Kraftur

Félagið var stofnað 1. október 1999

Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Félagsmenn: Um 550.
Netfang: kraftur@kraftur.org
Vefsíða: www.kraftur.org 

Stjórn Krafts, kosin á aðalfundi 20. apríl 2016:

  • Formaður: Hulda Hjálmarsdóttir
  • Meðstjórnandi: Ástrós Rut Sigurðardóttir
  • Meðstjórnandi: Þórir Ármann Valdimarsson
  • Meðstjórnandi: Bóel Hjarta
  • Meðstjórnandi: Ólafur Einarsson
  • Varamenn: Kristín Þórsdóttir og Magnús Sigurbjörnsson

Starfsemi 2015-2016

Nokkrar breytingar áttu sér stað á stjórn Krafts á aðalfundi félagsins þann 20. apríl sl. Svanhildur Ásta Haig, Salvör Sæmundsdóttir og Jenný Þórunn Stefánsdóttir gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Starfsmenn

Starfsmaður Krafts er Ragnheiður Davíðsdóttir, sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra frá 1. september 2013. Edda Margrét Guðmundsdóttir er sálfræðingur félagsins en hún hefur sagt starfi sínu lausu í sumar. Enn á eftir að ráða nýjan sálfræðing. Sálfræðingur sér um Stuðningsnet Krafts og sálfræðiþjónustu við félagsmenn Krafts og skjólstæðinga Ráðgjafarþjónustunnar. Starfsmaður ungliðahóps Krafts, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna (SKB) og Ljóssins er Kristján Friðriksson. Starfsmaður Fítonskrafts er Atli Már Sveinsson, íþróttafræðingur.

Stuðningsnetið

Á síðasta ári voru haldin námskeið fyrir nýja stuðningsfulltrúa á Ísafirði og Akureyri og ætlunin er að halda slíkt námskeið einnig á Egilsstöðum á þessu ári. Þá var haldið eitt stuðningsfull¬trúa-námskeið í Reykjavík. Alls bættust 22 nýir stuðningsfulltrúar í stuðningsnet Krafts á síðasta ári. Sálfræði-þjónusta Krafts hefur aukist mikið og veitti sálfræðingur félagsins 64 sálfræðiviðtöl á síðasta starfsári Krafts. Ráðist var í útgáfu á bæklingum auk annars konar kynningarefnis og hélt sálfræðingur, ásamt framkvæmda¬stjóra og stjórnarfólki, kynningarfundi með starfsfólki á geisla- og krabbameinsdeildum Landspítalans þar sem Kraftur kynnti starfsemi sína og þjónustu. Starfsfólk þessara deilda, sem allar tengjast krabbameini á einn eða annan hátt, hyggst afhenda nýgreindum einstaklingum kynningarefnið í sérmerktum pokum frá Krafti með slagorðunum „Sigrumst á því saman“. Pokinn inniheldur bókina Lífskraft, þrjá bæklinga yfir almenna starfsemi félagsins, Fítonskraft og Stuðningsnetið. Þá er gjafakort á sérmerktan bol frá Krafti auk nýjasta tölublað Krafts-blaðsins.

Heimasíða og samfélagsmiðlar

Reglulega er settar fréttir, myndir og fróðleikur inn á www.kraftur.org. Ný heimasíða var tekin í notkun árið 2014 sem hefur fallið í góðan jarðveg. Facebooksíða Krafts er talsvert mikið notuð og skrá félagsmenn sig gjarnan á viðburði félagsins á síðunni. Nú eru fylgjendur Facebook-síðu félagsins um 3.600 að tölu. Þá hefur félagið sett á laggirnar Facebook-síðu Fítonskrafts þar sem fréttir eru reglulega settar inn og tilkynningar um starfsemina. Auk þess eru sérstakar Facebook-síður starfræktar á vegum Ungliðahópsins og Stuðningsnetsins. Þá er félagið einnig á Instagram, Twitter og Snap Chat.

