Beint í efni

Spurn­ingar og svör um skimun fyr­ir leg­háls­krabba­meini

Algengar spurningar um leghálskrabbamein og svör við þeim

Hvað er leghálskrabbamein?

Leghálskrabbamein er krabbamein í leghálsi sem er neðsti hluti legs og gengur niður í leggöng. HPV-veirur (Human Papilloma Virus) eru nær undantekningarlaust orsök leghálskrabbameins. Eins og í öðrum tilfellum þegar krabbamein myndast, breytist erfðaefni frumu þannig að hún starfar ekki lengur eins og heilbrigðar frumur af sama tagi. Fruman fer meðal annars að fjölga sér stjórnlaust og þannig myndast krabbameinsæxli. 

Þó flestir smitist einhvern tímann á ævinni af HPV þá ganga sýkingar langoftast til baka og einungis fá smit leiða til frumubreytinga sem þróast yfir í krabbamein. 

Frumubreytingar þróast í nokkrum stigum. Þegar þær eru á vægu stigi er langlíklegast að þær gangi til baka. Því meira sem breytingarnar þróast því líklegra er að þær verði að krabbameini en það tekur nær alltaf langan tíma (nokkur ár eða jafnvel áratugi).

Hvað er leghálskrabbameinsskimun?

Leghálskrabbameinsskimun er í raun leit að forstigum leghálskrabbameins. Leitað er á skipulagðan hátt hjá skilgreindum hópi einkennalausra kvenna að frumubreytingum og/eða HPV-veirum í leghálsi þar sem það getur gefið til kynna að krabbamein sé til staðar eða krabbamein muni geta myndast. 

Framkvæmdin felst í að sýni er tekið frá leghálsi og það sent til rannsóknar. Sumum finnst sýnatakan óþægileg en hún veldur samt nær aldrei sársauka. Aðeins tekur um tvær til þrjár mínútur að taka sýni. 

Hvar er skimað fyrir krabbameini í leghálsi?

Frá 1. janúar 2021 fer skimunin fram hjá Heilsugæslunni. Frekari upplýsingar um staði og framkvæmd eru hjá  Samhæfingarstöð krabbameinsskimana .

Hvers vegna að fara í skimun?

Konur sem fara reglulega í skimun eru í minni hættu á að fá krabbamein í legháls og í minni hættu á að deyja úr leghálskrabbameini.

Konur finna ekki fyrir því að þær séu með HPV-sýkingu, frumubreytingar eða krabbamein sem er skammt á veg komið. Skimun getur greint slíkt og ýmist komið í veg fyrir að krabbamein myndist eða greint það snemma svo hægt sé að grípa inn í. 

Hver er árangur af skimun?

Frá því skipuleg skimun fyrir leghálskrabbameini hófst hér á landi árið 1964 hefur dregið úr

  • nýgengi um 70% (fjöldi nýrra tilfella á ári)
  • dánartíðni um 90% (fjöldi þeirra sem deyja á ári)

Árangur krabbameinsleitar byggir m.a. á góðri mætingu kvenna og eftirliti með þeim einstaklingum sem greinast með afbrigðileika.

Regluleg mæting

Regluleg mæting í leghálsskimun dregur verulega úr líkum á að greinast með leghálskrabbamein en er þó ekki trygging fyrir því að fá ekki sjúkdóminn. Árangur af leghálsskimunum á Íslandi hefur verið sambærilegur og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum sem er sá besti á heimsvísu.

Hvert er markmið skimunar fyrir krabbameini í leghálsi?

Markmið skimunar fyrir leghálskrabbameini er að finna alvarlegar frumubreytingar sem gætu þróast yfir í krabbamein og krabbamein á frumstigi. 

Markmið leghálskrabbameinsleitar er þannig tvíþætt:

  • að lækka nýgengi leghálskrabbameins (fjöldi nýrra tilfella á ári).
  • að lækka dánartíðni af völdum leghálskrabbameins (fjöldi þeirra sem deyja á ári).

