Blöðruháls­kirtils­krabbamein

Helstu einkenni

Oft eru engin einkenni. Stækki meinið getur það þrýst á þvagrásina og valdið einu eða fleirum einkennum:

 • Þvagtregða, erfiðleikar að byrja þvaglát, kraftlítil þvagbuna, dropar í lok þvagbunu og/eða erfitt að tæma þvagblöðruna.
 • Tíð þvaglát, sérstaklega á næturna.
 • Blöðrubólga, verkur eða óþægindi við þvaglát.
 • Blóð í þvagi eða sáðvökva.Góðkynja sjúkdómar í blöðruhálskirtli eru þó algengasta orsök þessara einkenna.

Einkenni sem ágerast hratt eða koma fram hjá körlum undir fimmtugt þarf alltaf að rannsaka.Hafi krabbameinið dreift sér til annarra líffæra getur það valdið eftirfarandi einkennum:

 • Beinverkir í mjöðmum, mjaðmagrind, hryggsúlu eða lærleggjum.
 • Þreyta.
 • Slappleiki.
 • Þyngdartap.

Engin skipuleg leit hefur verið að krabbameini í blöðruhálskirtli, hvorki hérlendis né í nágrannalöndum. Ástæðan er sú að það próf sem hefur verið stuðst við hingað til, svokölluð PSA-mæling, uppfyllir ekki kröfur um skimunarpróf. Karlmenn sem eru með einkenni frá þvagvegum, eru með ættarsögu um sjúkdóminn eða komnir yfir fimmtugt og vilja fá upplýsingar um PSA-mælingu er ráðlagt að panta tíma hjá heimilislækni eða þvagfæraskurðlækni. Einnig er velkomið að hringja í starfsmenn Ráðgjafarþjónustunnar í síma 800 4040 kl. 9:00-16:00 virka daga. 

Áhættuþættir

Áhættuþættir sem þú stjórnar ekki:

 • Aldur. Að eldast er stærsti áhættuþáttur blöðruhálskirtilskrabbameins. Rannsóknir benda til þess að allt að 80% af öllum 80 ára og eldri séu með blöðruhálskirtilskrabbamein í einhverri mynd. Flest þessara krabbameina liggja í dvala og munu aldrei valda neinum skaða.
 • Fjölskyldusaga. Að eiga náinn ættingja (föður, bróður, son) sem greinst hefur með blöðruhálskirtilskrabbamein eykur áhættuna að greinast með krabbameinið og eykst áhættan eftir því sem fleiri nánir ættingjar hafa sjúkdóminn.
 • Kynþáttur. Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengast hjá svörtum körlum af afrískum uppruna og sjaldgæfast hjá körlum af asískum uppruna.
 • Stökkbreyting í BRCA2 geni. Karlmenn sem fæðast með stökkbreytingu í BRCA2 geni hafa u.þ.b. fimmfalda áhættu á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli miðað við karla almennt. Þeir greinast yngri og sjúkdómurinn er alvarlegri og lengra genginn við greiningu. Hjá þeim hefur sjúkdómurinn líka hraðari framgang, einnig eftir að tekið hefur verið tillit til þess að hann er lengra genginn við greiningu. 

Almennt

Hvað er blöðruhálskirtilskrabbamein?

Blöðruhálskirtill er líffæri sem er eingöngu hjá körlum. Karlkynshormón stýra vexti hans og undir eðlilegum kringumstæðum er kirtillinn á stærð við valhnetu. Blöðruhálskirtillinn er fyrir framan endaþarminn, undir þvagblöðrunni og umlykur efri hluta þvagrásarinnar. Hlutverk hans er að framleiða sáðvökva, sem verndar og nærir sáðfrumur. Nokkrar tegundir af frumum finnast í blöðruhálskirtli en krabbameinin eru langoftast af kirtilfrumugerð. Stundum getur krabbameinið vaxið hratt og dreift sér til annarra líffæra en langflest vaxa hægt.

Blöðruhálskirtilsstækkun eða blöðruhálskirtilskrabbamein?

Nokkuð algengt er að frumurnar í kirtlinum stækki hjá eldri mönnum og getur það haft þær afleiðingar að kirtillinn þrengir að þvagrásinni með tilheyrandi einkennum. Þessi einkenni eru oft þau sömu og einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins en góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli er mun algengari sjúkdómur og tengist ekki krabbameini. Bólga í blöðruhálskirtli eða sýking getur einnig valdið svipuðum einkennum.

Fullyrðingar um blöðruhálskirtilskrabbamein sem standast ekki

Mikið kynlíf, ófrjósemisaðgerð og sjálfsfróun auka ekki líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini. Sömuleiðis tengist stækkaður blöðruhálskirtill ekki aukinni áhættu að fá krabbamein í blöðruhálskirtli.

