Bólusetning og sýkingar

Veirur geta valdið krabbameini og hægt er að verjast sumum þeirra. 

 

Fáir tengja smitsjúkdóma við krabbamein þó staðreyndin sé sú að nær fimmtungur allra krabbameina í heiminum eru af völdum sýkla, þar með talið baktería og veira. Þær sýkingar sem helst tengjast krabbameini eru svokallaðar HPV-veirur (HPV= human papilloma virus) sem valda flestum tilfellum krabbameins í leghálsi og endaþarmsopi auk hluta af krabbameini í munni. Lifrarbólgu-B-veirur (HBV, hepatitis B virus) og lifrarbólgu-C-veirur (HCV, hepatitis C virus) valda lifrarkrabbameini. Helicobacter pylori er baktería sem getur orsakað magakrabbamein. Alnæmisveirusýking (HIV, human immunodeficiency virus) veldur ekki krabbameini beint en fólk sem er sýkt af veirunni og af þeim sökum með bælt ónæmiskerfi er líklegra en aðrir til að fá krabbamein. Bólusetning er árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir sumar þessara sýkinga. Mjög öflug bóluefni gegn HBV hafa verið til í nokkra áratugi og í flestum löndum er slík bólusetning hluti af bólusetningaráætlun ungbarnaeftirlits. Bólusetning er einnig mjög áhrifarík forvörn gegn þeim gerðum HPV-veira sem valda meirihluta leghálskrabbameins.

HPV-veirur

Hvað eru HPV-veirur?

HPV- veirur eru veirur sem valda algengri sýkingu sem berst milli fólks við kynmök.  Til eru margar gerðir HPV-veira. Sumar þeirra valda vörtum. Aðrar gerðir, einkum gerðir 16 og 18, orsaka stundum leghálskrabbamein og aðrar tegundir krabbameins.

Hversu algengar eru sýkingar af völdum HPV-veira?

HPV-veirur eru mjög algengar í fullorðnum einstaklingum. Flestar sýkingar af völdum HPV eru einkennalausar og því er ekki hægt að vita hvort einhver sé sýktur eða ekki. Allt að helmingur fólks sýkist af HPV einhvern tímann á ævinni.  Í flestum tilvikum veldur veiran engum skaða þar sem ónæmiskerfi líkamans ræður oftast niðurlögum hennar en í sumum tilfellum hverfur sýkingin ekki og getur leitt til krabbameins.

Hvernig dreifast HPV-veirur?

HPV-veirur smitast auðveldlega við kynlífsathafnir.

Hvaða tegundum krabbameins geta HPV-veirur valdið?

HPV-veirusýking getur leitt til krabbameins í leghálsi, leggöngum og ytri kynfærum kvenna. Einnig getur hún leitt til krabbameins í endaþarmi og koki í bæði körlum og konum og krabbameins í typpi.

Er hægt að koma í veg fyrir HPV-veirusýkingu?

Já. Með bólusetningu er hægt að koma í veg fyrir sýkingu þeirra gerða HPV-veira sem orsaka um 70% leghálskrabbameins. Bólusetning gagnast þó nær aðeins þeim sem aldrei hafa smitast af veirunni. Af þessum sökum er mælt með því að stúlkur séu bólusettar áður en þær byrja að stunda kynlíf. Líkurnar á að sýkjast af HPV-veiru aukast með auknum fjölda bólfélaga. Smokkanotkun getur dregið úr smiti milli bólfélaga en ekki komið í veg fyrir þau öll.  

Á hvaða aldri ætti að bólusetja stúlkur gegn HPV-veirum?

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með að stúlkur séu bólusettar gegn HPV-veirum á aldrinum 9-13 ára. Ástæðan er sú að flestar þeirra fara ekki að stunda kynlíf fyrr en þær eru orðnar eldri og því ólíklegt að þær hafi þegar smitast. Í sumum löndum eru eldri stúlkur og jafnvel ungar konur líka bólusettar, en bólusetningin dugar ekki eins vel ef þær eru byrjaðar að stunda kynlíf.

Ætti að láta bólusetja drengi gegn HPV-veirum?