Nánar: 

Markmið skimunar fyrir leghálskrabbameini er að finna eins fljótt og hægt er þær konur sem eru með frumubreytingar (sem eru forstig leghálskrabbameins) eða krabbamein á snemmstigi. Því fyrr sem hægt er að bregðast við, því betra. Minni líkur eru á að konur sem mæta reglulega í leghálsskimun fái leghálskrabbamein og minni líkur eru á að konur sem mæta reglulega í skimun deyi úr slíku meini.

Annars vegar getur skimun komið í veg fyrir myndun krabbameina, það er þegar frumubreytingar sem eru langt gengnar og gætu orðið að krabbameini eru fjarlægðar og hinsvegar geta krabbamein fundist í skimun sem er þá hægt að bregðast við. Því fyrr sem krabbamein finnst, því meiri líkur eru á góðum árangri af meðferð. 

Hverjir eru mögulegir ókostir skimunar?

Öllum rannsóknum og prófunum fylgja bæði kostir og gallar. Engar rannsóknir geta heldur gefið óyggjandi svör í öllum tilfellum. Þetta á einnig við um skimun fyrir leghálskrabbameini. Skimun veitir ekki 100% tryggingu gegn krabbameinum í leghálsi.

Ofmeðhöndlun:
Þegar frumubreytingar eru komnar á það stig að þær teljist alvarlegar ganga þær samt til baka í mörgum tilvikum. Ekki er þó hægt að greina hjá hvaða konum breytingarnar muni ganga til baka og hjá hverjum þær muni verða að krabbameini. Af þessum sökum gangast sumar konur undir aðgerð sem hefði í raun ekki verið nauðsynleg og því hægt að tala um ofmeðhöndlun.

Falskar niðurstöður rannsókna:
Fölsk jákvæð greining -Í sumum tilfellum virðast frumubreytingar vera í frumusýni sem tekið hefur verið, en þegar konan er kölluð til nánari rannsókna kemur í ljós að leghálsinn er eðlilegur. Þá er um að ræða svokallaða falska jákvæða greiningu sem getur leitt til ofmeðhöndlunar.

Fölsk neikvæð greining -Stundum uppgötvast frumubreytingar eða leghálskrabbamein ekki þrátt fyrir skimun, og er slíkt kallað fölsk neikvæð greining og talað um falskt öryggi.

Sumar konur upplifa kvíða, vanlíðan og ótta
Konur geta fundið til kvíða og liðið illa í tengslum við sjálfa skimunina, bið eftir svari og verið hræddar um að frumubreytingar eða krabbamein komi til með að finnast.

Neikvæð upplifun í sjálfri sýnatökunni
Flestum konum finnst lítið mál að mæta í skoðunina en einhverjar finna fyrir óöryggi í aðstæðunum. Sýnatakan tekur þó aðeins skamma stund og aðeins fáar konur finna til óþæginda og í undantekningartilfellum til sársauka. 

Á hvaða aldri er konum boðið í skimun?

Skimun byrjar við 23 ára aldur hjá konum

Leghálskrabbamein er sjaldgæft hjá ungum konum. Þó flestar ungar konur smitist af HPV stuttu eftir að þær hefja kynlíf þá hverfur sýkingin hjá helmingi þeirra sem smitast á um sex mánuðum og í um 90% tilfella er hún horfin innan tveggja til þriggja ára. Þessar HPV veirusýkingar geta valdið frumubreytingum sem ganga þó flestar til baka. Í sumum tilfellum veldur veirusýking alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein, venjulega á löngum tíma (nokkrum árum eða áratugum).

Þess vegna er ekki talið nauðsynlegt að leita skipulega að krabbameini í leghálsi fyrr en við 23 ára aldur. Ef byrjað er að leita fyrr er hætta á að finna frumubreytingar sem aldrei hefðu þróast í leghálskrabbamein. Þá getur þurft að gera ónauðsynlegar leghálsspeglanir og keiluskurði. Leitin miðast við að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða.

Skimun telst lokið við 60-64 ára aldur hjá konum

Leghálskrabbamein og frumubreytingar eru nær undantekningarlaust af völdum HPV-sýkinga. HPV-sýkingar eru mun algengari hjá ungum konum en þeim sem eldri eru.