Útgáfumál

Bókin Lífs-Kraftur, hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur, nýtur alltaf jafn mikilla vinsælda og er regluleg eftirspurn eftir henni í heilbrigðiskerfinu og víðar. Krafts-blaðið var gefið út síðasta vor og var blaðið að koma út nú í maí fyrir þetta ár. Það kemur nú einungis út einu sinni á ári, að vori. 

Fjármál og styrkir

Efnahagur Krafts er traustur. Reykjavíkurmaraþon var haldið í ágúst. Heildarafrakstur af áheitum einstaklinga færðu félaginu um 1,7 milljónir króna. Þá seldi Kraftur konfekt fyrir jólin sem gaf félaginu umtalsverðar tekjur. Auglýsingar og styrktarlínur voru seldar í blaðið og stóð sú sala undir kostnaði þess og gott betur. Ýmsir aðilar styrktu starfsemina auk þess með beinum og óbeinum hætti. Neyðarsjóður Krafts hefur nú úthlutað þrisvar sinnum til alls átta manns. Styrkir eru einungis veittir til að standa straum af læknis- og lyfjakostnaði. Alls hefur verið úthlutað um 2,4 milljónum til þessara átta einstaklinga. Nú stendur yfir fjáröflun sem sérstaklega er ætluð í Neyðarsjóð Krafts en ástand og horfur í greiðsluþátttökumálum sjúklinga gefa tilefni til að ætla að þörf sé á slíkum neyðarsjóði enn um sinn.

Viðburðir

Sumargrill Krafts var haldið í júní í Guðmundarlundi í Kópavogi og mættu um 80-100 manns. Vísindaferðir Krafts eru vinsælar meðal háskólanema en í þeim er starfsemi Krafts kynnt, sérstaklega fjallað um stuðningsnetið auk þess sem fenginn er fagmaður úr viðkomandi grein til að miðla af reynslu sinni. Í byrjun desember var haldin jólastund félagsins. Þar mætti Jón Gnarr og las upp úr bók sinni og Jón Jónsson skemmti viðstöddum auk þess sem dregið var í veglegu happdrætti. Alls mættu um 120 manns sem er metþátttaka til þessa. Í byrjun þessa árs var var farið af stað með svoköllum kaffihúsakvöld þar sem ungt krabbameinsgreint fólk og aðstandendur þess hittast og ræða málin á óformlegan hátt. Haldin hafa verið tvö slík kvöld og virðist þessi nýjung lofa góðu.

#Share your scar

Í janúar á þessu ári stóð Kraftur fyrir miklu átaki/vitundarvakningu um krabbamein og ungt fólk sem bar yfirskriftina „Share your scar“. Hugmyndin kom frá systurfélögum Krafts á hinum Norðurlöndunum. Félagið birti myndir af tíu einstaklingum sem stigu fram og deildu örunum sínum sem þeir hlutu vegna krabbameinsmeðferðar. Með þessu vildi Kraftur leggja áherslu á mikilvægi þess að fólk sé ófeimið að opinbera örin sín og deila sinni reynslu. Örin eru ekkert sem við þurfum að skammast okkar fyrir, þau eru vitnisburður um sigra okkar. Myndirnar birtust á samfélagsmiðlum, í sjónvarpi, strætóskýlum og plakötum um allan bæ og landsmenn hvattir að leggja málefninu lið með því að birta örin sín og deila af reynslu sinni. Undirtektirnar voru framar okkar björtustu vonum og lögðu landsmenn átakinu lið með því að deila myndum á samfélagsmiðlum og segja frá sinni reynslu. Átakið endaði síðan með örráðstefnu í Stúdentakjallaranum sem bar yfirskriftina „Sigrumst á því saman“, þar sem reynsluboltar deildu af reynslu sinni sem krabbameinsgreindir eða aðstandendur. Mikil fjölmiðlaumfjöllun varð um átakið og fjöldi manns gekk til liðs við Kraft í kjölfarið. Ljóst er að þetta átak Krafts hefur skilað sér í mikilli kynningu á félaginu sem mun auðvelda mjög fjáröflun í framtíðinni.

Ragnheiður Davíðsdóttir


Var efnið hjálplegt?