© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemin 2016-2017


Félagið er með eigin minningarkort og tekur þátt í almennri vor- og haustfjáröflun á vegum Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga. 

Föstudaginn 14. október var félagið með kynningu á bleika mánuðinum í verslunarkjarna staðarins. Þar sýndum við myndbönd, deildum út bæklingum með áherslu á brjóstakrabbamein. Allt samfélagið var mjög virkt þennan dag, vinnustaðir, leikskólar og skólar, fólk klæddust bleiku og var duglegt að senda okkur myndir frá deginum. Fræðslukvöld var haldið fimmtudagskvöldið 20. október í Nýheimum. Lára Sigurðardóttir læknir flutti erindi um brjóstakrabbamein og kvenheilsu og tónlistaratriði var í boði Kvennakórs Hornafjarðar. Eftir fyrirlestur Láru var tekin hópmynd af konum í samfélaginu sem hafa greinst með brjóstakrabbamein og fá þær sérstakar þakkir fyrir.

Mottumars 2017

Mottumars var haldinn hátíðlegur. Kynning var í verslunarkjarna staðarins þar sem sýnd voru myndbönd og karlmönnum afhentur bæklingurinn „Skilaboð til karla“ og þeir hvattir til að vera meðvitaðir um eigin heilsu.

Fræðsla og fleira

Góð mæting er á fræðslufundi sem félagið stendur fyrir og ávallt vel tekið á móti okkar fólki þegar fjáraflanir eru í gangi. Fyrirtæki og einstaklingar standa einnig þétt við bakið á félaginu með fjárstuðningi og styrkveitingum. 

Gott samstarf er á milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Hornafirði og félagsins með áherslu á forvarnir og fræðslu. Veittir hafa verið styrkir til einstaklinga. Greiðir félagið jafnframt leiguhluta einstaklinga í krabbameinsmeðferð, hvort sem dvalið er í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða gist á Sjúkrahótelinu meðferðardagana.

Ester Þorvaldsdóttir.

Starfsemi 2015-2016

Félagið er með eigin minningarkort og tekur þátt í almennri vor- og haustfjáröflun á vegum Krabbameins-félags Íslands og aðildarfélaga.

Mottumars 2015 var haldinn hátíðlegur með fræðslu- og karlakvöldi á Hótel Höfn þar sem Ágúst Óskar Gústafsson heimilislæknir flutti fræðsluerindi um karla og krabbamein með áherslu á ristilkrabbamein. Tónlistaratriði voru flutt, Auðunn Helgason knattspyrnuþjálfari flutti erindi og mæting var mjög góð.

Í október, bleika mánuðinum, var haldið upp á bleika daginn með því að bæjarbúar og vinnustaðir skörtuðu bleiku. Einnig höfðu konur gaman saman og var konukvöld haldið 27. október á Hótel Höfn þar sem Elín Freyja Hauksdóttir læknir flutti fræðsluerindi um heilsu kvenna og líðan. Hulda Laxdal jógakennari leiðbeindi og fræddi um núvitund og slökun. Vel var mætt af bleikum og flottum konum. 

Fjör og fræðsla var í Pakkhúsinu fimmtudagskvöldið 17. mars 2016 í tilefni af Mottumars. Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri hjá Krabbameinsfélagi Íslands flutti erindið „Kíkt undir húddið“ og ræddi um karlmenn og krabbamein. Tónlistaratriði var í boði Karlakórsins og Þorvarður Árnason sýndi myndir af töfraveröld norðurljósa og jökla.

Í samvinnu við Krabbameinsfélag Reykjavíkur, þar sem Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur handleiddi með námsefni, var haldið reykleysisnámskeið fyrir fyrirtæki á staðnum. Gafst þetta fyrirkomulag mjög vel og er nú annað námskeið í bígerð.

Góð mæting er á fræðslufundi sem félagið stendur fyrir og ávalt vel tekið á móti okkar fólki þegar fjáraflanir eru í gangi. Fyrirtæki og einstaklingar standa einnig þétt við bakið á félaginu með fjárstuðning og styrkveitingum. Gott samstarf er á milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Hornafirði og félagsins með áherslu á forvarnir og fræðslu. 

Veittir hafa verið styrkir til einstaklinga, einnig veitti félagið styrk þegar keypt var nýtt sónartæki á heilsugæslustöðina á Hornafirði. Greiðir félagið jafnframt leiguhluta einstaklinga í krabbameinsmeðferð hvort sem dvalið er í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða gist á Sjúkrahótelinu meðferðardagana.

Ester Þorvaldsdóttir.

Starfsemi 2014-2015

Félagið er með eigin minningarkort og tekur þátt í almennri vor- og haustfjáröflun á vegum Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga. Ávallt vel tekið á móti fólki þegar fjáraflanir eru í gangi. Veittir hafa verið styrkir til einstaklinga. Greiðir félagið jafnframt leiguhluta einstaklinga í krabbameinsmeðferð, hvort sem dvalið er í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða gist á Sjúkrahótelinu meðferðardagana.

Góð mæting er á fræðslufundi sem félagið stendur fyrir. Í tilefni af mottumars 2014 var haldið fræðslu og karlakvöld í Pakkhúsinu við mjög góðar undirtektir þar sem Teitur Guðmundsson læknir hélt fyrirlestur um karlmenn og karlaheilsu, „Stakir jakar“ fluttu nokkur hressileg lög og Hjálmar Jens Sigurðsson sjúkraþjálfari kynnti teygjuæfingar.

Í október 2014, bleika mánuðinum, var haldið fræðslu- og kvennakvöld í Pakkhúsinu á vegum félagsins þar sem Teitur Guðmundsson læknir hélt fyrirlestur um kvennaheilsu, Margrét Gauja Magnúsdóttir fór með örræðu og Matthildur Ásmundardóttir sjúkraþjálfari fór yfir réttar líkamsstellingar og slökunaræfingar.

Í tilefni af Mottumars 2015 var haldið fræðslu- og karlakvöld á Hótel Höfn þar sem Ágst Óskar Gústafsson heimilislæknir flutti fræðsluerindi um karla og krabbamein með áherslu á ristilkrabbamein. Tónlistaratriði voru flutt, Auðunn Helgason fótboltaþjálfari flutti erindi. Mæting var mjög góð.

Í samvinnu við Krabbameinsfélag Reykjavíkur, þar sem Ingibjörg K Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur handleiddi með námsefni, var haldið hér í febrúar og mars 2015 reykleysisnámskeið fyrir fyrirtæki á staðnum. Gafst þetta fyrirkomulag mjög vel og er vonandi komið til með að vera.

Gott samstarf er á milli Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands og félagsins, með áherslu á forvarnir og fræðslu.

Ester Þorvaldsdóttir. 


Var efnið hjálplegt?