárstyrk.

Bleikur október var fyrirferðamikill hjá okkur og var verið að undirbúa hann allt árið víða um bæinn en við fórum af stað með skemmtilegt verkefni þar sem við buðum konum að aðstoða okkur að prjóna eða hekla bleikar tuskur sem við seldum svo á Bleika deginum. Þetta verkefni fór fram úr okkar björtustu vonum og söfnuðust 600 fallegar tuskur sem seldust allar. Við skreyttum miðbæinn okkar, verslanir skreyttu í kringum sig og voru með verslanir með kvöldopnun, við vorum með bás í miðbænum þar sem tuskurnar voru seldar og buðum upp á kakó og piparkökur í dásamlegu veðri.

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna héldu Bleikan handboltaleik og þar léku þær í bleikum sokkum og allur ágóðu af innkomu leiksins rann til félagsins, en þess má geta að leikmenn beggja liða og dómarar borguðu sig inn á leikinn. Frábært framtak hjá stelpunum okkar. Bleikur jóga nidra tími var einnig haldinn þar sem ágóðinn rann einnig til félagsins.

Áramótaganga sem er orðinn stór þáttur af jólahaldi Eyjamanna en þar greiðir fólk gjald til að taka þátt í göngunni sem rennur til Krabbavarnar.

Formannafundur var haldinn á Akureyri 20.09.2019, það var virkilega gaman að koma í höfuðstöðvar KAON frábærar móttökur þar sem Halldóra kynnti starfsemi KAON, farið var yfir fréttir frá aðildarfélögum og stuðningshópum. Halla Framkvæmdarstjóri KÍ fór yfir tarfsemi í Skógarhliðinni.

Ásthildur bæjarstjóri Akureyrar kom á fundinn og ræddi um fyrstu heimsókn sína í húsnæði KAON og að hún hafi upplifað af eigin skinni mikilvægi félagsins, og árétti hversu mikilvægt starfsemi krabbameinsfélaganna er.

Þessi orð Ásthildar um mikilvægi starfsemi krabbameinsfélaganna eiga svo sannalega við.

Við hjá Krabbavörn erum einstaklega þakklát öllum þeim sem hugsa til okkar og leggja félaginu okkar lið, það er félaginu dýrmætt og geri okkur kleift að styðja og styrkja félagsmenn.

 

Starfsemi 2018

Frá síðasta aðalfundi hefur stjórn Krabbavarnar í Vestmannaeyjum verið þannig skipuð: Sigurbjörg formaður, Guðný varaformaður, Ingibjörg ritari, gjaldkeri Sigríður og meðstjórnendur eru Kristín og Hrafnhildur

Í Krabbavörn eru 350 félagar og er ársgjaldið ekki hátt eða 2.500 á ári. Krabbavörn eru samtök sem hafa það hlutverk að styðja þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Félagið er rekið með styrkjum frá velunnurum félagsins sem er okkur ómetanlegt og þökkum við fyrir þann hlýhug.

Grasrótarsamtök eins og Krabbavörn þurfa að vera í stöðugri endurskoðun til þess að starfsemi félagsins staðni ekki, t.d með því að endurnýja stjórn með reglulegum hætti. Engar reglur eru til um það hversu lengi stjórnaseta er hjá félaginu og þyrfti að skoða það.

Þegar félagsmaður greinist með krabbamein getur hann sótt til félagsins ferðastyrk en við greiðum 25.000 fyrir hverja ferð ásamt því að við greiðum fyrir leigu á íbúðum við Rauðarárstíg og einnig fyrir sjúkrahótel. 27 einstaklingar hafa fengið styrk frá félaginu á einhvern hátt á síðasta starfsári.

Ýmsar uppákomur okkur til heilla voru á starfsárinu, vil ég þar nefna áramótagönguna sem er orðinn stór þáttur af jólahaldi Eyjamanna en þar greiðir fólk gjald til að taka þátt í göngunni sem rennur til Krabbavarnar. Marsmánuður var mánuður skeggfánananna en þeir blöktu við mörg fyrirtæki til að minna okkur á að karlmenn fá líka krabbamein. Í ár ætlum við að gera betur, Viðar prestur ætlar að vera með Pound leikfimi n.k laugardag eða 9. mars kl 12:30 það kostar 2000 inn og rennur sú fjárhæð sem safnast óskert til félagsins en Poundið fer fram í Agóges sem leigir okkur húsnæðið að kostnaðarlausu og að sjálfsögðu hvetjum við alla til að mæta.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands var 5. maí, aukaformannafundur var fyrsta mál á dagskrá þar sem reglur um ráðstöfun framlaga Velunnara Krabbameinsfélags Íslands voru til umfjöllunar einnig var kynning á starfsemi Krabbameinsfélags Íslands í tölum, máli og myndum ásamt hefðbundnum fundarstörfum

Sjö tinda gangan er einn fastur liður hjá eyjaskeggjum um Jónsmessu og er alltaf mjög góð þátttaka, sú ganga veitir okkur einnig fjárstyrk.

Haustsalan hefur ávalt gengið vonum framar og erum við þakklátar fyrir það.

Aukaaðalfundur Krabbameinsfélags Íslands sem var haldinn sunnudaginn 16. september, í Skógarhlíð 8. Og í framhaldi af honum var formannafundurinn haldinn

Tilefni aukaaðalfundarins var erindi sem Krabbameinsfélag Íslands sendi velferðarráðuneyti og svar ráðuneytisins við erindinu auk tillagna stjórnar félagsins. (öll gögn þar af lútandi eru trúnaðarmál)

Í október var bærinn með bleikum ljóma, fánar með bleikri slaufu blöktu á hún til að minna okkur á að lífið getur tekið U beygju. Bleikt kvöld var hjá verslunum og rann hluti sölunnar frá ýmsum fyrirtækjum til Krabbavarnar.

Það að greinast með krabbamein er mikið áfall, bæði fyrir þann sem greinist og ekki síður fyrir fjölskyldu og aðstandendur. Veikindaferlið tekur oft mikið á, á margan og ólíkan hátt.

Verkefninu er ekki endilega lokið þó sjúkdómurinn hafi læknast. Við höfum ítrekað séð hversu mikilvægt það er fyrir einstaklinga að geta leitað til okkar, til að fá stuðning og styrk í slíkum aðstæðum bæði félagslega og fjárhaglega. Þess vegna skiptir miklu máli að við eflum starfsemi okkar og hvetjum þá sem næstir okkur eru til að ganga í félagið til að efla það.

Það að vera félagsmaður í góðgerðarfélagi eins og Krabbavörn gefur okkur trú á samfélagið, trú á að við getum hjálpað þeim sem eiga um sárt að binda.

Krabbavörn í Vestmannaeyjum er gott og öflugt félag að leita til og erum við stolt af því.

Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir


Var efnið hjálplegt?