Svefn

Góður svefn er ein mikilvægasta undirstaða lífsgæða. Svefntruflanir geta leitt til depurðar og þeir sem eru svefnvana eru líklegri til að leita í hitaeiningaríkt og óhollt mataræði. Til langs tíma geta svefntruflanir leitt til ýmissa sjúkdóma.

Hér eru tólf einföld ráð frá Harvard-háskóla til að bæta svefn:

 1. Forðast skal koffín (kaffi, te, súkkulaði, kók/pepsí/orkudrykki, sum verkjalyf), alkóhól og nikótín að minnsta kosti sex klst. fyrir háttatíma.
 2. Kjöraðstæður í svefnherbergi: Þægileg dýna og koddi, ekki eldri en 10 ára. Herbergið á að vera hljóðlátt, dimmt og svalt (15-21°C) og einungis fyrir svefn og kynlíf, ekki sjónvarp eða vinnu.
 3. Slökun einni klst. fyrir háttatíma. Fara í bað (líkamshiti hækkar og fellur síðan sem veldur þreytu), lesa bók eða gera slökunaræfingar.
 4. Fara að sofa þegar þú ert þreyttur. Ef þú ert ekki sofnaður innan 20 mínútna er betra að flytja sig um herbergi og gera eitthvað annað til að slaka á, t.d. lesa eða hlusta á slakandi tónlist. Ekki setjast við tölvu eða sjónvarp.
 5. Hafa klukku fjarri rúminu þannig að þú sjáir hana ekki. Að fylgjast með klukkunni eykur streitu og minnkar líkur á að sofna aftur.
 6. Hleypa birtu inn á morgnana. Náttúruleg birta er mikilvæg til að viðhalda heilbrigðu svefn/vöku ástandi. Um vetrartímann er hægt að nota lampa sem líkja eftir sólarupprás.
 7. Hafa reglu á hvenær þú ferð að sofa og vaknar, líka um helgar.
 8. Ef þú þarft að leggja þig yfir daginn, ekki blunda lengur en í 20 mínútur, fyrir klukkan 17 og stilla vekjaraklukku.
 9. Síðasta máltíðin fyrir háttatíma ætti að vera nokkrum klukkustundum fyrr. Fá sér ávöxt eða jógúrt ef þú ert svangur þegar þú ferð að sofa eða vaknar um nóttina vegna svengdar.
 10. Drekka vel af vatni yfir daginn til að forðast að vakna upp þyrstur. Forðast að drekka nálægt háttatíma til að koma í veg fyrir næturbrölt.
 11. Stunda líkamsæfingar fyrir kvöldmat og eigi síðar en þremur klukkustundum fyrir háttatíma.
 12. Ef svefnvandamálið lagast ekki eftir að hafa fylgt þessum ráðum þá skaltu leita læknis til að útiloka eftirfarandi svefnsjúkdóma: Kæfisvefn, fótaóeirð, svefnsýki eða annað svefnvandamál.

Var efnið hjálplegt?