© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemin 2016-2017

Eins og undanfarin ár var október annasamur og upplífgandi. Fyrstu slaufunni var að þessu sinni nælt í baráttukonuna Jensínu Valdimarsdóttir. Um miðjan október 2016 hélt Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis bleika stuðningsgöngu. Gengið var frá stjórnsýsluhúsinu við Stillholt sem leið lá að bleiklýstu Akratorgi. Skemmtidagskrá var á torginu þar sem Steinunn Sigurðardóttir fyrrum hjúkrunarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og stjórnarmaður hollvinasamtaka stofnunarinnar hélt stutt ávarp auk þess sem Bergdís Fanney Einarsdóttir flutti tónlistaratriði. Einnig voru dregnir út veglegir happdrættisvinningar sem fyrirtæki á svæðinu létu af hendi rakna.

Jóga-námskeið var haldið að vori og er það alltaf jafn vel sótt. Líkt og áður var það Margrét Bára Jósefsdóttir sem sá um það. Jógað er sívinsælt og er orðinn fastur liður í starfseminni. Jógað fór fram í húsnæði Hver á vorönninni og gekk það vel.

Að öðru leyti hefur starfsárið verið frekar rólegt og vinna okkar í stjórninni farið í að vekja athygli á félaginu í okkar heimabyggð, og hvaða þjónustu við bjóðum upp á. Í lok starfsársins voru útbúnir bæklingar og voru þeir settir í dreifingu hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.


Ólöf Inga Birgisdóttir.

Starfsemi 2015-2016

Eins og undanfarin ár var október annasamur og upplífgandi. Fyrstu slaufunni var að þessu sinni nælt í baráttukonuna, Svanhvíti Sveinsdóttur, sem greindist með brjóstakrabbamein fyrir mörgum árum og sigraðist á því og hefur lifað góðu og innihaldsríku lífi síðan þá. Þann 15. október 2015 blés Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis, í samstarfi við Akraneskaupstað og verslanir og þjónustuaðila á Akranesi, til bleiku stuðningsgöngunnar. Gengið var frá stjórnsýsluhúsinu við Stillholt sem leið lá að bleiklýstu Akratorgi undir taktföstu spili trommusveitar Tónlistarskólans.

Skemmtidagskrá var á torginu þar sem Arndís Halla stjórnarmaður og baráttukona hélt stutt ávarp auk þess sem Margrét Saga og Marinó Raven fluttu tónlistaratriði sem og Rakel Rún og María Dís. Einnig voru dregnir út veglegir happdrættisvinningar sem fyrirtæki á svæðinu létu af hendi rakna. Meðal vinninga var gjafabréfí í ristilspeglun hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands en markmiðið með árverknisátaki Bleiku slaufunnar var að afla fjármagns þannig að hefja mætti skipulega leit að ristilkrabbameini í konum og körlum. Mögulega var þetta í fyrsta sinn sem ristilspeglun er happdrættisvinningur. Verlsanir og þjónustuaðliar tóku vel í beiðni okkar um þátttöku og kunnum við þeim bestu þakkir.

Í byrjun árs 2016 var rökkurganga í skógræktinni líkt og gert hafði verið undanfarin tvö ár. Þóra Grímsdóttir sagnaþulur leiddi gönguna og sagði skemmtilegar sögur.

Á fundi í janúar var sett fram dagskrá fyrir næstu mánuði, en Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis stóð fyrir litlum viðburðum nokkuð reglulega. Markmið viðburðanna var að krabbameinsgreindir og aðstand-endur þeirra gætu hist, spjallað saman, haft gaman. Umsjónarmaður var Arndís Halla Jóhannesdóttir. Meðal viðburða var ganga í skógræktinni, kaffihúsahittingur, prjónahittingur og samvera á bókasafninu.

Líkt og áður var mars helgaður körlunum okkar og reyndum við að ná til þeirra með því að auglýsa karlakvöld á Vitakaffi þann 11.mars, sem saman stóð af fræðslu- og skemmtidagskrá, en mætingin var dræm. Helgina 11.-13. mars var mottumarsvarningur seldur og gekk það vel. 

