Beint í efni

Í krabba­meins­með­ferð

Margir þættir hafa áhrif á hvaða leið er valin við meðferð krabbameins, eins og aldur og almennt heilsufar.

Í krabbameinsmeðferð

Það er margt sem hefur áhrif á hvaða krabbameinsmeðferð er valin.

Aldur og almennt heilsufar er einn af áhrifaþáttunum en einnig skiptir máli tegund meinsins, stærð þess, staðsetning og hvort það hafi dreift sér. Yfirleitt er gefin fleiri en ein tegund af meðferð, t.d. skurðaðgerð og lyfjameðferð og/eða geislameðferð. Hjá sumum nægir þó að gefa eina tegund meðferðar. Tilgangur flestra krabbameinsmeðferða er að uppræta meinið en getur líka verið sá að halda því í skefjum.

Skurðaðgerð

Fyrsta meðferð flestra krabbameina er skurðaðgerð. Tilgangurinn er venjulega að lækna viðkomandi með því að fjarlægja allt æxlið.

Lyfjameðferð

Krabbameinslyfjameðferð felur í sér að gefin eru frumueyðandi lyf til að hafa áhrif á frumur í vexti. Truflun verður á frumumyndun og þær missa hæfileikann til að skipta og fjölga sér.

Geislameðferð

Tilgangur geislameðferðar getur verið að lækna sjúkdóminn eða halda honum niðri og hindra þannig frekari útbreiðslu um óákveðinn tíma. Þegar um lengra genginn sjúkdóm er að ræða má bæta líðan með geislameðferð.

Líknarmeðferð

Líknarmeðferð er veitt í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga sem eru með langvinna og lífsógnandi sjúkdóma, eins og krabbamein, hjarta-, lungna-, tauga- og nýrnasjúkdóma.

Skurðaðgerð

Það er ekki alltaf raunhæft að fjarlægja allt æxlið í skurðaðgerð. Í sumum tilfellum er æxlið það stórt eða á slæmum stað að nauðsynlegt er að gefa lyfja- eða geislameðferð fyrir skurðaðgerð til minnka það fyrir aðgerðina. Einnig getur skurðaðgerð verið leið til að koma í veg fyrir myndun krabbameins, til að bæta lífsgæði eða að byggja upp vef eftir krabbameins skurðaðgerð.

Fyrirbyggjandi skurðaðgerð

Það getur verið ástæða til að fjarlægja líkamsvef sem með tímanum getur breyst í krabbamein. Dæmi um það eru separ sem eru fjarlægðir í ristilspeglun eða forstigsbreytingar í leghálsi sem eru fjarlægðar með keiluskurði. Heilt líffæri er einstaka sinnum fjarlægt þegar einstaklingur hefur fengið í arf genabreytingu sem eykur líkur á að þróa með sér krabbamein. Sem dæmi, þá gæti kona með mjög sterka ættarsögu um brjóstakrabbamein og stökkbreytingu í brjóstakrabbameinsgeni (BRCA1 eða BRCA2) kosið að láta fjarlægja brjóst sín og/eða eggjastokka.

Skurðaðgerð til sjúkdómsgreiningar

Nauðsynlegt getur verið að ná í vefjasýni með skurðaðgerð til að greina æxlið, fá staðfest hvort það sé illkynja, góðkynja og hvaðan uppruni þess er. Með rannsóknum og prófunum er jafnframt hægt að segja til um hvaða meðferð eigi best við. Stundum er líka gerð kviðarholsspeglun til að kanna útbreiðslu meins, þ.e. athuga hvort það hafi sáð sér til annarra líffæra eða vefja.

Læknandi skurðaðgerð

Þegar krabbamein er bundið við einn hluta af líkamanum og hefur ekki dreift sér er hægt að fjarlægja æxlið í heilu lagi ásamt aðliggjandi heilbrigðum vef til að lækna viðkomandi. Stundum er einungis gerð skurðaðgerð en í mörgum tilfellum er lyfja- og/eða geislameðferð gefin fyrir eða eftir aðgerðina. Einstaka sinnum er gefin geislameðferð í aðgerð hjá einstaklingum sem eru með mein á byrjunarstigi. Þá er geislað svæðið þar sem æxlið hafði verið staðsett.

