© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2015-2016

Á síðasta starfsári voru haldnir fjórir stjórnarfundir. Aðalfund félagsins í apríl 2015 sátu allir stjórnarmenn en enginn félagsmaður mætti þar fyrir utan.

Helstu verkefnin á liðnu starfsári voru vinna við forvarnarverkefni gegn munntóbaki í grunnskólum Hafnarfjarðar, þátttaka í aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands, fjárhagsstuðningur við ákveðin verkefni, bleiki mánuðurinn, skógarganga og mottumars.

Sérstakur stjórnarfundur var haldinn í janúar 2016 með Ásgeiri Theódórs vegna sepaskrárinnar sem Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar styrkti veglega árið 2011. Ásgeir fór yfir stöðuna á skránni og í stuttu máli þá er unnið í henni af fullum krafti hjá meltingarlæknum í Glæsibæ. Sepaskráin er eign Landspítalans en hann hefur enn sem komið er ekki verið að nýta sér hana að sögn Ásgeirs. Í gagnagrunni skrárinnar eru fimm þúsund einstaklingar.

Í maí 2015 afhenti Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar 500.000 króna styrk til krabbameinssjúkra barna sem eru í meðferð á Barnaspítala Hringsins. Peningurinn fór í rekstur á ísbirninum Hring sem kemur af og til yfir árið til barnanna og léttir þeim lífið og tilveruna á meðan á spítaladvöl þeirra stendur.

Þann 22. september 2015 sátu Anna Borg, formaður, Hafrún Dóra Júlíusdóttir, varaformaður og Geir Bjarnason, forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðar, fund með bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Haraldi L. Haraldssyni, sviðsstjóra fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar, Magnúsi Baldurssyni, og fjármálastjóra skóla-skrifstofu Hafnarfjarðar, Guðmundi Sverrissyni. Tilgangur fundarins var að upplýsa viðkomandi um forvarnarstarfið gegn munntóbaki í grunnskólum Hafnarfjarðar og kanna hvort bæjarfélagið gæti með einhverjum hætti greitt á móti félaginu, kostnað vegna fræðslunnar sem staðið hefur í nokkur ár og hefur svo sannarlega skilað sér í minni munntóbaksnotkun hafnfirskra unglinga í samanburði við nágranna-sveitarfélögin. Í stuttu máli þá var það samþykkt og mun bæjarfélagið greiða sem nemur 1.000 krónur á hvern nemanda í 8. bekk grunnskóla Hafnarfjarðar. Forvarnarfræðslan fór fram í janúar 2016 og gekk mjög vel að sögn skólastjóra grunnskóla Hafnarfjarðar. Að venju tók Jón Ragnar Jónsson, tónlistarmaður með meiru, að sér þessa fræðslu og heillaði börnin upp úr skónum með sinni skemmtilegu framsögn um þó alvarlegt mál.

Kvöldganga í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn var farin þriðjudaginn 6. október 2015 á vegum Krabba-meinsfélags Hafnarfjarðar og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Félagar úr Krabbameinsfélaginu og aðrir áhugasamir fjölmenntu í gönguna sem hófst við Gróðrastöðina Þöll, til að njóta skógarins í skjóli myrkurs og ganga saman í ævintýraljóma lukta. Gengið var um skóginn undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar skóg-fræðings. Eftir gönguna var boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar. Gangan tókst einstaklega vel og aldrei hafa jafn margir mætt í þessa árlegu göngu félagsins eða rúmlega 70 manns.

Í bleika mánuðinum stóðu Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Brjóstaheill-Samhjálp kvenna og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins fyrir sameiginlegu málþingi með áherslu á brjóstakrabbamein kvenna og þá sérstaklega á BRCA. Yfirskrift þingsins var: „Viltu vita? “ Þingið var haldið 20. október 2015 hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð.

