© Mats Wibe Lund

Krabbavörn Vestmannaeyjum

Félagið Krabbavörn í Vestmannaeyjum hefur það hlutverk að styðja við einstaklinga sem greinast með krabbamein í Vestmanneyjum og aðstandendur þeirra. Það stuðlar að fræðslu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir, eflir krabbameinsrannsóknir, beitir sér fyrir leit að krabbameini á byrjunarstigi, styður framfarir í meðferð krabbameina og umönnun krabbameinssjúklinga.

Starfsemi 2016-2017

Ég tók við sem formaður Krabbavarnar haustið 2003 og ætlaði að vera eitt ár en er búin að vera þrettán og hálft ár þegar ég en hætti núna í vor. Þegar ég tók við félaginu var það við að lognast út af en með hjálp góðra kvenna náðum við að hressa það við og rákum það á persónulegum nótum. Fórum heim til fólks og töluðum við það í síma. Tilgangur félagsins er að styrkja og styðja þetta fólk. 

Það eru alltaf einhverjir sem þurfa á aðstoð að halda, þess vegna er svo gott að hittast einu sinni í viku nema á sumrin og um jólin, alls 42 sinnum á ári. Síðan við breyttum í kaffihitting hefur aðsóknin aukist.
Í Krabbavörn eru rúmlega 280 félagar sem greiða 2.500 kr. í árgjald. Félagið greiðir sjúklingum 25.000 kr. í styrk fyrir hverja ferð suður og svo greiðum við leigu á íbúðunum við Rauðarárstíg. 250 þús. kr. er jarðarfararstyrkur. Við höfum styrkt 27 einstaklinga á árinu. Þá höfum við gefið 500 þúsund krónur í fimm ár á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands til viðhalds á íbúðunum en þær eru mikið notaðar af okkar fólki. 

Áramótargangan er alltaf á gamlársdagsmorgun og endað í súpu hjá Einsa kalda sem hann gefur okkur. Mars er mánuður karlanna og flöggum við skeggfánum út um allan bæ til að minna þá á að fara í skoðun.
Karólína Kristín fór fyrir okkar hönd á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands í maí 2016. Sjö tinda gangan var um Jónsmessu og mjög góð þátttaka. Haustsalan gekk mjög vel enda mikill munur að hafa sölustjóra. Formannafundur var á Bakkaflöt í Skagafirði. Tókum við okkur þrjár saman og keyrðum norður frá Landeyjarhöfn. 

Í október var bærinn meira og minna lýstur bleikur. Fánar með bleikri slaufu blöktu víða allir voru tilbúnir að minna á Krabbavörn. Bleikur dagur var á landsvísu 14. október og Einsi kaldi bauð okkur í súpu. Bleikt kvöld var í verslunum bæjarins 27. október og mjög gaman og hluti af sölunni rann til okkar. Þakkarbréf voru send til þeirra sem með einum eða öðrum hætti hafa styrkt okkar starf en við finnum velvilja og góðvild alls staðar.

Gleðin og sorgin eru systur og hafa þær báðar heimsótt okkur. Margir koma með góðar fréttir en svo þurfa aðrir að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum illvíga. Krabbavörn stendur vel með sínum félögum. 

Ester Ólafsdóttir.  


Var efnið hjálplegt?