• Mynd: freedigitalphotos.net

Þegar mamma eða pabbi fá krabbamein

Þegar foreldri greinist með krabbamein hefur það áhrif á alla fjölskylduna. Það á einnig við um börnin, óháð aldri þeirra. Við þessar aðstæður upplifir fjölskyldan gjarnan óvissu og áhyggjur. 

Foreldrar eru oft óöruggir með hversu mikið á að blanda börnunum inn í það sem er að gerast og börnin verða oft mjög óörugg og sýna óvenjulega hegðun / viðbrögð.

Börn vita töluvert um krabbamein, sem var ekki reyndin fyrr á árum. Samskipti við börn hafa breyst á undanförnum árum og það er sjaldgjæfara að fullorðnir séu að hlífa börnunum eins og áður en leyfa þeim frekara að vera þátttakendur miðað við þeirra þroska. Við erum kannski ekki viss um hvernig best er að bera sig að með að tala við þau um erfið mál og þá sérstaklega þegar okkur líður ekki vel sjálfum. Við erum jafnvel hrædd um að gera börnin leið.

Börn eru oftast mjög upptekin af því að foreldrunum líði vel. Ef þau veita því athygli að eitthvað er að hjá mömmu eða pabba reyna þau oft að hjálpa til með því að vera glöð og hjálpleg.  Þau reyna að finna skýringu á sinn hátt, á því sem er að gerast og forðast að koma fram með erfið mál eða það sem er að íþyngja þeim.  Eru hrædd við að gera foreldrana leiða.

Það er heilmargt sem hægt er að gera til að létta undir við þessar aðstæður. Hér finnur þú meðal annars slóð á bæklinginn, Mamma, pabbi hvað er að? en þar er að finna upplýsingar og ráð um hvernig hægt er að bera sig að við börnin.

Einnig er hægt að hafa samband við ráðgjafa hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í síma 800 4040 eða radgjof@krabb.is


Var efnið hjálplegt?