Um skimun fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini

Skipulögð hópleit (skimun) að krabbameini í blöðruhálskirtli er almennt ekki framkvæmd. Það er ekki að ástæðulausu, en málið er nokkuð flókið.

Hvað gera læknar til athuga hvort krabbamein sé mögulega í blöðruhálskirtlinum?

Upphafsleit að vísbendingum um mögulegt krabbamein í blöðruhálskirtli felur í sér mælingu á PSA (Prostate Specific Antigen) gildi í blóði og þreifingu á kirtlinum um endaþarm.

Hvaða upplýsingar fást með PSA mælingu og þreifingu á kirtlinum?

PSA er mótefnavaki (prótín) sem blöðruhálskirtillinn myndar og getur hækkað gildi verið vísbending um krabbamein í kirtlinum. Niðurstaða slíkrar mælingar gefur samt ekki afgerandi upplýsingar þar sem hækkun á gildinu getur líka átt sér aðrar orsakir, t.d. stafað af bólgu í kirtlinum, góðkynja stækkun hans eða af áreynslu.

Einnig mælist í sumum tilfellum ekki hækkun á PSA-gildinu þrátt fyrir að krabbamein sé til staðar. Semsagt, niðurstaða úr PSA-prófi gefur ekki afgerandi upplýsingar, þó að vissulega sé hún vísbending.

Ákveðnir þættir sem læknirinn finnur fyrir við þreifingu kirtilsins, t.d. hnútar, geta líka verið vísbending um krabbamein.

Ef niðurstöður úr þessum athugunum gefa lækninum ástæðu til að kanna málin frekar ómar hann kirtilinn hugsanlega og/eða tekur sýni úr kirtlinum með mjórri nál til að greina hvort illkynja frumur séu í kirtlinum.

Rök gegn fjöldaskimun

Tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli eykst samhliða aldri og myndast í raun hjá flestum körlum eftir því sem aldurinn færist yfir (finnst hjá 80% karla yfir 80 ára). Það hljómar líklega ekki mjög vel en staðreyndin er sú að meirihluti þessara meina er svo hægvaxandi að þau ógna ekki heilsu og hafa lítil sem engin einkenni í för með sér.

Þess vegna er það að ef allir karlar (t.d. 50-70 ára) væru skipulega boðaðir í skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli myndu margir þeirra greinast með krabbamein, en flest meinin væru þó þess eðlis að þau myndu ekki verða til neinna vandræða, mennirnir hefðu aldrei vitað af þeim ef ekki hefði verið leitað sérstaklega.

Í kjölfar krabbameinsgreiningar hvers karls fyrir sig þyrfti svo að taka ákvörðun um hvert framhaldið ætti að vera. Væru þá í mörgum tilfellum líklega framkvæmdar ónauðsynlegar aðgerðir á fjölda karla. Þar sem mögulegar aukaverkanir eins og þvagleki og risvandamál geta haft mikil áhrif á lífsgæði karla, myndu margir karlar búa við slíkt að óþörfu.

Þeir sem myndu greinast en velja að gangast ekki undir meðferð gætu líka búið við skert lífsgæði að því leyti að þeir gætu margir búið við kvíða og vanlíðan vitandi að þeir séu í raun með krabbamein þó hægvaxandi sé.

Auðvitað myndi hluti karlanna greinast með og fá meðhöndlun við krabbameini sem hefði orðið illvígt krabbamein og orðið þeim til tjóns ef það hefði ekki fundist.

Samantekið, út frá því að ekki er hægt að greina meinin nákvæmar í upphafi en hér hefur verið lýst, má sjá að heildarskimun allra karla á tilteknum aldri myndi skila því að nokkrum væri bjargað en á móti kæmi að lífsgæði fjölmargra annarra karla myndu í raun skerðast af völdum skimunarinnar. Þar sem skimunaraðferðirnar skila ekki nákvæmari niðurstöðun en hér hefur verið lýst er ekki talið réttlætanlegt að beita þeim í skipulögðum hópleitum.

Það er því undir hverjum karlmanni komið að meta stöðuna fyrir sig, helst í samráði við lækni.

Hverjir ættu samt að leita til læknis?

 • Þeir karlmenn sem finna fyrir einkennum sem bent gætu til blöðruhálskirtilskrabbameins.
 • Þeir karlmenn sem eiga náinn ættingja (föður, bróður, son) sem greinst hefur með krabbamein í blöðruhálskirtli.
 • Þeir karlmenn sem eru með stökkbreytingu í BRCA2 geni.

