Mottumars

Mottumars er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Meginmarkmið átaksins Mottumars: Karlmenn og krabbamein er að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá karlmönnum, hvetja alla menn og fjölskyldur þeirra til að vera meðvitaðir um einkenni krabbameina og sinna forvörnum, sem og að afla fjár sem gerir félaginu kleift að sinna fræðslu, forvörnum, rannsóknum og ráðgjöf fyrir karlmenn.  

Viltu leggja okkur lið?

Í Mottumars bjóðum við landsmönnum að styðja við starfsemina með kaupum á Mottumarssokkum en allur ágóði af sölu þeirra rennur til félagsins. Söluaðilar um land allt selja sokkana án endurgjalds og leggja þannig sitt af mörkum til átaksins. 

Mottudagurinn

Mottudagurinn er hámark Mottumars og þá eru landsmenn hvattir til að leyfa ímyndunaraflinu að ráða för og halda upp á Mottudaginn með karlmannlegum hætti. Til dæmis með því að skarta öllu því sem við tengjum við karlmennsku; fatnaði, höfuðfötum, gerviskeggi o.s.frv. Vinir, vandamenn og samstarfsfélagar eru hvattir til að taka þátt í átakinu með skemmtilegum leikjum sem geta einnig verið tilvalið hópefli á vinnustöðum eða í hópum.

Krabbameinsfélagið birtir síðan aðsendar myndir frá deginum á mottumars@krabb.is eða á Facebooksíðu átaksins en einnig getur almenningur merkt myndir sínar #mottumars á samfélagsmiðlum.

Í netverslun Krabbameinsfélagsins er skemmtilegt úrval af vörum sem hægt er að skreyta sig með á Mottudaginn auk fjölbreytts úrvals gjafavara. Allur ágóði af sölu vara rennur til Krabbameinsfélagsins.

Hverju er safnað fyrir?

Fjármunum sem safnast í átakinu er varið til vísindastarfs, rannsókna, fræðslu, forvarna og til að veita þeim sem greinst hafa með krabbameins og aðstandendum þeirra endurgjaldslausa þjónustu, stuðning og ráðgjöf með námskeiðahaldi og viðtölum við hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa og kynfræðinga. Kynntu þér starfsemina nánar á www.krabb.is

Hvers vegna?

Fjárhagslegur stuðningur almennings og fyrirtækja er grundvöllur þess að Krabbameinsfélagið geti starfað. Í sameiningu getum við haldið áfram að vinna að enn betri árangri varðandi það að draga úr fjölda krabbameinstilvika, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Fleiri og fleiri læknast af krabbameinum eða lifa lengi með þau sem langvinna sjúkdóma og að sama skapi eykst mikilvægi endurhæfingar. Framlag þitt er forsenda þess að árangur náist.

Samstarf við fyrirtæki
Fyrirtæki geta styrkt Mottumars með því að veita viðskiptavinum sínum tækifæri til að styðja við góðan málstað með kaupum á vörum. Til dæmis er hægt að láta hluta söluverðs af vöru eða þjónustu renna til átaksins. Fjölda hugmynda um þátttöku fyrirtækja á meðan á átakinu stendur, eða á Mottudaginn, má finna hér.

Þau fyrirtæki sem vilja merkja vörur sínar með Mottumars geta gert einfaldan samning um notkun vörumerkisins með því að hafa samband við fjáröflunardeild á mottumars@krabb.is. Einnig má gjarnan hafa samband til að ræða hugmyndir að leiðum til að taka þátt.

Við fögnum öllum stuðningi við málstaðinn en óskum eftir að fyrirtæki láti okkur vita með tölvupósti á sama netfang.

Ekki er hægt að meta til fjár allan þann stuðning fjölda fólks og fyrirtækja sem gefið hafa vinnu sína eða veitt mikinn afslátt í gegnum tíðina við gerð og birtingu kynningar- og fræðslusefnis. Einnig má þar telja ókeypis vörur og vinninga og endurgjaldslaus afnot af tækjum og aðstöðu. Stuðningur ykkar er ómetanlegur.

Vinnureglur Krabbameinsfélagsins vegna kynningarsamstarfs við fyrirtæki

Við hvetjum fyrirtæki sem hafa áhuga á að leggja Krabbameinsfélaginu lið í átaksverkefnunum Mottumars og Bleiku slaufunni að kynna sér vinnureglur félagsins hér að neðan. Baráttan gegn krabbameinum er sameiginlegur málstaður félagsins og þjóðarinnar. Við viljum því gera sem allra flestum kleift að leggja sitt af mörkum til að efla þá baráttu og styrkja starfsemi Krabbameinsfélagsins svo við getum saman fækkað þeim sem greinast með krabbamein, fjölgað þeim sem lifa og bætt lífsgæði þeirra.

  • Krabbameinsfélagið býður fyrirtækjum að taka þátt í að berjast gegn krabbameinum og styðja þá sem greinast með krabbamein með gerð samstarfssamnings um sölu á vöru eða þjónustu með framlagi til félagsins.
  • Í vafatilvikum mun Fræðslu- og forvarnardeild félagsins leggja mat á hvort vara sem boðin er til styrktar félaginu geti verið skaðleg mönnum eða gangi gegn markmiðum félagsins. Sé svo, er félaginu ekki unnt að gera samning um samstarf.
  • Krabbameinsfélagið gerir ekki styrktarsamninga við fyrirtæki sem framleiða tóbak eða lyf.
  • Krabbameinsfélagið leggur áherslu á stuðla að heilbrigðum lífsstíl sem forvörn gegn krabbameinum. Samstarf um kynningu á vörum og þjónustu sem stuðla að því markmiði fellur vel að markmiðum félagsins. Kostur er ef vara er vottuð með hliðsjón af hollustu og umhverfisvernd.
  • Samstarfsaðilum ber að tilgreina hvaða hlutfall söluverðs rennur til Bleiku slaufunnar eða Mottumars í samningi og í auglýsingum sínum eða merkingum vöru. Það er mikilvægt fyrir báða aðila til að tryggja traust kaupenda.
  • Samstarfsaðilar fá heimild til að nota vörumerki Bleiku slaufunnar eða Mottumars á meðan á átakinu (eða sölutímabilinu) stendur. Miðað er við 4-6 vikur í hvert sinn. Allt markaðsefni sem nýtt er til kynningar á samstarfi er háð samþykkt fjáröflunar- og markaðsstjóra Krabbameinsfélagsins.
  • Samstarfsaðila er getið á vefsíðum og Facebook-síðum átakanna. Við viljum tryggja að almenningur sé upplýstur um hverjir samstarfsaðilar félagsins eru. Samstarfsaðilar eru einnig hvattir til að kynna samstarfið vel fyrir sínum viðskiptavinum.
  • Við hvetjum samstarfsaðila til að leyfa viðskiptavinum og almenningi að fylgjast með fréttum af afhendingu styrks til félagsins á vef sínum eða samfélagsmiðlum.