Þegar ástvinur greinist með krabbamein

Það er flestum áfall þegar ástvinur greinist með krabbamein.  Þá er algengt að hugsanir og tillfinningar af ýmsum toga geri vart við sig. Þú gætir upplifað ýmislegt sem tengist því að verða fyrir áfalli eða sjokki, eins og; örvinglan, sorg, vonbrigði, afneitun, dofa, erfiðleika við einbeitingu. Einnig gætirðu upplifað svipaðar tilfinningar og sýnt svipuð viðbrögð og sá sem greinist með krabbamein.

Sálræn viðbrögð

Það er flestum áfall þegar ástvinur greinist með krabbamein.  Þá er algengt að hugsanir og tillfinningar af ýmsum toga geri vart við sig.  Þú gætir upplifað ýmislegt sem tengist því að verða fyrir áfalli eða sjokki, eins og; örvinglan, sorg, vonbrigði, afneitun, dofa, erfiðleika við einbeitingu.

Einnig gætirðu upplifað svipaðar tilfinningar og sýnt svipuð viðbrögð og sá sem greinist með krabbamein. Til að mynda gætirðu fundið fyrir; pirring, reiði, kvíða, skapsveiflum, ótta, viðkvæmni.

Við þessar aðstæður er í raun ekki hægt að tala um að ákveðin viðbrögð séu rétt eða röng. Manneskjan er margbreytileg og þess vegna er misjafnt hvernig við bregðumst við og tökumst á við erfiða atburði í lífinu. Viðbrögð þín gætu til að mynda markast af því hvernig sambandi þínu við ástvininn er háttað, hversu alvarleg eða umfangsmikil veikindi hans eru og hvernig honum líður almennt í veikindunum og í meðferðinni vegna þeirra.

Að læra að biðja um hjálp

Fjölskylda og vinir ganga oft í gegnum erfiða og flókna tíma í kjölfar krabbameinsgreiningar hjá ástvini sínum. Þeir taka þá gjarnan á sig aukna ábyrgð og skyldur en setja sínar eigin þarfir til hliðar. Það getur reynst flókið að huga að þörfum þess nákomna sem greinst hefur með krabbamein á sama tíma og þú ert að takast á við alls konar tilfinningar og breytingar í lífinu.

Það er mikilvægt að þú reynir að setja niður fyrir þig hvar þín mörk liggja varðandi hversu mikil og mörg verkefni þú treystir þér til að taka að þér. Þá getur verið gott að þú áttir þig á því hvernig þú getur aðstoðað ástvin þinn; hvaða hluti þú vilt sjá um og  hvaða hlutum þú þarft ekki að sinna en aðrir gætu ef til vill aðstoðað við. Þetta gæti til að mynda falist í aðstoð varðandi börnin, eldamennsku, þrif eða læknaheimsóknir.

Það er ekki alltaf auðvelt að þiggja aðstoð frá öðrum en mundu að með því að huga að þér, eykur þú  líkur á að halda eigin heilsu, sem er einnig mikilvægt fyrir ástvin þinn.  Með því að þiggja aðstoð gætir þú einnig létt á mögulegri sektarkennd hans vegna aukins álags sem þú ert undir, tengt hans veikindum.

Stundum getur komið upp að fólk hafi ekki möguleika til að hjálpa eða sýni ekki vilja til þess. Þetta gæti sært tilfinningar þínar eða reitt þig til reiði. Þetta gæti verið sérstaklega erfitt ef fólk sem þú hafðir vænst þess að fá stuðning frá, veitir hann ekki. Þú gætir velt fyrir þér ástæðum þess að sá hinn sami býður ekki fram hjálp. Algengar ástæður gætu verið þessar:

 • Glímir við vandamál eða skortir tíma.
 • Óttast krabbamein eða á að baki erfiða reynslu tengda krabbameini.
 • Telur að það rétta sé að halda sig fjarri þegar aðrir eiga í vanda.
 • Áttar sig ekki á þeim erfiðleikum sem þú gengur í gegnum eða skynjar ekki að þú þarfnast aðstoðar nema þú tjáir það skýrt.
 • Óöryggi tengt því að sýna umhyggju sína.