Tekið skal fram að hverjum og einum karlmanni er samt í sjálfsvald sett að óska eftir skoðun hjá sínum heimilislækni en við ráðleggjum eindregið að menn kynni sér málin vel áður, bæði kosti og galla, til að geta tekið upplýstar ákvarðanir.

Að taka upplýsta ákvörðun um að láta tékka á sér – eða ekki

Áður en menn biðja lækni um að láta athuga hvort hjá þeim finnist mögulega vísbendingar um krabbamein í blöðruhálskirtli þurfa þeir að hugsa nokkur skref fram á við. Vissulega er það líklega léttir ef niðurstöður benda til þess að ekki sé um krabbamein að ræða en hverjar verða ákvarðanirnar í framhaldinu ef vísbendingar eru á hinn veginn?

Leggst vitneskjan um mögulegt krabbamein kannski þungt á menn þrátt fyrir að þeir ákveði að láta ekki rannsaka nánar? Hefðu þeir kannski verið betur settir án vitneskjunnar um að vísbendingar um krabbamein séu til staðar?

Bara ákvörðun um áframhaldandi rannsóknir krefst umhugsunar því að t.d. við sýnatöku með nál er alltaf viss hætta á sýkingu.

Þannig er að ýmsu að huga og mikilvægt að menn ræði þessi mál við lækninn fyrirfram.

Virkt eftirlit – hvað er það?

Ef menn greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein sem er farið að dreifa sér er nær alltaf mælt með einhvers konar meðferð. Sé meinið hins vegar staðbundið og hægvaxandi er sá möguleiki fyrir hendi að vera í svokölluðu virku eftirliti. Þá er PSA-gildi mælt og kirtillinn þreifaður reglulega til að fylgjast með því hvort breytingar verða og þá bregðast við út frá því.

Verða greiningaraðferðir nákvæmari seinna meir ?

Víða um heim fara fram rannsóknir þar sem leitað er leiða til að þróa nákvæmari próf með það fyrir augum að greina illvíg krabbamein í blöðruhálskirtli frá hægvaxandi krabbameini og góðkynja bólgum. Ef þær rannsóknir leiða til áreiðanlegri prófa er líklegt að kerfisbundin skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli verði hafin. Án betri prófa er þó ekki talið réttlætanlegt og hagkvæmt að skima skipulega fyrir þessu krabbameini.

-----

Á vegum krabbameinsfélagsins starfa tveir stuðningshópar fyrir karla sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. Annars vegar hópurinn ,,Góðir hálsar“ sem er fyrir alla karla sem hafa greinst með slíkt krabbamein og hinsvegar ,,Frískir menn“ sem er stuðningshópur fyrir þá sem greinst hafa með blöðruhálskirtilskrabbamein og hafa möguleika á virku eftirliti í stað þess að fara í hefðbundna meðferð.

Greining

 • Þreifing um endaþarm. Ef leitað er til læknis vegna áhyggja af blöðruhálskirtilskrabbameini mun hann að öllum líkindum þreifa blöðruhálskirtilinn um endaþarm til að athuga hvort hann greini hnút eða stækkaðan kirtil.

TÖLFRÆÐI UM KRABBAMEIN Í BLÖÐRUHÁLSKIRTLI

 • PSA. Eftir aðstæðum mun læknirinn meta hvort ástæða er til að athuga með blóðprufu hvort hækkun sé á PSA (prostate-specific antigen) sem er mótefnavaki sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Margt getur haft áhrif á þennan mótefnavaka og ekki er mælt með að mæla PSA hjá einkennalausum körlum því þá eru líkur á að greina hægvaxandi æxli sem hefði aldrei valdið viðkomandi skaða og getur það leitt til þess að hann gangist undir meðferð sem getur haft alvarlegar aukaverkanir. Karlar með lágt PSA-gildi geta haft blöðruhálskirtilskrabbamein og PSA getur hækkað við aðra sjúkdóma eins og bólgur eða góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli og við áreynslu.

STUTT FRÆÐSLUMYNDBÖND UM KRABBAMEIN Í BLÖÐRUHÁLSKIRTLI

 • Vefjasýni. Ef skoðun eða PSA-próf bendir til sjúkdómsins mun læknirinn ráðleggja sýnatöku. Þá er fínnál stungið gegnum spöng (húðin milli endaþarms og eistna) og mörg lítil sýni tekin frá kirtlinum sem meinafræðingur skoðar undir smásjá og gefur æxlinu Gleason-skor sem er á bilinu 2 til 10. Lágt Gleason-skor þýðir að krabbameinsfrumurnar líkjast eðlilegum blöðruhálskirtilsfrumum og þá er æxlið ólíklegra til að dreifa sér til annarra líffæra. Hátt Gleason-skor þýðir að krabbameinsfrumurnar eru mjög ólíkar eðlilegum frumum og líklegri til að dreifa sér. Sýnataka er öruggasta leiðin til að greina krabbamein og spá fyrir um hvort það er hægvaxandi eða illvígara. Læknir metur einnig lífshorfur eftir stigi sjúkdómsins, þ.e. hvort hann er bundinn við kirtilinn, hefur vaxið út fyrir hann, í eitla eða til annarra líffæra.
 • Myndgreining, svo sem ómskoðun um endaþarm, sneiðmyndataka, segulómun og beinaskann, er eftir atvikum notuð til að kanna útbreiðslu sjúkdómsins.

