Sortuæxli og önnur húðkrabbamein

Taktu prófið!

Með því að þekkja orsakir og einkenni húðkrabbameina er hægt að bregðast fljótt við þegar lækning við sjúkdómnum er möguleg. Talið er að hægt væri að koma í veg fyrir um átta af hverjum tíu húðkrabbameinum ef allir færu eftir ráðleggingum um sólarvarnir og færu ekki í ljósabekki.1Það er nær alltaf hægt að lækna húðkrabbamein ef það greinist á snemmstigum. 

Rétta svarið er: "Rétt"

Það er langoftast hægt að lækna algengustu húðkrabbameinin, grunnfrumkrabbamein , flöguþekjukrabbamein og sortuæxli, ef þau eru greind nægilega snemma. Sortuæxlin eru þó hættulegust. Ef þau ná að vaxa niður í húðina og inn í sogæðar eða blóðæðar geta sortuæxlisfrumurnar dreift sér um líkamann og myndað meinvörp. Á því stigi er það illviðráðanlegt og oftast ólæknanlegt. Því er mikilvægt að greina það á byrjunarstigi.


2Húðkrabbamein er eitt algengasta krabbameinið á Íslandi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Um 140 greinast árlega með húðkrabbamein á Íslandi, aðeins færri en greinast með ristilkrabbamein. Húðkrabbamein önnur en sortuæxli eru um 7% allra krabbameina og sortuæxli um 3%. Af þeim látast um 10 á ári, flest allir af völdum sortuæxlis. Mikil aukning hefur verið á tíðni sortuæxla hér á landi, sérstaklega meðal ungra kvenna, samhliða notkun á ljósabekkjum og sólarlandaferðum. Nýleg íslensk rannsókn sýndi einnig að fleiri karlar en konur yfir fimmtugt greinast nú með langt gengið sortuæxli, hugsanlega af því að þeir fylgjast ekki eins vel með húðinni eða mæta seinna til læknis en konur á sama aldri.


3Húðkrabbamein er eitthvað sem ungt fólk ætti ekki að hafa áhyggjur af.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Þó svo að tíðni sortuæxla aukist með aldrinum þá fær ungt fólk líka sjúkdóminn, sérstaklega ef það hefur sögu um að brenna í sól eða ljósabekk. Sortuæxli er nú algengasta krabbameinið hjá ungum konum (35 ára og yngri).


4Ljósabekkir eru ekki jafnhættulegir og sólin.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Að fá á sig útfjólubláa geisla (UV-geisla) er stærsti áhættuþáttur húðkrabbameina. Þó svo að sólin sé aðaluppspretta útfjólubláu geislanna þá senda ljósabekkir einnig slíka geisla frá sér. Útfjólubláu geislarnir skaða erfðaefni í húðfrumunum sem leitt getur til húðkrabbameins. Fólk sem fær á sig mikið af útfjólubláum geislum, hvort heldur frá sólinni eða ljósabekkjum, er í aukinni áhættu að fá húðkrabbamein .


5Fólk sem er dökkt á hörund fær ekki húðkrabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Sólargeislar og geislar frá ljósabekkjum geta haft áhrif á húð og augu allra, óháð litarhafti og augnlit. Fólk með ljósa húð er þó mun líklegra til að fá sólarskemmda húð en fólk sem er dökkt á hörund. Fólk með dökka húð er ólíklegra til að fá sortuæxli á svæði eins og fótleggi, bak og bringu. Um helmingur sortuæxla hjá þeldökku fólki greinist á lófum og iljum en um eitt af hverju tíu hjá hvítum einstaklingum.


6Auðvelt er að þekkja húðkrabbamein, það byrjar alltaf sem dökkleitur blettur.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Húðkrabbamein getur myndast á margskonar hátt. Liturinn  þeirra getur verið dökkbrúnn, rauður, gráleitur, svartur og þeir geta verið ólíkir að lögun og stærð. Grunnfrumukrabbamein og flöguþekjukrabbamein eru oftast á svæðum sem hafa fengið mikla sól, t.d. höfði, hálsi, handleggjum, en geta myndast hvar sem er á líkamanum. Sortuæxli myndast oft í fæðingablettum. Leitaðu eftir nýjum bletti, bletti sem er að breytast að einhverju leyti eða er óreglulegur að lögun, með fleiri en einn lit í sér eða sár sem grær ekki á nokkrum vikum. Kláði í blett getur einnig verið einkenni. Annað mikilvægt merki er blettur sem er ólíkur öðrum blettum á húðinni. Stundum er erfitt að átta sig á muninum á eðlilegum bletti og húðkrabbameini, þannig að mikilvægt er að leita til læknis, t.d. húðsjúkdómalæknis ef þú ert með einhver ofangreindra einkenna. Hægt er að panta tíma í sérstaka blettaskoðun hjá húðsjúkdómalæknum.


