Mottumars

Mottumars er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Meginmarkmið átaksins Mottumars: Karlmenn og krabbamein er að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá karlmönnum, hvetja alla menn og fjölskyldur þeirra til að vera meðvitaðir um einkenni krabbameina og sinna forvörnum, sem og að afla fjár sem gerir félaginu kleift að sinna fræðslu, forvörnum, rannsóknum og ráðgjöf fyrir karlmenn.  

Mottudagurinn

Mottudagurinn er hámark Mottumars og þá eru landsmenn hvattir til að leyfa ímyndunaraflinu að ráða för og halda upp á Mottudaginn með karlmannlegum hætti. Til dæmis með því að skarta öllu því sem við tengjum við karlmennsku; fatnaði, höfuðfötum, gerviskeggi o.s.frv. Vinir, vandamenn og samstarfsfélagar eru hvattir til að taka þátt í átakinu með skemmtilegum leikjum sem geta einnig verið tilvalið hópefli á vinnustöðum eða í hópum.

Krabbameinsfélagið birtir síðan aðsendar myndir frá deginum á mottumars@krabb.is eða á Facebooksíðu átaksins en einnig getur almenningur merkt myndir sínar #mottumars á samfélagsmiðlum.

Í netverslun Krabbameinsfélagsins er skemmtilegt úrval af vörum sem hægt er að skreyta sig með á Mottudaginn auk fjölbreytts úrvals gjafavara. Allur ágóði af sölu vara rennur til Krabbameinsfélagsins.

Fjáröflun í Mottumars

Stór hluti fjáröflunar í Mottumars hefur verið áheitakeppni Mottumars þar sem landsmenn hafa heitið á sína menn með framlagi til átaksins. Aðrir veigamiklir þættir í fjáröflun hafa verið samstarf við fyrirtæki, valkröfur og vörusala.

Þeir fjármunir sem safnast í átakinu renna til vísindastarfs, rannsókna, fræðslu, forvarna og til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Þar er boðið upp á fræðslu án endurgjalds, upplýsingar, námskeið, ráðgjöf og stuðning við einstaklinga sem hafa greinst með krabbamein, auk þess sem Ráðgjafarþjónustan rekur 8 íbúðir á Rauðarárstíg fyrir sjúklinga utan af landi sem eru í krabbameinsmeðferð í Reykjavík. 

Samstarf við fyrirtæki

Fyrirtæki geta styrkt Mottumars í marsmánuði með því að veita viðskiptavinum sínum upplifun eða tækifæri til að styðja við átakið með kaup á vörum sínum. Fyrirtæki geta til dæmis veitt hluta ágóða af vöru eða þjónustu til átaksins í mars mánuði eða á Mottudaginn. Einnig geta fyrirtæki boðið viðskiptavinum þátttöku og óskað eftir framlögum til málefnisins í staðinn. Sem dæmi má nefna tíma í heilsurækt eða veitingar. Einnig má nefna að fyrirtæki hafa framleitt sérstakar Mottumars vörur í tilefni átaksins og látið allan ágóða renna til málefnisins.

Þau fyrirtæki sem vilja merkja vörur sínar með Mottumars geta gert einfaldan samning um notkun vörumerkisins með því að hafa samband við kynningar- og fjáröflunardeild á mottumars@krabb.is. Einnig má gjarnan hafa samband til að ræða hugmyndir að leiðum til að taka þátt.

Við fögnum öllum stuðningi við málstaðinn en óskum eftir að fyrirtæki láti okkur vita með tölvupósti á sama netfangi.

 

Krabbameinsfélagið hefur frá upphafi notið velvildar almennings og fyrirtækja í formi beinna styrkja og annars fjárhagslegs stuðnings. Sá stuðningur er grundvöllur þess að félagið geti starfað.

Ekki er hægt að meta til fjár allan þann stuðning fjölda fólks og fyrirtækja sem gefið hafa vinnu sína eða veitt mikinn afslátt í gegnum tíðina við gerð og birtingu kynningar- og fræðslusefnis. Einnig má þar telja ókeypis vörur og vinninga og endurgjaldslaus afnot af tækjum og aðstöðu. Stuðningur ykkar er ómetanlegur.