Blöðruhálskirtilskrabbamein - leiðbeiningar fyrir þá sem eru nýgreindir með sjúkdóminn

Meðferð

 • Virkt eftirlit. Sé sjúkdómurinn staðbundinn kemur undir ákveðnum skilyrðum til greina að fylgjast með viðkomandi og veita ekki meðferð nema sjúkdómurinn ágerist. Sú nálgun er kölluð virkt eftirlit. Regluleg þreifing kirtilsins, PSA-mæling og jafnvel sýnataka úr kirtlinum er notuð til þess að meta framgang sjúkdómsins.
 • Geislameðferð og skurðaðgerð. Hefðbundið er að gefa ytri geislameðferð og/eða fjarlægja kirtilinn gegnum tíu sentimetra langan skurð á milli lífbeins og nafla eða í kviðsjáraðgerð með nýja aðgerðarþjarkanum. Stundum er beitt svokallaðri innri geislameðferð þar sem geislavirkum kornum er komið fyrir í kirtlinum. 
  Aukaverkanir. Báðar meðferðirnar geta leitt til getuleysis og þvagleka. Það stafar af því að þvaglokan er rétt fyrir neðan blöðruhálskirtilinn og taugar og æðar sem fara niður til getnaðarlims liggja þétt við kirtilinn svo erfitt er að hlífa þeim við aðgerðina.

TAKTU PRÓFIÐ! HVAÐ VEIST ÞÚ UM KRABBAMEIN Í BLÖÐRU-HÁLSKIRTLI

 • Andhormónameðferð. Ef sjúkdómurinn er þegar útbreiddur við greiningu eru horfur lakari en við staðbundinn sjúkdóm. Þrátt fyrir það má búast við góðri svörun með svokallaðri andhormónameðferð sem byggist á því að fjarlægja eða hindra virkni karlhormónsins (testósterón) á krabbameinsfrumurnar. Þessi meðferð getur haft í för með sér kyndeyfð og hugsanlega svitakóf en ekki verður nein breyting á útliti karlmanna eða rödd þrátt fyrir meðferðina.

Algengi og lífshorfur

Lífshorfur byggjast á því hvort sjúkdómurinn er bundinn við kirtilinn eða hvort hann hafi sáð sér til eitla eða beina. Eins getur gangur hans verið mjög misjafn eftir einstaklingum. Mestar líkur eru á því að hægt sé að uppræta sjúkdóminn greinist hann á byrjunarstigi. Í flestum tilvikum er sjúkdómurinn þó hægfara og veldur jafnvel aldrei einkennum, einkum ef hann er staðbundinn hjá eldri einstaklingum.

Að meðaltali greinast um 205 karlar með sjúkdóminn árlega og í lok árs 2018 voru um 2.341 karl á lífi með sjúkdóminn. Um 93% karla eru á lífi fimm árum frá greiningu.

Fræðsluefni

Fræðslumyndbönd

Grafískt fræðslumyndband:

Þvagfæralæknar svara 12 mikilvægum spurningum um blöðruhálskirtilskrabbamein.

 1. Hvað er blöðruhálskirtill?
 2. Hvað er blöðruhálskirtilskrabbamein?
 3. Hvað er góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli? Hver er munurinn á góðkynja og illkynja stækkun?
 4. Hvað er PSA?
 5. Eiga karlmenn á ákveðnum aldri að láta mæla PSA?
 6. Af hverju er ekki leitað að krabbameini í blöðruhálskirtli líkt og krabbameini í brjóstum hjá konum?
 7. Er aukin hætta á blöðruhálskirtilskrabbameini hjá þeim sem eiga bróður eða föður sem greinst hefur með sjúkdóminn?
 8. Hver eru helstu einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins?
 9. Hvert eiga þeir að leita sem telja sig með einkenni?
 10. Hvernig er blöðruhálskirtilskrabbamein greint?
 11. Er blöðruhálskirtilskrabbamein lífshættulegur sjúkdómur? Hverjar eru horfur þeirra sem greinast?
 12. Í hverju er meðferðin á blöðruhálskirtilskrabbameini fólgin?

Ítarefni


Var efnið hjálplegt?