© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2016-2017

Markmið Krabbamensfélags Suður-Þingeyinga er að styrkja málefni sem tengjast heilsu og forvörnum gegn krabbameini, ásamt því að styrkja einstaklinga í Suður-Þingeyjarsýslu sem greinst hafa með krabbamein, með ýmsum hætti. Félagið styrkir sjúklinga sem þurfa að dvelja í Reykjavík vegna krabbameinsmeðferðar með greiðslu á leigu íbúða. Félagið stendur fyrir sölu á minningarkortum þar sem ágóði af sölunni fer óskiptur til félagsins.

Starfsemi Krabbameinsfélags Suður-Þingeyinga hefur verið frekar í lágmarki síðastliðið starfsár, en í október stóð félagið fyrir því að hvetja fyrirtæki og stofnanir að lýsa byggingar sínar bleikar. Síðastliðin ár hefur félagið staðið fyrir bleiku boði í október og bláu boði í mars, en þetta starfsárið var boðunum sleppt af ýmsum ástæðum. Stjórnarfundir voru tveir á þessu starfsári.

Jóhanna Björnsdóttir.

Starfsemi 2015-2016

Markmið Krabbamensfélags Suður-Þingeyinga er að styrkja málefni sem tengjast heilsu og forvörnum gegn krabbameini, ásamt því að styrkja einstaklinga í Suður-Þingeyjarsýslu sem greinst hafa með krabbamein, með ýmsum hætti. Félagið styrkir sjúklinga sem þurfa að dvelja í Reykjavík vegna krabbameinsmeðferðar með greiðslu á leigu íbúða. Félagið stendur fyrir sölu á minningarkortum þar sem ágóði af sölunni fer óskiptur til Krabbameinsfélags Suður-Þingeyinga.

Starfsemi Krabbameinsfélags Suður-Þingeyinga var frekar lítil síðastliðið starfsár, en í október stóð félagið fyrir því að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að lýsa byggingar sínar bleikar. Þá var bleik messa í Húsavíkurkirkju sem séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir stóð fyrir og fékk hún stjórn Krabbameinsfélags Suður-Þingeyinga til að aðstoða sig. Síðastliðin ár hefur félagið staðið fyrir bleiku boði í október og bláu boði í mars, en þetta starfsárið var boðunum sleppt af ýmsum ástæðum.

Jóhanna Björnsdóttir.

Starfsemi 2014-2015

Segja má að starfsemi Krabbameinsfélags Suður-Þingeyinga hafi verið með hefðbundnum hætti síðastliðið starfsár. Haustið hófst með sölu á ýmsum varningi merkt Krabbameinsfélaginu til ágóða fyrir félagið. Einnig stendur félagið fyrir sölu á minningarkortum þar sem ágóðinn rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Suður-Þingeyinga.

Í október stóð félagið fyrir því að hvetja fyrirtæki og stofnanir að lýsa byggingar sínar bleikar, og í framhaldi af því buðum við þingeyskum konum í „Bleikt boð“ á Húsavík. Í þessum boðum okkar fáum við góða fyrirlesara, fyrirtæki á svæðinu er með kynningu á sínum varningi eða starfsemi og síðast en ekki síst er gott skemmtiatriði með í farteskinu. Að þessu sinni var Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslæknir með fyrirlestur um konur og krabbamein með áherslu á leghálskrabbamein. Friðbjörn hefur áður verið með fyrirlestur hjá félaginu og fær mikið lof fyrir og viljum við þakka honum fyrir gott og óeigingjarnt starf. Þannig hefur hist á að það hefur skollið á óveður þegar við höfum haldið þessi boð okkar og hefur Friðbjörn lagt mikið á sig að keyra yfir Víkurskarðið i óveðri og leiðindafærð.

Snyrtistofan á staðnum var með kynningu á vörum sem hjálpa til við að ná heilbrigðari og þéttari augnhárum og augnbrúnum sem skiptir konur máli í krabbameinsmeðferð. Í lokin var boðið upp á veitingar og ljúfa tóna.

Eftir áramótin hefur starfsemin verið í lágmarki og stjórnast það meðal annars af því að við erum með þessi „boð“ (bleikt boð fyrir konur og blátt boð fyrir karla) annað hvert ár og þá er starfsemin mjög virk.

Jóhanna Björnsdóttir. 


Var efnið hjálplegt?