© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2016-2017

Starfið hjá félaginu hefur verið með hefðbundnum hætti og gengið vel. Rekstrarformið er í föstum skorðum og hefur líðandi ár verið okkur hagfellt og skilað góðum árangri. Við teljum okkur hafa náð góðum árangri í að kynna félagið og starf þess. Fleiri þekkja félagið og vita fyrir hverju við stöndum. Félagsmönnum hefur fjölgað og fleiri taka þátt í starfi félagsins.
Á undanförnum árum höfum við upplifað meiri áhuga á að styrkja og styðja við rekstur félagsins. Það er ánægjuleg þróun og segir til um að við erum ofarlega i huga margra.

Í október sl. fengum við í heimsókn til okkar einstakan velgjörðamann Sigurð Wium Árnason sem kominn var til að gefa félaginu tvær milljónir til minningar um konu sína Auði Bertu Sveinsdóttur og son þeirra Svein Wium sem bæði létust úr krabbameini. Við erum Sigurði einstaklega þakklát fyrir þessa rausnarlegu gjöf.

Á árinu hafa verið veittir styrkir til sjúklinga vegna mikils kostnaðar vegna veikinda þeirra. Nýlega færði Krabbameinsfélag Suðurnesja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að gjöf sérúrbúin aðgerðarstól til lyfjagjafa fyrir krabbameinssjúklinga.
Á aðalfundi var ákveðið að hækka árgjaldið úr 2.500 kr. í 3.000 kr. Árgjaldið hafði ekki hækkað í átta ár.

Alla daga sem opið er í þjónustumiðstöðinni mæta einhverjir til að hitta aðra og spjalla. Við höfum gert ýmislegt, unnið handavinnu, búið til skartgripi og pantað af netinu skartgripi til að selja og svo auðvitað sultur sem við seljum. Það hjálpast allir að og þetta er mjög skemmtilegt.
Fljótlega eftir sumarfrí byrjaði undirbúningur fyrir bleikan október. Ákveðið var að Petrína Sigurðardóttir fengi næluna okkar í október og af því tilefni var haldin veisla henni til heiðurs. Fjölmenni var og mikil ánægja með þetta. Fyrstu helgina í október var mætt í Nettó og afraksturinn seldur. Þetta er mjög gaman. Við fengum svokallað „brjóstavesti“ lánað frá Krabbameinsfélaginu en það er vesti með brjóstum sem hægt er að finna hnúta í.

Við höfum farið saman á ráðstefnur og fundi í Reykjavík um krabbameinsmál og á kaffihús eða út að borða, okkur til gamans. Reynt hefur verið að halda hópnum saman og gera eitthvað skemmtilegt.

Í nóvember var svo fyrirlestur með Ásdísi grasalækni um mataræði og krabbamein. Hann var vel sóttur. Í vetur höfum við farið með veggspjald í fyrirtæki á Suðurnesjum. Á því voru leiðbeiningar á mörgum tungumálum sem höfðuðu til kvenna um hvert og hvernig þær ættu að komast í krabbameinsleit.

Þeim hefur fjölgað sem koma til okkar okkur og mikið hefur verið um fyrirspurnir frá sjúklingum. Starfið hefur gengið vel í vetur.

Sigríður Ingibjörnsdóttir.

Starfsemi 2015-2016

Vorið 2015 hætti Sigrún Ólafsdóttir störfum hjá Krabbameinsfélagi Suðurnesja og 1. september tók Sigríður Ingibjörnsdóttir við af henni.

Krabbameinsfélag Suðurnesja tók þátt í Bleiku slaufunni í október með ýmsu móti. Til stóð að hafa rökkurgöngu eins og var árið áður og þótti takast mjög vel. Það gekk þó ekki því brenna sem vera átti miðpunktur göngunnar var ekki samþykkt. Bókin „Þarmar með sjarma“ var kynnt af þýðanda, Rakel Fleckenstein Björns¬dóttur, og messa var í Keflavíkurkirkju þar sem Úlfar Hermannsson flutti erindi. Hann er bæði aðstandandi og krabbameinsgreindur. Í október ár hvert hefur Krabbameinsfélagi Suðurnesja heiðrað konu með því að afhenda henni bleika slaufu. Í ár hlaut Sigurbjörg Þorleifsdóttir hana en hún hefur verið virk í starfi félagsins. Grein birtist í Víkurfréttum þar sem m.a. var fjallað um fyrir hvað bleiki mánuðurinn stendur og til að vekja athygli almennings á átakinu. Allar kirkjurnar á Suðurnesjum auk fjölda annarra bygginga voru lýstar bleikar og nutu sín ákaflega vel í haustbirtunni.

Félagið stóð fyrir fyrirlestrum, námskeiðum, kynningum og samverustundum krabbameinssjúklinga. Nefna má að Erna Magnúsdóttir, iðjuþjálfi og forstöðumaður Ljósins, sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra, kynnti starfsemina. Þóra Halldórsdóttir var með Qingong-námskeið. Mætingar á þessa viðburði hafa verið misjafnar, allt frá þremur upp i rúmlega þrjátíu.

