Beint í efni

15 spurn­ingar og svör um HPV-veiruna

HPV er skammstöfun fyrir Human Papilloma Virus. HPV eru veirur sem hafa fylgt mannkyninu í milljónir ára.

Þekktar eru rúmlega 200 tegundir og um 40 þeirra geta sýkt húð og slímhúðir á kynfærasvæði kvenna og karla.

Hvað er HPV?

Auk þess að geta valdið sýkingum í húð og slímhúð á kynfærasvæði geta HPV-veirur einnig valdið sýkingu í munni og koki kvenna og karla. Sumar þeirra valda t.d. kynfæravörtum, aðrar frumubreytingum í leghálsi og um 14 þeirra geta valdið krabbameini í leghálsi, leggöngum, skapabörmum, endaþarmi, getnaðarlim og í munni og koki kvenna og karla.

HPV er langalgengasta kynsmitið. Vísbendingar eru um að algengi (fjöldi einstaklinga með HPV-sýkingu á hverjum tíma) HPV-sýkingar meðal íslenskra kvenna á aldrinum 18-25 ára sé um 50-60% og má áætla að hið sama gildi um íslenska karlmenn á sama aldri þótt algengi hafi ekki verið sérstaklega rannsakað meðal íslenskra karla. Algengi HPV-sýkingar minnkar síðan hratt með hækkandi aldri og er talið að um 5% íslenskra kvenna og karla sé með HPV-sýkingu við 65 ára aldur.

  • HPV er mjög algeng veira.
  • Meira en 200 tegundir HPV eru þekktar.
  • Sumar tegundir HPV valda góðkynja vörtum á fingrum og fótum.
  • Um 40 tegundir af HPV geta smitast við kynmök. 

Hááhættu- og lágáhættu-HPV

Hvað er hááhættu-HPV?

Um 14 tegundir HPV sem geta smitast við kynmök eru kallaðar hááhættutegundir (krabbameinsvaldandi HPV) og geta orsakað frumubreytingar og leghálskrabbamein. Dæmi um hááhættu-HPV-veirur eru HPV 16, 18, 31, 33, 35, 39, 45, 51, 52, 56, 58, 59, 66 og 68. Hægt er að rannsaka hvort HPV-veirur finnist hjá fólki. Á Íslandi eru gerðar HPV-mælingar á leghálssýnum, samkvæmt klínískum leiðbeiningum, í þeim tilgangi að rannsaka hvort einhver þessara 14 hááhættu-HPV-veira sé til staðar.

Hvað er lágáhættu-HPV?

Aðrar HPV-tegundir sem smitast við kynmök eða snertingu eru kallaðir lágáhættutegundir og geta þær orsakað kynfæravörtur og frumubreytingar en eru ekki krabbameinsvaldandi. Dæmi um lágáhættu-HPV-veirur eru HPV 6 og 11 sem orsaka rúmlega 90% af kynfæravörtum, HPV 2 sem orsakar vörtur á fingrum og höndum og HPV 1 sem orsakar vörtur á fótum.

Hvernig smitast HPV?

HPV smitast við snertingu, oftast við kynmök í leggöng eða endaþarm. HPV getur líka smitast við munnmök og við snertingu kynfæra, t.d. með fingrum. HPV getur smitast milli gagnkynhneigðra, samkynhneigðra eða tvíkynhneigðra án þessa að sýktur aðili hafi nokkur einkenni. HPV getur fundist á nánast öllu nærbuxnasvæðinu, ekki aðeins á kynfærunum. HPV getur einnig smitast við notkun hjálpartækja.

Einstaklingur getur haft HPV-sýkingu þótt það séu mörg ár síðan viðkomandi hafði kynmök síðast við sýktan einstakling. Flestir sýktir einstaklingar vita ekki af því að þeir séu með HPV-sýkingu eða að þeir séu hugsanlega að smita aðra við kynmök. Það er einnig hægt að smitast af fleiri en einni tegund af HPV.

Örsjaldan hendir það að barnshafandi kona með kynfæra-HPV-sýkingu sýkir barnið sitt við fæðingu þess. Í þeim tilfellum getur einstaklingur fengið sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast á ensku Recurrent respiratory papillomatosis (RRP) þar sem vörtur vaxa á raddböndum í koki. Í börnum kallast þessi sjúkdómur á ensku Juvenile-onset recurrent respiratory papillomatosis (JORRP).

Hvernig smitast konur af HPV?

Nánast allar HPV-sýkingar sem hafa áhrif á leghálsinn smitast með kynlífi (náin snerting kynfæra, t.d. samfarir í leggöng eða fingursnerting við kynfæri). HPV getur einnig smitast við munn- og endaþarmsmök. Meiri hluti karla og kvenna (80%) sem stunda kynlíf mun smitast einhvern tíma á ævinni. Þú getur hafa smitast af HPV þótt þú hafir bara sofið hjá einum aðila einu sinni á ævinni. Makar í langtímasamböndum verða sumir hissa þegar HPV greinist hjá þeim, en vegna þess að flestar HPV-sýkingar eru einkennalausar geta þær allt eins verið ógreindar árum saman. Samt sem áður er aukin áhætta á HPV-smiti ef einstaklingur hefur átt marga rekkjunauta eða ef jafnvel eini rekkjunautur viðkomandi einstaklings hefur átt marga aðra rekkjunauta. 

