Lyfjameðferð
Krabbameinslyfjameðferð er ein tegund krabbameinsmeðferða. Meðferðin felur í sér gjöf frumueyðandi lyfja. Frumueyðandi lyf hafa áhrif á frumur í vexti, það er að segja truflun verður á frumumyndun og þær missa hæfileikann til að skipta og fjölga sér.
Lyfin berast með blóðrásinni um líkamann hvort semþau eru gefin í æð, vöðva eða í töfluformi. Þess vegna hafa þau ekki einungis áhrif á krabbameinsfrumurnar heldur einnig á aðrar frumur í líkamanum. Þetta á aðallega við frumur sem eru hraðar í vexti og skipta sér oft eins ogfrumur í beinmerg, í slímhúð meltingarvegar, frumur í kynkirtlum og hársverði. Áhrifin á þessar frumur eru tímabundin, þar sem þær koma til með að endurnýja sig.
Til eru margar tegundir krabbameinslyfja semvinna á mismunandi hátt á krabbameinsfrumunum.Því getur reynst nauðsynlegt að gefa fleiri en eitt lyf í senn, en það fer eftir eðli sjúkdómsins hvernig samsetning lyfjameðferðarinnar er. Lyfin er hægt að gefa á mismunandi hátt allt eftir því hvaða krabbamein er verið að meðhöndla. Algengast er að gefa lyfin í æð, en einnig sem töflur um munn, inngjöf í vöðva, undir húð eða í vökvarýmið umhverfis mænu. Í sumum tilvikum er fleirien ein leið notuð.
Það er einstaklingsbundið hversu oft og hve lengi lyfin eru gefin. Einnig er mismunandi hversu langur tími líður á milli lyfjagjafa. Hver lyfjagjöf getur staðið í nokkrar mínútur, klukkustundir eða nokkra daga í einu. Algengt er að gefa lyfin með 3-4 vikna millibili í 1-2 ár.
Meðferðin er oftast gefin á göngu- og dagdeildum og stundum krefst hún innlagnar á legudeild.Þú færð nánari upplýsingar um þá meðferð sem þú færð, aukaverkanir og möguleg úrræði hjá þínum lækni og hjúkrunarfræðingi.
Ítarefni
Klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð
Bandarísk upplýsingasíða um heilbrigðismál
Léttu þér lífið í lyfjameðferð - bæklingur með góðum ráðum fyrir þig, ættingja og vini (2018)
Heimildir
Landspítali háskólasjúkrahús, Fræðsluefni fyrir krabbameinsdagbók. Unnið af Arndísi Jónsdóttur, Kristínu Láru Ólafsdóttur og Svandísi Írisi Hálfdánardóttur, janúar 2014.