Líknandi skurðaðgerð

Það er ekki alltaf hægt að fjarlægja æxli að fullu, t.d. þegar það er staðsett á viðkvæmum stað í heila eða ef það hefur dreift sér. Þá getur skurðaðgerð engu að síður hjálpað til við að halda æxlinu í skefjum eða lina einkenni.

Stuðningsskurðaðgerð

Krabbameinslyf eru að öllu jöfnu gefin um lyfjabrunn, lítið kringlótt málmhylki sem komið er fyrir undir húð fyrir neðan viðbein. Úr hylkinu liggur örmjó slanga sem þrædd er inn í  bláæð í brjóstholi. Með lyfjabrunni  losnar fólk við endurteknar nálastungur í bláæð.

Sjá nánar um lyfjabrunn á vef Landspítalans.

Uppbyggjandi skurðaðgerð

Stundum hefur krabbameinsskurðaðgerð áhrif á útlit, eins og við brottnám brjósts. Hjá sumum konum hefur útlitið eftir brjóstnám ekki áhrif á líðan þeirra á meðan aðrar kjósa að byggja brjóstið upp aftur, annað hvort með eigin vef eða gervibrjósti sem er komið fyrir undir húð og brjóstvöðva.

Hér má lesa má nánar um skurðlækningar brjóstakrabbameina á Landspítalanum.

Einnig er algengt að byggja upp vefi eftir brottnám krabbameins úr höfði eða hálsi.

Lyfjameðferð

Krabbameinslyfin berast með blóðrásinni um líkamann, hvort sem þau eru gefin í æð, vöðva eða í töfluformi. Þess vegna hafa þau ekki einungis áhrif á krabbameinsfrumurnar heldur einnig á aðrar frumur líkamans. Þetta á aðallega við um frumur sem eru hraðar í vexti og skipta sér oft eins og frumur í beinmerg, slímhúð meltingarvegar, kynkirtlum og hársverði. Áhrifin á þessar frumur eru tímabundin, þar sem þær koma til með að endurnýja sig.

Til eru margar tegundir krabbameinslyfja sem vinna á mismunandi hátt á krabbameinsfrumum. Því getur reynst nauðsynlegt að gefa fleiri en eitt lyf í senn, en það fer eftir eðli sjúkdómsins hvernig samsetning lyfjameðferðarinnar er. Lyfin er hægt að gefa á mismunandi hátt, allt eftir því hvaða krabbamein er verið að meðhöndla. Algengast er að gefa lyfin í æð, en einnig í töfluformi, inngjöf í vöðva, undir húð eða í vökvarýmið umhverfis mænu. Í sumum tilvikum er fleiri en ein leið notuð.

Það er einstaklingsbundið hversu oft og hve lengi lyfin eru gefin. Einnig er mismunandi hversu langur tími líður á milli lyfjagjafa. Hver lyfjagjöf getur staðið í nokkrar mínútur, klukkustundir eða nokkra daga í einu. Algengt er að gefa lyfin með 3-4 vikna millibili í 1-2 ár.

Meðferðin er oftast gefin á göngu- og dagdeildum en stundum krefst hún innlagnar á legudeild. 

Við hvetjum alla til að leita upplýsinga um sína meðferð, mögulegar aukaverkanir og þau úrræði sem í boði eru hjá sínum lækni og hjúkrunarfræðingi.

Geislameðferð

Þegar geislameðferð hefur verið ákveðin er meðferðarsvæðið ákvarðað með hjálp röntgenmyndatöku og oft sneiðmyndatöku. Svæðið sem á að meðhöndla er afmarkað á húðinni með sérstökum penna sem verður að sjást allt meðferðartímabilið. Stundum er útbúið stuðningsmót til að auðvelda legu í sömu stellingu meðan á meðferð stendur.