Að venju fór Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar í samstarf við bæjarstjóra og starfsmenn Hafnarfjarðarkirkju til að minna bæjarbúa á mikilvægi bleika mánaðarins. Fáni með bleiku slaufunni blakti út mánuðinn á fánastöng Ráðhússins og Hafnarfjarðarkirkja var böðuð bleiku ljósi. Einnig tók framkvæmdasvið Hafnarfjarðar vel í þá hugmynd að lýsa upp Lækinn í október. Rætt var við fulltrúa verslana og þjónustu í Strandgötu til að minna bæjarbúa á bleika mánuðinn og hvetja þá til að draga fram liti og lýsingu í bleika litnum á bleika daginn þann 16. október.

Í mars 2016 hófst fjáröflunarátakið „Karlar og krabbamein, Mottumars“ á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Hafnarfjarðarfélagið hvatti stofnanir til að gera sér dagamun og minna á átakið gegn karlakrabbameini. Að þessu sinni tóku stjórnarmenn þá ákvörðun að standa ekki í árlegri sölu á mottumarsvörum þar sem ekkert nýtt var á boðstólnum og salan fyrir ári síðan með minnsta móti. Í staðinn var ákveðið að vera með í sölu á varningi, helst fjölnota innkaupapoka, í september 2016. 

Stjórn Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar samþykkti á stjórnarfundi 9. mars 2016 að styrkja félag sem vinnur með krabbameinssjúklingum. Fyrir valinu varð Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Skokkhópur Hauka í Hafnarfirði hafði samband við formann Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar og upplýsti að það yrði Mottumarshlaup í byrjun apríl á þeirra vegum og myndi allur ágóði ganga til félagsins. Sú upphæð fer öll til Krafts og mun Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar bæta við upp í fimmhundruð þúsund krónur til styrktar starfsemi Krafts og þá í svokallaðan neyðarsjóð Krafts. Sjóðurinn er eingöngu ætlaður til að standa straum af læknis- og lyfjakostnaði. Fulltrúum frá Krafti og Skokkhópi Hauka var sérstaklega boðið á aðalfundinn þann 27. apríl 2016 til að afhenda Krafti styrkinn.

Minningarkort félagsins eru seld á nokkrum stöðum og gefur það félaginu nokkrar tekjur. Þau er einnig hægt að fá á netinu hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar vill leggja sitt af mörkum til að hvetja fólk til að ástunda heilbrigða lífshætti og gerir það með því að vera sýnilegt í bæjarfélaginu og minna á þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni í þágu samfélagsins.

Anna Borg Harðardóttir. 

Starfsemi 2014-2015

Á síðasta starfsári voru haldnir fimm stjórnarfundir á milli aðalfunda og sóttu varamenn þá til jafns við aðalmenn. Fundirnir voru haldnir í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju við Strandgötu og á Skipalóni 18. Aðalfundur félagsins var haldinn í sal í Hafnarfjarðarkirkju þann 28. apríl. Dagskrá var hefðbundin þ.e. venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál. Undir önnur mál voru samþykkt endurbætt lög félagsins. Fundinn sátu flestir stjórnarmenn en enginn félagsmaður mætti þar fyrir utan. Helstu verkefnin á liðnu starfsári voru: þátttaka í Reykjarvíkurmaraþoni, vinna við forvarnarverkefni gegn munntóbaki, formannafundir aðildarfélaganna og aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands, fjárhagsstuðningur við ákveðin verkefni, bleiki mánuðurinn, skógarganga og mottumars.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands var haldinn laugardaginn 10. maí 2014 í Skógarhlíð og sóttu hann Anna Borg formaður og Hafrún Dóra varaformaður. Anna Borg sat formannafund aðildarfélaga Krabbameinsfélags Íslands sem að þessu sinni var haldinn laugardaginn 4. október 2014 á Akureyri.