Frá september hefur verið að mestu föst dagskrá. Skrifstofa félagsins er opin þriðjudaga og fimmtudaga. Þá er opið hús en það eru fyrst og fremst konur sem koma. Þegar veður leyfir er farið í göngu og svo fáum við okkur kaffi og spjöllum eða förum jafnvel á kaffihús. Þegar ekki viðrar til göngu er bara spjallað og haft gaman. Sumar kvennanna hafa það sem fastan lið hjá sér að mæta alltaf til okkar.

Í nýliðnum Mottumars var nóg að gera. Byggingar voru lýstar upp bláar. Við vorum með fjáröflun fyrstu helgina í mánuðinum, settum upp söluborð í Nettó og Bónus, bjuggum til sultur, sem Nettó hafði gefið okkur hráefni í, seldum vörur sem félagið átti og öfluðum nýrra félaga. Allir hjálpuðust að við þetta og var það mjög skemmtilegt. Þá var haldinn súpufundur, sérstaklega ætlaður körlum. Á fundinn kom Hannes Ívarsson sem fékk krabbamein í blöðruhálskirtil. Hann fór í mál við ríkið því hann telur karla órétti beitta, konur fái mun meiri niðurgreiðslur vegna afleiðinga krabbameins en þeir. Hann sagði frá sér og leiddi umræður á fundinum og hvatti karla til að ræða málin sín á milli. Kynningar hafa verið haldnar í skólum og hjá félagasamtökum þar sem Krabbameinsfélag Suðurnesja er kynnt og svarað spurningum um það.

Sigríður Ingibjörnsdóttir.

Starfsemi 2014-2015

Skrifstofa félagsins er opin þriðjudaga og fimmtudaga kl 12-16 auk þess sem boðið er upp á viðtalstíma utan vinnutíma. Starfsmaðurinn, Sigrún Ólafsdóttir, er í 40% starfi. Stjórnarfundir á tímabilinu voru tíu. Aðalfundur félagsins var haldinn 16. apríl 2015 og var með hefðbundnu sniði. Halldór Jónsson jr. bæklunar-skurðlæknir flutti erindi um krabbamein í stoðkerfi.

Frá aðalfundi 2014 hefur orðið talsverð aukning á starfsemi félagsins og félögum hefur fjölgað umtalsvert. Eftir sumarfrí var hafist handa við að skipuleggja vetrarstarfið og undirbúa viðburði í október, bleika mánuðinum. Eins og áður hafa verið fastir fundir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann þar sem við höfum fengið áhugaverða fyrirlesara til okkar. 
Í september fór fram haustsala krabbameinsfélaganna. Við tókum þátt í því og eins og ávallt þegar við erum með fjáröflun notum við tækifærið og öflum nýrra félaga.

Í október var eins og undanfarin ár áherslan á konur og krabbamein og var ýmislegt um að vera. Fyrstu bleiku slaufuna fékk Helga Björk Steinþórsdóttir afhenta sem þakklæti fyrir gott starf fyrir félagið okkar. Margar byggingar voru lýstar bleikar og m.a. allar kirkjurnar á Suðurnesjum. Sunnudaginn 26. október var haldin bleik kvöldmessa í Keflavíkurkirkju tileinkuð konum og krabbameinum. Þar voru konur í aðalhlutverkum með reynslusögu, ritningalestri og söng. Mánudaginn 3. nóvember var farin bleik ljósaganga sem var hugsuð fyrir alla fjölskylduna. Gengið var frá Holtaskóla að skógræktinni í Vatnsholti þar sem boðið var upp á heitt súkkulaði, kex og sögustund við varðeld. Ævar Þór Benediktsson las úr hinni frábæru bók sinni „Þín eigin þjóðsaga“. Vel var mætt og veðrið var eins og best var á kosið. Ungliðar úr Björgunarsveitinni Suðurnes aðstoðuðu okkur við að klippa niður bleika filmu á ljósin og útdeildu súkkulaði og kexi. Með þessari göngu lukum við árlegu árvekniátaki varðandi krabbamein hjá konum.

Í marsfjáröfluninni seldum við heimagerða sultu merkta skeggmottu og félagsmerkinu okkar og vörur frá Raven design, kynntum félagið og öfluðum nýrra félaga. Sunnudaginn 22. mars var haldin blá kvöldmessa í Keflavíkurkirkju tileinkuð körlum og krabbameinum og nú voru það karlar sem voru í aðalhlutverkum með frásögn, lestri og söng. Í mars var Keflavíkurkirkja lýst blá eins og í fyrra og einnig lýsti HS Orka sínar byggingar bláar til að minna á Mottumars körlum til heiðurs.

Nú á vormánuðum voru haldin tvö námskeið á vegum félagsins, annars vegar námskeið í hugrænni atferlismeðferð og hins vegar námskeið í qigong. Fullt var á bæði námskeiðin. Áfram fá þeir sem greinst hafa með krabbamein frítt í jóga í Om-setrinu og á haustmánuðum náðum við að bæta við veigamiklum þætti í þá þjónustu sem við höfum getað veitt krabbameinssjúkum hér á svæðinu með því að ganga frá samkomulagi við lögfræðistofu Suðurnesja um ókeypis lögfræðiþjónustu fyrir okkar skjólstæðinga sem á því þurfa að halda.

Sigrún Ólafsdóttir.


Var efnið hjálplegt?