Í mars barst Krabbameinsfélagi Akraness og nágrennis góð gjöf frá Elkem Grundartanga, en það var vegleg peningagjöf í minningu um látna samstarfsmenn.

Jóganámskeið voru haldin að hausti og vori og eru þau alltaf jafn vel sótt. Líkt og áður var það Margrét Bára Jósefsdóttir sem sá um þau. Jógað er sívinsælt og er orðinn fastur liður í starfseminni. Jógað fór fram í húsnæði Hver á vorönninni og gekk það vel. Starfsárið hefur gengið vel.

Ólöf Inga Birgisdóttir.

Starfsemin 2014-2015

Starfsárið 2014-2015 hófst með söluhelgi í ágúst. Stjórnarmenn sáu um sölu á málböndum og spilastokkum merktum Krabbameinsfélaginu. Þar að auki útbjuggu stjórnarmenn til forláta handunnin skilti sem einnig voru seld til styrktar félaginu. Ágóðinn af þessari sölu rann til Krabbameinsfélags Akraness og nágrennis. Salan gekk ágætlega.

Í september fór aðalorkan í að undirbúa átakið, Bleika slaufan, sem er stærsti viðburður hvers árs hjá Krabbameinsfélaginu. Að þessu sinni var fyrsta slaufa ársins næld í unga konu að nafni Arndís Halla Jó-hannesdóttir sem hefur vakið athygli á þjónustu við krabbameinsgreinda og aðbúnað heilbrigðisstarfsfólks. Arndís Halla hélt svo opinn fyrirlestur í febrúar sem bara heitið „Mikill hlátur og smá grátur“ og var hann vel sóttur. 

Í október hefur verið venjan að lýsa eitt hús í bænum bleikt en að þessu sinni ákváðum við í samstarfi við Akraneskaupstað að lýsa Akratorgið bleikt. Verið var að taka í notkun nýjan ljósabúnað á Akratorgi í október og var því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi og baða torgið bleikum ljósum. Stjórnarmenn seldu heitt kakó kvöldið sem ljósin voru kveikt og gekk sú sala vonum framar. Október endaði svo á bleikri rökkurgöngu í skógrækt okkar Akurnesinga og tókst sú ganga vel.

Veglegt fréttabréf var gefið út í nóvember þar sem nýjar áherslur í starfi Krabbameinsfélagsins voru kynntar, skrifstofan á Kirkjubraut 40 var lögð niður og formleg samvinna hófst við Endurhæfingarhúsið Hver í byrjun desember 2014.  

Félagið tók upp þá nýjung að bjóða upp á slökun og samtalsmeðferð fyrir nýgreinda einstaklinga og þá sem eru í meðferð. Rannveig Björk Gylfadóttir hjúkrunarfræðingur annast hana. Ágóðinn að ágústsölunni fór í kaup á hægindastól sem nýtist í slökuninni.

Jóga-námskeið voru haldin að hausti og vori og eru þau alltaf jafn vel sótt. Líkt og áður var það Margrét Bára Jósefsdóttir sem sá um þau. Jógað er sívinsælt og er orðinn fastur liður í starfseminni. Jógað fór fram í húsnæði Hver á vorönninni og gekk það vel.

Starfsárið hefur gengið vel, samvinnan við Hver hefur verið góð þótt færri einstaklingar hafi sótt þjónustuna en vonir stóðu til.

Félagið leggur áherslu á að nýta þá fjármuni sem safnast til góðra verka í þágu krabbameinssjúklinga. Á yfirstandandi starfsári veitti félagið 250.000 kr. styrk til 

Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem standa að söfnun fyrir nýju sneiðmyndatæki. Auk þess var sama upphæð sett í vísindasjóð Krabbameinsfélags Íslands.

Ólöf Inga Birgisdóttir og Thelma Hrund Sigurbjörnsdóttir 


Var efnið hjálplegt?