© Mats Wibe Lund

Suðausturland

Krabbameinsfélag Suðurausturlands var stofnað 21. apríl 1970 og endurvakið 1. október 2002. Félagsmenn eru um 150 talsins. Félagið styrkir einstaklinga sem dvelja þurfa langdvalar í Reykjavík vegna krabbameinsmeðferðar. Formaður félagsins er Ester Þorvaldsdóttir. 

Starfsemin 2016-2017

Starfsemin

Félagið er með eigin minningarkort og tekur þátt í almennri vor- og haustfjáröflun á vegum Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga. 
Föstudaginn 14. október var félagið með kynningu á bleika mánuðinum í verslunarkjarna staðarins. Þar sýndum við myndbönd, deildum út bæklingum með áherslu á brjóstakrabbamein. Allt samfélagið var mjög virkt þennan dag, vinnustaðir, leikskólar og skólar, fólk klæddust bleiku og var duglegt að senda okkur myndir frá deginum. Fræðslukvöld var haldið fimmtudagskvöldið 20. október í Nýheimum. Lára Sigurðardóttir læknir flutti erindi um brjóstakrabbamein og kvenheilsu og tónlistaratriði var í boði Kvennakórs Hornafjarðar. Eftir fyrirlestur Láru var tekin hópmynd af konum í samfélaginu sem hafa greinst með brjóstakrabbamein og fá þær sérstakar þakkir fyrir. 

Mottumars 2017

Mottumars var haldinn hátíðlegur. Kynning var í verslunarkjarna staðarins þar sem sýnd voru myndbönd og karlmönnum afhentur bæklingurinn „Skilaboð til karla“ og þeir hvattir til að vera meðvitaðir um eigin heilsu.

Fræðsla og fleira

Góð mæting er á fræðslufundi sem félagið stendur fyrir og ávallt vel tekið á móti okkar fólki þegar fjáraflanir eru í gangi. Fyrirtæki og einstaklingar standa einnig þétt við bakið á félaginu með fjárstuðningi og styrkveitingum. 
Gott samstarf er á milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Hornafirði og félagsins með áherslu á forvarnir og fræðslu. Veittir hafa verið styrkir til einstaklinga. Greiðir félagið jafnframt leiguhluta einstaklinga í krabbameinsmeðferð, hvort sem dvalið er í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða gist á Sjúkrahótelinu meðferðardagana. 


Ester Þorvaldsdóttir.


Var efnið hjálplegt?