• Leghálsinn

Leghálskrabbamein

Taktu prófið!

Kannaðu þekkingu þína á ýmsum þáttum varðandi leghálskrabbamein. 


1Leghálskrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið hjá konum á Íslandi.

Rétta svarið er: "Rangt"

Leghálskrabbamein er ekki í hópi tíu algengustu krabbameina hjá konum á Íslandi. Hérlendis greinast að meðaltali um 19 konur árlega með leghálskrabbamein og er hlutfall leghálskrabbameins af öllum krabbameinum um 2%. Leghálskrabbamein er hins vegar eitt fárra krabbameina sem hægt er að greina á forstigi og lækna.


2Í 99% tilfella orsakast leghálskrabbamein af HPV-veirum sem smitast við kynlíf.

Rétta svarið er: "Rétt"

HPV-veirur (Human Papilloma Virus) valda sjúkdómnum í 99% tilfella. Þekktar eru rúmlega 200 tegundir HPV-veira. Margar þeirra eru ekki krabbameinsvaldandi en um 14 tegundir sem geta smitast við kynlíf eru kallaðar há-áhættu tegundir (krabbameinsvaldandi HPV) og geta orsakað alvarlegar frumubreytingar og leghálskrabbamein. Við skimun eru gerðar HPV-mælingar á leghálssýnum í þeim tilgangi að rannsaka hvort einhver þessara 14 há-áhættu HPV-veira sé til staðar.


3Langflest tilfelli leghálskrabbameins greinast hjá konum sem eru sextíu ára eða eldri

Rétta svarið er: "Rangt"

Um helmingur kvenna sem greinist með leghálskrabbamein er yngri en 45 ára en um 20% eru konur sem eru sextíu ára og eldri. 


4Smokkurinn veitir ekki vörn gegn leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rangt"

Smokkurinn veitir góða vörn gegn leghálskrabbameini með því að verja gegn HPV-veiru smiti á þeim svæðum sem hann hylur. Smokkurinn veitir þó ekki fulkomna vernd gegn HPV-veirum almennt vegna þess að hann hylur ekki öll svæði sem geta sýkst, HPV-veirur geta verið á öllu nærbuxnasvæðinu.


5Konur ættu að mæta í skimun þó þær hafi fengið HPV-bólusetningu gegn leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rétt"

Talið er að bólusetningin gefi a.m.k. 70% vörn gegn leghálskrabbameini. Þar sem ekki fæst full vörn með bólusetningunni ættu konur að fara reglulega í skimun fyrir leghálskrabbameini, jafnvel þó þær séu bólusettar gegn HPV.


6Konur á aldrinum 23-65 ára fá boð um að mæta í skimun fyrir leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rétt"

Skimun miðast við að gera mest mest gagn og valda sem minnstum skaða. Þetta útskýrir aldursbilið sem skipulögð leit nær til.

Flestar ungar konur smitast af HPV stuttu eftir að þær hefja kynlíf og hjá sumum getur smitið valdið frumubreytingum í leghálsi. Í langflestum tilfellum hverfur HPV sýkingin innan tveggja til þriggja ára og frumubreytingar ganga flestar til baka. Ef byrjað væri að leita fyrir 23 ára aldur er talin aukin hætta á að frumubreytingar myndu finnast sem aldrei hefðu þróast í leghálskrabbamein. Þetta gæti leitt til ónauðsynlegra inngripa svo sem leghálsspeglana og keiluskurða. 

Líkur á að greinast með leghálskrabbamein fara minnkandi með hækkandi aldri og með fjölda fyrri eðlilegra skoðana. Áhættan er hverfandi lítil hjá konum sem mætt hafa reglulega til leitar í áratugi. Þess vegna er skipulagðri leit hætt við 65 ára aldur. Konum sem eru í eftirliti vegna frumubreytinga eða leghálskrabbameins er hins vegar boðin skoðun áfram í samræmi við leitarleiðbeiningar.


7Æskilegt er að mæta árlega í skimun.

Rétta svarið er: "Rangt"

Skimun miðast við að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða. Ef leitað er of sjaldan er hætta á að missa af alvarlegum frumubreytingum og krabbameini en ef leitað er of ört eykst hættan á að greina frumubreytingar sem ekki leiða til krabbameins sem gæti leitt af sér ónauðsynlegt eftirlit, leghálsspeglanir eða keiluskurði. Rannsóknir hafa sýnt að leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti gerir sem mest gagn og veldur sem minnstum skaða.


8Konur sem ekki hafa einkenni sem benda til leghálskrabbameins ættu að mæta í skimun.

Rétta svarið er: "Rétt"

Leghálskrabbamein er einkennalaust í byrjun. Þess vegna ættu einkennalausar konur að mæta í leghálskrabbameinsleit. Með því að mæta reglulega í skimun er yfirleitt hægt að greina meinið það snemma að hægt er að lækna það. Mikilvægt er að nýta sér boð í skimun þó enginn grunur sé um leghálskrabbamein.


9Óreglulegar blæðingar stafa líklega af leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rangt"

Óreglulegar blæðingar eða milliblæðingar eru oftast af saklausari toga. Þær geta þó verið merki um leghálskrabbamein. Önnur einkenni sem geta verið merki um leghálskrabbamein eru óþægindi við samfarir, blæðing eftir samfarir, auknar blæðingar eða útferð. Ef þessi einkenni eiga við er mikilvægt að leita til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis. Einnig er hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins með því að senda póst á leit@krabb.is.10Sígarettureykingar eru áhættuþáttur fyrir leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rétt"

Sígarettureykingar auka líkur á leghálskrabbameini. Nikótín og önnur efni í tóbaksreyk finnast í leghálssýni þeirra kvenna sem reykja og þær sem reykja eru líklegri til að vera með viðvarandi HPV-smit.


11Kynfæravörtusmit eykur líkur á leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rangt"

Yfir 200 tegundir HPV-veira eru þekktar og þær skipast í há-áhættu HPV tegundir (sem geta orsakað alvarlegar frumubreytingar og leghálskrabbamein) og lág-áhættu HPV tegundir (sem eru ekki krabbameinsvaldandi). HPV-veiru tegundirnar 6 og 11 orsaka yfir 90% af kynfæravörtum og geta valdið frumubreytingum í leghálsi en valda ekki leghálskrabbameini því þær eru lág-áhættu HPV-veirur.


12Hægt er að lækna HPV-sýkingu.

Rétta svarið er: "Rangt"

Þó ekki sé hægt að lækna sjálfa HPV-sýkinguna þá er hægt að skera burt sýktar frumur (svokallaðar frumubreytingar). Með því móti er komið í veg fyrir að leghálskrabbamein myndist. Hér á landi er þetta gert með svokölluðum keiluskurði. Þetta er ástæða þess hve mikilvægt er fyrir konur að mæta reglulega í skimun. Þá er hægt að greina og hafa eftirlit með frumubreytingum áður en þær þróast í leghálskrabbamein.


13Einungis fjórðungur kvenna sem boðið er í skimun á Íslandi mætir í leitina.

Rétta svarið er: "Rangt"

Um 65% kvenna mæta í leghálskrabbameinsleit á Íslandi. Þetta hlutfall er þó lægra en æskilegt er og lægra en í nágrannalöndum okkar. Frá því að skipuleg leit að leghálskrabbameini hófst á Íslandi árið 1964 hefur dregið úr fjölda nýrra tilfella og dánartíðni úr sjúkdómnum lækkað um 90%. Þessi árangur byggir m.a. á almennt góðri mætingu kvenna, en nú má bæta í og ná nágrannalöndum okkar í mætingu.Var efnið hjálplegt?