Hreyfing

Regluleg markviss hreyfing er nauðsynleg til að viðhalda heilbrigðum líkama og eðlilegum efnaskiptum.

Það er margt sem gerist í líkamanum þegar þú hreyfir þig. Við reglulega hreyfingu lækkar blóðþrýstingur og kólesteról, hjartað styrkist og lungun þenjast betur út sem eykur súrefnisflæði til líffæranna. Hreyfing getur þannig dregið úr þreytu og aukið líkamlega orku með því að auka súrefnisupptöku í vöðvum. Bein, liðamót og vöðvar styrkjast. Líkur á sykursýki minnka.

Hreyfing vinnur einnig gegn depurð og bætir andlega líðan. Ákveðnar tegundir krabbameina eru einnig fátíðari hjá þeim sem hreyfa sig reglulega og rannsóknir hafa einnig sýnt að þeir sem byrja að hreyfa sig eftir að hafa greinst með krabbamein hafa auknar lífslíkur og betri lífsgæði.

Lestu nánar um ástundun líkamlegrar hreyfingar til að draga úr líkum á krabbameinum

Hve mikið þarf ég að hreyfa mig?

Því meiri hreyfing, þeim mun meiri er verndin, upp að vissu marki. Helst á að hreyfa sig í að minnsta kosti 30 mínútur á dag. Oft er líkamsrækt skipt í léttar og erfiðar æfingar.

Léttar æfingar. Dæmi:

 • Göngutúr eða hjólatúr á jafnsléttu.
 • Jóga. Heimaleikfimi. 
 • Leika við börnin utandyra.
 • Garðvinna.
 • Tennis.
 • Golf.
 • Þvo og bóna bílinn.

Erfiðar æfingar. Dæmi:

 • Skokk eða hlaup.
 • Fjallganga. Klifur.
 • Hjóla meira en 16 km/klst.
 • Leikfimitími í líkamsræktarstöð.
 • Þrekstigi.
 • Fótbolti.


Radhreyfing

Var efnið hjálplegt?