Sýnt hefur verið fram á að HPV-bólusetning getur komið í veg fyrir sýkingar og sár af völdum HPV-veira á kynfærum drengja. Fram til þessa hefur nær hvergi verið boðið upp á bólusetningar stráka gegn HPV-veirum neins staðar í opinberum heilbrigðisáætlunum í Evrópu vegna kostnaðar sem því fylgir og vegna þess að krabbamein í typpi og í endaþarmi karlmanna af völdum HPV-sýkinga eru sjaldgæf. Eins og er geta foreldrar valið að láta bólusetja unglingssyni sína á eigin kostnað kjósi þau það eftir að hafa ráðfært sig við heimilislækni.

Eiga konur sem bólusettar voru á barnsaldri að mæta í skipulega leit (skimun) að leghálskrabbameini?

Já. Þau bóluefni sem nú eru notuð eru mjög árangursrík hvað varðar að koma í veg fyrir sýkingar HPV-veira af tegund 16 og 18 sem valda einmitt stórum hluta krabbameins í leghálsi og í endaþarmi. Þau koma hins vegar ekki í veg fyrir smit allra tegunda HPV-veira sem geta valdið krabbameini. Mjög mikilvægt er að muna að þó að konur séu bólusettar ættu þær samt að taka þátt í hópleit að forstigsbreytingum krabbameins í leghálsi.

Ættu konur sem aldrei hafa verið bólusettar gegn HPV-veiru að láta gera það nú?

Í sumum löndum Evrópu er ungum konum boðið upp á bólusetningu, en hún dugar þó verr ef viðkomandi er farin að stunda kynlíf og er gagnslaus gegn þeim sýkingum sem þær gætu þegar haft. Bólusetning er aðeins gagnleg þeim sem ekki hafa smitast af þeim tegundum HPV-veira sem bóluefnið verndar gegn. Þar sem ómögulegt er að vita hvaða tegundum hver og ein hefur smitast af er ekki hægt að vita fyrirfram hvort bólusetning geri gagn eða ekki.     

Hve lengi má gera ráð fyrir að bólusetning veiti vernd gegn HPV-veirum?

Rannsóknir benda til þess að að bólusetning gegn HPV-veirum veiti vernd í að minnsta kosti í 10 ár. Enn er ekki hægt að segja til um hvort bólusetning veiti vörn lengur en sem því nemur.

Hve örugg er bólusetning gegn HPV-veirum?

Bólusetningin er mjög örugg. Meira en 170 milljón stúlkur hafa þegar verið bólusettar og helstu vandamál sem upp hafa komið eru sársauki í stungustað, hiti, svimi og ógleði. Þetta eru allt skammtímaáhrif og engin alvarleg vandamál hafa verið tengd bólusetningunni. Fylgst er með öryggi hennar hjá heilbrigðisyfirvöldum hvers lands, heilbrigðismálayfirvöldum ESB og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og allt sem gefur tilefni til að valda áhyggjum er rannsakað nákvæmlega.

Hvar má finna meiri upplýsingar?

Best er að ræða við heilsugæslulækni eða aðra heilbrigðisstarfsmenn. Einnig er hægt að skoða vefsíður hjá heilbrigðisyfirvöldum í hverju landi.

Hér má einnig finna nánari upplýsingar um leghálskrabbamein: https://www.krabb.is/fraedsla-forvarnir/krabbamein-a-o/oll-krabbamein/leghals-krabbamein

Aðrar sýkingar sem tengjast krabbameini

Sýkingar af völdum veiranna

  • HBV(hepatitis-B-virus, veldur lifrarbólgu B),
  • HCV(hepatitis-C-virus, veldur lifrarbólgu C),
  • HIV(human immunodeficiency virus, veldur  alnæmi)
  • og bakteríunnar Helicobacter pylori(veldur magasári),

geta einnig leitt til krabbameins. Hægt er að bólusetja gegn lifrarbólgu B veirunni en ekki er hægt að bólusetja gegn hinum sýkingunum. Nánari upplýsingar má finna hér að neðan.

Lifrarbólga B

Hvað er lifrarbólga B?

Lifrarbólga B er sjúkdómur sem stafar af sýkingu af völdum lifrarbólgu B veirunnar (HBV). Sýkingin getur valdið örvefsmyndun í lifur (skorpulifur), lifrarbilun, lifrarkrabbameini og dauða. Meðal einkenna eru ógleði, lystarleysi, flensulík einkenni eins og þreyta, beinverkir og höfuðverkir auk gulnunar húðar og augna (gula). Í fullorðnum er lifrarbólga B yfirleitt bráð, kemur skyndilega og varir stutt. Í sumum tilfellum er hún þó langvarandi og án einkenna. Langvinn lifrarbólga er hinsvegar algengari þegar ungbörn og börn yngri en 5-10 ára sýkjast.