Forvarnarstarf 

Anna Borg, Hafrún Dóra og Geir Bjarnason, forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðar, hittust í ágúst 2014 til að fara yfir og undirbúa forvarnarstarfið gegn munntóbaki, í grunnskólum Hafnarfjarðar. Átakið fór síðan í gang í lok janúar 2015 og eins og nokkur undanfarin ár var gengið til samstarfs við Jón Ragnar Jónsson, íþróttamann og tónlistarmann, um að fara í alla 8. bekkina á skólaárinu. Í stuttu máli fór Jón í alla sjö skólana, þar sem hann var eina kennslustund í hverjum bekk. Hann spjallaði við krakkana, sagði frá sínu lífi, ræddi heilbrigðan lífs¬stíl, talaði gegn munntóbaksnotkun og sagði frá tónlistarferlinum sínum og var með gítarinn í hönd og spilaði og söng. Skólastjórnendur og kennarar eru ákaflega ánægð og jákvæð fyrir þessu verkefni og eru farin að gera ráð fyrir því inn í kennsluáætlun sína.

Garðaskóli í Garðabæ fékk Jón Ragnar einnig til sín í ár og er bara vonandi að hann komist yfir fleiri skóla með þetta flotta upplegg sitt gegn munntóbaksnotkun ungmenna. Þetta átak er svo sannarlega að sýna árangur og má vísa í nýjustu niðurstöður frá Rannsóknir & greining 2015 (niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk árið 2015) þar sem færri og færri krakkar nota reglubundið munntóbak. Átakið gegn munntóbaksnotkun ungmenna er langhlaup sem fylgja verður vel eftir inn í framtíðina. Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar sótti um styrk til verkefnisins, 550 þúsund kr., í velunnarsjóð Krabbameinsfélags Íslands og fékk úthlutað 300 þúsund krónum. Einnig var sótt um styrk frá Lýðheilsusjóði og fengum við úthlutað 200 þúsund krónum til átaksins.

Því miður hefur samstarf við íþróttafélögin, FH og Hauka, ekki gengið nógu vel eftir á liðnu starfsári. Félögin hafa ekki staðið við þau verkefni sem þó hafði verið sammælst um á vormánuðum 2014 og ekki sýnt það frumkvæði að vera í sambandi við okkur um áframhaldandi samstarf. Þessi staða verður væntanlega rædd á næsta starfsári.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar var skráð hjá Reykjavíkurmaraþoni og gátu hlauparar heitið á félagið, þ.e. hver km gaf ákveðna krónutölu. Félagið fékk engin áheit að þessu sinni.

Viðburðir

Kvöldganga í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn var farin þriðjudaginn 23. september 2014 á vegum Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Félagar og aðrir áhugasamir, fjölmenntu (rúmlega 50), við Gróðrastöðina Þöll til að njóta skógarins í skjóli myrkurs og ganga saman í ævintýraljóma lukta. Gengið var um skóginn undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar skógfræðings. Séra Jón Helgi Þórarins-son, prestur í Hafnarfjarðarkirkju, flutti hugvekju og Jóhann Guðni Reynisson, skáld með meiru, las upp frumsamin ljóð. Eftir gönguna var boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar. Gangan tókst einstaklega vel og þátttakendur fóru sáttir og sælir heim eftir ævintýrlega upplifun um dimma skógarstíga. Stjórnarmenn voru þó sammála um varðandi næstu göngu, að leggja af stað hálftíma seinna eða um 19:30 til að gangan standi betur undir nafni í rökkrinu.

Í bleika mánuðinum stóðu Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Brjóstaheill - Samhjálp kvenna og Ráðgjafarþjónustan fyrir sameiginlegu málþingi og pallborðsumræðum, undir yfir-skriftinni: „Er besta þjónusta í boði?“.

