Austfirðir

Krabbameinsfélag Austfjarða var stofnað 21. apríl 1970 og eru félagsmenn um 530 talsins. Þjónustuskrifstofan er að Sjávargötu 1 á Reyðarfirði og er opin á fimmtudögum kl. 10-14. Formaður félagsins er Hrefna Eyþórsdóttir.

Helstu verkefni félagsins eru að styrkja skjólstæðinga okkar með bilaleigu- og leigubílakostnað og íbúðakostnað meðan á meðferð stendur. Við bjóðum upp á sálfræðiþjónustu í gegnum félagið og fjölskylduráðgjafa. Einnig geta krabbameinsgreindir bæði í meðferð og í bata fengið árskort í sund sem gildir í allar sundlaugar Fjarðabyggðar, sem er liður í líkamlegri endurhæfingu. 

Starfsemi 2019

Á aðalfundinn kom fulltrúi frá Félagi eldri borgara sem voru að fara í söfnunarátakið „Enn gerum við gagn“ þar sem gengið var til styrktar Krabbameinsfélagi Austfjarða. Sú söfnun gaf okkur rúmlega eina og hálfa milljón. Frábært framtak sem var líka hvatning til hreyfingar svo þetta var margfaldur ávinningur af þessu verkefni þeirra.

Á síðasta aðalfundi komu sálfræðingar og kynntu sig en Krabbameinsfélagið fór að greiða fyrir sálfræðiþjónustu og fjölskylduráðgjöf allt að 5 skipti fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur. Það fór rólega af stað en fór aðeins að aukast í haust og hafa 5 aðilar nýtt sér sálfræðiþjónustuna. En þetta er áfram eitthvað sem verður í boði og vonandi fleiri sem koma til með að nýta sér þessa þjónustu. Við bjóðum skjólstæðingum okkar upp á sundkort en fáir hafa nýtt sér það en vonandi verða þeir fleiri.

Fulltrúi félagsins fór á Aðalfund Krabbameinsfélags Íslands. Það er mikilvægt að við nýtum þau sæti sem við eigum í að sækja þá fundi og vinnustofur sem við höfum aðgang að. Þar erum við bæði að stækka tengslanetið okkar sem er mikilvægt og að koma okkar sjónarhornum á framfæri til að reyna að bæta þjónustuna á landsbyggðinni og sjá og sýna hvað við og aðrir eru að gera.

Fulltrúi frá félaginu fór á vinnudag hjá Krabbameinsfélagi Íslands og aðildarfélögum undir yfirskriftinni Endurhæfing alla leið. Þar var verið að fara yfir hvernig má bæta og auka endurhæfingu sem er sértæk og sérhæfð fyrir krabbameinsgreinda.

Reykjavíkurmaraþon var á sínum stað og þar voru einstaklingar sem hlupu til styrktar félaginu sem er frábært að fólk skuli styðja við bakið á okkur því við þurfum svo sannarlega á því að halda til að geta stutt við bakið á okkar fólki.

Í september átti að halda Hvíldarhelgi að Eiðum fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur. Veigamikil dagskrá var tilbúin en vegna ónógrar þátttöku urðum við að blása helgina af.

Bleikur október fór af stað með trukki og höfðum við samband við fyrirtæki og stofnanir á okkar þjónustusvæði um að vera sýnileg með bleiku til að auka árvekni um brjóstakrabbamein. Margir tóku sig til og lýstu upp byggingar og svæði með bleiku og enn fleiri voru með safnanir okkkur til handa. Þá var fulltrúi frá okkur sem talaði í Bleikri messu á Kolfreyjustað og eins á október fundi kvenfélags Reyðfirðinga.

Við fengum frábæra gjöf frá 9. Bekk Grunnskóla Reyðafjarða en hópurinn átti afgangs pening eftir skólaferðalagið sitt og ákváðu að gefa þann pening til Krabbameinsfélagsins. Við fórum og tókum á móti þeirri gjöf og sögðum þeim aðeins frá okkur og okkar starfi og hvers virði gjöf þeirra er. Við færðum þeim bækur við athöfnina sem þakklætisvott.

Tveir fulltrúar frá okkur fóru á vinnufund Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga í nóvember um áherslur og ásýnd félagsins til framtíðar. Samfélagið tekur hröðum breytingum, krabbameinstilvikum fjölgar hratt og stjórnvöld breyta áherslum í heilbrigðiskerfinu. Allt þetta hefur áhrif á starf Krabbameinsfélagsins og var þetta góður dagur sem skildi eftir fullt af hugmyndum og efni fyrir verkefnastjóra að vinna úr.

Við héldum frábært og vel sótt aðventukvöld í byrjun desember. Þar var gleðin við völd og voru allir uppfullir af þakklæti og fór með bros á vör inn í aðventuna. Þar nýttum við einnig kvöldið í að krýna hvunndagshetjuna 2019.

Í farveginum er að stofna stuðningshóp kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabbamein hér eystra en jafnvel verður hann útvíkkaður í þá sem greinst hafa með krabbamein en það verður líklega verkefni sem fer ekki af stað fyrr en með haustinu.

Mottumars var á sínum stað en ekki fór hann eins og áætlað var. Við reyndum á síðustu stundu að halda karlahlaup en fyrirvarinn var of skammur í þann viðburð svo við settum það á ís þar til síðar en tilgangurinn var eins og hjá Krabbameinsfélagi Íslands að minna á mikilvægi hreyfingar sem forvörn við krabbameini. En við vorum búin að skipuleggja og fá fyrirlesara til að hafa fræðslufund líkt og síðustu ár en þá skall á með Covid og stendur enn þó heldur sé að létta til í þeim efnum.

Opnunartími skrifstofunnar hefur verið breytilegur í vetur vegna veikinda en vonandi höfum við samt náð að sinna öllu á sem bestan hátt. Nú eru breyttir tímar og það sem þessi Covid einangrun gerði var að láta alla stökkva svolítið fram í rafrænum samskiptum og að afgreiða sem mest í gegnum tölvu og síma. Við erum þar ekki undanskilið og hafa okkar skjólstæðingar sent okkur skjöl á sms eða tölvupósti og svo hringt með það sem við getum aðstoð við.

Félagsmenn eru nú 524 talsins sem er frábært. En við erum félag sem tökum fagnandi móti öllum nýjum félögum því það er nú bara einu sinni þannig að þetta er þjónustu sem enginn vill nýta en er ómetanlegt að geta leitað í ef til þess kemur.

Starfsemi 2018

Dagný Reynisdóttir hefur verið með Raja jóga og hugleiðslu fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur.

Þorri Snæbjörnsson sálfræðingur kom til okkar í mars og var með stuðningsfulltrúanámskeið þáttakendur voru alls 9.

Í september var hvíldar– og slökunarhelgin á Eiðum það var góð aðsókn og helgin tókst mjög vel.

Í október perluðum við með Krafti í samstarfi við heilsueflingarnefnd ALCOA

Í nóvember krýndum við hvunndagshetjurnar okkar.

Í desember var einstaklega vel heppnað aðventukvöld. Við fengum til okkar 2 austfirska rithöfunda að lesa uppúr bókum sínum og kór Reyðarfjarðarkirkju tók nokkur lög.

Við erum að útbúa nýjan blöðung til að dreifa á heilsugæslustöðvar og sjúkradeildarinnar á Neskaupsstað með upplýsingum um okkar starfsemi.


Var efnið hjálplegt?