Hve algeng er sýking af völdum lifrarbólgu-B-veiru í Evrópu?

Í flestum Evrópulöndum er minna en 1% íbúa (einn af hverjum 100 íbúum) með langvinna lifrarbólgu B sýkingu. Hæsta hlutfallið er skráð í Grikklandi (3,4% íbúa) og Rúmeníu (5,6% íbúa).

Hvaða tengsl eru á milli lifrarbólgu B og lifrarkrabbameins?

Veiran sem veldur lifrarbólgu B skaðar lifrina. Því lengur sem sýkingin varir eru meiri líkur á að lifrarkrabbamein myndist. Líkurnar á að lifrarkrabbamein myndist í einstaklingi með langvinna lifrarbólgu B sýkingu aukast verulega með áfengisneyslu og ef viðkomandi er einnig sýktur af lifrarbólgu C.

Hvernig dreifist lifrarbólgu B veiran?

Aðalsmitleið veirunnar sem veldur lifrarbólgu B er með sýktu blóði eða öðrum sýktum líkamsvessum. Smit berst ekki milli einstaklinga í lofti, fæðu eða vatni. Barn getur smitast í fæðingu sé móðirin sýkt. Einnig getur veiran smitast frá einu barni til annars við nána snertingu og milli fullorðinni einstaklinga við kynmök eða með samnýtingu sýktra sprautunála. Aðrar mögulegar smitleiðir eru læknismeðferðir í löndum þar sem smitaðar nálar eða sýkt blóð gæti verið notað.

Sérstaklega mikilvægt er að koma í veg fyrir dreifingu veirunnar frá móður til barns og milli barna, þar sem langvarandi sýking af völdum lifrarbólgu B veiru, sem eykur líkur á lifrarkrabbameini, er mun algengari ef smit hefur átt sér stað á fyrstu fimm til tíu árum ævinnar.

Er hægt að draga úr líkum á lifrarkrabbameini af völdum lifrarbólgu B veiru?

Já. Bólusetning gegn lifrarbólgu B veirunni við fæðingu dregur úr líkum á að barn fái lifrarkrabbamein.

Hversu fljótt eftir fæðingu ætti að bólusetja barn gegn lifrarbólgu B?

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) leggur til að börn fái fyrsta skammtinn af bóluefni innan sólarhrings frá fæðingu, sé þess kostur. Meirihluti landa innan Evrópu hafa áætlun um að bólusetja alla nýbura gegn lifrarbólgu B. 

Í nokkrum löndum Evrópu (Bretlandi og sumum Norðurlandanna) er bólusetning gegn lifrarbólgu B aðeins í boði fyrir þau nýfæddu börn sem teljast í mikilli áhættu (börn mæðra sem eru með lifrarbólgu B). Í þessum löndum geta foreldrar ákveðið í samráði við heimilislækni að láta bólusetja börn sín á eigin kostnað.

Getur einstaklingur fengið lifrarkrabbamein þó að hann hafi verið bólusettur gegn lifrarbólgu B veirunni sem barn?

Já, vegna þess að lifrarkrabbamein getur einnig orsakast af öðrum þáttum eins og áfengisneyslu eða lifrarbólgu C veirusýkingu. Einnig vegna þess að bóluefni gegn lifrarbólgu B virkar ekki fullkomlega fyrir alla (eins og öll bóluefni) þó það verndi meira en 95% bólusettra.

Er bóluefnið gegn lifrarbólgu B öruggt?

Já, það er talið eitt öruggasta bóluefnið.

Ætti að bólusetja barn gegn lifrarbólgu B núna ef það var ekki gert við fæðingu?

Já. Mesti ávinningur gegn lifrarkrabbameini er meðal barna yngri en 10 ára en bólusetning gegn lifrarbólgu B verndar barn óháð aldri gegn lifrarbólgu B sýkingum í framtíðinni.

Ættu fullorðnir sem aldrei hafa verið bólusettir að láta bólusetja sig gegn lifrarbólgu B?