Sumir þurfa að koma einu sinni í undirbúning, aðrir tvisvar til þrisvar. Hver heimsókn tekur frá hálftíma og upp í tvær klukkustundir. Heildarundirbúningstími getur tekið allt að viku.

Meðferð 

Tímalengd geislameðferðar er breytileg. Sumir koma í eitt skipti, aðrir daglega í nokkrar vikur. Hver meðferð tekur aðeins nokkrar mínútur og er sársaukalaus. Við geislameðferð er notuð háorkuröntgengeislun eða rafeindageislun og hún veldur ekki geislavirkni.

Líðan fólks meðan á meðferð stendur er einstaklingsbundin. Algengar aukaverkanir eru þreyta bæði meðan á henni stendur og í nokkurn tíma á eftir, aðrar eru háðar því hvar á líkamann geislun er gefin og stærð geislasvæðis.

Sjúkrahúsvist vegna geislameðferðar er yfirleitt óþörf. Margir stunda áfram sína vinnu og sinna áhugamálum. 

Hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar og læknar deildarinnar fylgjast með og eru til taks á meðferðartímabilinu. Þau veita frekari upplýsingar um meðferðina, aukaverkanir og úrræði.

Þegar geislameðferð lýkur tekur við eftirlit hjá krabbameinslækni.

Líknarmeðferð

Markmið líknarmeðferðar er að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni sjúkdóms og sjúkdómsmeðferðar eins snemma og auðið er. Það á einnig við um andleg, sálræn og félagsleg vandamál sem tengjast veikindunum.

Líknarmeðferð er hægt að veita frá greiningu samhliða annarri meðferð. Áhersla á líknarmeðferð ætti að aukast eftir því sem sjúkdómur versnar og vera mest við lífslok.

Í líknarmeðferð er áhersla lögð á:

  • samræður um stöðu sjúkdóms, hvert stefna á í meðferð og óskir sjúklings
  • að meta líðan og þarfir sjúklings og fjölskyldu
  • að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni
  • að styðja sjúkling og fjölskyldu við að takast á við breyttar aðstæður
  • samstarf heilbrigðisstarfsfólks

Hver veitir líknarmeðferð?

Allir heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með lífsógnandi sjúkdóma geta veitt líknarmeðferð, hvar sem þeir starfa.

Til er sérhæfð líknarþjónusta, HERA, sem er ætluð sjúklingum með versnandi sjúkdóma og þeim sem eru með erfið, fjölþætt og flókin einkenni.

Mörgum getur gagnast þessi sérhæfða þjónusta tímabundið til að ná tökum á einkennum og/eða erfiðleikum vegna veikinda

Hvað getur þú gert?

Góð samvinna milli sjúklings, fjölskyldu og heilbrigðisstarfsfólks er mikilvæg til að takast á við veikindin. Meðferð verður árangursríkari ef þú ert vel upplýst/ur, tekur þátt í ákvörðunum og ræðir opinskátt við heilbrigðisstarfsfólk. 

Þú getur:

  • rætt við lækni um markmið meðferðar, áherslur þínar og óskir
  • látið lækni eða hjúkrunarfræðing vita af einkennum sem þú hefur, svo sem mæði, þreytu, verkjum, þunglyndi, kvíða, svefntruflunum, hægða- eða þvagvandamálum
  • rætt við lækni eða hjúkrunarfræðing um stuðning frá m.a. félagsráðgjafa, sálfræðingi, geðlækni eða presti
  • óskað eftir að fjölskylda þín fái upplýsingar og stuðning
  • óskað eftir því að þeir sem sinna þér ræði og vinni saman

Hér má lesa nánar um HERU, sérhæfða líknarmeðferð Landspítala (pdf)

Hér má lesa nánar um klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð (pdf)

Hér má lesa nánar um líknarmeðferð á bandarískri síðu um heilbrigðismál