Það eru vísbendingar um að hætta á HPV-smiti sé aukin í ákveðnum tilvikum:

  • Hjá yngri en 25 ára.
  • Við óvarið kynlíf, án smokks.
  • Með auknum fjölda þungana.
  • Við ákveðna erfðaþætti, þetta er þó enn óljóst.
  • Hjá fólki sem reykir.
  • Hjá óumskornum karlmönnum.
  • Við annað kynfærasmit, t.d. herpes og klamydíu.
  • Hjá þeim sem byrja snemma að stunda kynlíf (yngri en 16 ára).
  • Hjá fólki með ónæmisbælingu (t.d. HIV-smitaðir, með ónæmisbælandi sjúkdóma eða vegna lyfja). 

Er HPV-smit hættulegt?

Sýking getur orðið viðvarandi ef sá sem smitast smitast af hááhættu-HPV-veirum sem ónæmiskerfið vinnur ekki á. Slík sýking getur valdið frumubreytingum og ef hún er ekki greind með leghálssýni getur hún þróast í leghálskrabbamein. Það líða yfirleitt a.m.k. nokkur ár eða jafnvel áratugir frá því að sýking með hááhættu-HPV verður þar til leghálskrabbamein myndast. Flest sem smitast af HPV fá ekki einkenni og ónæmiskerfið vinnur bug á HPV-sýkingunni.

Hvað getur komið fyrir mig ef ég er með HPV?

Nær allar HPV-sýkingar í leghálsi hverfa af sjálfu sér með hjálp ónæmiskerfisins. Margar konur með HPV-sýkingu fá frumubreytingar í leghálsinn, a.m.k. tímabundið, nokkrum mánuðum eða árum eftir að þær smituðust. Flestar tegundir HPV valda ekki krabbameini. En ef einstaklingur smitast af hááhættu-HPV og sýking hverfur ekki á viðkomandi á hættu að fá frumubreytingar sem þarf að meðhöndla. Það tekur yfirleitt a.m.k. nokkur ár eða áratugi frá því að sýking með hááhættu-HPV á sér stað þar til leghálskrabbamein myndast. Þess vegna er nauðsynlegt að konur komi reglulega í skimun ( þegar boð berast).

Er hægt að lækna HPV?

Þótt ekki sé hægt að lækna sjálfa HPV-sýkinguna er hægt að fjarlægja frumubreytingar með lítilli aðgerð. Með því móti er komið í veg fyrir leghálskrabbamein. Hér á landi er þetta gert með svokölluðum keiluskurði. Þetta er ástæða þess að það er svo mikilvægt að mæta reglulega í leghálsskimun ( þegar boð berst). Þá er hægt að greina og hafa eftirlit með frumubreytingum áður en þær þróast í leghálskrabbamein.

Er hægt að bólusetja gegn HPV?

Já, það er hægt að bólusetja gegn HPV veirum og er bóluefnið Gardasil notað hér á landi sem ver gegn HPV-veirum sem orsaka um 90% af öllum leghálskrabbameinum auk þess að veita einnig vörn gegn HPV-veirum sem valda kynfæravörtum.

Hér á landi er 12 ára börnum, óháð kyni, boðin bólusetning með Gardasil í skólanum á vegum sóttvarnalæknis. Hafa skal í huga að þó að stúlka sé bólusett þarf hún samt að mæta í leghálsskimun þegar hún nær þeim aldri þegar henni er boðið að koma í skimun þar sem bólusetning veitir ekki fullkomna vörn.

Geta karlmenn fengið HPV?

Karlmenn fá HPV alveg eins og konur. HPV veldur kynfæravörtum hjá karlmönnum auk þess sem HPV getur líka valdið krabbameini í getnaðarlim, endaþarmi, munni og koki (þessi mein eru þó sjaldgæf).

Ekki er leitað sérstaklega að afleiðingum HPV-sýkingar hjá körlum eins og gert er með leghálskrabbameinsleit hjá konum vegna þess að engar góðar leitaraðferðir eru til og flestar HPV-sýkingar hverfa hjá körlum eins og hjá konum. En hér gildir hið almenna, ef einstaklingur hefur einkenni sjúkdóms er ráðlegt að leita til læknis.

Veitir smokkurinn vörn gegn HPV?

Smokkur veitir ekki fullkomna vörn vegna þess að hann hylur ekki öll sýkt svæði en HPV getur fundist á öllu nærbuxnasvæðinu. Smokkurinn er hins vegar góð vörn fyrir þau svæði sem hann hylur, legháls og getnaðarlim. Smokkurinn er einnig góð vörn gegn öðru kynfærasmiti eins og t.d. herpes og klamydíu.