Legháls­krabbamein

Leghálskrabbamein er eitt fárra krabbameina sem hægt er að greina á forstigi og lækna. Frá því að skipuleg leit að leghálskrabbameini hófst hér á landi árið 1964 hefur dánartíðni úr sjúkdómnum lækkað um 90%. Þetta er einnig eitt fárra krabbameina þar sem orsakir eru þekktar en HPV-veira sem smitast við kynlíf veldur sjúkdómnum í 99% tilfella.

Helstu einkenni

Leghálskrabbamein er einkennalaust í byrjun. Með því að mæta reglulega í skoðun er yfirleitt hægt að greina meinið það snemma að hægt er að lækna það.

 • Mikilvægt að muna að það er einkennalaust til að byrja með, eins og með önnur krabbamein.
 • Óþægindi við samfarir.
 • Blæðing eftir samfarir.
 • Óreglulegar blæðingar. Milliblæðingar af saklausum toga eru þó oftast ástæða óreglulegra blæðingar.

Ef þú ert með ofangreind einkenni skaltu leita til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis. Hópleit að leghálskrabbameini er gerð á einkennalausum konum en alltaf er hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins með því að senda tölvupóst á leit@krabb.is.

Áhættuþættir

 • HPV-veira (human papilloma virus) sem smitast við kynmök er talin nauðsynleg (en þó sjaldnast nægjanleg) forsenda fyrir myndun flestra illkynja æxla í leghálsi. Tveir stofnar af HPV-veirum, HPV 16 og 18, eru orsök um 70% allra leghálskrabbameina og nú eru tólf ára stúlkur bólusettar gegn þessum tveimur tegundum HPV. Um 13 sjaldgæfari HPV-stofnar geta valdið leghálskrabbameini og því er mikilvægt að þær konur sem hafa verið bólusettar gegn HPV-veirunni mæti einnig í leghálskrabbameinsleit.
 • Mest er áhættan hjá stúlkum sem byrja mjög ungar að stunda kynlíf, eiga marga rekkjunauta og/eða reykja.
 • Aukin áhætta fylgir frjálsræði beggja kynja í kynlífi. Það að nota smokkinn og/eða sofa hjá einum og sama einstaklingnum minnkar líkur á að fá viðvarandi HPV-smit og þar af leiðandi leghálskrabbamein.
 • Fleiri þættir virðast þó jafnframt geta haft áhrif svo sem aðrar sýkingar í kynfærum, t.d. klamydíusmit.
 • Sígarettureykingar eru einnig áhættuþáttur fyrir leghálskrabbameini. Nikótín og önnur efni í tóbaksreyk finnast í leghálssýni þeirra kvenna sem reykja og þær sem reykja eru líklegri til að vera með viðvarandi HPV-smit.

Hvað er leghálskrabbamein?

Leghálsinn er neðsti hluti legsins og situr efst í leggöngunum. Í neðsta hluta leghálsins sem  opnast niður í leggöngin, er slímhúðin klædd flöguþekju á yfirborði. Efri hluti leghálsins er með opnum gangi með kirtilslímhúð þar sem kirtilþekja er á yfirborði slímhúðarinnar og í kirtlum leghálsins. Mjög algengt er að hluti kirtilslímhúðaryfirborðs umbreytist í flöguþekju, sem talið er koma til vegna breytinga á sýrustigi í leggöngum.

Leghálskrabbamein á oftast upptök sín í flöguþekju (eða svokallaðri umbreyttri flöguþekju) í leghálsinum en einnig getur æxli verið upprunnið í kirtilfrumum. Leghálskrabbamein er yfirleitt talið þróast frá svokölluðum forstigsbreytingum í leghálsi, sem oftast koma fram í flöguþekju. Þessar breytingar í flöguþekjuyfirborði slímhúðar nefnast í meinafræði frumumissmíð (dysplasia) og er í leghálsinum oftast vísað til með skammstöfuninni CIN (Cervical Intraepithelial Neoplasia). Þessum forstigsbreytingum er skipt upp í flokka eftir alvarleika frumuafbrigða í CIN I, CIN II, CIN III og staðbundið krabbamein (carcinoma in situ). Það er mikilvægt að greina forstigsbreytingar snemma og áður en þær verða að ífarandi krabbameini.

Leghálskrabbameinsleit hófst á Íslandi árið 1964 og fer fram á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Konur á aldrinum 23-65 ára eru boðaðar í leitina á þriggja ára fresti.