Já. Fullorðnir geta fengið bólusetningu og er sérstaklega mælt með því ef fólk er mjög útsett fyrir smiti (sjá næsta kaflahluta). Bólusetning dregur úr líkum á að eintaklingur sýkist af bráðri lifrarbólgu B. Fólk getur samt verið sýkt án þess að vita af því.

Hverjir eru líklegir til að vera sýktir af lifrarbólgu B?

Einstaklingar geta sýkst af lifrarbólgu B hafi þeir ekki fengið hana áður eða ekki verið bólusettir gegn henni. Líkurnar fara eftir því hversu marga bólfélaga viðkomandi hefur átt og hversu líklegt er að þeir hafi verið sýktir. Líkurnar á að vera sýktur af lifrarbólgu B aukast einnig ef notaðar hafa verið óhreinar sprautunálar eða manneskjan verið í öðrum aðstæðum þar sem óhreinar (sýktar) sprautunálar eða blóð gætu hafa verið notuð, til dæmis ef nauðsynlegt hefur verið að þiggja heilbrigðisþjónustu í sumum löndum. Lifrarbólga B er líka algengari í tilteknum evrópskum löndum (t.d. Grikklandi, Rúmeníu, Ítalíu og Spáni) samanborið við önnur og hafi einstaklingur dvalið í einhverju þeirra um tíma er meiri líkur á að hann hafi sýkst af lifrarbólgu B.

Ætti fólk að láta athuga hvort það sé með lifrarbólgu B?

Hafi fólk verið mjög útsett fyrir lifrarbólgu B smiti (sjá kafla að ofan) er mikilvægt að það leiti til heimilislæknis til að fá rannsakað hvort um slíkt smit sé að ræða. Reynist einstaklingur vera með langvinna lifrarbólgu B sýkingu, gefur læknirinn ráð um möguleg meðferðarúrræði sem dregið geta úr líkunum á lifrarkrabbameini.

Hvað ættu þeir sem reynast sýktir af lifrarbólgu B að gera?

Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður metur hvort nánari rannsókna sé þörf, einnig hvort meðferð sé nauðsynleg og hvaða meðferð henti þá best. Til að draga úr líkunum á myndun lifrarkrabbameins ætti hvorki að reykja né drekka áfengi. Enn fremur er hægt að reyna að lágmarka hættuna á að fá lifrarbólgu C veirusýkingu ( Þarf tengil við ,,Can hepatits C be prevented?”).

Dregur meðferð við lifrarbólgu B úr líkum á að einstaklingur fái lifrarkrabbamein?

Já. Meðferðin dregur úr líkum þess að einstaklingurinn fái lifrarkrabbamein. Hún dregur einnig úr líkum á öðrum lifrarskaða svo sem langvinnri lifrarbólgu og skorpulifur.

Hvaða aukaverkanir getur meðferð við lifrarbólgu B haft í för með sér?

Til eru mismunandi meðferðarúrræði og fara aukaverkanir eftir því hvaða meðferð um ræðir. Sum lyf þarf að taka alla ævi. Nánari upplýsingar um sjúkdóminn og mögulegar aukaverkanir meðferðar ætti að fá hjá lækni.

Hvar má finna nánari upplýsingar um lifrarbólgu B og bólusetningu? 

Ráðlegt er að panta viðtalstíma hjá heimilislækni eða öðru heilbrigðisstarfsfólki og skoða einnig vefsíður heilbrigðisyfirvalda.

Lifrarbólga C

Hvað er lifrarbólga C?

Lifrarbólga C er sjúkdómur sem stafar af sýkingu lifrarbólgu C veirunnar (HCV). Lifrarbólga af völdum þessarar veiru getur skaðað lifrina, leitt til lifrarkrabbameins og dauða. Sýking getur verið bráð og skammvinn en í meirihluta tilfella, eða hjá 75% einstaklinga sem smitast, er um að ræða langvinna lifrarbólgu sem er einkennalaus þar til lifrin hefur skemmst það mikið að sjúkdómurinn greinist.  

Hversu algeng er lifrarbólgu C sýking í Evrópu?

Undanfarna tvo áratugi hefur tíðni veirusmits af völdum lifrarbólgu C verið á milli 0,2% og 3% (frá 2 upp í 30 einstaklinga af hverjum 1000 íbúum) í flestum löndum ESB. Hæsta hlutfallið í Evrópu er allt að 8% í Ítalíu og Rúmeníu.