Ef þú færð ekki þá aðstoð sem þú telur þig þarfnast frá manneskju sem þú hafðir vænst hennar frá, gæti verið gott að ræða hreinskilnislega við hinn sama og útskýra hvers þú þarfnast. Þú gætir líka ákveðið að láta það eiga sig, en ef að tengslin við manneskjuna eru þér mikilvæg, er sennilega best að segja viðkomandi hvernig þér líður. Það getur komið í veg fyrir að gremja eða streita safnist upp og skaði samband ykkar.

Að hlúa að sjálfum sér

Þér gæti fundist að vegna veikinda ástvinar þíns eigi þínar þarfir að mæta afgangi eða þá að álagið sé slíkt að þér gangi illa að finna tíma til aflögu fyrir þig. Þú gætir líka fundið til sektarkenndar yfir því að geta notið þess sem ástvinur þinn fær ekki notið um þessar mundir. Flestir lýsa þessum sömu tilfinningum. Það að huga að þínum þörfum og löngunum getur gefið þér þann kraft sem þú þarft til að halda áfram.

Að búa til tíma

Að gefa þér tíma til að endurnæra líkama, huga og sál, hjálpar bæði þér og ástvini þínum í þeim aðstæðum sem þið standið frammi fyrir.  Það gæti reynst þér gagnlegt að íhuga hvað gæti helst hjálpað þér að finna vellíðan og slaka á. Aðstandendur hafa tjáð að jafnvel nokkrar mínútur á dag án utanaðkomandi truflunar geti hjálpað til við að safna kröftum og þrauka áfram.

Reyndu að taka frá tíma til að hvílast, hreyfa þig, vinna í garðinum, stunda áhugamál, horfa á bíómynd,  eða hvað annað sem þú finnur að hjálpar þér að slaka á.  Þú gætir fundið fyrir erfiðleikum með að slaka á, jafnvel þótt þú hafir tíma til þess. Fólk í þeim sporum hefur tjáð að þá sé gott að gera mjúkar æfingar, teygjur, öndunaræfingar eða bara að sitja kyrr í smástund.

Nokkur hollráð:

 • Gerðu daglega eitthvað notalegt fyrir sjálfan þig – jafnvel nokkrar mínútur á dag geta hjálpað.
 • Hættu ekki að stunda áhugamál þín heldur reyndu frekar að minnka tímann sem fer í þau ef þess þarf.
 • Hugsaðu um hvernig aðrir geta mögulega komið þér til aðstoðar.
 • Leitaðu einfaldra leiða til að vera í sambandi við vini þína.

Að átta sig á eigin líðan


Það er mikilvægt að þú gefir þér svigrúm til að skoða hugsanir þínar og líðan, meðal annars vegna þess að að það hjálpar þér og ástvini þínum að átta ykkur á hvers þú þarfnast á hverjum tíma fyrir sig.  Það gæti til að mynda verið gott að spyrja sjálfa(n) þig spurninga eins og; 

 • Hvernig þér líður.
 • Hvað gæti mögulega létt þér lundina eða lyft upp andanum.
 • Hvort þú gætir haft gott af því að létta á þér og tala við einhvern sem þú treystir eða einhvern utanaðkomandi.
 • Hvort þú hafir gott af því að hitta og tala við fólk eða hvort þú kýst heldur að eiga rólegan tíma með sjálfum þér.  Kannski þarftu á hvoru tveggja að halda, allt eftir því hvað gengur á í lífi þínu.

Gildi hláturs

 

Mundu að það er leyfilegt að hlægja þótt ástvinur þinn hafi greinst með krabbamein og sé ef til vill í krabbameinsmeðferð.  Hlátur losar um spennu og eykur vellíðan. Þú gætir á meðvitaðan hátt leitast við að horfa á gamanmyndir eða lesa gamanefni, vera í kringum þá sem eru upplífgandi og fá þig til að hlægja eða bara að rifja upp skemmtilega hluti sem þú átt í minningum þínum. Það að leitast við að sjá spaugilegar hliðar lífsins á erfiðum tímum er góð leið til að hjálpa þér í gegnum þá.

Eftir að meðferð lýkur

Það er mikilvægt að vita að jafnvel þó að ástvinur þinn hafi lokið krabbameinsmeðferð, getur hann áfram þurft að glíma við fylgikvilla eða aukaverkanir krabbameinsmeðferðar. Hann gæti nú þurft að að aðlagast ýmsum breytingum sem kunna að hafa orðið á lífi hans og hugsanlega getur hann ekki horfið aftur til hins eðlilega lífs eins fljótt og hann hélt.