Líkur á að greinast með leghálskrabbamein fara því minnkandi með hækkandi aldri og með fjölda fyrri eðlilegra skoðana. Þar sem aldursmörkin eru dregin er áhættan talin það lítil hjá þeim konum sem mætt hafa reglulega í skimun að ekki þykir ástæða til að skima lengur.

Frá og með 1. janúar 2021 telst skimun lokið ef engin HPV-veira greinist í frumusýni sem tekið er hjá konu á aldursbilinu 60-64 ára. 

Á kona að koma í skimun ef hún er þunguð?

Þungaðar konur ættu ekki að fara í leghálsskimun fyrr en átta vikum eftir fæðingu. Annað á við um konur sem eru í eftirliti vegna frumubreytinga.

Á kona að koma í skimun ef hún er ekki með leg eða legháls?

Ef þú ert óviss um hvort þú eigir að koma í leghálskrabbameinsleit getur þú fengið upplýsingar hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana eða lækninum þínum. 

Hverjar eru orsakir og áhættuþættir leghálskrabbameins?

Aðalorsök leghálskrabbameina eru HPV-veirusýkingar. 

HPV-veirur smitast með kynlífi og eru mjög algengar. Þær geta smitast við hvers konar kynlíf, hvort sem það eru mök um leggöng, endaþarm, munnmök eða bara snerting við kynfæri. Allir geta smitast af HPV-veirum við kynlíf, sama af hvaða kyni fólk er eða hver kynhneigð þeirra er. Smokkur veitir nokkra vörn gegn smiti en ekki algera. 

Langflestar HPV-sýkingar eru hættulausar og ganga til baka en sumar verða viðvarandi og geta valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein, venjulega á löngum tíma (nokkrum árum eða jafnvel áratugum). 

Aðrir þættir sem geta verið samverkandi HPV-sýkingum og aukið áhættu á leghálskrabbameini:

  •  Mest er áhættan hjá stúlkum sem byrja mjög ungar að stunda kynlíf, eiga marga   rekkjunauta og/eða reykja. 
  • Aukin áhætta fylgir frjálsræði beggja kynja í kynlífi. Það að nota smokkinn og/eða sofa hjá einum og sama einstaklingnum minnkar líkur á að fá viðvarandi HPV-smit og þar af leiðandi leghálskrabbamein. 
  • Aðrar sýkingar í kynfærum, t.d. klamydíusmit virðist auka líkur á krabbameini í leghálsi. 
  • Þær konur sem reykja eru líklegri til að vera með viðvarandi HPV-smit og fá leghálskrabbamein. Nikótín og önnur efni sem finnast í tóbaksreyk finnast í leghálssýnum kvenna sem reykja. 

Um 20 konur greinast árlega

Á heimsvísu er leghálskrabbamein fjórða algengasta krabbamein kvenna en á Íslandi og fleiri löndum þar sem hefur verið skimað fyrir meinunum um langt árabil er það miklu óalgengara. Ástæðan er að miklu leyti skimun, hún hefur komið í veg fyrir fjölda tilfella í þessum löndum. 

Nánar:

Um 20 konur greinast með leghálskrabbamein árlega hérlendis. Þessi tala væri hinsvegar miklu hærri ef ekki hefði verið boðið upp á skimun undanfarna áratugi. Við skimun geta annars vegar fundist krabbamein sem þá er hægt að meðhöndla en hinsvegar geta fundist frumubreytingar sem eru komnar á það stig að þær gætu orðið að krabbameini. Slíkar langt gengnar frumubreytingar sem gætu þróast yfir í krabbamein eru fjarlægðar og þannig hefur í gegnum tíðina verið komið í veg fyrir að fjölmörg krabbamein hafi myndast. 

Skimunin skiptir því miklu máli og hefur mikið að segja, hún finnur ekki bara krabbamein heldur kemur fyrst og fremst í veg fyrir að fjölmörg tilfelli myndist. 

Áætlað er að skimunin hérlendis hafi forðað rúmlega 400 konum frá dauða af völdum leghálskrabbameins.