Hvaða tengsl eru á milli lifrarbólgu C og lifrarkrabbameins?

Margir sem smitast af lifrarbólgu C (um 75 af hverjum 100 smituðum), fá langvinna lifrarbólgu. Um 15% einstaklinga sem sýkjast geta búist við að greinast með lifrarkrabbamein.  Ólíkt lifrarbólgu B eru ekki minni líkur á að einstaklingur þrói með sér langvinna sýkingu þó að hann sýkist ekki fyrr en á fullorðinsaldri. Áfengisneysla, reykingar og samhliða sýking af lifrarbólgu B veirunni veldur auknum líkum á að einstaklingur sem er með langvinna lifrarbólgu af völdum lifrarbólgu C veirunnar fái lifrarkrabbamein.

Hvernig dreifist lifrarbólgu C veiran?

Lifrarbólgu C veiran smitast aðallega með sýktu blóði. Meginsmitleiðir sýkts blóðs milli manna tengjast notkun ólöglegra fíkniefna sem sprautað er í æð, samnýtingu sýktra sprautunála og blóðgjöfum sem framkvæmdar eru við ófullnægjandi aðstæður. Lifrarbólga C getur einnig smitast við samfarir og við almennt samneyti fólks á sama heimili en þó er óalgengari að fólk smitist við slíkar aðstæður samanborið við þær fyrrnefndu. Á tímabilinu frá fjórða áratug tuttugustu aldar og fram á þann áttunda sýktust fjölmargir vegna ófullnægjandi aðstæðna við sprautunotkun í mörgum löndum, þar með talið sumum löndum í Suður- og Austur-Evrópu. Nú á dögum er algengast að fólk sýkist af lifrarbólgu C veiru þegar ólöglegum fíkniefnum er sprautað í æð.

Hverjir eiga á hættu að fá lifrarbólgu C?

Þeir sem hafa einhvern tímann sprautað eiturlyfjum í æð og skipst á sprautunálum við aðra eða verið stungnir með stungubúnaði sem ekki hefur verið dauðhreinsaður (t.d. við húðflúrun, líkamsgötun fyrir skart eða við nálarstungumeðferð) gætu hafa smitast af lifrarbólgu C veiru. Hið sama á við um þá sem fengu blóðgjöf eða aðrar blóðafurðir fyrir árið 1995. Eftir þann tíma hafa allar blóðafurðir fyrir blóðgjafir eða aðrar læknismeðferðir í Evrópu verið skannaðar á kerfisbundinn hátt fyrir lifrarbólgu C veiru. Einstaklingar sem hafa verið stungnir með nálum við aðstæður þar sem meðhöndlun nálanna hefur verið ábótavant, eru í aukinni hættu á að fá lifrarkrabbamein C. Þetta getur t.d. átt við hafi fólk þegið meðferð sem falist hefur í að fá efni í æð, látið gata húð fyrir líkamsskart, fengið húðflúr eða farið í nálarstungumeðferð. Þetta er algengt í löndum eða á svæðum utan Evrópu sem búa við bágan efnahag og á óróatímum þegar samfélög eru í uppnámi.

Er hægt að koma í veg fyrir lifrarbólgu C?

Enn sem komið er engin bólusetning til sem kemur í veg fyrir lifrarbólgu C. Besta leiðin til að forðast smitast af lifrarbólgu C veiru er að forðast óöruggar inndælingar (t.d. blóðgjafir) og allar sprautur, líkamsgötun, húðflúr eða nálarstungumeðferðir þar sem dauðhreinsun stungubúnaðar gæti verið ábótavant. Nýjum tilfellum í Evrópu hefur fækkað mikið síðan farið var að skima blóðgjafa fyrir lifrarbólgu C veirusýkingu, gera veirur í blóðafurðum óvirkar og nota einnota sprautur og sprautunálar. Þrátt fyrir minnkandi líkur á smiti og vegna þess að ekki er öruggt að þessar starfsaðferðir séu viðhafðar í öllum Evrópulöndum er enn ráðlegt að forðast inndælingar eins og hægt er og nýta frekar meðferðir sem byggja á inntöku um munn sé slíkt í boði, einkum þegar ferðast er milli landa.  Einnig er mælt með að sleppa líkamsgötun, húðflúrun og nálarstungumeðferðum sé minnsti grunur um að hreinsun stungubúnaðar sé ófullnægjandi.

