© Mats Wibe Lund

Krabbavörn Vestmannaeyjum

Félagið Krabbavörn í Vestmannaeyjum hefur það hlutverk að styðja við einstaklinga sem greinast með krabbamein í Vestmanneyjum og aðstandendur þeirra. Það stuðlar að fræðslu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir, eflir krabbameinsrannsóknir, beitir sér fyrir leit að krabbameini á byrjunarstigi, styður framfarir í meðferð krabbameina og umönnun krabbameinssjúklinga.

Starfsemi 2018

Frá síðasta aðalfundi hefur stjórn Krabbavarnar í Vestmannaeyjum verið þannig skipuð: Sigurbjörg formaður, Guðný varaformaður, Ingibjörg ritari, gjaldkeri Sigríður og meðstjórnendur eru Kristín og Hrafnhildur

Í Krabbavörn eru 350 félagar og er ársgjaldið ekki hátt eða 2.500 á ári. Krabbavörn eru samtök sem hafa það hlutverk að styðja þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Félagið er rekið með styrkjum frá velunnurum félagsins sem er okkur ómetanlegt og þökkum við fyrir þann hlýhug.

Grasrótarsamtök eins og Krabbavörn þurfa að vera í stöðugri endurskoðun til þess að starfsemi félagsins staðni ekki, t.d með því að endurnýja stjórn með reglulegum hætti. Engar reglur eru til um það hversu lengi stjórnaseta er hjá félaginu og þyrfti að skoða það.

Þegar félagsmaður greinist með krabbamein getur hann sótt til félagsins ferðastyrk en við greiðum 25.000 fyrir hverja ferð ásamt því að við greiðum fyrir leigu á íbúðum við Rauðarárstíg og einnig fyrir sjúkrahótel. 27 einstaklingar hafa fengið styrk frá félaginu á einhvern hátt á síðasta starfsári.

Ýmsar uppákomur okkur til heilla voru á starfsárinu, vil ég þar nefna áramótagönguna sem er orðinn stór þáttur af jólahaldi Eyjamanna en þar greiðir fólk gjald til að taka þátt í göngunni sem rennur til Krabbavarnar. Marsmánuður var mánuður skeggfánananna en þeir blöktu við mörg fyrirtæki til að minna okkur á að karlmenn fá líka krabbamein. Í ár ætlum við að gera betur, Viðar prestur ætlar að vera með Pound leikfimi n.k laugardag eða 9. mars kl 12:30 það kostar 2000 inn og rennur sú fjárhæð sem safnast óskert til félagsins en Poundið fer fram í Agóges sem leigir okkur húsnæðið að kostnaðarlausu og að sjálfsögðu hvetjum við alla til að mæta.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands var 5. maí, aukaformannafundur var fyrsta mál á dagskrá þar sem reglur um ráðstöfun framlaga Velunnara Krabbameinsfélags Íslands voru til umfjöllunar einnig var kynning á starfsemi Krabbameinsfélags Íslands í tölum, máli og myndum ásamt hefðbundnum fundarstörfum

Sjö tinda gangan er einn fastur liður hjá eyjaskeggjum um Jónsmessu og er alltaf mjög góð þátttaka, sú ganga veitir okkur einnig fjárstyrk.

Haustsalan hefur ávalt gengið vonum framar og erum við þakklátar fyrir það.

Aukaaðalfundur Krabbameinsfélags Íslands sem var haldinn sunnudaginn 16. september, í Skógarhlíð 8. Og í framhaldi af honum var formannafundurinn haldinn

Tilefni aukaaðalfundarins var erindi sem Krabbameinsfélag Íslands sendi velferðarráðuneyti og svar ráðuneytisins við erindinu auk tillagna stjórnar félagsins. (öll gögn þar af lútandi eru trúnaðarmál)

Í október var bærinn með bleikum ljóma, fánar með bleikri slaufu blöktu á hún til að minna okkur á að lífið getur tekið U beygju. Bleikt kvöld var hjá verslunum og rann hluti sölunnar frá ýmsum fyrirtækjum til Krabbavarnar.

Það að greinast með krabbamein er mikið áfall, bæði fyrir þann sem greinist og ekki síður fyrir fjölskyldu og aðstandendur. Veikindaferlið tekur oft mikið á, á margan og ólíkan hátt.

Verkefninu er ekki endilega lokið þó sjúkdómurinn hafi læknast. Við höfum ítrekað séð hversu mikilvægt það er fyrir einstaklinga að geta leitað til okkar, til að fá stuðning og styrk í slíkum aðstæðum bæði félagslega og fjárhaglega. Þess vegna skiptir miklu máli að við eflum starfsemi okkar og hvetjum þá sem næstir okkur eru til að ganga í félagið til að efla það.

Það að vera félagsmaður í góðgerðarfélagi eins og Krabbavörn gefur okkur trú á samfélagið, trú á að við getum hjálpað þeim sem eiga um sárt að binda.

Krabbavörn í Vestmannaeyjum er gott og öflugt félag að leita til og erum við stolt af því.

Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir


Var efnið hjálplegt?