7Því lengur sem ég er í sólinni því betur venst húðin henni og líkur á húðkrabbameini minnka.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Því lengur sem þú ert í sólinni því meiri skaða geturðu orðið fyrir. Húð sem verður brún er í raun merki um að húðin hefur orðið fyrir skaða af völdum útfjólublárra geisla. Til langs tíma getur það valdið ótímabærri öldrun húðar með tilheyrandi línum og minnkuðum teygjanleika húðar ásamt öldrunarblettum og öðrum blettum sem breyst geta í húðkrabbamein .


8Útfjólubláir geislar eru eingöngu hættulegir fyrir húðkrabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Útfjólubláu geislarnir geta einnig aukið líkur á að fá ský á auga eða önnur augnvandamál. Sortuæxli geta einnig myndast í auga.


9Að hafa brunnið á húð fyrir 18 ára aldur eykur hættu á húðkrabbameini.

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Húð barna er þynnri og viðkvæmari. Þeir sem hafa brunnið í sól eða ljósabekk eru í aukinni hættu að fá húðkrabbamein , sérstaklega sortuæxli. Þeir sem hafa ljósa húð, húð sem brennur auðveldlega eða hafa marga fæðingabletti eru einnig viðkvæmari.


10Efnin í sólarvörn eru hættulegri en að sólbrenna.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Ekki hefur verið sýnt fram á að efnin í sólarvörn séu krabbameinsvaldandi en útfjólubláir geislar sólarinnar er vel þekktur áhættuþáttur algengustu húðkrabbameina .


11Því hærra sem ég geng á fjöll því minni líkur eru á að brenna.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Því hærra sem þú ert frá sjávarmáli því sterkari eru geislarnir og meiri líkur eru á að brenna.


12Skýin veita EKKI örugga vörn og geislarnir geta endurspeglast frá sumum skýjum.

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Um 60% af sólargeislum sleppa í gegnum skýin og sólargeislar endurspeglast á sjó, vatni og snjó. Til dæmis getur fólk brunnið á svæðum sem eru í skugga frá sól en snúa að snjó eða vatni.


13Maður finnur það þegar maður er að brenna því þá hitnar húðin.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Þú finnur ekki fyrir útfjólubláu geislunum, þeir gefa ekki frá sér hita. Það eru infrarauðu geislar sólarinnar sem gefa frá sér hita en þeir valda ekki bruna. Það er þess vegna sem fólk getur brunnið á köldum dögum.


14Brúnkukrem eru öruggari en sólböð eða ljósabekkjanotkun.

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Ef þú sækist eftir dökkum húðlit er talið mun hættuminna að nota brúnkukrem en stunda sólböð eða ljósabekki. Sum brúnkukrem liggja á húðinni og hægt er að þvo þau af með vatni. Önnur innihalda efni sem kallast dihydroxyacetone (DHA) sem bindst við aminósýrur í ysta lagi húðarinnar. Ekki er hægt að þvo DHA af húðinni heldur losnar það af þegar ysta lag húðarinnar endurnýjar sig, sem er á nokkrum dögum. Vísbendingar eru um að húðin sé sérstaklega viðkvæm fyrir skaða af völdum útfjólublárra geisla eftir að hafa borið á sig brúnkukrem og því er ráðlagt að forðast sólböð. Þó svo að brúnkukrem virðist öruggari en sólböð er ráðlagt að nota þau í hófi.


15Melanotan er frábær leið til að fá smá lit á húðina.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Melanótan er tilbúið hormón sem ætlað er að auka styrkleika melaníns sem gefur húð brúnan lit. Þetta lyf er ólöglegt vegna þess að það hefur ekki verið sýnt fram á að það sé öruggt eða skili tilskildum árangri. Enn er ekki vitað hvort og hversu hættulegt það getur verið. Tilfellum hefur verið lýst þar sem einkenni frá hjarta, maga, blóði og augum hafa verið rakin til notkunar þessa lyfs.


16Nauðsynlegt er að liggja í sólbaði til að fá D-vítamín.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Við þurfum öll D-vítamín til að viðhalda sterkum beinum og einnig eru vísbendingar um að D-vítamín sé verndandi gegn sumum krabbameinum. Húðin framleiðir D-vítamín þegar sólin skín á hana og er það meginuppspretta D-vítamínsforða okkar. Hversu mikið húðin tekur upp af D-vítamíni fer eftir húðtegund, árstíma, tíma dags og breiddargráðu. Flestum dugar að láta sól skína á handleggi og höfuð í um 15 mínútur til að fá góðan skammt af D-vítamíni. Rannsóknir sýna að húðin tekur upp D-vítamín þegar sólarvörn af styrkleika SPF 15 er notuð. Þrátt fyrir að við höfum gott af smá sól til að fá D-vítamín er ráðlagt er að nota sólarvörn til að koma í veg fyrir sólbruna. Jafnframt er Íslendingum ráðlagt að taka reglulega lýsi eða D-vítamíntöflur og borða feitan fisk til komast hjá skorti.  • Hafir þú einkenni eða vilt komast í skoðun þá er ráðlagt að leita til heimilislæknis eða húðsjúkdómalæknis.


Var efnið hjálplegt?