Ættu einhverjir að láta athuga hvort þeir séu sýktir af lifrarbólgu C?

Já, þeir sem eru 50 ára eða eldri, þá aðallega þeir sem hafa búið í Suður- eða Austur-Evrópu þar sem lifrarbólgu C veirusýkingar eru algengastar ættu að ráðfæra sig við lækni varðandi blóðrannsókn vegna mögulegs lifrarbólgu C veirusmits. Margir smituðust á árunum 1930-1990 vegna óöruggrar sprautunotkunar og inndælinga í ýmsum löndum. Blóðprófið gefur nákvæma niðurstöðu. Til er meðferð sem getur unnið á veirunum og þar með lifrarbólgunni og komið í veg fyrir krabbamein. Gruni einhvern að hann hafi fengið inndælingu eða meðferð af einhverju tagi þar sem öryggi hefur verið ábótavant ætti viðkomandi, óháð aldri, að láta rannsaka hvort hann sé með lifrarbólgu C veirusmit. Það sama við um þá sem neyta eða hafa neytt eiturlyfja í æð. 

Hvað ætti fólk að gera ef það greinist með lifrarbólgu C sýkingu?

Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður mun veita ráðleggingar um möguleg meðferðarúrræði. Meðferð getur eytt veirunni og takmarkað eða lagfært skaðann sem lifrin verður fyrir. Þau meðferðarúrræði sem til eru geta verið kostnaðarsöm og haft óþægilegar aukaverkanir. Þau verka misvel í hverju tilviki fyrir sig. Unnið er að þróun nýrra meðferðarmöguleika sem hugsanlega munu nýtast þegar fram í sækir. Til að draga úr líkum á lifrarkrabbameini ætti hvorki að reykja né drekka áfengi. Sé einstaklingur samtímis með lifrarbólgu B veirusýkingu aukast líkurnar á lifrarkrabbameini. Ráðfæra ætti sig við lækni varðandi bólusetningu gegn lifrarbólgu B og önnur úrræði.  

Hverjar eru aukaverkanir meðferðar gegn lifrarbólgu C sýkingu?

Þau meðferðarúrræði sem nú bjóðast gegn lifrarbólgu C standa yfir í nokkra mánuði og geta óþægilegar aukaverkanir fylgt þeim, t.d. þreyta, höfuðverkur, flökurleiki, útbrot og blóðleysi. Unnið er að þróun nýrra meðferðarúrræða sem hugsanlega munu nýtast þegar fram í sækir.

Hvar er hægt að fá meiri upplýsingar um lifrarbólgu C?

Best er að ræða við heimilislækni eða annan heilsugæslustarfsmann. Einnig er hægt að skoða vefsíður heilbrigðisyfirvalda.

Alnæmisveiran (HIV)

Hvað er alnæmisveira?

Alnæmisveiran (Human immunodeficiency virus, HIV) er veira sem ræðst á ónæmiskerfið og dregur úr getu líkamans til að berjast gegn sýkingum og sjúkdómum. Einstaklingur sem sýktur er af alnæmisveirunni getur því orðið alvarlega veikur af völdum sýkinga sem heilbrigður einstaklingur gæti venjulega losnað við nokkuð auðveldlega. Þeir sem eru sýktir af veirunni og hafa veikst vegna þess skaða sem hún vefur valdið eru sagðir vera með áunna ónæmisbæklun eða alnæmi (Acquired immune deficiency syndrome, AIDS). AIDS er lokastig alnæmissýkingar, þegar líkaminn ræður orðið illa við að verjast lífshættulegum sýkingum án meðferðar.

Engin lækning er til við alnæmisveirusýkingu en til er lyfjameðferð, svokölluð veiruvarnarmeðferð (antiretroviral, ARV), sem hægir á dreifingu veirunnar um líkamann. Lyfjameðferðir af þessu tagi gera flestum sem smitaðir eru af alnæmisveirunni kleift að lifa lengi við góða heilsu.

Hvaða tengsl eru á milli alnæmisveirunnar og krabbameins?