Að venju fór Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar í samstarf við bæjarstjóra og sóknarprest Hafnarfjarðarkirkju til að minna bæjarbúa á mikilvægi bleika mánaðarins. Fáni með bleiku slaufunni blakti út mánuðinn á fánastöng Ráðhússins og Hafnarfjarðarkirkjan var böðuð í bleiku ljósi. Að auki fór félagið í samstarf við hlaupahóp FH um að setja í gang „október-hlaupið“ og var það svo sannarlega gert með glæsibrag og stemningu fyrir hlaupara og ekki hvað síst fyrir bæjarlífið. Hlaupið var til styrktar krabbameinssjúkum börnum og söfnuðust samtals 160 þúsund krónur sem munu renna til stuðnings við krabbameinssjúk börn. Við gerð þessarar skýrslu standa yfir bréfaskriftir á milli Barnaspítala Hringsins og félagsins um það í hvað nákvæmlega styrkurinn fer í. Eiga félagar í hlaupahóp FH hinar bestu þakkir fyrir frábæran stuðning. Í bleika mánuðinum var haft samband við Miðbæjarsamtökin og Hafnarborg um samvinnu um að gera bæinn bleikan. Því miður tókst ekki að fylgja þessu almennilega eftir að þessu sinni en stefnt er að því að taka upp þráðinn haustið 2015, enda voru undirtektir jákvæðar.

Í mars hófst að venju átakið „Karlar og krabbamein – Mottumars“ á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Hafnarfjarðarfélagið gerði sig áberandi í samfélaginu með því að selja bæjarbúum armbönd og segul¬mottu til styrktar starfsemi félagsins. Stjórnarmenn stóðu í anddyri Fjarðarkaups föstudaginn 13. mars og laugardaginn 14. mars og seldu rúmlega 210 stykki. Heldur minni sala var í ár en mörg undanfarin ár og má þar fyrst og fremst um kenna mjög slæmu veðri þessa helgina þar sem fólk var hvatt til að vera heima vegna veðurs.

Á árinu styrkti Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar Heilsugæslustöðina við Sólvang um kaup á öflugri myndavél til að mynda húðbletti. Styrkurinn hljóðaði upp á rúmar 100 þúsund krónur.

Á formannafundinum á Akureyri í október 2014, tilkynnti Anna Borg fyrir hönd stjórnar, að Krabba-meinsfélag Hafnarfjarðar legði til 100 þúsund krónur í nýstofnaðan vísindasjóð Krabbameinsfélags Íslands. Stjórnin samþykkti jafnframt að leggja árlega til 200 krónur fyrir hvern félagsmann í sjóðinn. 

Minningarkort félagsins eru seld á nokkrum stöðum hér í bænum og gefur það félaginu nokkrar tekjur. Þau er einnig hægt að fá gegnum vefinn hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Samþykkt var á aðalfundi 2014 að félagsgjöld yrðu áfram 1.000 kr. fyrir almenna félagsmenn og 10.000 kr. fyrir styrktarfélaga og fyrirtæki. Stjórnin sá ekki ástæðu til hækkunar félagsgjalda. Félagsmönnum fjölgaði lítillega á milli ára og eru nú um 483 talsins. 

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar hefur sótti um tvo stóra styrki fyrir liðið starfsár, til að standa straum af kostnaði við átakið geng munntóbaki. Sótt var um styrk hjá Lýðheilsusjóði og fengum við eins og áður hefur komið fram 200 þúsund krónur og hjá velunnarasjóði Krabbameinsfélags Íslands fengum við 300 þúsund krónur. Stjórn félagsins er afskaplega þakklát fyrir þennan stuðning við átaksverkefnið.

Tilgangur Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar hefur frá upphafi verið sá að styðja við baráttuna gegn krabbameini m.a. með fræðslu um krabbamein og krabbameinsvarnir, með styrkveitingu til ákveðinna verkefna og með stuðningi við krabbameinssjúklinga. Gildi forvarna er mjög mikilvægt t.d. varðandi munntóbaks- og tóbaksvarnir, mætingu í krabbameinsleit, mataræði og hreyfingu svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru atriði sem við þurfum sífellt að vera að minna á. Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar vill leggja sitt af mörkum til að hvetja fólk til að ástunda heilbrigða lífshætti og gerir það með því að vera sýnilegt í bæjarfélaginu og minna á þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni í þágu samfélagsins. Það er mikilvægt að missa ekki sjónar af tilgangi félagsins og þá sérstaklega því sem snýr að forvörnum.

Anna Borg Harðardóttir. 


Var efnið hjálplegt?