Austfirðir

Krabbameinsfélag Austfjarða var stofnað 21. apríl 1970 og eru félagsmenn um 530 talsins. Þjónustuskrifstofan er að Búðareyri 15 á Reyðarfirði er rekin í samvinnu við Krabbameinsfélag Austurlands og er opin á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 11-13. Vetrarstarf fer fram í Virknimiðstöðinni að Austurvegi 29 á Reyðarfirði. Formaður félagsins er Jóhann Sæberg Helgason og starfsmaður Heiður Hreinsdóttir.

Starfsemi 2016-2017

Aðalfundur

Aðalfundur var haldinn á Fáskrúðsfirði í júní. Pálína Margeirsdóttir talaði um erfðarannsóknir.

Fjáröflun

Mottumars var notaður til fjáröflunar með hefðbundnum hætti sem og haustsala félagsins í september þar sem tekið var vel á móti sölufólki að vanda. Í október hafði rekstraraðili Sesam brauðhúss samband og vildi vekja athygli á félaginu og styrkja það með því að tileinka ákveðnar vörur Bleiku slaufunni og selja til styrktar félaginu sem var að sjálfsögðu þegið með þökkum. Göngum saman göngur voru haldnar á mæðradaginn á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað og var þátttaka með ágætum á báðum stöðum. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja styrktu félagið með peningagjöfum, sem seint verður þakkað til fullnustu og virkar sem hvatning fyrir okkur að halda áfram okkar góða starfi og gera enn betur. Í haust voru tónleikar með KK sem voru mjög vel sóttir og tókust mjög vel. Tolli kom í nóvember og var með fyrirlestur um núvitund. Fyrirlesturinn var vel sóttur og tókst vel.

Hvíldarhelgin á Eiðum

Í ágúst stóðu Kirkjumiðstöð Austurlands og Krabbameinsfélögin á Austurlandi fyrir hvíldarhelgi á Eiðum fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Var þetta einstaklega notaleg helgi þar sem í boði var djúpslökun, stafganga, nudd, bænastundir og kvöldvaka þar sem kirkjukór Fáskrúðsfjarðar kom og söng nokkur lög. Eiðahelgin tókst vel og það var ágætis mæting. Fyrirlesari var Hrönn Grímsdóttir, sem er lýðheilsufræðingur og jógakennari, hún talaði um margt uppbyggilegt eins og jákvæða sálfræði, hreyfingu og að setja sér markmið.

Hvundagshetjan

Það eru þó nokkur ár síðan ákveðið var að heiðra hvunndagshetjuna í fyrsta sinn. Þar sem bleikur október var og er árveknimánuður fyrir krabbamein í konum, kom upp sú hugmynd að standa fyrir viðburði í því tilefni. Hvunndagshetjur 2016 eru Heiðdís Guðmundsdóttir á Stöðvarfirði, Jóna Björg Óskarsdóttir og Sunna Björg Guðnadóttir í Neskaupsstað.

Aðventukvöld

Í desember var aðventukvöld þar sem fólk hittist og átti notalega kvöldstund saman. Elín Einarsdóttir kom og var með jóga og Jórunn Valdimarsdóttir var með hugleiðslu. Þetta kvöld tókst mjög vel.

Styrkveitingar

Sem fyrr hefur félagið styrkt einstaklinga sem hafa fengið afnot af íbúðunum á Rauðarárstíg og gist á Sjúkrahótelinu. Það er dýrt að verða veikur á Íslandi og það sjáum við vel, þess vegna er starf félagsins okkar gríðarlega mikilvægt til að geta létt undir með fólki fjárhagslega í veikindum. Krabbameinsfélag Austfjarða gaf Sjúkrahúsinu á Neskaustað lyfjadælu og vatnshreinsivél.


Heiður Hreinsdóttir.


Var efnið hjálplegt?