Fólk með alnæmisveirusmit er líklegra en annað til að fá sumar gerðir krabbameins, vegna þess að ónæmiskerfi þess eru veiklað og verður því berskjaldaðra fyrir sjúkdómum. Algengustu tegundir krabbameins sem tengjast alnæmisveirusmiti eru Kaposisarkmein sem er krabbamein í æðum, einnig krabbamein í eitlum, leghálsi, legi, endaþarmsopi, lungum, kvensköpum, leggöngum, typpi og lifur.  Að auki eru auknar líkur á krabbameini í vör, munni, koki og húð.

Hverjir eru líklegir til að vera smitaðir af alnæmisveirunni?

Alnæmisveiran getur borist milli einstaklinga sem stunda óvarið kynlíf og þegar fólk deilir sýktum sprautubúnaði eða öðrum oddhvössum áhöldum. Hún getur líka borist í fólk þegar sýkt blóð er notað við blóðgjöf. Að auki getur veiran borist frá móður til barns á meðgöngu, við fæðingu og brjóstagjöf.

Hvað er hægt að gera til að draga úr líkunum á að smitast af alnæmisveirunni?

Helsta leiðin til að koma í veg fyrir alnæmisveirusmit er að stunda öruggt kynlíf, nota smokk við allar samfarir eða halda sig við einn bólfélaga sem hefur látið prófa fyrir alnæmisveirunni í blóði sínu og er ekki smitaður. Einnig ætti fólk að láta rannsaka stöðu sína varðandi kynsjúkdóma almennt og fá meðferð ef þarf. Forðast ætti að sprauta lyfjum í æð. Ef ekki er komist hjá því ætti alltaf að nota nýjar, einnota nálar og sprautur. Einnota, nýjar nálar ættu líka alltaf að vera notaðar við húðflúrun og líkamsgötun.

Ætti fólk að láta athuga hvort það sé smitað af alnæmisveirunni?

Já, allir ættu að vita hvort þeir séu smitaðir af alnæmisveirunni. Sé um enga meðferð að ræða hjá manneskju sem smitast hefur, getur veiran dreift sér um líkamann og valdið heilsutjóni auk þess sem smitið getur borist til bólfélaga viðkomandi.

Niðurstöðu úr þeim greiningaprófum sem notuð eru nú til dags má oftast vænta innan mánaðar frá smitun. Greiningaprófin felast í rannsókn á blóð- eða munnvatnssýni.   

Hvað ætti fólk sem greinist með HIV-smit að gera?

Þeir sem greinast HIV-jákvæðir (sýktir af alnæmisveirunni) gangast undir frekari rannsóknir þar sem kannað er hversu langt sýkingin er gengin svo ákvarða megi hvenær tímabært sé að hefja HIV-meðferð. Það breytir lífi fólks varanlega að greinast með HIV-smit og er líklegt til að hafa áhrif á tilfinningalíf og lífshætti viðkomandi. Til eru samtök sem veita þeim sem greinst hafa með HIV-smit stuðning. Slík samtök geta líka oft veitt upplýsingar um bestu fáanlegu meðferð. Eindregið er mælt með að fólk sem greinist HIV-jákvætt hætti að reykja.

Hefur meðferð vegna HIV-sýkingar áhrif á líkurnar á að einstaklingur fái þau krabbamein sem tengjast HIV-veirunni?

Já. Veiruvarnarmeðferðir (antiretroviral treatments, ARV) koma í veg fyrir tvö af hverjum þremur krabbameinstilfellum í HIV-smituðum einstaklingum, einkum Kaposi-sarkmein og eina gerð eitlakrabbameins (non-Hodgkins eitlakrabbamein). Ávinningur af veiruvarnarmeðferðum er ekki eins augljós hvað varðar sumar aðrar gerðir krabbameins, svo sem krabbamein í leghálsi, endaþarmsopi og lungum og aðra tegund eitlakrabbameins (Hodgkins eitlakrabbamein). Almennt séð eru meiri líkur á að fólk fái krabbamein eftir því sem það eldist. Þar sem lífslíkur einstaklinga sem smitaðir eru af HIV hafa almennt batnað og auknar líkur á að þeir nái háum aldri er mjög mikilvægt að þeir mæti í krabbameinsskimun.

Hver er ávinningurinn af meðferð vegna HIV-smits og hverjar eru mögulegar aukaverkanir?