Greining

TÖLFRÆÐI UM LEGHÁLSKRABBAMEIN

 • Leghálsstrok (PAP-strok). Á Vesturlöndum uppgötvast meinin oftast við  
 • Leghálsspeglun. Tekin eru vefjasýni frá svæðum sem eru afbrigðileg og vefjameinafræðingur greinir sýnið. Ef niðurstaða vefjagreiningar er sú að um krabbamein sé að ræða er gerð ítarlegri sjúkdómsskoðun til að sjá hvort æxlið hafi dreift sér.

 • Myndrannsóknir og skoðun í svæfingu. Gerð er tölvusneiðmyndarannsókn og/eða segulómrannsókn og lungnamynd til að athuga útbreiðslu sjúkdómsins. Oftast er einnig gerð skoðun í svæfingu, þ.e. þreifing til að meta hvort æxli sé skurðtækt eða ekki. Einnig er gjarnan gerð þvagblöðruspeglun í sama tilgangi.

Í leghálsskoðun með GoPro

Meðferð

 • Keiluskurður. Forstigsbreytingar leghálskrabbameins eru meðhöndlaðar með því að fjarlægja vef með slíkum breytingum. Gerður er svokallaður keiluskurður þar sem hluti leghálsins er fjarlægður. Oft er nægilegt að meðhöndla ífarandi leghálskrabbamein, sem er á byrjunarstigi og á afmörkuðu svæði, með keiluskurði eingöngu, og getur konan þá enn fætt börn eftir meðferðina.

UPPLÝSINGAR UM LEGHÁLSSPEGLUN

 • Aðgerð til að varðveita frjósemi. Ef konur eru á frjósemisaldri og æxlið er ekki stærra en 2 cm og staðbundið er oft hægt að gera stærri aðgerð en hluta af leghálsi haldið eftir þannig að konan hefur möguleika á að fæða barn. Aðgerðin er venjulega gerð í tveimur stigum. Fyrst eru eitlar fjarlægðir með kviðarholsspeglun og einni til tveimur vikum síðar er stærsti hluti leghálsins fjarlægður um leggöng. Þá er leghálsinn styrktur í aðgerðinni og konan þarf að gangast undir keisaraskurð til að fæða barnið.
 • Legnám. Þegar krabbameinið er lengra gengið þarf að fjarlægja allt legið og nærliggjandi eitla með skurðaðgerð. Misjafnt er hvort eggjastokkar eru fjarlægðir einnig eða ekki. 
 • Geislameðferð. Ef ekki er hægt að fjarlægja meinið með skurðaðgerð er geislameðferð oft beitt, annað hvort með geislun utan frá eða bæði utan frá og með innsetningu pinna sem komið er fyrir í leggöngum, leghálsi eða í neðri hluta legsins, sem næst æxli. Aðeins er beitt ytri geislun ef æxlið er mjög langt gengið við greiningu (stig IV). Ungar konur sem gangast undir geislameðferð á grindarholi fara í tíðahvörf þar sem eggjastokkarnir hætta að framleiða estrógen. Hægt er að gefa hormónalyf til að minnka líkamleg óþægindi sem fylgja hormónabreytingunum.

15 SPURNINGAR OG SVÖR UM HPV-VEIRUNA

 • Krabbameinslyf. Nú eru yfirleitt gefin krabbameinslyf vikulega samhliða geislameðferð, nema ef nýrnastarfsemi sjúklings er mjög skert.

Algengi og lífshorfur

Horfur sjúklinga með leghálskrabbamein hafa batnað verulega og eru í flestum tilfellum mjög góðar. Það er því að þakka að hlutfallslega fleiri en áður greinast með sjúkdóm á byrjunarstigi, þegar enn er unnt að lækna hann. Þetta á einkum við þar sem heilbrigðisþjónusta er góð. 

SPURNINGAR OG SVÖR UM LEGHÁLSKRABBA-MEINSLEIT

Að meðaltali greinast um 17 konur árlega með leghálskrabbamein. Aldursstaðlað nýgengi byrjar að hækka hjá tvítugum konum og er hæst í aldurshópnum 35-39 ára konum. Meðalaldur við greiningu er  um 45 ár. Alls voru um 401 konur á lífi með sjúkdóminn í árslok 2018. Fimm ára hlutfallsleg lifun er um 50% í heiminum í heild, en á Íslandi er hún komin upp í 87%.

Fræðsluefni


Var efnið hjálplegt?