© Mats Wibe Lund

Akranes og nágrenni

Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis var stofnað 9. febrúar 1969 og félagsmenn eru 300 talsins. Formaður félagsins er Sólveig Ásta Gautadóttir og skrifstofustjóri er Auður Finnbogadóttir.

Starfsemin 2018-2019

Félagið var stofnað 1969 og hefur markmið félagsins verið að sinna forvarnarstarfi og fræðslu í sínu nærsamfélagi. Rekstur félagsins er byggður á framlögum velunnara/félagsmanna, sölu minningarkorta og fjáröflunum.

Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis hefur aðsetur að Suðurgötu 57 og er í samvinnu við Endurhæfingarhúsið HVER. Allir, hvort heldur þeir sem eru greindir með krabbamein, aðstandendur eða vinir krabbameinsgreindra, geta komið aflað sér upplýsinga til að mynda hvert skal snúa sér varðandi ýmis réttindamál. Hægt er að hafa samband í síma 431-2040 eða senda tölvupóst á akranes@krabb.is einnig er félagið á facebook.

Heilsuefling

Í nokkur ár hefur verið boðið upp á vikulegt jóga yfir vetrarmánuðina. Leiðbeinandi er Bára Jósefsdóttir og hefur hún verið með jóga alla föstudaga sem hefur verið vel sótt og þar hefur myndast góður hópur, 10-12 manns sækja tímana og njóta þau stuðnings hvors annars.

Bleikur október

Félagið hefur lagt upp með að vera sérstaklega sýnilegt í október og hefur staðið fyrir bleikri göngu síðast liðin ár sem hefur lukkast vel.

Í ár var gangan í minningu Arndísar Höllu Jóhannesdóttur stjórnarkonu sem lést í byrjun árs 2018. Hún var virk í stjórn og hafði verið í sambandi við Kraft -Stuðningsfélag við ungt fólk með krabbamein og aðstanendur þeirra á haustmánuðum 2017. Hún var byrjuð að skipuleggja perludag þar sem fólk á Akranesi og víðar á Vesturlandi gæti sameinast og perlað armböndin „lífið er núna“ til stuðnings Krafti.

Þessari hugmynd Arndísar var fylgt eftir til minningar um hana með göngu sem fram fór 27.10.2018

Gengið var frá Akratorgi og niður í Brekkubæjarskóla. Þar vorum við ásamt fulltrúum frá Krafti með perl í minningu Arndísar Höllu Jóhannesdóttur. Mikð fjölmenni kom og var dagurinn vel heppnaður í alla staði.

Smáprent fær sérstakar þakkir en Tinna Grímarsdóttir útbjó myndir og veggspjöld með tilvitnunum og myndum af Arndísi Höllu, og tók ekki krónu fyrir.

Í október var einnig boðið upp á Bleikt sund, þar buðum við upp á bleikan drykk (Vatn með ögn af rauðrófusafa) lýsing heitupottana var bleik og stemmingin bleik. Við fengum til liðs við okkur Idda sem sá um ljúfa tóna fyrir sundlaugargesti. Virkilega ljúf og notaleg stund sem verður örugglega endurtekin.

Styrkur til félagsins

Soffía G. Þórðardóttir ljósmóðir fagnaði nýverið 70 ára afmæli sínu. Á afmælisdaginn afþakkaði hún gjafir en hafði þess í stað söfnunarkassa og tók við frjálsum framlögum. Alls söfnuðust í kassann 208.500 kr., sem Soffía ákvað að láta renna til Krabbameinsfélags Akraness og heiðra þannig minningu föður síns, Þórðar Jónssonar og systur sinnar, Agnesar Sigrúnar Þórðardóttur, sem bæði létust úr krabbameini með 16 daga millibili í janúar 1991.

Vélmennið nærvera (Beam pro)

Félagið fjárfesti í byrjun árs í Beam pro vélmenni, eða nærveru. Vélmennið gerir fólki kleift að stunda skóla eða vinnu að heiman.

Tækið er nú í notkun í Grundarskóla á Akranesi, þar sem krabbameinsgreindur drengur nýtir nærveru til að taka þátt í skólastarfi með bekkjarfélögum sínum en vegna veikindanna á hann ekki möguleika að mæta sjálfur í skólann.  Nærveran kemur sér því vel. Hún er í skólanum og hann stjórnar henni með tölvu að heiman/sjúkrahúsi. Hann sér þá samnemendur og þau hann. Mikil gleði er með þessa nýjung.

Lokaorð

Síðast liðið starfsár hefur verið viðburðaríkt og skemmtilegt. Það sem upp úr stendur er góð þátttaka í október á bleikum viðburðum s.s. göngu og perli til minningar um Arndísi Höllu. Nýja vélmennið fékk góðar viðtökur og er það von okkar sem að félaginu stöndum að það eldist vel og megi nýtast þeim sem á því þurfa að halda á komandi árum. Starfsemin hefur verið svipuð frá ári til árs þar fastir viðburðir eru á sínum stað en alltaf reynt að finna upp á einhverjum nýjungum í starfinu. Markmið komandi árs er að vera áfram sýnileg og styðja þá sem til okkar leita.


Var efnið hjálplegt?