Meðferð hægir á dreifingu HIV um líkamann og gerir ónæmiskerfinu kleift að starfa betur. Þetta eykur viðnám líkamans gegn sýkingum og gerir viðkomandi kleift að lifa lengur og halda betri heilsu. Fólk finnur síður fyrir orkuleysi, þunglyndi og minnisleysi auk þess sem starfsemi meltingarkerfisins er betri. Einnig eru minni líkur á að einstaklingurinn smiti aðra. Læknar ákveða hvernig meðferð hvers og eins er háttað út frá þörfum viðkomandi. Fylgst er vel með, svo að veirunni sé haldið í skefjum og til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif.

Meðferðin getur þó haft óþægilegar aukaverkanir. Þær algengustu eru ógleði, þreyta, niðurgangur, húðútbrot og skapsveiflur auk þyngdartaps eða þyngdaraukningar.

Hvar er hægt að fá meiri upplýsingar um alnæmisveiruna?

Heimilislæknir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta veitt frekari upplýsingar. Einnig er upplýsingar að finna á vefsíðum heilbrigðisyfirvalda.

Helicobacter pylori

Hvað er Helicobacter pylori baktería og hvernig tengist hún magakrabbameini?

Helicobacter pylori (H. pylori) er baktería sem lifir í maga margra einstaklinga og getur stundum valdið magabólgu, magasári og í sumum tilfellum magakrabbameini (1 af 100 sýktum einstaklingum). Langflest tilfelli magakrabbameina eru af völdum

þessarar bakteríu. Dregið hefur úr tíðni sýkinga og fjölda nýrra tilfella magakrabbameins af völdum H. pylori bakteríu víða í Evrópu, að undanskildum svæðum í Austur-Evrópu og hluta Spánar, Portúgals og Ítalíu.

Hvernig berst bakterían á milli manna?

H. pylori dreifist almennt með snertingu á milli einstaklinga, einkum innan fjölskyldna. Flestir smitast í æsku, líklega vegna snertingar við aðra í fjölskyldunni.

Hver eru einkenni sýkingar?

Sýkingin er oftast einkennalaus en stundum veldur hún magasárum, kviðverk, flökurleika og í einstaka tilfellum magakrabbameini. Fólk með magakrabbamein getur upplifað óvænt þyngdartap, átt erfitt með að kyngja, fengið blæðingu í maga eða þarma, fundið fyrir fyrirferð í kvið eða verið blóðlítið (anemia). Ef eitthvert þessara einkenna gerir vart við sig ætti viðkomandi að leita strax til læknis.

Er hægt að koma í veg fyrir sýkingu?

Ekki er til bóluefni sem kemur í veg fyrir sýkingu af völdum H. pylori bakteríu og engar leiðir þekktar til að hindra smit á milli manna.

Ættu einkennalausir að láta athuga hvort þeir séu smitaðir af bakteríunni?

Á ákveðnum svæðum í Evrópu (t.d. Austur-Evrópu, Spáni, Portúgal og Ítalíu) þar sem tíðni magakrabbameins er hærri en annarsstaðar álfunni, mæla sumir heilbrigðisstarfsmenn með því að fólk láti athuga hvort það sé smitað af H. pylori bakteríunni. Engar lýðheilsuáætlanir hafa þó verið settar á fót í Evrópu til að koma í veg fyrir magakrabbamein, meðal annars þar sem áhrif þess að veita miklum fjölda fólks meðferð, þar af mörgum sem eru án einkenna, eru ekki ljós. Unnið er að rannsóknum á þessu sviði.

Er hægt að lækna Helicobacter pylori sýkingu?

Já. Til er lyfjameðferð sem læknar sýkinguna. Meðferðin felst í því að ákveðin blanda mismunandi lyfja (m.a. sýklalyfja) er tekin í nokkra daga. Aukaverkanir af völdum meðferðarinnar eru oftast vægar og er oftast hægt að breyta skammtastærðum eða tímasetningum lyfjainntöku til að draga úr óþægindum.

Hvar er hægt að fá meiri upplýsingar um Helicobacter pylori?

Heimilislæknir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta veitt frekari upplýsingar. Einnig er upplýsingar að finna á vefsíðum heilbrigðisyfirvalda.


Maí 2018

 

.

 


Var efnið hjálplegt?