Þegar krabbameinsmeðferð er lokið vilja flestir leggja krabbameinið að baki sér og halda áfram með lífið.  Samt sem áður er mjög algengt að á þessum tímapunkti spyrji aðstandendur sig: „Hvað á ég að gera núna ?“.

Margir þurfa í raun að aðlagast því að lífið falli aftur í eðlilegar skorður.  Orka þín og einbeiting hefur miðast við að aðstoða og vera til staðar fyrir ástvin þinn og nú þegar meðferð er lokið geta tilfinningarnar verið blendnar.  Þú gleðst yfir því að meðferðinni er lokið en á sama tíma geta áhrif langvarandi álags farið að gera vart við sig. Sumir tala um að eftir að meðferð lýkur komi tilfinningarnar og viðbrögðin jafnvel sterkar fram þar sem þá skapist svigrúmið til að byrja að melta þær.  Þú gætir einnig fundið fyrir kvíða eða óróa þar sem að meðferð er nú hætt.

Hafir þú ýtt þínum þörfum til hliðar eftir að ástvinur þinn geindist, gæti núna verið gott að hugsa um hvernig þú getur sem best hugað af sjálfum þér og gefið þér svigrúm til þess.

Samskipti við þann sem greinst hefur með krabbamein

Þú gætir fundið til vanmáttar og óöryggis í samskiptum við þann sem greinst hefur með krabbamein, til dæmis vegna þess að þú óttast að segja eitthvað rangt eða að segja ekki það rétta. Það er gott að hafa í huga að það er ekki til nein ein rétt leið til að segja eða gera hlutina við þessar aðstæður. Það að hlusta með óskiptri athygli er oft það sem reynist hjálplegra en nokkur orð. Eitt það mikilvægasta af öllu er að manneskjan finni að þér er annt um hana og þú ert tilbúinn til að vera til staðar og styðja við hana eins og þú best getur og treystir þér til. Það getur verið gott að segja þessa hluti upphátt við einstaklinginn. Flestir þeirra sem greinast með krabbamein vilja finna að þeir þurfi ekki að fara í gegnum þetta ferli einir og þarfnast stuðnings frá fjölskyldu og vinum.  Ekki veigra þér við að ræða ótta þinn og áhyggjur við manneskjuna. Það að ræða þessar tilfinningar hreinskilnislega getur hjálpað öllum að komast í gegnum erfiða tíma saman. Hafa ber í huga að ekki eru allir þeir sem greinast með krabbamein tilbúnir til að ræða tilfinningar sínar. Sumir hafa þörf fyrir að fá útrás eftir öðrum leiðum.

Hollráð:

 • Vertu þú sjálfur.
 • Ræddu líka þína líðan og áhyggjur við þann sem hefur greinst.
 • Sýndu að þú viljir vera til staðar.
 • Hlustaðu.
 • Vertu raunsæ/r varðandi þá aðstoð sem þú býður fram.  Það getur verið mikilvægt að orð þín standist þegar á reynir.

Að verða skotmark erfiðra tilfinninga

Venjulega tekur það þann sem greinist með krabbamein tíma að átta sig á tilfinningum áður en hann getur tjáð þær eða deilt þeim á þann hátt sem hann myndi kjósa. Á þessum tíma verða fjölskylda og vinir stundum skotmark fyrir sterkar og yfirþyrmandi tilfinningar sem viðkomandi þarf að fá útrás fyrir. Ef þú upplifir að reiði eða pirringi sé beint að þér mundu þá að þú ert ekki orsakavaldur þessara tilfinninga heldur ertu sá aðili sem viðkomandi treystir til að taka við þeim.


Lóa Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur: Janúar, 2016

Tekið saman af; www.cancer.org | www.cancer.gov

Ráðgjafar Krabbameins­félagsins veita ýmis konar fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þess.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er að Skógarhlíð 8 í Reykjavík og er opin virka daga frá kl. 9-16. Símaráðgjöf er á opnunartíma í síma 800 4040. Einnig er hægt er að senda fyrirspurnir á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.


Var efnið hjálplegt?