© Mats Wibe Lund

Ísafjörður

Krabbameinsfélagið Sigurvon var stofnað 4. nóvember 2001 og eru félagsmenn 355 talsins. Sigurvon heldur úti stuðningshópnum Vinir í von sem hittist reglulega. Starfsmaður félagins er Thelma Hjaltadóttir og formaður Helena Jónsdóttir. 

Starfsemi 2016-2017

Mikið var um að vera í starfi Sigurvonar á árinu 2016. Með fyrstu verkefnum var sumargleði sem haldin var á Silfurtorgi með stuðningi ýmissa fyrirtækja á starfsvæði félagsins. Grillaðar voru pylsur og fiskur. Gestum og gangandi boðið til snæðings en einnig var í boði súpa, plokkfiskur og aðrar léttar veitingar. Með þessu vildi félagið gefa til baka til samfélagsins fyrir auðsýndan stuðning og í leiðinni minna á sig. Óhætt er að segja að það hafi borið árangur en hátt í tuttugu nýir félagar skráðu sig hjá Sigurvon við þetta tilefni.

Beinþéttnimælir Beinverndar var á Ísafirði um sumarið en hjúkrunarfræðingar, sem einnig sitja í stjórn Krabbameinsfélagsins Sigurvonar, sáu um mælingarnar í sjálfboðavinnu og rann því andvirði þess sem fólk borgaði fyrir mælinguna óskert til Sigurvonar. Hátt í 200 manns létu mæla í sér beinþéttnina og söfnuðust um 260.000 kr. Mælingarnar fóru fram á Ísafirði og á Patreksfirði. Áhugi á mælingunum var mikill og þeir sem létu mæla í sér beinin fengu jafnframt góðar ráðleggingar og fræðslu um beinvernd.

Þá var haldið kaffihúsakvöld í byrjun aðventunnar þar sem m.a. fór fram tónlistarflutningur og happdrætti. Vel var mætt og góð stemming myndaðist. Vonir standa til að um árvissan viðburði verði að ræða. Að öðru leyti var starfið nokkuð hefðbundið. Sem fyrr var stuðningshópurinn Vinir í von með reglulegar samverustundir yfir vetrartímann. Hópurinn hefur notið góðvildar geðræktarmiðstöðvarinnar Vesturafls, sem lætur honum í té aðstöðu að Mánagötu. Þar fyrir utan hefur hópurinn hist af og til á veitingahúsum Ísafjarðar.

Sigurvon tók þátt í að vekja athygli á árveknis- og fjáröflunarátakinu Mottumars og í október var Safnahúsið lýst upp bleikt að vanda sem og fleiri fyrirtæki og stofnanir. Þá flögguðu margir af styrktaraðilum og velunnurum Sigurvonar fána Bleiku slaufunnar til að sýna stuðning sinn í verki. Sigurði Ólafssyni, fyrrum formanni Krabbameinsfélagsins Sigurvonar, var afhent með formlegum hætti bleika slaufan sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf í þágu Sigurvonar. Bíi, eins og hann er betur sem þekktur í daglegu tali, lét af störfum fyrr á árinu eftir fimmtán ára formennsku. Þá fór árviss jólakortasala félagsins aðallega fram á Netinu í ár og starfsmaður og stjórnarmenn keyrði kortin úr. Heppnaðist það ágætlega.

Sigurvon naut sem endranær mikillar velvildar úr nærsamfélaginu og styrktu þónokkrir aðilar og fyrirtæki félagið. Er sá stuðningur ómetanlegur enda gerir hann félaginu kleift að styðja fjárhagslega við félagsmenn sína að standa straum af gistikostnaði, sem annars myndi gera róðurinn enn þyngri er hann bætist ofan á læknis- og rannsóknakostnað, auk þess að veita einstaklingum ótilgreinda fjárstyrki sé óskað eftir því. Sem dæmi má nefna að ungmenni úr Menntaskólanum á Ísafirði stóðu fyrir hlaupi til styrktar Sigurvon í þriðja sinn. Þátttakendur gátu valið milli tveggja vegalengda með frjálsum framlögum til stuðnings félaginu okkar.

Thelma Hjaltadóttir.


Var efnið hjálplegt?