© Mats Wibe Lund

Ísafjörður

Krabbameinsfélagið Sigurvon var stofnað 4. nóvember 2001 og eru félagsmenn 355 talsins. Sigurvon heldur úti stuðningshópnum Vinir í von sem hittist reglulega. Starfsmaður félagins er Thelma Hjaltadóttir og formaður Helena Jónsdóttir. 

Starfsemi 2019

Á árinu 2019 var þungamiðja starfsemi félagsins að venju að veita krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra fjárhagslegan og andlegan stuðning á starfsvæði sínu á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum. Félagið hefur til að mynda greitt gistikostnað fyrir félagsmenn er þeir þurfa að sækja meðferð til Reykjavíkur og gista í íbúðum Krabbameinsfélags Íslands eða á sjúkrahóteli.

Stuðningshópurinn Vinir í von var með reglulegar samverustundir yfir vetrartímann. Var ýmislegt gert þar sér til dagamunar eins og að kíkja á kaffihús bæjarins og að snæða smurbrauð á Hóteli Ísafjarðar á aðventunni.

Meðal þess sem sýslað var í mars var árviss fræðslufyrirlestur fyrir karlkyns nemendur í Menntaskólanum á Ísafirði um eistnakrabbamein. Í október var svo í fyrsta sinn haldinn svipaður fyrirlestur fyrir stúlkur sem jafnframt tókst vonum framar. Mæting var góð og stúlkurnar sýndu talsverðan áhuga. Vonir standa til að um árvissa viðburði verði að ræða en þeir hafa verið unnir í góðu samstarfi við stjórnendur menntaskólans.

Þá bar einna hæst á árinu að settur var á fót hlaupahópur sem hittist tvisvar í viku í allt sumar. Markmiðið var að bjóða upp á æfingar fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka en á fjórða tug hlaupara tók þátt í þágu Sigurvonar í ár. Það var þó ekki skilyrði fyrir inngöngu í hópinn þar sem tilgangurinn var einnig að stuðla að auknu hreysti í nærsamfélaginu. Hlaupið heppnaðist afar vel og fyrir ágóðann var ákveðið að bjóða upp á jólastyrki í desember fyrir þá félagsmenn sem stóðu í meðferð.

Yfir 60 manns mættu í bleikt boð Sigurvonar sem haldið var í Edinborgarhúsinu í lok október. Boðið var upp á fræðsluerindi og tónlistarflutning en hápunktur kvöldsins var þó án efa er Málfríður Hjaltadóttir deildi reynslusögu sinni af brjóstakrabbameini og þeim stuðningi sem hún hlaut frá fjölskyldu sinni og vinum í kjölfarið. Hún hóf frásögn sína á því að syngja stefið úr þemalagi Bleiku slaufunnar þetta árið, „Þú ert ekki ein“, og lauk henni á þakkarkveðju. Enginn var ósnortinn í salnum.


Starfsemi 2018

Starf Sigurvonar á árinu 2018 snerist sem fyrr að mestu leyti um fjárhagslegan og andlegan stuðning á starfsvæði sínu á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum. Félagið hefur til að mynda greitt gistikostnað fyrir félagsmenn er þeir þurfa að sækja meðferð til Reykjavíkur og gista í íbúðum Krabbameinsfélags Íslands eða á sjúkrahóteli. Stuðningshópurinn Vinir í von var sem fyrr með reglulegar samverustundir yfir vetrartímann. Hópurinn hefur notið góðvildar geðræktarmiðstöðvarinnar Vesturafls, sem lætur honum í té aðstöðu að Suðurgötu 9 á Ísafirði. Þess fyrir utan hefur hópurinn einnig hist á veitingahúsum Ísafjarðar, blótað þorra og gert ýmislegt annað til að lyfta sér upp.

Í mars var haldinn fræðslufyrirlestur fyrir karlkyns nemendur í Menntaskólanum á Ísafirði um eistnakrabbamein. Tókst það með eindæmum vel og sýndu menntskælingar mikinn áhuga og spurðu mikils.

Sigurvon tók einnig þátt í að vekja athygli á árvekni- og fjáröflunarátakinu Bleikum október. Var víða lýst upp bleikri lýsingu til að vekja athygli á að mánuðurinn er tileinkaður baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Að vanda var Safnahúsið lýst upp sem og fleiri fyrirtæki og stofnanir hér vestra. Thelmu Hjaltadóttur, starfsmanni Krabbameinsfélagsins Sigurvonar, var að þessu sinni afhent bleika slaufan sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf í þágu Sigurvonar.

Félagar Sigurvonar úr Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein, komu vestur í október og og fengu aðstoð fulltrúa Sigurvonar við framkvæmd viðburðar í Grunnskólanum á Ísafirði þar sem sjálfboðaliðar komu saman og perluðu armbönd en sala þeirra er helsta fjáröflunarleið Krafts. Sömu helgi var haldið stuðningsfulltrúanámskeið á Ísafirði á vegum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands og Krafts fyrir stuðningsnet sem byggist á jafningastuðningi. Í kjölfarið voru útskrifaðir fimm stuðningsfulltrúar sem geta veitt jafningastuðning á Vestfjörðum. Sigurvon aðstoðaði einnig við við undirbúning og umgjörð námskeiðsins.

Þá var haldið kaffihúsakvöld á aðventunni þar sem m.a. fór fram tónlistarflutningur og happdrætti. Vel var mætt og boðið var upp á léttar veitingar af hálfu Sigurvonar. Ráðgert er að aðventukvöld af þessu tagi verði haldið annað hvert ár til móts við bleikt boð í október. Var þetta í annað sinn sem það var gert. Stjórn félagsins stóð fyrir símasöfnun fyrir jólin sem gafst vel en þá gátu velunnarar styrkt félagið með því að hringja í þrjú mismunandi símanúmer sem stóðu fyrir þrjár mismunandi fjárhæðir. Ágóðinn var nýttur til þess að veita styrkþegum ársins aukalega jólastyrk. 


Var efnið hjálplegt?